Norðurslóðir

Málefni norðurslóða hafa á undanförnum árum orðið æ fyrirferðameiri jafnt á alþjóðavettvangi sem innanlands. Tengist það ekki síst loftslagsbreytingum, umræðum um nýtingu og vernd náttúruauðlinda, landgrunns- og fullveldiskröfum, samfélagsbreytingum og opnun nýrra siglingaleiða.Ljóst er að fá ríki hafa jafn ríkra hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og Ísland, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða. Þetta er einstakt á meðal ríkja Norðurskautsráðsins. Málefni norðurslóða snerta næstum allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu.

Stefna Íslands í málefnum norðurslóða á sér stoð í þingsályktun sem samþykkt var samhljóða á Alþingi vorið 2011 og felur í sér tólf megináherslur. Þær lúta m.a. að stöðu Íslands innan svæðisins, mikilvægi Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) og hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmálum, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og öryggis- og viðskiptahagsmunum. Þá er lögð áhersla á grannríkjasamstarf við Færeyjar og Grænland og réttindi frumbyggja.

Norðurskautsráðið hefur, síðan það var formlega stofnað 1996, fest sig í sessi sem mikilvægasti fjölþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um málefni norðurslóða. Auk stofnríkjanna átta eiga sex samtök frumbyggja fast sæti í ráðinu og áheyrnaraðilar eru alls 39 talsins í þremur flokkum, 13 ríki, 13 fjölþjóðlegar stofnanir og 13 önnur samtök. Ákvarðanir á vettvangi ráðsins eru teknar í einu hljóði.

Á vettvangi ráðsins hafa verið gerðir þrír lagalega bindandi samningar, um leit og björgun, um varnir gegn olíumengun og um eflingu alþjóðlegrar vísindasamvinnu. Þungamiðjan í starfi Norðurskautráðsins fer fram í sex vinnuhópum og hefur framlag þeirra til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum verið ómetanlegt.

Tveir þeirra, vinnuhópur um verndun lífríkis (CAFF) og vinnuhópur um málefni hafsins (PAME), eru staðsettir á Akureyri en í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands er lögð áhersla á að tryggja að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins sé vistaður hér á landi.

Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2019 og gegnir því til 2021. Ljóst er að formennskan verður meðal stærstu verkefna sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi og mun krefjast mikils og vandaðs undirbúnings. Staða Íslands sem eins af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins er sterk og veitir Íslendingum tækifæri til að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn