Hoppa yfir valmynd

Alþjóðamál

Í utanríkisráðuneytinu er fjallað um fjölbreytt svið hnattrænna málefna sem varða hag lands og þjóðar bæði með beinum og óbeinum hætti. Sem sjálfstætt og fullvalda ríki hefur Ísland skyldum að gegna í alþjóðasamstarfi, tekur virkan þátt í störfum alþjóðastofnana og á í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er að viðhalda traustum alþjóðatengslum, gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og tryggja að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Með aðild að alþjóðasamningum, alþjóðlegu regluverki og dómstólum, tekst Ísland á hendur ýmsar skyldur, en nýtur jafnframt réttinda sem skipt geta miklu um þjóðarhag.

Utanríkisstefnan byggist á grundvallargildum um frið, lýðræði, mannréttindi og kvenfrelsi og baráttu gegn fátækt, misskiptingu og félagslegu ranglæti. Stjórnvöld láta mjög til sín taka á sviði mannréttinda og hafa í auknum mæli sett kynjajafnrétti og réttindi hinsegin fólks á oddinn í málflutningi alþjóðlega.

Í auðlinda- og umhverfismálum fer saman mikilvægi þess að verja rétt Íslands til auðlindanýtingar með sjálfbærum hætti og ábyrg stefna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Vaxandi eftirspurn er eftir því alþjóðlega að Íslendingar miðli af þekkingu sinni og reynslu á sviði orkumála, sérstaklega hvað varðar jarðhitanýtingu.

Þróun í alþjóðastjórnmálum víða um heim gefur íslenskum stjórnvöldum tilefni til að skerpa á stefnu sinni í utanríkismálum og hvetja til þess að Vesturlönd standi þéttar saman um grundvallargildi sín; lýðræði, réttarríki, mannréttindi og frjálst hagkerfi. Atlantshafsbandalagið er hornsteinn samvinnu Evrópuríkja og Norður-Ameríku. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa á vettvangi NATO verið afgerandi í stuðningi sínum við bandalagið. Það skiptir miklu máli, meðal annars vegna framgöngu Rússa í Úkraínu og aukinnar spennu í samskiptum við Rússland.

Öflug þátttaka í fjölþjóðasamvinnu á ýmsum sviðum er nauðsynleg til að bregðast við margvíslegum vanda sem steðjar að Vesturlöndum. Ekki verður fundin lausn á flóttamannavandanum nema með fjölþjóðlegu átaki, fyrst og fremst til að leitast við skapa þær aðstæður að fólk þurfi ekki að flýja heimkynni sín vegna ófriðar og neyðar, en einnig þarf að gera viðeigandi öryggisráðstafanir á landamærum og bregðast við komu flóttamanna og hælisleitenda. Íslensk stjórnvöld hafa lagt umtalsvert fé til flóttamanna síðustu misseri. Hryðjuverkaárásir í ýmsum borgum Evrópu undanfarin ár kalla á eflingu löggæslu og víðtækt fjölþjóðlegt samráð um öryggismál. Með þessum árásum er vegið að grunngildum vestrænna samfélaga og öryggi allra borgara. Stjórnvöld í sérhverju ríki hljóta að líta á það sem eina af meginskyldum sínum að gæta öryggis borgaranna. Samstaða alþjóðasamfélagsins er einnig mikilvæg í viðbrögðum við ógn á fjarlægari svæðum, eins og Kóreuskaganum, þar sem óvissan í öryggismálum fer vaxandi.

Virðing fyrir mannréttindum er ein af grunnstoðum utanríkisstefnunnar og eru íslensk stjórnvöld málsvarar mannréttinda á vettvangi fjölþjóðastofnana og gagnvart einstökum ríkjum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á jafnrétti kynjanna og hefur umtalsverðri vinnu og fé verið varið til jafnréttisbaráttunnar á síðustu árum. Hvert tækifæri hefur verið nýtt til að halda á lofti jafnrétti kynjanna, réttindum hinsegin fólks og réttindum barna.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira