Hoppa yfir valmynd

Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu

Bretland gekk úr Evrópusambandinu (ESB) 31. janúar 2020, þremur og hálfu ári eftir að meirihluti breskra kjósenda reyndist fylgjandi útgöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. júní 2016. Þar sem Bretland gekk úr ESB á grundvelli útgöngusamnings tók aðlögunartímabil gildi frá útgöngudegi til ársloka 2020. Á aðlögunartímabilinu var Bretland áfram bundið af regluverki ESB, þ.m.t. alþjóðasamningum en þar skiptir EES-samningurinn mestu máli hvað Ísland varðar. Þegar aðlögunartímabilinu lauk 1. janúar 2021 hættu ákvæði EES-samningsins að gilda um Bretland. Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, og þar með úr EES-samstarfinu, hefur því haft umtalsverð áhrif á samband Íslands og Bretlands.

Undanfarin ár hefur umfangsmikil vinna átt sér stað innan utanríkisþjónustunnar og Stjórnarráðsins í heild bæði vegna útgöngunnar sjálfrar og vegna viðræðna um framtíðarsamband Íslands og Bretlands. Ísland hefur lokið við gerð fjölmargra samninga við Bretland, bæði á meðan aðlögunartímabilinu stóð og eftir útgöngu.

Útgefið efni

  • Ísland og Brexit: Greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES (2017)
  • Breytingar við lok aðlögunartímabilsins: nýtt samband Íslands og Bretlands (2021)

Réttindi borgara til áframhaldandi búsetu í Bretlandi

Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein undirrituðu þann 28. janúar 2020 samning við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samningurinn leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB og gerir það m.a. að verkum að íslenskir borgarar búsettir í Bretlandi fyrir lok árs 2020 geta haldið sínum réttindum svo lengi sem þeir staðfestu rétt sinn fyrir 30. júní 2021 (settled eða pre-settled status). 

Viðskipti

Lokið var við gerð nýs fríverslunarsamnings við Bretland í sumarbyrjun 2021 og samningurinn var undirritaður 8. júlí 2021. Er þar á ferðinni framsækinn og yfirgripsmikill fríverslunarsamningur sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og þeirra reglna sem um þau gilda. Samningurinn tók gildi 1. febrúar 2023.

Loftferðir

Loftferðasamningur milli Íslands og Bretlands kom til framkvæmda 1. janúar 2021 og öðlaðist formlega gildi þann 1. september 2021. Loftferðasamningurinn var gerður vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og var hann fyrsti langtímasamningurinn sem Ísland gerði við Bretland í tengslum við hana.

Sjávarútvegsmál

Samkomulag liggur fyrir um framtíðarsamstarf Íslands og Bretlands í sjávarútvegsmálum. Með samkomulaginu er stofnað til reglulegs samráðs til að viðhalda og efla gott samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Almennt samstarf

Ísland og Bretland hafa gert með sér samkomulag um samstarf ríkjanna til ársins 2030. Yfirlýsingunni er ætlað að efla tvíhliða samskipti ríkjanna með sameiginlegum framtaksverkefnum.

Samningur um ungt fólk og vinnudvöl

Undirritað hefur verið samkomulag milli Íslands og Bretlands sem gerir ungu fólki frá Íslandi, á aldrinum 18 til 30 ára, mögulegt að búa og starfa í Bretlandi í allt að tvö ár. Þar sem samkomulagið er gagnkvæmt getur ungt fólk frá Bretlandi á sama aldursbili jafnframt komið og unnið á Íslandi í allt að tvö ár. Samkomulagið tók gildi 1. janúar 2022. 

Samningur um menntun, rannsóknir, nýsköpun og geimvísindi

Þann 12. júlí 2021 var undirritað samkomulag við bresk stjórnvöld um samstarf á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar og geimvísinda. Samkomulagið greiðir m.a. aðgang íslenskra náms- og fræðimanna að breskum menntastofnunum.

Yfirstandandi viðræður

Yfirstandandi eru viðræður við Bretland um almannatryggingar. Samkvæmt útgöngusamningi EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland, sem undirritaður var hinn 28. janúar 2020, eru áunnin réttindi á sviði almannatrygginga tryggð, sem stofnast til fyrir lok aðlögunartímabilsins 31. desember 2020. Sá samningur tryggir hins vegar ekki réttindi sem stofnast til eftir 1. janúar 2021. Í febrúar 2021 hófust því samningaviðræður milli EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands með það að markmiði að semja um samning milli ríkjanna fjögurra um samhæfingu almannatryggingakerfa, fyrst og fremst hvað varðar lífeyrisréttindi og sjúkratryggingar, þar með talið heilbrigðisþjónustu. Viðræður standa enn yfir (október 2021) og er ekki enn ljóst hvenær viðræðum mun ljúka eða hvenær væntanlegur samningur myndi öðlast gildi.

Til viðbótar við viðræður um almannatryggingar fylgist utanríkisráðuneytið náið með hvort þörf sé á frekari viðræðum við Bretland á öðrum sviðum.

Síðast uppfært: 1.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum