Hoppa yfir valmynd

Brexit

Hinn 29. mars 2017 tilkynntu bresk stjórnvöld að þau hygðust segja sig úr Evrópusambandinu (ESB). Þessi ákvörðun kom í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi sem haldin var 23. júní 2016 þar sem meirihluti kjósenda greiddi atkvæði með úrsögn úr ESB. Með þessari tilkynningu virkjuðu bresk stjórnvöld ákvæði 50. gr. stofnsáttmála ESB um úrsögn ríkja úr sambandinu en samkvæmt henni skal semja um útgönguskilmála úrsagnarríkis innan tveggja ára frá því að slík tilkynning berst. Því er gert ráð fyrir að Bretland gangi úr ESB og verði ekki lengur aðildarríki sambandsins á miðnætti á staðartíma í Brussel, 29. mars 2019.

Útganga Bretlands úr ESB mun marka þáttaskil í sögu Evrópusamrunans. Bretland er eitt stærsta hagkerfið innan Sambandsins, þriðja fjölmennasta aðildarríkið, eitt öflugasta herveldi í Evrópu og eitt af tveimur aðildarríkjum ESB sem eiga fast sæti í öryggisráði SÞ. Því er afar mikilvægt að tryggja farsæla niðurstöðu um útgönguna og um samskipti á nýjum grunni til framtíðar. Þannig má koma í veg fyrir að útganga Bretlands valdi því að múrar rísi um þau hindrunarlausu viðskipti sem almenningur í Evrópuríkjunum hefur notið góðs af á síðustu áratugum.

Samskipti Íslands og Bretlands byggja á gömlum merg og Bretlandsmarkaður er einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskt viðskiptalíf. Bretland er, líkt og öll aðildarríki ESB, aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem öðlaðist gildi árið 1994. Þegar úrsögn Bretlands úr ESB verður að veruleika munu samskipti Íslands og Bretlands ekki lengur byggja á EES-samningnum eða öðrum samningnum Íslands við ESB. Þetta skapar Íslandi og Bretlandi tækifæri til að móta samskipti sín á nýjum grundvelli en þýðir um leið að ekki verður lengur byggt á þeim gagnkvæmu réttindum sem ríkisborgarar og fyrirtæki frá Íslandi eða Bretlandi njóta á grundvelli EES-samningsins.

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggjast verða málsvarar fríverslunar eftir útgöngu landsins úr ESB. Ísland er með útflutningsdrifið og opið hagkerfi og deilir sameiginlegum hagsmunum með Bretlandi á mörgum sviðum. Þetta markmið samræmist því vel íslenskum hagsmunum og miklu máli skiptir að nýta vel þau sóknarfæri sem þessar breytingar skapa varðandi framtíðarviðskipti. Á sama tíma þarf að hafa í huga að hagsmunir Íslands í samskiptum við Bretland eru víðtækir. Sem dæmi má nefna að tryggja þarf lendingarréttindi íslenskra flugfélaga á Bretlandseyjum, réttindi íslenskra ríkisborgara til dvalar og starfa í Bretlandi og svo mætti lengi telja.

Í ljósi náinna tengsla þessara tveggja grannþjóða er það eitt af forgangsverkefnum utanríkisþjónustunnar á næstu árum að móta traustan grunn fyrir framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands. Íslensk stjórnvöld verða því að undirbúa viðræður við Bretland af kostgæfni og í nánu samráði við hagsmunaaðila og Alþingi. Í viðræðunum sem fram undan eru leggja íslensk stjórnvöld einnig áherslu á náið samstarf við EFTA-ríkin og við ESB.

Nánari upplýsingar um einstaka þætti verkefnisins má nálgast á neðangreindum síðum.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira