Hoppa yfir valmynd

Sjávarútvegsmál

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar Íslands og Bretlands, undirrituðu þann 11. nóvember 2020 samkomulag um framtíðarsamstarf ríkjanna í sjávarútvegsmálum. Með samkomulaginu er stofnað til reglulegs samráðs til að viðhalda og efla gott samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Stofnað er til þessa samráðsvettvangs á grundvelli almennrar samstarfsyfirlýsingar Íslands og Bretlands um sameiginlega sýn ríkjanna fyrir 2030, sem undirrituð var í maí 2021. Þessi vettvangur verður nýttur til samstarfs á flestum sviðum sjávarútvegs og tengdum greinum, svo sem skipti á reynslu og þekkingu á sviði fiskveiðistjórnunar, hafrannsókna, útgerðar, fiskvinnslu og nýsköpunar.

Samstarfið nær bæði til sameiginlegra verkefna og til samráðs vegna starfs alþjóðastofnana svo sem Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Þótt samstarfið sé byggt á samstarfi og samráði milli stjórnvalda í ríkjunum tveimur er einnig áhersla á að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og ýmissa annarra aðila sem ekki eru á vegum ríkisins. Á samráðsvettvanginum eru ekki samþykktar bindandi fiskveiðistjórnunarreglur, enda eru engir sameiginlegir fiskistofnar sem eingöngu finnast innan lögsagna Íslands og Bretlands.

Í inngangi samkomulagsins er lögð áhersla á mikilvægi sjálfbærra fiskveiða sem byggja á bestu vísindalegu ráðgjöf, sem leiðarljós beggja landa þegar kemur að málefnum hafsins. Samkvæmt samkomulaginu funda íslenskir og breskir fulltrúar árlega til að viðhalda nánum tengslum og ræða leiðir til að efla samstarf tengt sjávarútvegi: milli stjórnvalda, milli atvinnugreinarinnar í löndunum tveimur, milli rannsóknastofnana og með hverjum þeim öðrum hætti sem mun verða ríkjunum sameiginlega til framdráttar.

Síðast uppfært: 15.11.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum