Átök fyrir botni Miðjarðarhafs
Afstaða Íslands og mannúðaraðstoð vegna átakanna sem brutust út í kjölfar hryðjuverkaárásar Hamas á Ísrael 7. október 2023
Afstaða Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs hefur verið skýr frá upphafi. Ísland hefur kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum, lausn allra gísla, óheftu aðgengi neyðaraðstoðar og annara nauðþurfta og undantekningalausri virðingu við alþjóðalög. Ísland fordæmir öll brot á alþjóða- og mannúðarlögum, rétt eins og Ísland fordæmir hrottalega hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október.
- Ísland hefur ítrekað látið í sér heyra á fundum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, en allar ræður og ályktanir sem Ísland hefur flutt eða tekið undir er að finna neðar á þessari síðu.
- Þann 8. desember sendi Ísland, ásamt hinum Norðurlöndunum, bréf til stuðnings ákalli aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til öryggisráðsins og alþjóðasamfélagsins um tafarlausar aðgerðir og vopnahlé af mannúðarástæðum.
- Í samræmi við ályktun Alþingis 9. nóvember síðastliðinn var Ísland, ásamt 101 ríki, meðflytjandi að ályktun sem lögð var fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna 8. desember en náði ekki fram að ganga.
- Ísland kaus með, og var meðflytjandi að, ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 12. desember þar sem kallað er eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza af mannúðarástæðum, framfylgd alþjóðalaga, vernd óbreyttra borgara, tafarlausri lausnar gísla og tryggu mannúðaraðgengi.
- Til að koma til móts við þá miklu neyð sem nú ríkir á Gaza hefur Ísland aukið stuðning sinn við Palestínuflóttamannaaðstoðina (UNRWA) um 225 m.kr. til að bregðast við ástandinu. Nánari upplýsingar um mannúðarframlög hér að neðan.
Þingsályktun Alþingis sem samþykkt var 9. nóvember 2023 kristallar afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Hún hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.
Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.
Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.
Alþingi felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun þessari.“
Heildarframlög Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs nema nú 240 milljónum króna. Þar af hafa 225 milljónir króna runnið til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og 15 milljónir króna til Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC). Frá því átökin hófust hafa íslensk stjórnvöld í þrígang veitt viðbótarframlag til UNRWA og er Ísland meðal hæstu framlagsríkja miðað við höfðatölu í ár.
Ísland hefur um árabil stutt fjórar stofnanir og sjóði Sameinuðu þjóðanna sem veita Palestínumönnum, þar á meðal flóttafólki, grunnþjónustu. Auk UNRWA hefur framlögum verið veitt í Svæðasjóð Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA oPt Humanitarian Fund), til Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Með hækkandi kjarnaframlögum til síðastnefndu stofnananna tveggja verður framlögum til landsskrifstofa þeirra í Palestínu hætt á næsta ári en framlög til Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar hækkuð sem því nemur í samræmi við nýlega endurnýjaðan rammasamning við stofnunina fyrir tímabilið 2024-2028.
Þá hafa tvenn frjáls félagasamtök á Vesturbakkanum og Gaza hlotið árlegan fjárstuðning frá Íslandi frá árinu 2007. Annars vegar er um að ræða Palestinian Medical Relief Society (PMRS) sem sinnir heilbrigðisþjónustu, hins vegar Women’s Centre for Legal Aid and Counselling (WCLAC) sem sinnir lögfræðiaðstoð, málsvarastarfi og þjónustu á sviði jafnréttismála, sérstaklega í þágu þolenda heimilisofbeldis. Samkvæmt núgildandi samningi nema þau framlög samtals 29 m. kr. á ári og voru þau innt af hendi fyrr á þessu ári. Í gegnum tíðina hefur stökum framlögum verið veitt til mannúðarverkefna á vegum frjálsra félagasamtaka, m.a. Norwegian Refugee Council (NRC), Rauða kross Íslands og Hjálparstarfs kirkjunnar.
Fréttir
- UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu stríðið í Úkraínu og átökin í Mið-Austurlöndum05. desember 2024
- UtanríkisráðuneytiðMálefni Mið-Austurlanda efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda í Stokkhólmi21. júní 2024
Ræður og yfirlýsingar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.