Hoppa yfir valmynd

Norðurslóðir

Málefni norðurslóða hafa á undanförnum árum orðið æ fyrirferðameiri jafnt á alþjóðavettvangi sem innanlands. Tengist það ekki síst loftslagsbreytingum, umræðum um nýtingu og vernd náttúruauðlinda, landgrunns- og fullveldiskröfum, samfélagsbreytingum og opnun nýrra siglingaleiða.Ljóst er að fá ríki hafa jafn ríkra hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og Ísland, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða. Þetta er einstakt á meðal ríkja Norðurskautsráðsins. Málefni norðurslóða snerta næstum allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. 

Í stjórnarsáttmálanum segir varðandi norðurslóðir: Ísland hefur mikilvæga sérstöðu sem norðurskautsríki þar sem stór hluti efnahagslögsögunnar er innan norðurslóða. Auknum siglingum og annarri starfsemi fylgja tækifæri en líka áskoranir gagnvart umhverfi, lífríki og lífsháttum. Viðkvæmt vistkerfi norðurslóða á að fá að njóta vafans. Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins. Í samræmi við samþykkta norðurslóðastefnu Íslands verður sérstök áhersla lögð á réttindi frumbyggja og jafnrétti kynjanna.“

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í þingsályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi vorið 2011 og felur í sér tólf megináherslur. Þær lúta m.a. að stöðu Íslands innan svæðisins, mikilvægi Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmálum, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og öryggis- og viðskiptahagsmunum. Þá er lögð áhersla á grannríkjasamstarf við Færeyjar og Grænland og réttindi frumbyggja.

Norðurskautsráðið

Norðurskautsráðið hefur, síðan það var formlega stofnað 1996, fest sig í sessi sem mikilvægasti fjölþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Auk stofnríkjanna átta eiga sex samtök frumbyggja fast sæti í ráðinu og áheyrnaraðilar eru alls 39 talsins í þremur flokkum, 13 ríki, 13 fjölþjóðlegar stofnanir og 13 önnur samtök. Ákvarðanir á vettvangi ráðsins eru teknar í einu hljóði.

Á vettvangi ráðsins hafa verið gerðir þrír lagalega bindandi samningar, um leit og björgun, um varnir gegn olíumengun og um eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu. Þungamiðjan í starfi Norðurskautráðsins fer fram í sex vinnuhópum og hefur framlag þeirra til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum verið ómetanlegt.

Tveir þeirra, vinnuhópur um verndun lífríkis (CAFF) og vinnuhópur um málefni hafsins (PAME), eru staðsettir á Akureyri en í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands er lögð áhersla á að tryggja að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins sé vistaður hér á landi.

Undirbúningur vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council) 2019-2021 er nú kominn vel á rekspöl. Formennska í ráðinu er umfangsmikið verkefni en málefni þau sem Norðurskautsráðið fæst við tengjast inn í fjölbreytta málaflokka sem lúta að sjálfbærri þróun svæðisins og umhverfisvernd. Þar má helst nefna loftslagsbreytingar, nýtingu og vernd náttúruauðlinda ásamt samfélagsbreytingum og atvinnuþróun.

Undirbúningur formennskunnar hófst formlega með fjölsóttum hugarflæðisfundi með hagsmunaaðilum í janúar 2017, enda víðtækt innlent samráð mikilvægt á svo fjölbreyttu málefnasviði. Í kjölfar fundarins var stofnaður stýrihópur til að vinna úr tillögum sem þar komu fram. Í samstarfi utanríkisráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis er nú unnið að formennskuáætlun í nánu samstarfi við tengiliði innan allra ráðuneyta Stjórnarráðsins og fleiri aðila úr atvinnulífi og háskólasamfélagi. Áhersla var lögð á að hefja undirbúningsferlið tímanlega enda mun Ísland, sem formennskuríki, stýra stórum hluta af starfi Norðurskautsráðsins.

Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og á Ísland ríkra hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða. Formennskan veitir Íslendingum einstakt tækifæri til að stuðla að því að áherslur okkar á sjálfbæra þróun, sjálfbær samfélög og vinnu gegn áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins. Í því samhengi er ekki síst brýnt að beina sjónum að hafinu og orkumálum.

Efst á baugi 

Í lok árs 2017 endurnýjaði utanríkisráðherra samstarf við Norðurslóðanetið á Akureyri og tekur nýr samningur mið af áætluðum verkefnum í formennskutíð Íslands í Norðurskautsráðinu. Samningurinn er í samræmi við tillögu í skýrslu utanríkisráðherra um breytingar á utanríkisþjónustunni og snýr að aukinni upplýsingamiðlun til almennings, atvinnulífs og félagasamtaka um áskoranir, ógnir, tækifæri og samstarf á norðurslóðum. Aðrir samstarfssamningar við háskólasamfélagið eru einnig í farvatninu.

Utanríkisráðherra hefur í ræðu og riti lagt áherslu á að tryggja sjálfbæra og friðsamlega þróun á norðurslóðum á sama tíma og augu beinast í æ ríkara mæli að svæðinu. Gæta verði að umhverfinu enda áhrif loftslagsbreytinga óvíða sýnilegri en á norðurslóðum og umhverfisbreytingar á svæðinu hafi áhrif um heim allan. Alþjóðleg samvinna ríkja sé lykillinn að því að takast á við þessar breytingar. Fyrir þær fjórar milljónir manna sem búa á þessum slóðum sé áríðandi að spornað sé við neikvæðum áhrifum þessara breytinga og þau tækifæri sem í þeim kunna að felast verði fullnýtt með sjálfbærni að leiðarljósi. Samspil umhverfisverndar og auðlindanýtingar verði að vera í jafnvægi.

Hluti af vinnu utanríkisráðuneytisins í norðurslóðamálum snýr að samstarfi við háskóla- og vísindasamfélagið. Undanfarin sex ár hefur verið í gildi samningur við utanríkisráðuneyti Noregs á sviði norðurslóðafræða, sem rennur út á árinu. Samningurinn felur m.a. í sér stuðning við stöðu gestaprófessors við Háskólann á Akureyri. Markmið þessarar samvinnu er að auka samstarf íslenskra og norskra fræðimanna. Möguleikar á framhaldi þessarar áætlunar verða kannaðir á vormánuðum. Unnið er eftir endurnýjuðum samningi við Fulbright-stofnunina á Íslandi sem felur í sér að ráðuneytið styrki komu bandarískra fræðimanna til kennslu og rannsókna á sviði norðurslóðafræða. Enn fremur á ráðuneytið margháttað samstarf við aðrar rannsóknastofnanir, s.s. Rannís, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Alþjóða¬mála¬stofnun HÍ. Íslensk stjórnvöld tryggðu aukinheldur fjármagn til fimm ára til reksturs Alþjóðlegu norðurslóða¬vísinda¬nefndar¬innar (e. International Arctic Science Committee) við flutning nefndarinnar til Íslands frá Þýskalandi. Skrifstofan er vistuð á Akureyri og nýtur nálægðarinnar við aðra norðurslóðastarfsemi þar. Þá er vert að nefna að annar fundur samráðsnefndar Íslands og Kína um málefni norðurslóða, sem byggir á samningi um vísindasamstarf landanna frá árinu 2012, var haldinn á Íslandi í október 2017.

Áhugavert efni

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira