Tilkynningagátt
Utanríkisráðuneytið er ábyrgt fyrir framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands í samræmi við lög nr. 121/2008 og stefnu Íslands fyrir málefnasviðið. Þróunarsamvinnufé er varið á margvíslegan máta, svo sem með styrkjum til samstarfsaðila og -stofnana, en einnig í gegnum starf ráðuneytisins, meðal annars með starfi á vettvangi í þróunarlöndum.
Þróunarsamvinna er kostuð með skatttekjum íslensks almennings og er á hendi utanríkisráðuneytisins að fylgjast með hvernig þessu fé er varið. Allri misnotkun á þeim fjármunum er tekið alvarlega. Misnotkun getur verið af ólíkum toga og getur sem dæmi falið í sér mútur, fjárdrátt eða sóun á almannafé. Misnotkun getur einnig verið misalvarleg, hún getur verið afrakstur kæruleysis eða vanhæfni, verið af ásetningi, eða jafnvel verið af þeim toga að vanræksla eða að gjörðir séu refsiverð brot.
Utanríkisráðuneytið fylgir einnig tilmælum þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) um að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu, misnotkun, og kynferðislegt áreiti í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Þáttur í því er að gera starfsfólki og samstarfsaðilum kleift að tilkynna grun um brot.
Vilt þú tilkynna grun um misnotkun á þróunarsamvinnufé?
Tvær leiðir eru færar:
- Tilkynning til Ríkisendurskoðanda
Allir sem hafa upplýsingar eða gögn um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi sem fellur undir starfssvið Ríkisendurskoðanda hafa heimild til að greina Ríkisendurskoðanda frá slíku og afhenda gögn þar að lútandi. Hægt er að senda tilkynningu til Ríkisendurskoðunar og er viðkomandi bent á að kynna sér upplýsingar á heimasíðu þeirra um vernd uppljóstrara. Hægt er að hafa samband við Ríkisendurskoðun símleiðis í síma 448-8800, senda ábendingu í gegnum vefsíðu Ríkisendurskoðunar, með tölvupósti á netfangið [email protected] eða með því að senda bréf til embættisins á heimilisfangið Bríetartún 7, 105 Reykjavík, sem merkt er „Uppljóstrun“. - Tilkynning til utanríkisráðuneytisins
Allar tilkynningar eru unnar í trúnaði og hægt er að gefa nafnlausar tilkynningar. Þó skal bent á að auðveldara er fyrir ráðuneytið að vinna úr málum ef tilkynningaraðili gefur upp nafn og tengiliðaupplýsingar. Úrvinnsla mála og rannsókn fer eftir stöðluðu verklagi.
Form fyrir tilkynningar um grun um misnotkun á þróunarsamvinnufé um má nálgast hér.
Vilt þú tilkynna grun um einelti, kynbundna áreitni, misnotkun, eða kynferðislegt áreiti í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð?
Tvær leiðir eru færar:
- Innri tilkynningar fyrir starfsfólk utanríkisþjónustunnar
Fyrir innri tilkynningar um einelti, kynbundna áreitni, kynferðisleg áreitni eða ofbeldi (EKKO) er starfsfólki utanríkisráðuneytisins bent á forvarna- og viðbragðsáætlun utanríkisráðuneytisins. Einnig er hægt að senda tilkynningar með tölvupósti á netfangið [email protected]. - Tilkynningar um kynferðislega misneytingu, misnotkun, og kynferðislegt áreiti í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð
Allar tilkynningar eru unnar í trúnaði og hægt er að gefa nafnlausar tilkynningar. Þó skal bent á að auðveldara er fyrir ráðuneytið að vinna úr málum ef tilkynningaraðili gefur upp nafn og tengiliðaupplýsingar. Úrvinnsla mála og rannsókn fer eftir stöðluðu verklagi. Form fyrir tilkynningar um grun um kynferðislega misneytingu, misnotkun, og kynferðislegt áreiti í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð má nálgast hér.
Ábyrgðaraðili vöktunarinnar er: Utanríkisráðuneytið, Rauðarárstíg 25 - 105 Reykjavík, 545-9900, [email protected]
Persónuverndarfulltrúi: 545-8863, [email protected]
Tilgangur vefgáttarinnar er að veita einstaklingum færi til þess að tilkynna grun um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi er tengist alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Með tilurð tilkynningargáttarinnar er lagalegri skyldu utanríkisráðuneytisins samkvæmt lögum nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara uppfyllt.
Vinnsla utanríkisráðuneytisins takmarkast af þeim persónuupplýsingum er nauðsynlegar eru samkvæmt þeim skyldum er leiðir af lögum nr. 40/2020. Í vefgáttinni geta einstaklingar gefið upp upplýsingar um meinta háttsemi sem og fullt nafn og tengiliðaupplýsingar. Athygli er þó vakin á því aðilar geta gefið nafnlausar tilkynningar. Einnig ber utanríkisráðuneytið skyldu sem móttakandi upplýsinga eða gagna samkvæmt 2. eða 3. gr. laga 40/2020 til þess að gætaleyndar um persónuupplýsingar tilkynnanda en móttakandi hefur heimild til þess að víkja frá þeirri skyldu ef tilkynnandi veitir afdráttarlaust samþykki fyrir afléttingu leyndar.
Heimild utanríkisráðuneytisins til vinnslu persónuupplýsinga vegna tilkynningargáttarinnar byggist á 3. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sbr. C- lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 (hér eftir pvrg.). Þegar vinnsla á viðkvæmum persónuupplýsingum er nauðsynleg þá byggist vinnsluheimildin á 7. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sbr. g- liði 2. mgr. 9. gr. GDPR. Þegar um er að ræða vinnslu persónuupplýsinga um refsiverða háttsemi byggist vinnsluheimild utanríkisráðuneytisins á grundvelli 12. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sbr. 10. gr. pvrg.
Samkvæmt lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn er utanríkisráðuneytinu óheimilt að eyða þeim skjölum og gögnum sem berast eða verða til hjá þeim, nema að fengnu leyfi Þjóðskjalasafns Íslands. Aðgangur að þeim persónuupplýsingunum er myndast í tilkynningargáttinni, er takmarkaður við þá aðila er nauðsynlega þurfa slíkan aðgang til þess að mæta starfsskyldum sínum. Þó geta komið upp tilfelli þar sem upplýsingum sé miðlað áfram til dómara, lögreglu eða eftirlitsstjórnvaldi enda hvíli á þeim lögbundin skylda til þess. Utanríkisráðuneytið skráir öll gögn í málaskrá sem er tölvukerfi og skjalasafn. Öll gögn og upplýsingar í vörslu utanríkisráðuneytisins eru geymd innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Notendur tilkynningargáttarinnar njóta þeirra réttinda er fram koma í III. kafla laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. nánari ákvæði í III. kafla pvrg. Vert er þó að hafa í huga að á grundvelli 3. mgr. og 4. mgr. 17 gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er heimild til þess að takmarka réttindi einstaklinga enda sé slíkt nauðsynlegt sem og í réttu hlutfalli við þá hagsmuni er varða rannsóknina sjálfa eða auðkenni uppljóstrarans.
Að auki eiga þeir rétt á því að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd enda telja þeir að vinnsla ábyrgðaraðila gangi gegn persónuverndarlögum. Hægt er að hafa samband við Persónuvernd með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected] eða í síma 510-9600.
Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga hjá utanríksráðuneytinu í persónuverndarstefnu Stjórnarráðsins.
Utanríkisráðuneytið fylgir reglum nr. 1230/2022 um verklag við uppljósturn starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi sem og innri reglum. Samkvæmt lögum um vernd uppljóstrara nr. 40/2020 er starfsfólki utanríkisþjónustunnar skylt að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú, um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi ráðuneytisins. Starfsmaður utanríkisþjónustunnar sem miðlar upplýsingum og gögnum í slíkum tilgangi er skilgreindur sem uppljóstrari og fellur meðferð slíkra mála undir lög nr. 40/2020 um vernd uppljóstrara.
Óheimilt er að láta starfsmann sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum að uppfylltum skilyrðum í 2. eða 3. gr. laga 40/2020 um vernd uppljóstrara sæta óréttlátri meðferð. Til slíkrar meðferðar telst t.d. að rýra réttindi, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt, segja upp samningi, slíta honum eða láta hvern þann sem miðlað hefur gögnum eða upplýsingum gjalda þess á annan hátt. Séu leiddar líkur að slíku skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að upplýsingum eða gögnum hafi verið miðlað. Takist sú sönnun ekki skal gagnaðili greiða viðkomandi bætur fyrir það tjón sem leitt hefur af hinni óréttlátu meðferð, bæði fjártjón og miska.
Utanríkisráðuneytið sem móttakandi upplýsinga eða gagna samkvæmt 2. eða 3. gr. laga 40/2020 um vernd uppljóstrara skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því að leynd sé aflétt.
Þróunarsamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.