Hoppa yfir valmynd

Norræna ráðherranefndin

Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er vettvangur ríkisstjórnasamstarfs Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Samvinna við grannríki Norðurlanda er mikilvægt verkefni og sama gildir um allt samstarf sem eflir áhrif landanna í Evrópu.  Hafður er að leiðarljósi norrænn virðisauki en með því er átt við að samstarfið fari fram á sviðum þar sem hagsmunir þjóðanna fara saman og hagkvæmara er að sameina kraftana og takast í sameiningu á við úrlausnarefnin.

Kjölfestan í samstarfi stjórnvalda er á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Alls er um að ræða samstarf 11 ráðherra og fagráðuneyta, auk ráðherrasamstarfs um stafræna væðingu. Norrænir fagráðherrar hittast venjulega 1-2 á ári til að ræða sameiginlega hagsmuni og viðfangsefni og á milli hittast embættismenn og ýmsir sérfræðinga- og vinnuhópar til að móta stefnu og undirbúa ákvarðanir ráðherranna. Samstarfsráðherrar Norðurlandanna bera ábyrgð á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar í umboði norrænna forsætisráðherra, og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn skapar umgjörð um samstarfið og veitir faglega aðstoð.

Norræna ráðherranefndin er fjármögnuð sameiginlega af löndunum og gerir fjárhagsáætlun fyrir þetta ár ráð fyrir útgjöldum að upphæð 980 milljón danskra króna eða tæplega 16 milljörðum króna. Þar af greiðir Ísland á árinu 2019 rúmlega 1,0% eða um 160 milljónir króna á ári. Til samanburðar má nefna að fjárveiting Norrænu ráðherranefndarinnar til Norræna hússins í Reykjavík, sem fagnaði 50 ára afmæli á síðasta ári, nemur tæplega 220 milljónum króna árlega. Þá er ógetið fjármögnunar formennskuverkefna Íslands og styrkja og fjárframlaga, sem íslenskir aðilar njóta frá sameiginlegum norrænum stofnunum og verkefnum, s.s. á sviði rannsókna og þróunar, menningar og mennta. Þessu til viðbótar nýtur Ísland góðs af málefnasamstarfinu sem slíku auk þess að hafa sterka pólitíska fótfestu sem eitt Norðurlandanna.

Höfuðstöðvar Norrænu ráðherranefndarinnar eru staðsettar Ved Stranden 18 í Kaupmannahöfn. Starfa þar um 110 manns en á stofnunum ráðherranefndarinnar eru yfir 200 starfsmenn. Starfsemin er fjármögnuð með framlögum frá norrænu ríkjunum í réttu hlutfalli við íbúatölu og þjóðarframleiðslu. Norrænu ríkin skiptast á um að gegna formennsku í ráðherranefndinni.

Efst á baugi

Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Enda þótt formennskan sjálf sé til eins árs þá er formennskuáætlun Íslands og þau verkefni sem verður hrundið af stað til þriggja ára, þ.e. til ársins 2021. Formennskuáætlanir ríkja skarast og gefa tilefni til eftirfylgni þótt nýtt ríki sé tekið við formennsku. Ísland gegndi þessu hlutverki síðast árið 2014 og þá voru einkunnarorð vel heppnaðrar formennsku „Gróska og lífskraftur“.

Til formennskuverkefna Íslands verður varið 15 milljónum danskra króna á ári í þrjú ár. Hagsmunir og áherslur Íslands, Norðurlandanna og vestnorræna svæðisins, að ógleymdum heimsmarkmiðum SÞ, mynda grunninn að formennskuáætluninni. Hún mun að auki taka mið af fyrri formennskuáætlunum til að tryggja samfellu í stefnu og verkefnum. Þá er stefnt að samlegðaráhrifum með formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem einnig hefst á næsta ári en áætlanir gera ráð fyrir að málefni hafsins verði áberandi í báðum þessum formennskum.

Tenglar

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum