Hoppa yfir valmynd

Öryggis- og varnarmál

Hornsteinar varna landsins eru varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Í varnarmálalögum og forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta er kveðið á um að utanríkisráðherra beri ábyrgð á varnarmálum, og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.

Efst á baugi

Þjóðaröryggisráð var kom í fyrsta sinn saman í maí 2017 og var með því stórt skref stigið í samhæfingu öryggis- og varnarmála Íslands, en á síðustu misserum hefur Alþingi samþykkt þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og lög um þjóðaröryggisráð. Hlutverk ráðsins er að hafa eftirlit með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar, standa fyrir umræðu um öryggis- og varnarmál og standa fyrir endurskoðun stefnunnar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Þjóðaröryggisstefnan tekur jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og horfir því heildstætt til öryggis- og varnarmála sem nauðsynlegt er þegar horft er til breyttrar heimsmyndar, nýrrar tækni og þeirra áskorana sem ríki heims standa frammi fyrir. Í henni eru tilgreindir hornsteinar varna Íslands, aðildin að Atlantshafsbandalaginu og samstarfið við Bandaríkin á grundvelli varnarsamningsins, auk áhersluflokka eins og hryðjuverka og netógna, umhverfisöryggis á norðurslóðum og náttúruhamfara. 

Framlög til varnarmála

Framlög Íslands til varnarmála og Atlantshafsbandalagsins hafa aukist á liðnum tveimur árum samhliða ákvörðunum sem teknar voru á leiðtogafundum bandalagsins í Wales (2014) og Varsjá (2016). Þannig hafa íslensk stjórnvöld fjölgað borgaralegum sérfræðingum í störfum innan Atlantshafsbandalagsins og aukið við gistiríkisstuðning á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rekstur varnarmannvirkja á öryggissvæðinu og starfræksla ratsjárkerfisins, sem nær yfir umfangsmikið svæði á Norður-Atlantshafinu, er veigamikill þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins. Fyrir dyrum stendur allnokkur endurnýjun á þeim kerfum og ýmis viðhaldsverkefni eru í farvatninu.

Ísland undirbýr nú þátttöku í viðamikilli æfingu á vegum Atlantshafsbandalagsins, varnaræfingunni Trident Juncture sem verður haldin haustið 2018. Undirbúningurinn kallar á víðtækt samráð helstu stofnana sem koma að framkvæmd öryggis- og varnarmála á Íslandi. Auk þessa tekur Ísland árlega þátt í Northern Challenge æfingu Atlantshafsbandalagsins en markmið hennar er að æfa sprengjueyðingar og viðbrögð við hryðjuverkum.

Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hefur Ísland lagt áherslu á málefni sem varða Norður-Atlantshafið og öryggismál á hafi, svo og varnaráætlanagerð vegna þess svæðis undanfarið ár. Enn fremur hafa áherslur um nokkurt skeið beinst að kynjasjónarmiðum og jafnrétti með áherslu á öryggisráðsályktun 1325 um konur, frið og öryggi. Ísland hefur jafnframt áréttað heildstæða nálgun í aðgerðum og verkefnum um langt skeið. Undanfarið ár hafa áherslur Íslands einnig beinst að aðlögun bandalagsins, herstjórnarkerfis þess og skipulags, að nýjum veruleika og breyttu öryggisumhverfi, en auk þess hefur verið hvatt til hagræðingar og einföldunar fjárhagslegra ferla.

Íslenskum sérfræðingum í alþjóðastarfsliði og aðgerðum bandalagsins hefur verið fjölgað undanfarið ár. Þeir starfa í Afganistan þar sem verkefni NATO halda áfram, í tengiliðaskrifstofu NATO í Georgíu og herstjórnarmiðstöð fyrir efldan viðbúnað til austurs í Póllandi. Sérfræðingar í höfuðstöðvum og hjá yfirherstjórn bandalagsins fyrir Evrópu vinna að málefnum samstarfsríkja, aðgerðaskipulagi, á upplýsinga- og greiningarsviði, auk þess sem aukinn þungi hefur verið í verkefnum varðandi gerð varnaráætlunar fyrir Norður-Atlantshafið, Ísland og Noreg. Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar starfaði einnig að þjálfun Íraka í verkefni á vegum bandalagsins í Jórdaníu um nokkurra vikna skeið.

Þá hefur samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum farið vaxandi á undanliðnum árum, m.a. innan vébanda norræna varnarsamstarfsins (e. Nordic Defence Cooperation, NORDEFCO) sem Ísland tekur þátt í.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira