Hoppa yfir valmynd

Loftlags-, auðlinda- og umhverfismál

Loftslags,- auðlinda- og umhverfismál eru grundvallarhagsmunamál fyrir Ísland. Virk þátttaka í alþjóðasamstarfi um þessa málaflokka er eitt af meginverkefnum utanríkisþjónustunnar og getur skipt sköpum í hagsmunagæslu fyrir Ísland á alþjóðavettvangi til að tryggja eftir föngum að nýjar lausnir og viðbrögð í loftslags-, auðlinda- og umhverfismálum falli að hagsmunum Íslands. Með virkri þátttöku getur Ísland einnig lagt sitt af mörkum til að þróa og byggja upp grænt hagkerfi til framtíðar, bæði heima og erlendis, til hagsbóta fyrir bæði sig og aðra. Loftslags-, auðlinda- og umhverfismál eru leiðarstef í stefnu Íslands á vettvangi alþjóðastofnana og í þróunarsamvinnu með meginmarkmið um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og hagvöxt í sátt við loftslag og náttúru. Í stefnu stjórnvalda er sérstök áhersla lögð á hreina, sjálfbæra orku, verndun og sjálfbæra nýtingu hafs og vatna, endurheimt vistkerfa, sjálfbæra landnýtingu, aukna mótvægis-og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa loftslagsbreytinga og föngun, förgun og nýtingu koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda.

Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Íslendingar hafa tækifæri til þess að koma reynslu sinni og sérþekkingu á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku á framfæri á alþjóðavettvangi, og leggja þannig sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.

Umfang auðlinda- og umhverfismála í starfi íslenskra stjórnvalda hefur aukist mjög á síðustu árum og eru þau orðin einn viðamesti málaflokkur alþjóðastjórnmála. Skilningur á tengslum umhverfismála við öryggismál, þróun og efnahagsuppbyggingu fer ört vaxandi. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur til ríkja heims um samræmda stefnu og aðgerðir í þessum málaflokki. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er því orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins í dag. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem byggir efnahag sinn að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á öllum þessum sviðum og geta lagt mikið af mörkum til úrlausnar viðfangsefna þeim tengdum á alþjóðavísu. Það er hlutverk utanríkisráðuneytisins að taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi og samningum á breiðu sviði er tekur til sjálfbærrar þróunar, málefna hafsins, fiskveiðisamninga, hvalamála, orkumála, loftslagsmála, jarðvegsverndar og baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun, sjálfbærrar nýtingar, verndar líffræðilegs fjölbreytileika og Norðurslóðamálefna.

Þáttur loftslagsmála hefur vaxið sérstaklega hratt. Loftslagsmálin hafa beint athygli alþjóðasamfélagsins að því hvernig umsvif mannsins hafa gjörbreytt ásýnd jarðarinnar. Skilningur alþjóðasamfélagsins á málefnum hafsins hefur sömuleiðis aukist mjög enda dylst engum mikilvægi sjávarins fyrir lífríki jarðar og loftslag. Árangur fiskveiðistefnu Íslendinga þar sem aflaheimildir byggjast á vísindaráðgjöf hefur vakið eftirtekt á alþjóðavettvangi og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmyndar á því sviði.

 

Svæðisbundið samstarf á sviði umhverfismála

Ísland leggur áherslu á svæðisbundið samstarf í umhverfismálum við nágrannaríki beggja vegna Atlantshafs og í norðri. Markmið þessa samstarfs er að tryggja stöðugleika á svæðinu og efla samvinnu um sameiginleg viðfangsefni á norðurslóðum, ekki síst í umhverfis- og auðlindamálum. Starf Norðurskautsráðsins er einkar mikilvægt í þessu sambandi og er ráðið einn helsti vettvangur aðildarríkjanna til að vinna að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd á norðurslóðum. Ríki Norðurskautsráðsins skiptast á að fara með formennskuhlutverk í tvö ár í senn. Einnig má nefna mikilvægt starf Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (UN ECE) og Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) á sviði umhverfismála.

Svæðisbundið samstarf á sviði auðlindamála

Svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir gegna lykilhlutverki við að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu deilistofna og víðförulla fiskistofna. Í þessu tilliti hefur Ísland virkt samstarf við nágrannalöndin til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda nærliggjandi hafsvæða. Þetta samstarf fer fram í svæðisbundnum stofnunum.

Loftslagsváin er ein stærsta ef ekki stærsta áskorun samtímans.  Ísland og Noregur sömdu árið 2019 um að taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins um 40 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Undir lok ársins 2020 lýsti svo forsætisráðherra yfir að Ísland hygðist bæta verulega í skuldbindingar sínar og stefna að 55 prósent samdrætti fyrir 2030 miðað við 1990 í samstarfi við Noreg og Evrópusambandið og stefna að kolefnishlutleysi fyrir 2040 með sérstökum áfanga um kolefnishlutleysi losunar á ábyrgð stjórnvalda í kringum árið 2030.

Ný ríkisstjórn sem mynduð var í kjölfar kosninga 2021 hefur síðan uppfært markmið Íslands í loftslagsmálum enn frekar og lýst því yfir að stefnt sé að samdrætti losunar um að minnsta kosti 55 prósent óháð hlutdeild Íslands í sameiginlegu markmiði ESB og Noregs. Þá er einnig stefnt að því að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2040.

Málefni hafsins endurspegla gríðarlega mikilvæga og fjölþætta hagsmuni Íslands. Umræðan um málefni hafsins á alþjóðavettvangi hefur breyst mjög mikið á undanförum tveimur áratugum. Hún er bæði mun meiri og spannar núna talsvert fleiri málefnasvið. Alþjóðastofnanir og félagasamtök sem láta sig umhverfismál varða beina nú vinnu sinni og áhrifum að málefnum hafsins. Í ljósi þessa er mikilvægt að ríki sem Ísland, sem á ríkra hagsmuna að gæta, efli þátttöku sína á alþjóðavettvangi þar sem málefni hafsins eru til umræðu.

Árið 2020 hafði Ísland frumkvæði að því, í samstarfi við líkt þenkjandi ríki á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), að mikilvægi fæðu úr höfunum yrði viðurkennt á leiðtogafundi um fæðukerfi sem haldinn var
í höfuðstöSameinuðu þjóðanna í New York í september 2021.  Í framhaldinu tók Ísland að sér að leiða hóp þrjátíu ríkja
og alþjóðasamtaka til að koma á fót formlegu bandalagi um fæðu úr vötnum og höfum. Markmið þessa hóps er að halda á lofti mikilvægi þessa máls og aðstoða þróunarríki við að efla sig á þessu sviði.

Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á öflugt samstarf á alþjóðavettvangi á sviði endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa, ekki síst nýtingu jarðvarma en einnig annarrar sjálfbærrar orku. Utanríkisráðuneytið, matvælaráðuneytið, Grænvangur og Íslenski orkuklasinn eiga með sér samráð og samstarf um málefni endurnýjanlegrar orku og nýtingu hennar innanlands og utan til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og auka um leið verðmætasköpun þar sem það á við.

Utanríkisráðuneytið hefur beint sjónum sínum æ meir að tvíhliða samstarfi í orku- og loftslagsmálum við erlend ríki til þess meðal annars að skjóta stoðum undir frekari nýtingu sjálfbærrar orku heima og erlendis til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki og frumkvöðla á þessu sviði. Þá er unnið að því að skoða vel þau tækifæri og áskoranir sem Græni sáttmáli Evrópusambandsins felur í sér. Markmiðið með þessu öllu er að reyna að tryggja að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í loftslags- og orkumálum feli fremur í sér tækifæri en erfiðleika, jafnframt því að styrkja getu Íslands til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og heimsmarkmiðunum á vettvangi loftslags- og umhverfismála, og stuðla að því að byggja upp sterkt og grænt hagkerfi til framtíðar, heima og erlendis.

Íslensk stjórnvöld styðja áfram við alþjóðastofnun um sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy for All, SEforAll) og eiga aðild að alþjóðastofnuninni um endurnýjanlega orku (International Renewable Energy Agency, IRENA). Einnig á utanríkisþjónustan öflugt samstarf við orkugeirann á Íslandi með það að markmiði að koma íslenskri þekkingu á endurnýjanlegri orku betur á framfæri í þróunarríkjunum. Alþjóðlega jarðvarmabandalagið (Global Geothermal Alliance, GGA), með vel á fimmta tug aðildarríkja og um fjörutíu samstarfsaðila, alþjóðastofnanir, félagasamtök og einkafyrirtæki, er rekið á vettvangi IRENA.

Síðast uppfært: 31.5.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum