Hoppa yfir valmynd

Alþjóðleg þróunarsamvinna

Alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands á sér langa sögu og er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu leitast Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna.

Unnið er eftir stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2024-2028 þar sem lögð er áhersla á skýra forgangsröðun og fagleg vinnubrögð þar sem árangur, skilvirkni og gagnsæi er sett í forgrunn. Stefnan hefur framtíðarsýn til ársins 2030 og byggist á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Parísarsamkomulaginu um aðgerðir til að takast á við og bregðast við loftslagsbreytingum og öðrum alþjóðlegum sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt auk alþjóðlegra skuldbindinga um fjármögnun þróunar.

Einblöðungur um stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2024-2028 

Áherslur og markmið

Yfirmarkmið: útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði. 

Mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál eru bæði sértæk og þverlæg áhersluatriði sem lögð eru til grundvallar í öllu starfi.

Lögð er áhersla á fjögur málefnasvið: 

Mannréttindi og jafnrétti kynjanna (heimsmarkmið 5 og 10) – með áherslu á:

  • valdeflingu kvenna og stúlkna, 
  • aukin borgaraleg réttindi, 
  • bætta lagaleg og félagslega staða hinsegin fólks,
  • bætt kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi.
  • upprætingu kynbundins og kynferðislegs ofbeldis,
  • aukna þátttöku karla og drengja í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. 

Mannauð og grunnstoðir samfélaga (heimsmarkmið 3, 4 og 6) – með áherslu á:

  • bætta menntun, námsumhverfi og næringu barna og ungmenna,
  • aðgang að bættri grunnheilbrigðisþjónustu, með áherslu á mæður og börn,
  • aðgang að hreinu vatni og bættri hreinlætisaðstöðu.

Loftslagsmál og náttúruauðlindir (heimsmarkmið 7, 13, 14 og 15) – með áherslu á:

  • bætta mótvægis- og aðlögunarhæfni samfélaga,
  • aukna nýtingu og jafnan aðgang að endurnýjanlegri orku,
  • verndun og sjálfbæra nýting hafs og vatna, 
  • sjálfbæra landnýtingu og endurheimt vistkerfa.

Mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar (heimsmarkmið 2 og 16) – með áherslu á: 

  • að draga úr hungri og stuðla að fæðuöryggi,
  • verndun og bætt lífskjör fólks á flótta,
  • að framlög Íslands stuðli að bættu mannúðaraðgengi.
  • styrkingu félagslegra og borgaralegra innviða,
  • virkt lýðræði og bætta stjórnarhætti.

Framkvæmd og samstarfsaðilar

Tvíhliða samstarfsríki Íslands eru Malaví, Úganda og Síerra Leóne en þar vinna íslensk stjórnvöld að mestu leyti í samstarfi ýmist við stjórnvöld, héraðsyfirvöld og stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Í samstarfi við fjölþjóðlegar stofnanir er lögð áhersla á störf Alþjóðabankans (World Bank), Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).  Á sviði loftslagsmála er lögð áhersla á Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund), Aðlögunarsjóðinn (Adaptation Fund) og Norræna þróunarsjóðinn (Nordic Development Fund)

Á sviði mannúðaraðstoðar er stutt við stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem gegna lykilhlutverki í mannúðaraðstoð, þ.e. Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF), samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) auk samstarfs við Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC). 

Þá er lögð áhersla á samstarf og stuðning við þátttöku atvinnulífsins og ýmissa félagasamtaka bæði á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Einnig er sérþekking Íslands t.d. á sviði landgræðslu, sjávarútvegs, jarðhita og jafnréttismála reglulega nýtt og er sérstök áhersla lögð á starfsemi GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu í þessu samhengi. Á gildistíma stefnunnar verður jafnframt unnið að því að efla samstarf við fræðasamfélagið.

Framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu

Árið 2022 námu framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu 12,7 milljörðum kr. sem samsvarar 0,34% af vergum þjóðartekjum (VÞT) og hækkuðu um rúmlega 3,7 milljarða kr. frá 2021, en þá mældust framlög Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu rúmlega 9 milljarðar kr. eða 0,28% af VÞT. Bráðabirgðatölur fyrir framlög Íslands árið 2023 munu liggja fyrir í lok fyrsta ársfjórðungs 2024. Þróunarsamvinnunefnd OEDC (DAC) gefur út yfirlit yfir þróunarsamvinnuframlög Íslands.

Í eftirfarandi skífuriti má sjá hvernig framlög Íslands til þróunarsamvinnu á árinu 2019 skiptast.

Stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2024-2028 skapar heildarumgjörð fyrir allt opinbert starf Íslands á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar. Lögð er rík áhersla á árangur og skilvirkni þróunarsamvinnu, gagnsæi, kynninga- og fræðslumál, og hámörkun samlegðaráhrifa af starfi Íslands.

Framlög munu fara vaxandi á gildistíma stefnunnar, úr 0,35% af VÞT á árinu 2024 í 0,46% árið 2028.

Yfirmarkmið: útrýming fátæktar, virðing fyrir mannréttindum og bætt lífsskilyrði. 

Fjögur málefnasvið: mannréttindi og jafnrétti kynjanna, mannauð og grunnstoðir samfélaga, loftslagsmál og náttúruauðlindir og mannúðaraðstoð og störf í þágu stöðugleika og friðar. 

Þverlæg málefni eru tvö: mannréttindi og jafnrétti kynjanna og umhverfis- og loftslagsmál.

Þrjú lönd eru sérstaklega tilgreind sem tvíhliða samstarfslönd: Malaví, Úganda og Síerra Leóne.

Í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu er lögð áhersla á samstarf við fjórar stofnanir: Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Á sviði loftslagsmála er sérstök áhersla lögð á samstarf við þrjár stofnanir: Græna loftslagssjóðinn (GCF), Aðlögunarsjóðinn (Adaptation fund) og Norræna þróunarsjóðinn (NDF). 

Áherslustofnanir í mannúðaraðstoð eru lykilstofnanir Sameinuðu þjóðanna á því sviði: Matvælaáætlun SÞ (WFP), Neyðarsjóður SÞ (CERF) og samræmingarskrifstofa SÞ í mannúðarmálum (OCHA) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Þá er samstarf við Palestínuflóttamannaðstoðina (UNRWA) og Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) áfram miðlægt. 

Í stefnunni er lögð sérstök áhersla á hlutverk félagasamtaka og atvinnulífs en auk þess verður lögð aukin áhersla á samstarf við fræðasamfélagið. 

Sem fyrr er lögð áhersla á að byggja upp færni einstaklinga og styrk stofnana í þróunarríkjum með starfsemi skóla GRÓ: Jafnréttisskólans, Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans. 

Hinn 1. október 2008 gengu í gildi lög um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008 . Eldri lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands frá 1981 féllu þar með úr gildi. Þann 18. desember 2015 voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögunum.

Tilgangur þróunarsamvinnulaga er að ná fram heildarsýn á málaflokkinn og gera íslenskum stjórnvöldum betur kleift að starfa samkvæmt alþjóðlegum samþykktum og viðmiðum, þ.m.t. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þúsaldaryfirlýsingunni og þúsaldarmarkmiðunum.

Alþjóðlegt þróunarstarf tekur sífelldum breytingum. Alþjóðlegar samþykktir og ályktanir kalla á aukna ábyrgð og áreiðanleika þeirra aðila sem starfa að þróunarmálum. Því kveða lögin á um að framkvæmd þróunarsamvinnu skuli fylgja viðurkenndum aðferðum, reglum og leiðbeiningum alþjóðasamfélagsins. Í lögunum er lögð áhersla á:

  • gegnsæi í umfjöllun og framkvæmd verkefna
  • mat á árangri
  • reglulegt eftirlit og úttektir
  • ráðvendni í meðferð og vörslu fjármuna

Samkvæmt þróunarsamvinnulögum skal starfa þróunarsamvinnunefnd. Lögin kveða á um að ráðið skuli sinna ráðgefandi hlutverki við stefnumarkandi ákvarðanatöku um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til lengri tíma og fylgjast með framkvæmd hennar. Nefndin skal m.a. fjalla um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu og aðgerðaáætlun þar að lútandi, framlög til þróunarsamvinnu, val á samstarfslöndum, þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu, sem og helstu skýrslur um árangur í þróunarsamvinnu.

Ráðherra skipar fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd og varamenn þeirra til fjögurra ára í senn með eftirfarandi hætti:

  • Formaður nefndarinnar er skipaður án tilnefningar og skal hann vera sérfróður um þróunarmál og hafa reynslu á því sviði.
  • Hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi skal tilnefna einn fulltrúa.
  • Fimm fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við íslensk borgarasamtök sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.
  • Tveir fulltrúar skulu skipaðir að höfðu samráði við samstarfsnefnd háskólastigsins.
  • Tveir fulltrúar skulu skipaðir í samráði við aðila vinnumarkaðarins.
Fundargerðir og gögn þróunarsamvinnunefndar
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum