Hoppa yfir valmynd

Grannríkjasamstarf

Í óstöðugum heimi verður svæðasamstarf æ mikilvægara. Samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8) er þýðingarmikið fyrir öll ríkin. Þau hafa lagt áherslu á að auka samstarfið en óformleg umgjörð þessa samstarfs auðveldar að utanríkisráðherrarnir geti sameiginlega brugðist fljótt við og samræmt stefnu sína og viðbrögð. Einkum hafa utanríkisráðherrar landanna lagt áherslu á stöðugleika Eystrasaltssvæðisins á breiðum grundvelli.

Ótryggt ástand í Rússlandi og Úkraínu er og hefur verið eitt af stærstu áhyggjuefnunum og hefur umræðan á fundum ráðherranna einkum tekið mið af því. Á fundi utanríkisráðherra NB8 í Riga í ágúst 2016 var þess meðal annars minnst að 25 ár voru liðin frá endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkjanna. Þá voru einnig liðin 25 ár síðan þáverandi utanríkisráðherrar Íslands og Eystrasaltsríkjanna hittust í Höfða í Reykjavík og undirrituðu samninga um endurnýjað stjórnmálasamband milli Íslands, Eistlands, Lettlands og Litáens. Að venju voru öryggismál á dagskrá, en einnig samráð um málefni Sameinuðu þjóðanna.

Reglulegt samráð á sér stað milli utanríkisráðherra NB8 ríkjanna og Visegrad-ríkjanna (V4). Á fundi þeirra í Jürmala í Lettlandi í apríl 2016 voru öryggismál í víðu samhengi á dagskrá. Rætt var um orkuöryggi, sem er afar mikilvægt Eystrasaltsríkjunum, sem og almennan stöðugleika í Evrópu.

Svæðisbundið samstarf er afar mikilvægt, en ætíð þarf að hafa sýn á umfang og verkefni í ljósi þess að í Norður-Evrópu er að finna mismunandi svæðisbundin samtök sem Ísland á aðild að. Má í því sambandi nefna Norðurlandasamstarfið, samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (NB8), Eystrasaltsráðið, Norðurslóðasamstarfið, Norrænu víddina, Vestnorræna samstarfið og Barentsráðið. Til að forðast tvíverknað er æskilegt að upplýsingastreymi og glögg yfirsýn sé til staðar. Breytingar á innra skipulagi í utanríkisráðuneytinu, þar sem svæðisbundnu samstarfi er komið fyrir undir sameiginlegri stjórn, er liður í þeirri viðleitni.

Efst á baugi

Unnið verður vel að undirbúningi formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019 í nánu samráði við önnur ráðuneyti og stofnanir, undir stjórn samstarfsráðherra Norðurlanda og formennskuáætlun Íslands sem er til þriggja ára. Áfram verður unnið að undirbúningi formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu með stöðugleika, samvinnu og sjálfbærni að leiðarljósi. Innlent samráð um málefni norðurslóða verði eflt og þátttöku þeirra fagráðuneyta og undirstofnana sem nauðsynleg er í alþjóðasamstarfinu komið í fastar skorður. Upplýsingamiðlun um áskoranir, ógnir, tækifæri og samstarf á norðurslóðum verður aukin, í samvinnu við þar til bæra aðila á Akureyri og í Reykjavík, t.d. Hringborð norðurslóða, Norðurslóðanet Íslands og Norðurslóðasetur HÍ.

Norræn samvinna

Stærsta verkefnið framundan í norrænu samstarfi er formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2019. Íslensk stjórnvöld hafa lagt fram formennskuáætlun fyrir árið 2019 þar sem fram koma þau málefni sem Ísland vill leggja áherslu á og þau formennskuverkefni sem hrint verður af stokkunum. Á formennskuárinu munu ráðherrar og aðrir fulltrúar Íslands stýra fundum á ólíkum stigum norræns samstarfs en margvíslegir viðburðir fara fram á Íslandi í tilefni formennskunnar.

Kjölfestan í samstarfi stjórnvalda er á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls er um að ræða samstarf 11 ráðherra og fagráðuneyta, auk ráðherrasamstarfs um stafræna væðingu. Norrænir fagráðherrar hittast venjulega 1-2 á ári til að ræða sameiginlega hagsmuni og viðfangsefni og á milli hittast embættismenn og ýmsir sérfræðinga- og vinnuhópar til að móta stefnu og undirbúa ákvarðanir ráðherranna. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar í umboði norrænna forsætisráðherra, og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn skapar umgjörð um samstarfið og veitir faglega aðstoð.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna funda einnig tvisvar á ári með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, einu sinni undir merkjum NB8-samstarfsins og í hitt skiptið með utanríkisráðherrum Visegrad-ríkjanna: Póllands, Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands, á hinum svokölluðu NB8-V4 fundum. Á fundum NB8 hefur meðal annars verið fjallað um samskiptin við Rússland og samstarf við Eystrasaltið, um orkuöryggi og netvarnir, og á fundum NB8-V4 er fjallað um svæðisbundið samstarf í breiðu samhengi, um Evrópumál, öryggismál og viðskiptasamstarf, og annað það sem efst er á baugi hverju sinni.

Efnahagssamvinna

Efnahags- og framfarastofnunin (e. Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) í París hefur það markmið að bæta efnahagsþróun og hagvöxt, stuðla að bættum lífskjörum og vexti og þróun heimsviðskipta. Starf stofnunarinnar miðar að því að efla stefnumótun aðildarríkja sinna og vera vettvangur þar sem ríki geta borið saman stefnur og starfshætti, deilt reynslu sinni og leitað lausna á því hvernig skuli mæta sameiginlegum áskorunum. Stofnunin er leiðandi í tölfræðiúttektum og samanburðarrannsóknum og gefur út fjölda skýrslna ár hvert þar sem aðildarríkin og stefnumörkun þeirra á ólíkum sviðum er borin saman og árangur þeirra metinn.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í störfum OECD og nefnda stofnunarinnar um ríkisfjármál, skattamál, stjórnun efnahagsmála og opinbera stjórnsýslu. Ísland tekur einnig virkan þátt í nefndum OECD sem tengjast menntamálum, félagsmálum, umhverfismálum, viðskiptum og fjárfestingum, auk þróunarnefndar OECD.

Pólitískt samstarf

Ísland er aðili að Barentsráðinu (e. Barents Euro-Arctic Council, BEAC) sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna fimm, Rússlands og Evrópusambandsins.

Evrópuráðið er einn mikilvægasti vettvangur ríkja álfunnar til að stuðla að stöðuleika og friði, auk þess að vera vettvangur fyrir mannréttindaumræðu og réttindi borgaranna.

Ísland gegndi formennsku í Eystrasaltsráðinu (e. Council of the Baltic Sea States, CBSS) frá miðju ári 2016 til jafnlengdar 2017. Við lok formennsku Íslands var haldinn fundur utanríkisráðherra aðildarlandanna ellefu, Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar, Eistlands, Lettlands, Litháen, Póllands, Rússlands og Þýskalands, auk Evrópusambandsins. Þetta var fyrsti fundur utanríkisráðherranna í Eystrasaltsráðinu frá því 2013, en ástandið í Úkraínu gerði það að verkum að ekki náðist samstaða milli aðildarlandanna um fundi ráðherra. Venjan hefur verið sú að leiðtogar aðildarríkja ráðsins og utanríkisráðherrar fundi á víxl annað hvert ár. Það var því afar mikilvægt að Íslandi tækist að brjóta ísinn og ná saman fundi utanríkisráðherranna, þar sem mótuð var stefna til framtíðar.

Í Reykjavíkuryfirlýsingu ráðherranna er meðal annars kveðið á um skipun stefnumótunarhóps með fulltrúa frá hverju aðildarríki, sem skila á tillögum á vordögum um framtíðarhlutverk ráðsins og samstarf á svæðinu. Þá er að finna í ályktun ráðherranna hvernig staðið verði að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, en í formennskutíð Íslands var samþykkt áætlun um verklag í þeim efnum. Reykjavíkuryfirlýsingin er ágætur vegvísir um stefnu og störf ráðsins á næstu misserum og árum. Í starfsemi Eystrasaltsráðsins er komið víða við, en þar er að finna verkefni er tengjast baráttunni gegn mansali, sjálfbærri þróun, nýsköpun, samstarfi við borgarasamtök og barnavernd þar sem Ísland hefur um margt verið í forystu um árabil. Áhersluatriði Íslands á formennskuári voru málefni barna, jafnrétti og lýðræði.

Undirbúningur vegna formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council) 2019-2021 er nú kominn vel á rekspöl. Formennska í ráðinu er umfangsmikið verkefni en málefni þau sem Norðurskautsráðið fæst við tengjast inn í fjölbreytta málaflokka sem lúta að sjálfbærri þróun svæðisins og umhverfisvernd. Þar má helst nefna loftslagsbreytingar, nýtingu og vernd náttúruauðlinda ásamt samfélagsbreytingum og atvinnuþróun.

Norðlæga víddin er samráðsvettvangur Evrópusambandsins, Íslands, Noregs og Rússlands um málefni Norðvestur-Evrópu. Innan Norðlægu víddarinnar eru rekin fjögur málefnasvið sem fjalla um lýðheilsu og félagslega velferð, samgöngur og flutninga, menningu og umhverfismál. Enn fremur eru rekin viðskiptaráð og upplýsingagátt um málefni víddarinnar.

Viðskiptamál

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) (e. European Economic Area, EEA) kallar á öfluga hagsmunagæslu af hálfu íslenskra stjórnvalda, samráð við Alþingi og hagsmunaaðila og skilvirka vinnu bæði við undirbúning að upptöku löggjafar á sviði innri markaðarins í EES-samninginn, sem og við innleiðingu EES-reglna í íslenska löggjöf.

Með EES-samningnum er Ísland, ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES, þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins (e. European Union, EU). Með samningnum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði sem byggir á frjálsum vöruflutningum, frjálsri för launafólks, frjálsri þjónustustarfsemi og staðfesturétti, ásamt frjálsum fjármagnshreyfingum (fjórþætta frelsið). EES-samningurinn byggir á svonefndu einsleitnimarkmiði en í því felst að hvarvetna innan EES eiga að gilda sömu reglur á þeim sviðum sem samningurinn nær yfir. Af þessu leiðir að þeim ríkjum sem eiga aðild að EES ber að innleiða í löggjöf sína þær reglur sem samþykktar hafa verið á vettvangi EES-samstarfsins.

Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (e. European Free Trade Association, EFTA) hafa gert 27 fríverslunarsamninga sem taka til 38 ríkja utan ESB og hafa 26 þeirra samninga þegar tekið gildi. Í september á síðasta ári tók gildi fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Georgíu. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja var lögð fram á 146. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Gert er ráð fyrir endurframlagningu tillögunnar á yfirstandandi löggjafarþingi.

Öryggis- og varnarmál

Síðast uppfært: 22.11.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira