Hoppa yfir valmynd

Réttindi borgara til áframhaldandi búsetu í Bretlandi

Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein undirrituðu þann 28. janúar 2020 samning við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og þar með úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Samningurinn tryggir m.a. að Íslendingar sem bjuggu í Bretlandi eða fluttu þangað fyrir lok aðlögunartímabilsins (31. desember 2020) geta verið þar áfram og að réttindi þeirra eru í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta á einnig við um breska ríkisborgara sem bjuggu á Íslandi fyrir árslok 2020. Í samningnum er einnig að finna ákvæði um tengd réttindi sem varða til að mynda almannatryggingar og viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Þá er í samningnum greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarnefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála. Samningurinn er byggður á viðeigandi þáttum í útgöngusamningi Bretlands og ESB.

Lög um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu voru samþykkt á Alþingi 22 október 2019, sbr. lög nr. 121/2019. Lögin tryggja m.a. að samningurinn um útgönguskilmála gat tekið gildi og skilgreina þar að auki stöðu Bretlands á aðlögunartímabilinu.

Með samningnum var öllum íslenskum ríkisborgurum sem búsettir voru í Bretlandi, og ætluðu að búa áfram í Bretlandi eftir lok aðlögunartímabilsins 31. desember 2020 tryggður réttur til að búa þar áfram. Þess var þó krafist að þessir aðilar staðfestu rétt sinn í gegnum sérstakt skráningarkerfi breskra stjórnvalda (settlement scheme). Umsóknarfrestur til þess rann út þann 30. júní 2021 fyrir EES-ríkisborgara sem fluttust til Bretlands fyrir 1. janúar 2021.

Hyggst þú heimsækja Bretland?

EES-ríkisborgurum er frjálst að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar, sjá nánari upplýsingar á vef breskra stjórnvalda. Þeim sem heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar er þó ekki heimilt að stunda nám eða vinnu í Bretlandi. Sjá upplýsingar um nýtt innflytjendakerfi hér að neðan.

Athuga skal að frá 31. desember 2020 gildir evrópska sjúkratryggingakortið ekki lengur í Bretlandi. Þetta á einnig við um farþega sem eingöngu millilenda í Bretlandi. Fólk er því hvatt til að gæta vel að öðrum ferðatryggingum.

Hyggst þú flytja til Bretlands?

Íslenskir ríkisborgarar og aðrir EES-ríkisborgarar sem flytja til Bretlands eftir 1. janúar 2021 hlíta sömu reglum og ríkisborgarar annarra ríkja, þ.e. njóta ekki neinna sérkjara sem ríkisborgarar EES-ríkja. Þeir sem hyggjast setjast að og sækja nám eða vinnu í Bretlandi þurfa til þess vegabréfsáritun og uppfylla ákveðin skilyrði.

Upplýsingar um nýtt innflytjendakerfi sem tók við í Bretlandi eftir lok aðlögunartímabilsins 31. desember 2020 er að finna á vef breskra stjórnvalda.

Síðast uppfært: 11.11.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum