Hoppa yfir valmynd

Fjölþáttaógnir

Tilkoma internetsins og miklar tækniframfarir síðustu ára hafa leitt til þess að ógnir við öryggi ríkja eru ekki lengur bundnar við hefðbundnar hernaðarógnir.

Hugtakið fjölþáttaógnir vísar til samhæfðra og samstilltra aðgerða óvinveittra ríkja eða aðila tengdum ríkjum sem beita fjölbreyttum aðferðum, á skipulagðan hátt, til að nýta sér kerfislæga veikleika lýðræðisríkja og/eða stofnana þeirra. Til þeirra teljast t.d. netárásir, efnahagsþvinganir og fjárfestingar í lykilinnviðum- og tæknifyrirtækjum, falsfréttir og íhlutun í lýðræðislega ferla og stofnanir. Tilgangurinn er að hafa áhrif á ákvarðanatöku yfirvalda með aðgerðum sem grafa undan eða skaða viðkomandi ríki og/eða stofnanir þess. 

Mikilvægi aukins viðnámsþols ríkja gagnvart fjölþáttaógnum skipar sífellt veigameiri sess í umræðum um öryggis- og varnarmál á alþjóðavettvangi sem og innan ríkja. Fjölþáttaógnir og -aðgerðir virða hvorki landamæri, skil á milli stofnana innan ríkja né mörk hins opinbera og einkageirans. Þær geta verið margháttaðar og eru hannaðar á þann veg að auðvelt er að neita sök og erfitt er að draga aðila til ábyrgðar. Breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum en áður hefur þekkst og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar og á alþjóðavettvangi.

Ísland tekur þátt í alþjóðasamstarfi og samtali um málefni fjölþáttaógna m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins, á samstarfsvettvangi Norðurlandanna (N5 og NORDEFCO), Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) og í tvíhliða samstarfi.

Í ljósi vaxandi mikilvægis málaflokksins var sett á fót deild fjölþáttaógna innan öryggis- og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í nóvember 2020. Markmið hennar er að tryggja hagsmuni landsins í síbreytilegu öryggisumhverfi nútímans. Deildin leiðir starf ráðuneytisins á sviði fjölþáttaógna, sinnir upplýsingaúrvinnslu, gerð hættumats og áætlana. Auk þess dregur hún saman og byggir upp þekkingu á fjölþáttaógnum og annast samstarf við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir innanlands, sem og á alþjóðavettvangi.

Netöryggismál

Netöryggi er allt í senn tæknilegt og praktískt innanríkismál, þjóðaröryggis- og varnarmál, utanríkis- og efnahagsmál. Netöryggismál varða trúverðugleika landsins í alþjóðasamstarfi og viðskiptum og varða öryggi og varnir vina- og bandalagsríkja Íslands. Í takt við tækniframfarir hafa netárásir á mikilvægar stofnanir ríkja, innviði og fyrirtæki sem og á alþjóðastofnanir stóraukist. Netógnir og -árásir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir ríki, stofnanir, og fyrirtæki, orðstír þeirra, svigrúm þeirra til stefnumótunar og aðgerða sem og á efnahag.

Hröð tækniþróun síðustu ára hefur leitt til þess að umfang netöryggismála sem hluta af utanríkis-, öryggis- og varnarmálum ríkja hefur aukist. Nauðsynleg efling netvarna kallar á öflugt samstarf og samráð ólíkra ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja sem og virkt samráð við vina- og bandalagsríki. Atlantshafsbandalagið hefur skilgreint Netið sem eitt aðgerðasviða bandalagsins og hafa ríki þess skuldbundið sig til að efla varnir innlendra kerfa og innviða. Geta til að takast á við netárásir er á ábyrgð og forræði hvers ríkis. Netárás getur kallað á viðbrögð á grundvelli fimmtu greinar Atlantshafssáttmálans um sameiginlegar varnir.

Í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 þurftu mörg ríki að bregðast við stórauknum fjölda netárása af hálfu erlendra ríkja eða aðila tengdum ríkjum. Aukin fjarvinna kallar jafnframt á aukna árvekni og viðnámsþol á sviði netvarna, ekki síst hjá þeim aðilum sem fara með viðkvæmar upplýsingar.

Upplýsingaóreiða

Reynslan hérlendis hefur sýnt að viðnámsþol gagnvart upplýsingaóreiðu er gott. Má í því samhengi vísa til lítils móttækileika íslensks almennings gagnvart falsfréttum og misvísandi upplýsingum sem fóru í dreifingu þegar COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst á Íslandi. Engu að síður er mikilvægt að almenningur sé á varðbergi gagnvart slíkum ógnum. Viðfangsefnið er ofarlega á baugi í því alþjóðasamstarfi sem Ísland er þátttakandi í á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála og telst til ógnar sem grafið getur undan alþjóðakerfinu, lýðræði, samfélagslegri samheldni og mannréttindum.

Falsfréttir, misvísandi eða rangar upplýsingar og áróður eru birtingarmyndir breytts öryggisumhverfis ríkja. Hraðinn er mikill og samfélagsmiðlar og breytt fjölmiðlun leika veigamikið hlutverk. Ríki eða aðilar tengdir ríkjum hafa beitt upplýsingaóreiðu gegn þeim sem þeir álíta andstæðinga sína.

Umfang falsfrétta og villandi upplýsinga í tengslum við COVID-19 faraldurinn er gott dæmi um hvernig mikið magn upplýsinga, bæði réttra og rangra, dreifist hratt um ólíka miðla og gerir fólki erfiðara um vik að nálgast áreiðanlegar upplýsingar. Samfélög þurfa að vera vel í stakk búin til að draga fram og hrekja rangar eða misvísandi upplýsingar. Dæmin sýna að slíkar aðgerðir geta verið liður í að grafa undan trausti á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum og aðgerðum þeirra, valda klofningi í samfélaginu og hafa áhrif á hegðun og afstöðu borgaranna til eða þátttöku í lýðræðislegum ferlum.

Stefnumiðaðar efnahagsaðgerðir

Ísland er háð góðu aðgengi að alþjóðamörkuðum og alþjóðaviðskiptum til að viðhalda góðum lífskjörum. Sama gildir um öfluga erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og getu Íslendinga til að fjárfesta erlendis, sem getur haft afgerandi áhrif á vöxt, framleiðni og samkeppnishæfni landsins.

Í nágrannalöndum Íslands hefur á síðustu árum orðið vart við aukinn áhuga aðila undir áhrifum erlendra ríkja til fjárfestinga í mikilvægum samfélagssviðum. Af þessu leiðir að ríki og alþjóðastofnanir fjalla í auknum mæli um mikilvægi eftirlits með fjárfestingum erlendra aðila á ákveðnum sviðum, ekki síst út frá sjónarmiðum um þjóðaröryggi og viðnámsþol samfélaga. Einkum er vísað til öryggisbresta sem orðið geta eignist óvinveitt ríki eða aðilar tengdir ríkjum hluti í fyrirtækjum sem ráða yfir, eða hafa beinan eða óbeinan aðgang að, lykilinnviðum, -tækni, -aðföngum, -upplýsingum eða fjölmiðlum.

Mikilvægt er að hugað að strategískum þáttum vegna erlendra fjárfestinga út frá sjónarmiðum um þjóðaröryggi og varnir. Dæmi sýna að áhætta getur falist í því að erlent ríki fari, beint eða óbeint, með ráðandi eignarhlut í þýðingarmiklum innviðum eða fyrirtækjum. Slíkum áhrifum kann að vera beitt til að ná stefnumiðuðum markmiðum af efnahagslegum eða pólitískum toga, sem aftur getur haft áhrif á svigrúm stjórnvalda til stefnumótunar og ákvarðanatöku.

Síðast uppfært: 8.3.2023 0
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum