Hoppa yfir valmynd

Fjölþjóðlegt samstarf

Þátttaka Íslands í fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál stuðlar að því að tryggja víðtæka öryggishagsmuni og er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins.  Utanríkisráðuneytið annast fyrirsvar af hálfu íslenska ríkisins í samskiptum og samstarfi við erlend ríki, alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, hermálayfirvöld og erlendan liðsafla sem hér dvelur. Vægi samstarfs í þessum málaflokki hefur vaxið undanfarin ár vegna breytinga í alþjóðlegu öryggisumhverfi.

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru hornsteinar öryggis- og varna Íslands.

Atlantshafsbandalagið    

Þátttaka Íslands í öryggispólitísku og hernaðartengdu samstarfi á vettvangi Atlantshafsbandalagsins er veigamikill hluti fjölþjóðasamstarfs um öryggis- og varnarmál. Atlantshafsbandalagið er meginvettvangur samstarfs og samráðs um viðbrögð við hefðbundnum og óhefðbundnum ógnum. Áherslur í starfi bandalagsins endurspegla breytta stöðu öryggis- og varnarmála okkar heimshluta.

Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu við stofnun þess árið 1949. Öryggisumhverfi í Evrópu er gjörbreytt frá því sem áður var þegar bandalagið var stofnað en markmiðin eru þau sömu, að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir bandalagið lykilhlutverki sem pólitískt bandalag lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Bandalagið hefur lagað sig að breyttum aðstæðum í Evrópu með inngöngu nýrra aðildarríkja og auknu samráði og samvinnu við önnur ríki. Fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu sinnir málsvarastarfi og hagsmunagæslu innan bandalagsins.

Varnarsamstarf við Bandaríkin

Öryggis- og varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggist á tvíhliða varnarsamningi ríkjanna frá árinu 1951, en tekur nú skýrt mið af mjög breyttum aðstæðum sem endurspeglast í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna frá árinu 2006, þar sem kveðið er á um fjölþætt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Samstarfið hefur þróast í takti við breytingar á öryggisumhverfi í okkar heimshluta og tekur nú til mun fleiri þátta en áður. Má þar nefna málefni norðurslóða, þ.m.t. umhverfisöryggi, leit og björgun á hafi, auk varna gegn netvá, hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Einnig fer fram reglubundið samráð milli utanríkisráðuneytis Íslands og utanríkis- og varnarmálaráðuneyta Bandaríkjanna  um öryggis- og varnarmál á breiðum grunni. Sendiráð Íslands í Washington gegnir ásamt fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu mikilvægu hlutverki við hagsmunagæslu og málsvarastarf í varnarsamstarfi ríkjanna.

Ítarefni

Annað fjölþjóðlegt og svæðisbundið samstarf

Ísland hefur tekið þátt í borgaralegum hluta norræna varnarsamstarfsins (Nordic Defence Cooperation, NORDEFCO) allt frá stofnun þess árið 2009. Samstarfið lýtur meðal annars að æfingum og þjálfun, útboðum, samhæfingu, samvinnu innan fjölþjóðlegra verkefna og öryggispólitísku samráði.

Þá fer fram reglubundið samráð um öryggis- og varnarmál á vettvangi Norðurhópsins og NB8-ríkjanna um öryggis- og varnarmál. Ísland hefur einnig verið aðili að samstarfi á vettvangi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force - JEF), undir forystu Breta, frá árinu 2021.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, friðar, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru 57 talsins. Innan stofnunarinnar, sem staðsett er í Vínarborg, fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, og öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE ásamt Bandaríkjunum, Kanada, Kasakstan, Kirgistan, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.

Samráð um framkvæmd afvopnunarsamninga og stöðugleikaaðgerða fer einnig fram á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), S.þ. og annarra alþjóðastofnana.

Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er áhersla lögð á að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Ísland tekur virkan þátt í alþjóðasamstarfi í kjarnorkumálum, bæði vegna geislunarstarfsemi sem fer fram á Íslandi og ekki síst vegna þess að erlend kjarnastarfsemi og kjarnöryggismál í nágrannalöndum hafa þýðingu fyrir öryggi Íslands og íslenska hagsmuni.

Áherslur Íslands

Í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi er áhersla lögð á öryggi og varnir í okkar heimshluta, afvopnunarmál og vígbúnaðartakmarkanir, málefni öryggisráðsályktunar 1325 um konur, frið og öryggi og valdeflingu kvenna, sem og tengsl loftslagsmála og öryggis, í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Unnið er að hagsmunagæslu og málsvarastarfi allt árið um kring á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Sameinuðu þjóðanna um þessi málefni og í öðru tvíhliða og fjölþjóðasamstarfi sem Ísland er aðili að.

Áhersla Íslands á mikilvægi afvopnunar fyrir öryggi þjóðarinnar og alþjóðasamfélagsins er skýr í þjóðaröryggisstefnunni. Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum til framgangs raunhæfrar afvopnunar með virkri þátttöku á alþjóðavettvangi þar sem afvopnunarmál eru til umfjöllunar og í samráði um hvernig takast beri á við nýjar ógnir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi í fyrsta sinn árið 2000 sérstöðu kvenna á átakasvæðum og mikilvægi framlags þeirra til friðar, með samþykkt ályktunar 1325 . Eðli hugtakanna „friður“ og „öryggi“ hefur breyst úr því að eiga við um samfélög án vopnaðra átaka og ótta við ofbeldi, yfir í að mannréttindi allra séu virt og að lífsgæði séu ásættanleg. Þá hefur ályktunum sem fjalla um konur, frið og öryggi fjölgað til muna.

Grannríkjasamningar

Grannríkjasamningar eru jafnframt grundvöllur fyrir tvíhliða samvinnu Íslands við önnur ríki á sviði öryggis- og varnarmála. Samningar og/eða yfirlýsingar eru nú fyrir hendi við Danmörku, Kanada, Noreg, Bretland og Svíþjóð.

Ítarefni

Síðast uppfært: 8.3.2023 0
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum