Hoppa yfir valmynd

Málefni hafsins

Höf þekja meginhluta þess svæðis sem telst til norðurslóða og talsverður hluti íbúanna byggir afkomu sína á nýtingu auðlinda sjávar. Vegna stöðu Íslands sem eyríkis og mikilvægis sjávarútvegs í íslensku samfélagi er nærtækt að leggja áherslu á málefni hafsins á formennskutímabilinu.

Vinnuhópar Norðurskautsráðsins hafa um árabil unnið mikilvægt starf við að meta ástand hafsins, með tilliti til verndar og nýtingar, og verður því fram haldið.

Vakning hefur orðið á síðustu árum varðandi magn plastúrgangs í höfum heimsins. Norðurskautsráðið hefur unnið frumathugun á umfangi úrgangs í norðurhöfum og á formennskutímabili Íslands verður unnið að mótun áætlunar um aðgerðir til að stemma stigu við þeim vanda. Íslensk stjórnvöld hyggjast efna til alþjóðlegrar vísindaráðstefnu í Reykjavík vorið 2021 þar sem varpað yrði ljósi á eðli og útbreiðslu plastmengunar í sjó, áhrif hennar á lífríkið og mögulegar lausnir. Einnig er til skoðunar að bjóða til ráðherrafundar um málefni hafsins.

Ísland hefur náð miklum árangri í sjálfbærri nýtingu á auðlindum hafsins og hefur um árabil miðlað þekkingu á því sviði. Í samstarfi við fleiri aðildarríki er stefnt að því að hleypa af stokkunum verkefni sem miðar að því að kortleggja sóknarfæri sem felast í bláa lífhagkerfinu á norðurslóðum. Leitast verður við að greina tækifæri til sjálfbærs vaxtar með því að bæta nýtingu á sjávarfangi og ná auknum verðmætum úr aflanum.

Siglingar og haftengd ferðaþjónusta eru vaxandi atvinnugreinar á norðurslóðum og bjóða upp á margvíslega möguleika. Jafnframt kalla aukin umsvif í norðurhöfum á ráðstafanir til að efla mengunarvarnir og getu til leitar og björgunar. Æfingar á grundvelli samninga Norðurskautsríkjanna um leit og björgun og um varnir gegn olíumengun eru haldnar með reglulegu millibili. Landhelgisgæslan tekur þátt í þeim æfingum og er jafnframt aðili að samráðsvettvangi strandgæslustofnana á norðurslóðum þar sem Ísland gegnir formennsku á sama tímabili og í Norðurskautsráðinu.

Síðast uppfært: 14.7.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira