Varnartengd verkefni
Framlag Íslands á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin felst fyrst og fremst í þátttöku í margvíslegu pólitísku starfi á vettvangi bandalagsins í gegnum fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, sendiráði Íslands í Washington og frá aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þá annast Ísland loftrýmiseftirlit, styður með gistiríkisstuðningi við loftrýmisgæslu og kafbátaeftirlit og æfingar bandalagsins og bandalagsríkja .
Ísland leggur einnig af mörkum til sameiginlegra varna bandalagsríkja með því að tryggja öruggan rekstur varnarmannvirkja og -búnaðar á Íslandi.
Á grundvelli þjónustusamnings felur utanríkisráðuneytið varnarmálasviði Landhelgisgæslu Íslands framkvæmd varnartengdra rekstrarverkefna á Íslandi. Þannig annast Landhelgisgæslan, í umboði utanríkisráðuneytisins, rekstur íslenska loftvarnakerfisins, tekur þátt í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins og sér um framkvæmd gistiríkisstuðnings. Að auki annast Embætti ríkislögreglustjóra, einnig á grundvelli þjónustusamnings við utanríkisráðuneytið, úrvinnslu upplýsinga og útgáfu öryggisvottana fyrir ráðuneytið.
Gistiríkisstuðningur
Frá 2006 hefur beint framlag Íslands til starfsemi Atlantshafsbandalagsins í formi svokallaðs gistiríkisstuðnings aukist. Gistiríkisstuðningur felst einkum í að veita færanlegum liðsafla bandalagsríkja, sem sinna mismunandi verkefnum á sviði loftrýmisgæslu, kafbátaeftirlits og varnaræfinga, aðstöðu á borð við fæði og gistingu. Stjórnvöld tryggja jafnframt að til staðar séu fullnægjandi varnarmannvirki, búnaður og kerfi, geta og sérþekking svo Ísland geti tryggt framlag sitt í formi gistiríkisstuðnings og þar með unnið í samræmi við áherslur í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland
Ísland sinnir rekstri og viðhaldi þeirra 140 varnarmannvirkja sem er að finna á skilgreindum öryggissvæðum. Þar með talin eru til dæmis flugvallarmannvirkin á Keflavíkurflugvelli. Auk þess er olíubirgðastöð í Helguvík og á Keflavíkurflugvelli, stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, ratsjár- og fjarskiptastöðvar og ljósleiðari sem liggur kringum landið. Alls eru 87 þessara mannvirkja á eignaskrá Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins en 53 í eigu íslenska ríkisins.
Utanríkisráðuneytið annast rekstur, umsjón og hagnýtingu mannvirkja og annarra eigna Atlantshafsbandalagsins hér á landi í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar og heimildir Íslands sem notenda- og gistiríkis. Reksturinn tekur mið af reglum og stöðlum bandalagsins varðandi slíka starfsemi og venjubundinni notendaríkisframkvæmd bandalagsríkjanna.
Viðhald og rekstur varnarmannvirkja og búnaðar fellur undir 6 áhersluþátt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Það er forsenda þess að Ísland geti fullnægt rekstrar- og gistiríkisskuldbindingum sem byggjast á tvíhliða varnarsamningum við Bandaríkin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.
- Greinargerð með lögum nr. 176/2006 um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
- Auglýsing í Stjórnartíðindum nr. 610/2008 um mannvirki og fjarskiptakerfi Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem Varnarmálastofnun ber ábyrgð á.
Loftrýmiseftirlit, loftrýmisgæsla og kafbátaeftirlit
Loftrýmiseftirlit er kerfisbundið eftirlit loftrýmis með rafrænum, sjónrænum eða öðrum aðferðum, aðallega í þeim tilgangi að bera kennsl á og afmarka hreyfingar loftfara innan loftrýmisins þar sem eftirlitið fer fram. Loftrýmisgæsla byggir á notkun loftfara og annars búnaðar í þeim tilgangi að hafa eftirlit með og gæta loftrýmisins á loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins.
Fastaráð Atlantshafsbandalagsins samþykkti árið 2007 að hefja loftrýmisgæslu hér á landi að beiðni íslenskra stjórnvalda. Loftrýmisgæsla er liður í að gæta að nyrðri mörkum bandalagsins með kerfisbundnu eftirliti loftrýmis. Þátttökuríki hverju sinni koma með fjórar til fjórtán orustuþotur og liðsafla á bilinu 60 til 300 manns. Fram til loka árs 2021 höfðu 11 ríki Atlantshafsbandalagsins sinnt loftrýmisgæsluverkefnum á Íslandi, en Bandaríkin taka árlega þátt í verkefninu.
Á undanförnum árum hefur aukinnar kafbátaumferðar orðið vart í kringum Ísland. Árið 2014 hófu Bandaríkin og fleiri bandalagsríki á ný kafbátaeftirlit frá Íslandi og hafa verkefni á þessu sviði aukist ár frá ári.
Varnaræfingar
Varnaræfingar hér við land fara fram á grundvelli aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningsins við Bandaríkin. Fleiri varnaræfingar á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum eru til marks um þróun í öryggishorfum í okkar heimshluta á síðustu árum. Helstu æfingar hér við land eru Norðurvíkingur (e. Northern Viking), sem er tvíhliða æfing Íslands og Bandaríkjanna, Dynamic Mongoose, sem er kafbátaeftirlitsæfing á vegum Atlantshafsbandalagsins, og Northern Challenge, sprengjuleitaræfing sem fjármögnuð er af bandalaginu.
Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er komið inn á mikilvægi þess að tryggja að til staðar sé sérþekking til að sinna störfum á sviði öryggis- og varnarmála. Þátttaka borgaralegra sérfræðinga frá Íslandi í undirbúningi og framkvæmd varnaræfinga stuðlar að því markmiði með þjálfun og uppbyggingu þekkingar. Æfingar stuðla að nauðsynlegri þekkingu á varnarumhverfi Íslands innan Atlantshafsbandalagsins og hjá Bandaríkjunum og á aðstæðum á Íslandi, sérstöðu landsins og varnarhagsmunum.
Útsendir sérfræðingar
Framlag til friðaruppbyggingar er mikilvægur liður í alþjóðasamstarfi Íslands og grundvallarþáttur í störfum innan Sameinuðu þjóðanna. Auk fjárframlaga til alþjóðlegrar friðargæslu SÞ felst þátttaka Íslands í friðargæsluverkefnum í störfum sérfræðinga á vettvangi.
Árið 2006 var áhersla aukin á þátttöku í borgaralegum friðargæsluverkefnum, í uppbyggingarstarfi og á svið jafnréttismála. Í ljósi breytinga á öryggisumhverfi Evrópu frá árinu 2014 juku íslensk stjórnvöld áherslu á framlög til verkefna Atlantshafsbandalagsins á borgaralegum grundvelli á þeim sviðum þar sem Ísland hefur sérþekkingu fram að færa. Frá árinu 2017 hefur umsýsla vegna tímabundinna útsendra sérfræðinga verið tvískipt, annars vegar vegna þátttöku í öryggis- og varnartengdum verkefnum og hins vegar í mannúðar- og þróunartengdum verkefnum.
Sérfræðingar sem sendir eru út á vegum utanríkisráðuneytisins eru borgaralegir sérfræðingar á ýmsum sviðum sem starfa að margvíslegum langtíma- og skammtímaverkefnum. Áhersla er lögð á jafna kynjaskiptingu í hópi sérfræðinga sem starfa erlendis og allir útsendir sérfræðingar sækja námskeið í jafnréttismálum, auk annarra námskeiða eftir því sem verkefnið krefst.
Hergagnaflutningar
Hergagnaflutningar fara fram um allan heim, í lofti, á láði og legi. Flutningur hergagna með borgaralegum eða ríkisloftförum um íslenskt yfirráðasvæði er óheimill nema með leyfi utanríkisráðherra.
Frá vorinu 2019 hefur utanríkisráðuneyti farið með leyfisveitingar vegna flutninga hergagna um íslenska lofthelgi og í íslenskum loftförum. Samgöngustofa sér um umsýslu og samskipti við umsækjendur en meðferð og mat umsókna, umsagnir á grundvelli mannúðar, varnar- og öryggishagsmuna, alþjóðamála, gildandi þvingunaraðgerða og slíkra skuldbindinga, fer fram í utanríkisráðuneytinu. Alþjóðlegar þvingunaraðgerðir, fyrst og fremst öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, setja verulegar hömlur á hergagnaflutninga.
Engin gereyðingarvopn mega koma inn á íslenskt yfirráðasvæði, þ.m.t. kjarnavopn, efnavopn og lífefnavopn.
Yfirflugs-, lendingar- og hafnarleyfi
Utanríkisráðuneytið veitir erlendum ríkisloftförum, borgaralegum og hernaðarlegum, leyfi til yfirflugs í íslenskri lofthelgi og lendingar á íslenskri grundu. Opin ársleyfi eru veitt ríkisloftförum ríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess, auk annarra ríkja sem fljúga reglulega yfir Norður-Atlantshaf. Ríkin tilkynna jafnframt um hvert flug fyrirfram til ráðuneytisins og annarra þar til bærra stjórnsýslustofnana. Tímabundin leyfi eru veitt ríkisloftförum annarra ríkja.
Utanríkisráðuneytið veitir erlendum ríkisskipum siglingaleyfi um íslensk yfirráðasvæði og ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisskip getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða friðsamlega för í skilningi hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðuneytið veitir einnig leyfi vegna vísindalegra rannsókna erlendra ríkja í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Umsóknir um siglinga-, hafnar- og rannsóknarleyfi berast frá viðkomandi sendiráði og leitar utanríkisráðuneytið umsagnar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landhelgisgæslunnar og eftir atvikum annarra ríkisstofnana áður en rannsóknarleyfi eru veitt.
Öryggis- og varnarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.