Brexit

Hinn 29. mars 2017 tilkynntu bresk stjórnvöld að þau hygðust segja sig úr Evrópusambandinu (ESB). Þessi ákvörðun kom í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi sem haldin var 23. júní 2016 þar sem meirihluti kjósenda greiddi atkvæði með úrsögn úr ESB. Með þessari tilkynningu virkjuðu bresk stjórnvöld ákvæði 50. gr. stofnsáttmála ESB um úrsögn ríkja úr sambandinu en samkvæmt henni skal semja um útgönguskilmála úrsagnarríkis innan tveggja ára frá því að slík tilkynning berst. Því er gert ráð fyrir að Bretland gangi úr ESB og verði ekki lengur aðildarríki sambandsins á miðnætti á staðartíma í Brussel, 29. mars 2019.

Útganga Bretlands úr ESB mun marka þáttaskil í sögu Evrópusamrunans. Bretland er eitt stærsta hagkerfið innan Sambandsins, þriðja fjölmennasta aðildarríkið, eitt öflugasta herveldi í Evrópu og eitt af tveimur aðildarríkjum ESB sem eiga fast sæti í öryggisráði SÞ. Því er afar mikilvægt að tryggja farsæla niðurstöðu um útgönguna og um samskipti á nýjum grunni til framtíðar. Þannig má koma í veg fyrir að útganga Bretlands valdi því að múrar rísi um þau hindrunarlausu viðskipti sem almenningur í Evrópuríkjunum hefur notið góðs af á síðustu áratugum.

Samskipti Íslands og Bretlands byggja á gömlum merg og Bretlandsmarkaður er einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskt viðskiptalíf. Bretland er, líkt og öll aðildarríki ESB, aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem öðlaðist gildi árið 1994. Þegar úrsögn Bretlands úr ESB verður að veruleika munu samskipti Íslands og Bretlands ekki lengur byggja á EES-samningnum eða öðrum samningnum Íslands við ESB. Þetta skapar Íslandi og Bretlandi tækifæri til að móta samskipti sín á nýjum grundvelli en þýðir um leið að ekki verður lengur byggt á þeim gagnkvæmu réttindum sem ríkisborgarar og fyrirtæki frá Íslandi eða Bretlandi njóta á grundvelli EES-samningsins.

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggjast verða málsvarar fríverslunar eftir útgöngu landsins úr ESB. Ísland er með útflutningsdrifið og opið hagkerfi og deilir sameiginlegum hagsmunum með Bretlandi á mörgum sviðum. Þetta markmið samræmist því vel íslenskum hagsmunum og miklu máli skiptir að nýta vel þau sóknarfæri sem þessar breytingar skapa varðandi framtíðarviðskipti. Á sama tíma þarf að hafa í huga að hagsmunir Íslands í samskiptum við Bretland eru víðtækir. Sem dæmi má nefna að tryggja þarf lendingarréttindi íslenskra flugfélaga á Bretlandseyjum, réttindi íslenskra ríkisborgara til dvalar og starfa í Bretlandi og svo mætti lengi telja.

Í ljósi náinna tengsla þessara tveggja grannþjóða er það eitt af forgangsverkefnum utanríkisþjónustunnar á næstu árum að móta traustan grunn fyrir framtíðarsamskipti Íslands og Bretlands. Íslensk stjórnvöld verða því að undirbúa viðræður við Bretland af kostgæfni og í nánu samráði við hagsmunaaðila og Alþingi. Í viðræðunum sem fram undan eru leggja íslensk stjórnvöld einnig áherslu á náið samstarf við EFTA-ríkin og við ESB.

Lykildagsetningar í útgönguferlinu og verkefnin fram undan

Útganga ríkis úr ESB gerist ekki á einni nóttu. Öllu heldur er þetta langt og flókið ferli sem ekki hefur verið reynt á fyrr og mun taka einhver ár. Neðar er greint frá ýmsum lykildagsetningum:

 • 23. júní 2016 – Þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um áframhaldandi aðild að ESB þar sem meirihluti kýs úrsögn úr Sambandinu.
 • 29. mars 2017 – Bretar tilkynna um úrsögn úr ESB.
 • 22. maí 2017 – Framkvæmdastjórn ESB fær umboð til að hefja viðræður við Bretland um ýmsa útgönguskilmála, þ.e. réttindi borgara, landamærin á Írlandi og fjárhagslegt uppgjör.
 • 15. desember 2017 – Leiðtogaráð ESB tekur ákvörðun um að hefja næsta fasa viðræðna um bráðabirgðatímabil og heildarramma yfir framtíðarsamband Bretlands og ESB. Ekki verður þó samið um tæknilega útfærslu á framtíðarsamningi fyrr en eftir útgöngu.
 • Haust 2018 – Gert er ráð fyrir að samningaviðræðum verði lokið til að nægur tími gefist fyrir þinglega meðferð (þ.e. fullgildingarferli í aðildarríkjunum fyrir útgöngusamninginn).
 • 29. mars 2019 – Formleg útgöngudagsetning Bretlands úr Evrópusambandinu
 • 30. mars 2019 – 31. desember 2020 – Fyrirhugað bráðabirgðatímabil tekur að öllum líkindum við þar sem regluverk ESB heldur áfram að gilda í Bretlandi en Bretland telst ekki lengur aðildarríki ESB. Áætlað er að á þessu tímabili muni Bretar gera framtíðarsamninga við ESB og við önnur ríki sem munu þó ekki taka gildi fyrr en eftir að því líkur.

Íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með ferlinu en segja má að verkefni Íslands sé þríþætt. Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að tryggja, í samvinnu við Noreg og Liechtenstein, að atriði í útgöngusamningi Bretlands og ESB sem varða innri markaðinn gildi líka um Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Þar má helst nefna réttindi borgaranna og fyrirhugað bráðabirgðatímabil. Í öðru lagi þarf að gera framtíðar efnahags- og samstarfssamning við Bretland sem nær yfir viðskipti og önnur atriði sem falla í dag undir EES-samninginn. Líklegt er að slíkur samningur verði gerður á fyrirhuguðu bráðabirgðatímabili en undirbúningur og forgangsröðun eru þegar hafin af hálfu Íslands. Metið verður hvort æskilegt sé að EFTA-ríkin innan EES semji í sameiningu við Bretland og hvort taka skuli með af samningum ESB og Bretlands þegar það á við. Í þriðja lagi þurfa stjórnvöld að huga að því hvernig megi auka og styrkja tvíhliða samstarf Íslands og Bretlands á ýmsum sviðum eins og t.d. í öryggis- og varnarmálum en gagnkvæmur vilji er fyrir því.

Skipulag vinnunnar

Á vettvangi ríkisstjórnar Íslands er að störfum sérstök Brexit-ráðherranefnd sem hefur yfirumsjón með undirbúningi að framtíðarsamskiptum Íslands og Bretlands. Þá var nefnd ráðuneytisstjóra komið á laggirnar um leið og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar lá fyrir enda hefur Brexit áhrif á málaflokka í öllum ráðuneytum. Utanríkisráðuneytið leiðir stýrihóp sem hefur á sínum snærum fimm öfluga vinnuhópa sem hver um sig rýnir í skilgreind málefnasvið. Í þeim sitja fulltrúar utanríkisráðuneytisins og fagráðuneyta. Verkefni vinnuhópanna er að leggja efnislegan grunn að framtíðarviðræðum við Bretland á grundvelli skýrslu utanríkisráðuneytisins um áhrif útgöngu Bretlands úr EES, fylgjast með þróun viðræðna Bretlands og ESB á þeim sviðum sem falla undir viðkomandi vinnuhóp og eiga samráð við bresk stjórnvöld, stjórnvöld í hinum EFTA-ríkjunum og ESB á þeim sviðum. Vinnuhóparnir eiga allir náið samráð við viðkomandi hagsmunaaðila hér á landi og mun hver vinnuhópur fyrir sig leggja drög að markmiðum Íslands á sínum sviðum og skilgreina hvernig best megi ná þeim. Náin samvinna er á milli stýrihópsins og sendiráða Íslands í Evrópu, þá sérstaklega í Brussel og London, en einnig t.d. í Genf, Osló, Berlín og París.

Stýrihópur

 • Formaður: Andri Lúthersson, [email protected]
 • Fulltrúar: Unnur Orradóttir Ramette, Jörundur Valtýsson, Bergþór Magnúson, Sigurgeir Þorgeirsson, Finnur Þór Birgisson, Guðrún Þorleifsdóttir, Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, Hrund Hafsteinsdóttir og Hafdís Ólafsdóttir. 
 • London: Stefán Haukur Jóhannesson, Ingólfur Friðriksson, Brussel: Bergdís Ellertsdóttir, Ragnar G. Kristjánsson, Þórður Jónsson
 • Genf: Harald Aspelund, Nína Björk Jónsdóttir 
 • Starfsmaður: Jóhanna Jónsdóttir, [email protected] 

Vinnuhópur I

Formaður: Sigurgeir Þorgeirsson (ANR), [email protected]
Starfsmaður: Anna Katrín Vilhjálmsdóttir, [email protected]
Svið: Markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir, landbúnaðarvörur og iðnaðarvörur.
Fulltrúar: Arnar Freyr Einarsson og Erna Jónsdóttir (ANR), Benedikt S. Benediktsson og Maríanna Jónasdóttir (FJR), Oddný Rósa Ásgeirsdóttir (Tollstjóri).

Vinnuhópur II

Formaður: Finnur Þór Birgisson (UTN), [email protected]
Starfsmaður: Una Særún Jóhannsdóttir, [email protected]
Svið: Tæknilegar viðskiptahindranir, matvælalöggjöf, orkumál, hugverkaréttindi, opinber innkaup, ríkisaðstoð og samkeppnismál.
Fulltrúar: Brynhildur Pálmarsdóttir, Eggert Ólafsson, Erla Sigríður Gestsdóttir og Heimir Skarphéðinsson (ANR), Guðrún Ögmundsdóttir og Haraldur Steinþórsson (FJR), Kjartan Ingvarsson (UAR), Hlynur Hreinsson og Gunnar Þ. Gylfason (VEL), Jón Vilberg Guðjónsson (MMR).

Vinnuhópur III

Formaður: Guðrún Þorleifsdóttir (FJR), [email protected]
Starfsmaður: Álfrún Perla Baldursdóttir, [email protected]
Svið: Almenn þjónustustarfsemi, staðfesturéttur, frjálsar fjármagnshreyfingar, fjárfestingar, fjármálaþjónusta, flutningaþjónusta, fjarskipti, félagarétt, persónuvernd og hljóð- og myndmiðlun.
Fulltrúar: Sigurbjörg Stella Guðmundsdóttir (ANR), Marta Margrét Rúnarsdóttir og Guðmundur Kári Kárason (FJR), Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, Gunnar Örn Indriðason, Skúli Þór Gunnsteinsson og Vera Sveinbjörnsdóttir (SRN) Þorgeir Ólafsson (MMR), Rósa D. Flosadóttir (DMR). 

Vinnuhópur IV

Formaður: Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir (UTN),
[email protected]
Starfsmaður: Pétur Gunnarsson, [email protected]
Svið: Frjáls för fólks, almannatryggingar, gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi, neytendamál, umhverfismál, rannsóknir, þróun og samstarf á sviði mennta- og menningarmála, jafnrétti kynjanna og vinnuréttarmál.
Fulltrúar: Hildur Sverrisdóttir Röed og Steinunn Margrét Lárusdóttir (VEL), Lilja Borg Viðarsdóttir (DMR), Hreinn Hrafnkelsson og Ólafur Egill Jónsson (ANR), Ásgerður Kjartansdóttir (MMR), Helga Jónsdóttir (UAR), Steinar Örn Steinarsson og Anna Valbjörg Ólafsdóttir (FJR).

Vinnuhópur V

Formaður: Hrund Hafsteinsdóttir (UTN),
[email protected]
Starfsmaður: Ragnar Þorvarðarson
[email protected]
Svið: Svið sem falla utan gildissviðs EES-samningsins, þ.m.t. öryggis- og varnarmál, stjórnun fiskveiða og viðræður um deilistofna og samstarf á sviði innanríkis- og dómsmála.
Fulltrúar: Ingibjörg Davíðsdóttir (FOR tbc), Margrét Kristín Pálsdóttir (DMR),Stefán Ásmundsson (ANR),Jóhann Sigurjónsson, Ólöf Hrefna Kristjánsdóttir og Snorri Matthíasson (UTN) , Hinrika Sandra Ingimundardóttir (DMR). 

Tímalína og verkþættir

 

Útgefið efni

Spurt og svarað um Brexit

Það verða engin bein áhrif á Ísland til skamms tíma umfram þau sem kunna að koma fram vegna viðbragða á mörkuðum í Bretlandi eins og t.d. vegna gengisbreytinga. Bretland mun ekki ganga formlega úr ESB fyrr en í lok mars 2019 og Bretland mun áfram vera aðili að EES-samningnum fram að þeim tíma.

Samningaviðræður um bráðabirgðatímabil til að brúa bilið á milli útgöngu Bretlands úr ESB og framtíðarsamnings hófust í byrjun árs 2018. Væntingar standa til að þetta tímabil gæti varað í um tvö ár og á þeim tíma myndi regluverk ESB halda áfram að gilda í Bretlandi. EFTA-ríkin þrjú innan EES (Ísland, Noregur og Liechtenstein) vinna í sameiningu að því að tryggja að EES-samningurinn gildi áfram í samskiptum við Bretland á því tímabili, ef samningar nást á milli Bretlands og ESB um bráðabirgðatímabil.

Til lengri tíma verður þó að ganga út frá því að EES-samningurinn muni hætta að taka til Bretlands. Af því leiðir að Ísland mun þurfa að semja á ný við Bretland um atriði sem í dag falla undir EES-samninginn; einkum og sér í lagi tolla, fjárfestingar, för fólks, flugsamgöngur, svo dæmi séu tekin. Markmið íslenskra stjórnvalda er að nýr fríverslunarsamningur milli ríkjanna geti tekið gildi þegar áðurgreindu bráðabirgðatímabili muni ljúka að því gefnu að samningar náist á milli Bretlands og ESB um slíkt tímabili. Ísland og Bretland hafa einnig hafið samtal um tækifæri til framtíðarsamstarfs á ýmsum fleiri sviðum sem falla utan EES-samningsins, t.d. í öryggis- og varnarmálum. Verkefnið fram undan er að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og að áfram verði sveigjanleiki varðandi frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig.

Heimild: Hagstofa Íslands (tölur eru í milljónum króna)

Vöruviðskipti

Útflutningur fob 2016 - 60.689
Innflutningur cif 2016 - 40.930
Útflutningur heild 2016 - 537.444,8
Innflutningur heild 2016 - 687.602

Þjónustuviðskipti

Útflutningur 2016 - 75.944
Innflutningur 2016 - 59.739
Útflutningur heild 2016 - 646.453
Innflutningur heild 2016 - 389.378

Fjöldi ferðamanna

Heildarfjöldi ferðamanna 2016 – 1.792.201
Fjöldi ferðamanna frá Bretland – 316.395

 

 

 


EES-samningurinn sem tók gildi árið 1994 og fríverslunarsamningur Íslands og ESB (þá EBE) frá árinu 1972 eru þeir samningar sem eru grundvöllur viðskiptasambands Íslands og Bretlands. Þegar Bretland gengur úr ESB verður það aftur á móti ekki lengur aðili að þessum samningum. Ekki er til staðar fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands til að taka við af framangreindum samningum. Nauðsynlegt er því að gera nýjan viðskiptasamning við Bretland sem gæti tekið við þegar regluverk EES-samningsins og fríverslunarsamningurinn frá árinu 1972 hætta að gilda í samskiptum ríkjanna. Íslensk stjórnvöld erum í nánum í samskiptum við Bretland til að tryggja að ekki myndist lagalegt tómarúm við útgöngu Bretlands úr ESB og að viðhalda viðskiptatengslum ríkjanna.
Eins og komið hefur fram tilkynnti Bretland formlega um úrsögn úr ESB hinn 29. mars 2017 og mun það ganga formlega úr sambandinu í lok mars 2019. Nú standa yfir viðræður á milli Bretlands og ESB um útgöngusamning. Í desember 2017 tók leiðtogaráð ESB ákvörðun um að hefja viðræður um bráðabirgðatímabil og ramma fyrir framtíðarsamskipti ESB við Bretland. Fram að þeim tíma höfðu viðræður verið takmarkaðar við ákveðna útgönguskilmála, þ.e. réttindi borgara sem höfðu nýtt sér réttinn til frjálsrar farar á aðildartíma Bretlands, landamærin á Írlandi og fjárhagslegt uppgjör.

Ekki er enn ljóst hvert verður fyrirkomulag samskipta Bretlands við ESB til lengri tíma litið eða hvenær samningur um framtíðarsamskipti tekur gildi. Gert er ráð fyrir bráðabirgðatímabili þar sem regluverk ESB mun halda áfram að gilda í Bretlandi í um tvö ár eftir formlega útgöngu úr ESB. Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES (Noregi og Liechtenstein), eiga í viðræðum við Bretland og ESB til að tryggja að lagaumgjörð EES-samningsins haldi áfram að gilda í samskiptum þeirra við Bretland á hinu fyrirhugaða bráðabirgðatímabili.

Hvað varðar Ísland og eftir atvikum hin EFTA-ríkin þá verða einnig teknar upp viðræður um framtíðarsamskipti við Bretland. Samtöl og fundir með fulltrúm Bretlands hafa þegar átt sér stað þar sem mikill vilji hefur verið til að styrkja og þróa áfram samskipti ríkjanna.
Þegar valkostir Bretlands eru reifaðir er gjarnan litið til samninga sem önnur ríki hafa gert við ESB, eins og t.d. EES-samningsins, fríverslunarsamnings Kanada og ESB og tollabandalags ESB og Tyrklands. Þá er stundum talað um að Bretar geti reitt sig eingöngu á regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í viðskiptum við önnur ríki. Bresk stjórnvöld hafa þó sagt að engin þessara fyrirmynda henti Bretlandi og að þau vilji semja við ESB um sérsniðna lausn. Samkvæmt úrsagnarákvæði ESB-sáttmálans, skal taka tillit til framtíðarfyrirkomulags samskipta í útgönguviðræðunum. Því ætti að liggja meira fyrir um nýtt viðskiptasamband Bretlands og ESB undir lok þeirra viðræðna.
Mikilvægt er að hafa í huga að aðild að EFTA jafngildir ekki aðild að EES-samningnum. EFTA-ríkin fjögur, Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss, hafa gert fjölmarga fríverslunarsamninga við ríki víða um heim í krafti aðildar sinnar að EFTA. Aftur á móti eru eingöngu Ísland, Noregur og Liechtenstein aðilar að EES-samningnum sem tryggir aðkomu þeirra að innri markaði ESB. Tengsl Sviss við ESB eru aftur á móti byggð á ýmsum tvíhliðasamningum. Bretland getur sótt um aðild að EFTA og þá eftir atvikum orðið aðili að EES-samningnum kjósi Bretland að sækja um slíka aðild og um það semst við EFTA-ríkin og ESB. Á þessu stigi er of snemmt að útiloka nokkurn kost þegar kemur að framtíðarfyrirkomulagi. Bretar hafa þó sagt að þeir stefni á sérsniðinn samning við ESB og því ólíklegt að þeir muni sækjast eftir aðild að EFTA og/eða EES.
Tíð samskipti hafa átt sér stað milli Íslands og Bretlands frá því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir enda hefur áhersla íslenskra stjórnvalda verið að virkja náið samstarf ríkjanna tveggja og tryggja hagsmuni. Ísland hefur einnig átt fundi með fulltrúum ESB í því skyni að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að viðhalda því viðskiptasambandi sem ríkt hefur á milli Íslands og Bretlands í áratugi. Þá er Ísland í nánum samskiptum við samstarfsríkin innan EFTA í þessari vinnu.

Allt frá því að ljóst var um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í júní 2016 hefur íslenska stjórnsýslan unnið að því hörðum höndum að kortleggja hagsmuni Íslands með tilliti til útgöngu Bretlands úr ESB. Skipaður hefur verið stýrihópur og undir honum starfa fimm vinnuhópar sem hafa það hlutverk að meta og greina hagsmuni og markmið Íslands í tengslum við Brexit á sínum sviðum. Haft hefur verið náið samráð við hagsmunaaðila í þessari vinnu.
Fyrirhuguð útganga Bretlands úr ESB hefur ekki áhrif á réttindi Íslendinga sem eru þegar búsettir í Bretlandi eða þeirra sem hyggjast sækja nám eða flytja til Bretlands fram að útgöngudegi Bretlands úr ESB. EES-samningurinn gildir áfram a.m.k. þar til að Bretland gengur formlega úr ESB í mars 2019.

Í desember 2017 gáfu ESB og Bretland út sameiginlega skýrslu (e. joint report) með drögum að samkomulagi um stöðu þeirra sem hafa nýtt eða munu nýta sér réttinn til frjálsrar farar og búsetu fyrir útgöngudag þar sem réttur þeirra til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu er tryggður.

Ísland innleiðir regluverk ESB um frjálsa för fólks í gegnum EES-samninginn og nú er unnið að því í samstarfi við bresk stjórnvöld og hin EFTA-ríkin innan EES að tryggja að ríkisborgarar þeirra njóti sömu réttinda og ESB-borgarar við útgöngu Bretlands úr ESB. Í febrúar 2018 var gefin út sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands um þetta efni.

Nánari upplýsingar má finna á vef breska stjórnarráðsins

Staðan er aftur á móti óljós hvað varðar framtíðarréttindi Íslendinga til náms og búsetu í Bretlandi eftir útgöngu Bretlands úr ESB. Ísland og Bretland munu þurfa að semja um framtíðarfyrirkomulag varðandi rétt Íslendinga til búsetu í Bretlandi og rétt Breta til búsetu á Íslandi. Ísland mun leitast eftir því að tryggja sveigjanleika varðandi áframhaldandi rétt til frjálsrar farar og búsetu.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá voru 2.342 íslenskir ríkisborgar skráðir með lögheimili í Bretlandi þann 1. desember 2016 en fleiri Íslendingar gætu verið búsettir þar í landi. Sama dag voru 824 breskir ríkisborgarar skráðir með lögheimili á Íslandi.
Á viðskiptasviðinu skapast tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helstu afurðir inn til Bretlands með lægri tollum. Þó þarf að huga að ýmsum atriðum í þessu samhengi eins og t.d. samræmdum EES-reglum varðandi neytendavernd, heilbrigði dýra og plantna, og tæknilegar viðskiptahindranir. Að sama skapi eru fólgin tækifæri í sýn Breta um aukna fríverslun á heimsvísu. Í stefnu Bretlands felast tækifæri til samstarfs í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi – á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar – og í gerð fríverslunarsamninga þar sem Bretland mun láta til sín taka.

Opnun norðaustur siglingaleiðarinnar getur kallað á aukna samvinnu í leit og björgun milli Bretlands og Íslands, í samstarfi við önnur ríki á svæðinu. Þá eru einnig tækifæri í auknu samstarfi á sviði lögreglusamstarfs og innra öryggis, m.a. í baráttunni gegn öfgahyggju og hryðjuverkum. Þá má nefna samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Bæði ríkin eru stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og er vilji til þess meðal beggja að efla samstarf ríkjanna með sérstakri áherslu á Norður-Atlantshafið.

Íslensk stjórnvöld munu leggja áherslu á gott samstarf við Breta í tengslum við loftslagsmál og endurnýjanlega orku. Ísland og Bretland eru bæði í þeim flokki ríkja sem styðja metnaðarfull markmið til að draga úr loftslagsbreytingum og mikil tækifæri eru til samstarfs til framtíðar. Í þessu sambandi gætu ríkin haft sameiginlegan hag af þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Þá hafa ríkin rætt óformlega um að starfa saman að jafnréttismálum innan alþjóðastofnana.
Bretland fellur í dag undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB en við útgönguna úr ESB munu Bretar fá aftur forræðið yfir eigin fiskveiðum. Bretland þarf því að setja sér sjávarútvegsstefnu og hefur lýst yfir áhuga á samstarfi og samráði við Ísland við mótun hennar. Ísland vill gjarnan miðla áratuga reynslu sinni og saman geta Ísland og Bretland orðið talsmenn sjálfbærra fiskveiða, talað gegn ríkisstyrkjum í sjávarútvegi og sótt fram í fríverslun með sjávarafurðir á heimsvísu. Hins vegar hefur útganga Bretlands úr ESB m.a. í för með sér að bresk stjórnvöld munu taka yfir það umboð sem áður var í höndum framkvæmdastjórnar ESB þegar kemur að samningaviðræðum um deilistofna á borð við makríl. Ekki er víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræður sem fram til þessa hafa reynst flóknar.
Að svo stöddu hefur útgönguferlið ekki áhrif á viðskiptakjör Íslands í Bretlandi eða á íslensk fyrirtæki sem eru með starfstöðvar í Bretlandi. EES-samningurinn gildir áfram a.m.k. þar til að Bretland gengur formlega úr ESB í lok mars 2019. Gert er ráð fyrir að samið verði um bráðabirgðatímabil þar sem að regluverk ESB muni halda áfram að gilda í Bretland í einhvern tíma eftir útgöngu. Ísland vinnur nú að því, ásamt Noregi og Liechtenstein, að tryggja að EES-samningurinn gildi einnig í samskiptum við Bretland á slíku bráðabirgðatímabili. Þá eru íslensk stjórnvöld að vinna að því að gerður verði víðtækur framtíðarviðskiptasamningur við Bretland. Leitast verður eftir því að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að Bretlandi og breskum mörkuðum eins og þeir njóta í dag í krafti EES-samningsins og annarra samninga Íslands við ESB. Enn fremur verður horft til þess að bæta aðgang að breskum mörkuðum þar sem þess er kostur.

Sjá einnig:

Fréttir
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn