Hoppa yfir valmynd

Mannréttindi í utanríkisstefnu

Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Í samræmi við 55. og 56. gr stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa aðildarríkin skuldbundið sig til aðgerða sem stuðla að og efla viðurkenningu á mannréttindum og grundvallarfrelsi án nokkurrar mismununar.

Rúm 70 ár eru nú liðin frá því mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í desember 1948. Þrátt fyrir að mannréttindayfirlýsingin sé ekki bindandi þá hefur hún í áranna rás áunnið sér þann sess að vera gildandi þjóðaréttur og sá grunnur sem grundvallar mannréttindasamningar og yfirlýsingar alþjóðasamfélagsins byggir á. Í mannréttindayfirlýsingunni er að finna ákvæði um borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg réttindi og hún er vegvísir alþjóðlegs mannréttindastarfs.

Ísland vinnur að vernd og eflingu mannréttinda í heiminum fyrst og fremst á vettvangi viðkomandi alþjóðastofnana. Þær eru helstar: Sameinuðu þjóðirnar (mannréttindaráð SÞ í Genf, þriðja nefnd allsherjarþingsins í New  York og nefnd SÞ um stöðu kvenna), ÖSE í Vínarborg og Evrópuráðið í Strassborg. Þannig er unnið að framgangi alþjóðlegra mannréttinda á ýmsum starfsstöðvum utanríkisþjónustunnar, aðallega þó við fastanefndir Íslands í Genf, New York og Strassborg, auk aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Það er til að mynda gert með þátttöku í að tryggja framkvæmd gildandi alþjóðasamninga á sviði mannréttinda; með þátttöku í gerð nýrra alþjóðasamninga og með þátttöku í ályktanagerð; skoðanaskiptum og grasrótarstarfi þar sem aðgerðir og stefnur alþjóðasamfélagsins eru mótaðar. Ísland tekur þátt í að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á því ef virðingu fyrir mannréttindum er ábótavant, og mannréttindabrot eru jafnvel kerfisbundin, og leitar leiða til að sporna gegn slíku. Ísland ræðir ástand mannréttindamála, á tvíhliða fundum jafnt sem fjölþjóðlegum, og tekur virkan þátt í leit að leiðum til úrbóta þar sem þess gerist þörf.

Helstu áherslur Íslands:

  • réttindi kvenna og barna og að vinna gegn öllu ofbeldi og mismunun gagnvart konum og börnum
  • jafnrétti kynjanna
  • aðgerðir gegn mansali
  • að beita sér fyrir umræðum á vettvangi SÞ um kynhneigð og bættum réttindum samkynhneigðra
  • að aðgerðir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda
  • að beita sér fyrir algeru banni við pyntingum, afnámi dauðarefsinga og aftökum án dóms og laga
  • að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum og refsileysi
  • tengsl mannréttinda, friðar og öryggis og ábyrgð alþjóðasamfélagsins

Mannréttindi snerta alla, alls staðar og eru óháð tíma og rúmi. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindareglur Sameinuðu þjóðanna eru bæði alþjóðlegar og algildar og full virðing mannréttinda er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls. Mannréttindi snúast um að verja virðingu mannneskjunnar samtímis því sem virðing skal borin fyrir fjölbreytileika mannsins og þeirrar menningar sem hann býr við. Skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála eru horfin. Langur vegur er hins vegar oft á milli orða og athafna og alvarleg mannréttindabrot eiga sér enn stað í mörgum ríkjum heims.

Í dag er víðtækari skilningur en áður á samspili mannréttinda, sjálfbærrar þróunar, friðar og öryggis og nú er lögð aukin áhersla á tengingu og samspil mannréttinda, lýðræðisþróunar og réttarríkisins. Þessi svið skarast að sjálfsögðu oft og skapa þá áleitnar spurningar. Grundvallarstefna Íslands í mannréttindamálum samþættist öllum sviðum utanríkisstefnunnar. Mannréttindi eru óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu Íslands og samofin öllu alþjóðastarfi landsins. Ísland hefur fullgilt alla helstu alþjóðasamninga um mannréttindi og beitir sér fyrir aðild annarra ríkja að þessum samningum og fyrir framkvæmd þeirra.

Efst á baugi

Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf í fyrsta sinn í júlí 2018. Óhætt er að fullyrða að um sé að ræða eitt veigamesta hlutverk sem Ísland hefur gegnt á alþjóðavettvangi og einstakt tækifæri til að láta gott af sér leiða. Segja má að kosning Íslands sé rökrétt framhald á vaxandi áherslu á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands síðastliðin ár og samræmist vel stefnu ríkisstjórnarinnar.

Á undanförnum árum hefur Ísland getið sér gott orð fyrir framgöngu í mannréttindamálum en málflutningur Íslands á alþjóðavettvangi hefur ekki síst tekið mið af áherslum á kynjajafnrétti, valdeflingu kvenna og réttindum hinsegin fólks (LGBTI). Ísland hefur lagt aukna rækt við mannréttindaráðið á umliðnum árum sem áheyrnarfulltrúi. Ísland var til að mynda í forystuhlutverki í samstarfi þjóða sem áhyggjur höfðu af stöðu mannréttinda á Filippseyjum. Leiða má að því líkur að framganga Íslands í þeim málum hafi stuðlað að því að horft var til Íslendinga þegar eitt sæti í ríkjahópi Vesturlanda (WEOG-hópsins svonefnda) losnaði í júní 2018 þegar Bandaríkin sögðu sig úr mannréttindaráðinu.

Ísland á sæti í mannréttindaráðinu út árið 2019 og áhersla er lögð á að sinna því verki eins vel og frekast er unnt. Ísland vinnur að framgangi mannréttindamála víðar, svo sem í mannréttindanefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna, hjá Evrópuráðinu í Strassborg og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vín og í undirstofnun ÖSE sem og Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE (ODIHR) sem hefur höfuðstöðvar í Varsjá í Póllandi. Sú stofnun lýtur um þessar mundir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þá koma mannréttindamál iðulega einnig upp í tvíhliða viðræðum Íslands við önnur ríki. Nefna má sem dæmi fundi utanríkisráðherra á síðustu misserum í heimsóknum til Kína, Japans, Indlands og Malaví.

Utanríkisráðuneytið gerði nýjan samstarfssamning við Mannréttindaskrifstofu Íslands (MRSÍ) í desember 2018. Samningurinn kveður á um áframhaldandi fjárstuðning. Mannréttindaskrifstofan, sem myndar eins konar regnhlífarsamtök frjálsra félagasamtaka á sviði mannréttinda, veitir ráðuneytinu faglega ráðgjöf sem helsti samstarfsaðili þess í þessum efnum.

Ísland hefur verið virkt í málflutningi um réttindi LGBTI fólks. Ísland var í hópi 16 aðildarríkja ÖSE, sem lét gera skýrslu um ofsóknir í Tsjetsjeníu-lýðveldinu í Rússlandi. Í mannréttindanefnd ÖSE hefur á árinu 2019 meðal annars verið fjallað um stjórnmálaþátttöku, málfrelsi og fjölmiðlafrelsi, kosningar, baráttu gegn pyntingum og baráttu gegn ofbeldi í garð kvenna.

Seta Íslands í mannréttindaráðinu 2018-2019

Víða um heim var þess minnst 10. desember 2018 að liðin voru 70 ár frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt formlega. Hér heima var haldin ráðstefna á vegum stýrihóps Stjórnarráðsins um mannréttindi og frjálsra félagasamtaka, undir forystu Mannréttindaskrifstofu Íslands. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra tóku þátt í ráðstefnunni. Nokkrar blikur eru á lofti hvað varðar virðingu fyrir mannréttindum og af þeim sökum er það einkar krefjandi verkefni fyrir Ísland að sitja í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Aðdragandi að kjöri Íslands í ráðið var skammur. Aukakosning fór fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. júlí 2018 í kjölfar þess að Bandaríkin gengu úr mannréttindaráðinu. Ísland hlaut þar 172 af 178 greiddum atkvæðum. Áður hafði Ísland lýst áherslum sínum, ef til setu í mannréttindaráðinu kæmi, í sérstöku heitaskjali sem dreift hafði verið til aðildarríkjanna. Þar kemur fram, sem eðlilegt má telja í ljósi áherslna Íslands almennt, að jafnréttismálum verði haldið á lofti meðan á setu í ráðinu stendur, réttindum hinsegin fólks (LGBTI) og réttindum barna, auk þess sem Ísland tali fyrir umbótum á starfsemi mannréttindaráðsins og tengslum mannréttinda við umhverfismál.

Að því er varðar einstaka áhersluþætti Íslands er ástæða til að geta þess að fundalota mannréttindaráðsins í júní er jafnan helguð jafnréttismálum og tók forsætisráðherra þátt í þeirri lotu í júní 2019. Utanríkisráðherra tók þátt í árlegri ráðherraviku ráðsins í febrúar 2019 og lagði þar áherslu á málefni hinsegin fólks, jafnframt því sem hann ítrekaði mikilvægi þess að umbætur yrðu gerðar á starfi mannréttindaráðsins. Ráðherra hefur meðal annars gagnrýnt að í mannréttindaráðinu sitji ríki sem með réttu ættu frekar að vera umfjöllunarefni ráðsins en sitja í dómarasætinu þegar gengið er til atkvæðagreiðslu um ályktanir. Nægir þar að nefna tvö nærtæk dæmi en Sádi-Arabía og Filippseyjar hafa bæði gerst sek um alvarleg mannréttindabrot en sitja þó í mannréttindaráðinu. Þá er stutt síðan Venesúela átti sæti í ráðinu. Ennfremur benti ráðherra á að rétt og eðlilegt væri að fleiri aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fengju tækifæri til að taka sæti í ráðinu, þ.m.t. fámennari ríki eins og Ísland. Félags- og barnamálaráðherra tók einnig þátt í fundalotu ráðsins í mars 2019 en þá fór fram sérstök umræða um réttindi barna.

Frá upphafi var ljóst að til að leysa það verkefni að sitja tímabundið í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þyrfti að styrkja þann hóp sem sinnir ráðinu. Útsendum starfsmönnum hjá fastanefnd Íslands í Genf var strax fjölgað tímabundið og tveir starfsmenn fastanefndarinnar sinna þar mannréttindaráðinu í fullu starfi. Í fundalotum ráðsins – mannréttindaráðið fundar þrisvar sinnum á ári í þriggja vikna fundalotum – er fastanefndin enn frekar styrkt að heiman, auk þess sem gætt er að virku samráði og upplýsingaflæði til fastanefnda í New York, Vín og Strassborg.

Sérstök ástæða er til að nefna víðfeðmt samráð sem haft er við aðrar Norðurlandaþjóðir, auk Eystrasaltsþjóðanna, bæði í Genf og milli höfuðborga ríkjanna. Fulltrúar Norðurlandanna fluttu fjórar sameiginlegar ræður í fundalotunni sem fram fór í september 2018 og fimm ræður voru fluttar sameiginlega undir merkjum NB8-ríkja. Svipað var uppi á teningnum í fundarlotunni í mars 2019.

Í tengslum við setuna í mannréttindaráðinu er einnig álitið mikilvægt að viðhafa gott samráð við hlutaðeigandi aðila hér heima. Gengið hefur verið út frá því að samráð fari fram við utanríkismálanefnd Alþingis í aðdraganda hverrar fundalotu ráðsins að lágmarki og þá er virkt samráð milli ráðuneyta í gegnum fyrrnefndan stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi. Einnig er þess gætt að fram fari reglubundið samráð við einstaka stofnanir og frjáls félagasamtök.

Verkefni mannréttindaráðsins

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var sett á fót árið 2006 og byggir á grunni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem starfaði frá 1946. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot og beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum með ályktunum.

Á meðan Ísland situr í mannréttindaráðinu verða haldnar fjórar reglubundnar fundalotur, í september 2018, mars 2019, dagana 24. júní til 12. júlí 2019 og 9.–27. september 2019.

Mannréttindaráðið fjallar bæði um einstök réttindamál og málefni einstakra ríkja og eykur fjölbreytni ríkjanna sem í ráðinu sitja lögmæti þess. Samstaða hefur náðst um að senda rannsóknarnefndir út af örkinni til að kanna stöðu mannréttinda í einstökum ríkjum, til dæmis í Suður-Súdan, Sýrlandi og Norður-Kóreu. Á vegum mannréttindaráðsins starfa einnig sérstakir skýrslugjafar og vinnuhópar sem heimsækja ríki, skoða stöðu mannréttinda og veita ríkjum ráðgjöf. Nefna má sem dæmi skýrslugjafa um stöðu tjáningarfrelsis, trúfrelsis, réttinda fólks með fötlun og hinsegin fólks og bann við pyntingum og aftökum án dóms og laga.

Mannréttindaráðið kemur stundum saman utan föstu fundalotanna til að ræða einstök brýn mannréttindamál og þess ber að geta að ráðið kemur einnig saman þrisvar sinnum á ári til að taka fyrir allsherjarúttektir – einnig kenndar við jafningjarýni – á ástandi mannréttindamála í aðildarríkjunum. Úttektirnar hafa verið gerðar frá stofnun ráðsins 2006 og gefa tækifæri til yfirferðar á stöðu mannréttinda í öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Aldrei áður höfðu ríkin þurft að svara fyrir stöðuna heima fyrir með sambærilegum hætti og aðferðin virðist hafa skilað ríkulegum árangri. Ísland tekur mjög virkan þátt í jafningjarýninni og setur fram tilmæli til allra ríkja sem tekin eru fyrir. Ísland hefur sjálft undirgengist slíka rýni tvívegis, síðast haustið 2016.

Fastafulltrúi Íslands kjörinn varaforseti

Ísland gegnir mikilvægu ábyrgðarhlutverki í mannréttindaráðinu meðan á setu þess stendur en fastafulltrúi Íslands í Genf var í byrjun desember 2018 kjörinn til þess að fara með embætti varaforseta ráðsins. Hann er fulltrúi Vesturlandahópsins í stjórn ráðsins. Auk fastafulltrúa Íslands verða fastafulltrúi Króatíu, Fiji og Argentínu varaforsetar ráðsins að þessu sinni. Forseti mannréttindaráðsins kemur frá Senegal. Hlutverk varaforseta ráðsins er að stýra fundum og öðrum verkefnum, í samstarfi við forseta ráðsins hverju sinni.

Ísland lætur að sér kveða

Frá upphafi varð ljóst að Ísland ætlaði að láta að sér kveða á meðan það ætti setu í mannréttindaráðinu. Í fundalotu ráðsins í mars lagði Ísland til dæmis mikla áherslu á að samþykkt yrði ályktun sem snýr að vernd þeirra sem berjast fyrir mannréttindum í tengslum við umhverfismál en sú umræða hefur fengið sífellt meira vægi, ekki síst fyrir tilstilli ungs fólks hvarvetna. Þá var samþykkt í ráðinu, meðal annars fyrir tilstilli Íslands, merkileg ályktun sem fjallar um konur og stúlkur í íþróttum þar sem áréttað er að einstaklingar eigi ekki að þurfa að undirgangast ónauðsynlegar, niðurlægjandi og skaðlegar læknisfræðilegar aðgerðir. Í ályktuninni eru réttindi fólks með óhefðbundin kyneinkenni viðurkennd í fyrsta skipti. Ísland studdi ályktunina og lagði sitt af mörkum til að veita henni brautargengi.

Þá er skemmst að minnast frumkvæði Íslands sem fór fyrir 36 ríkjum sem gagnrýndu stöðu mannréttinda í Sádi-Arabíu í fundalotunni í mars. Það er í fyrsta skipti í sögu mannréttindaráðsins sem slíkt er gert. Um þetta var mikið fjallað í erlendum fjölmiðlum og það vakti verðskuldaða athygli.

Jafnréttismál

Starf utanríkisþjónustunnar á sviði jafnréttismála byggist á þeirri áherslu stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að Ísland geti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi og fyrirmynd í jafnréttismálum. Ísland hefur náð góðum árangri í alþjóðlegum samanburði og þær alþjóðlegu viðurkenningar sem Ísland hefur hlotið hafa vakið athygli. Í áratug hefur Ísland verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir árangur ríkja á sviði kynjajafnréttis. Horft er til samstarfs við Ísland um bestu leiðir í jafnréttisbaráttunni. Jafnréttissjónarmið eru samþætt utanríkisstefnu og starfi á alþjóðavettvangi, meðal annars í tengslum við ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi, en einnig sjálfbæra þróun og mannréttindi kvenna, þ.m.t. kyn- og frjósemisheilbrigði, frjósemisréttindi, viðskipti og efnahagslega valdeflingu kvenna.

Yfir 80% framlaga Íslands til þróunarsamvinnu fara í að styðja jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna. Ísland er í þriðja sæti á nýbirtum lista DAC, þróunarsamvinnunefndar OECD, um hlutfall þróunarfjár sem rennur til jafnréttismála. Þá hefur Ísland um nokkurra ára skeið hvatt markvisst til þátttöku drengja og karla í jafnréttisumræðunni með það að markmiði að stuðla að breyttum viðhorfum til kynjajafnréttis og staðalímynda kynjanna.

Íslensk yfirvöld vinna náið með UN Women, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og með íslensku landsnefndinni. Í samvinnu við utanríkisráðuneytið hefur landsnefndin þróað aðferðir til þess að virkja karla í jafnréttisumræðunni á eigin forsendum, ræða um ávinning karla og kvenna af auknu jafnrétti og virkja þá til þátttöku í uppbyggilegri samfélagsþróun. Þátttaka Íslands í 63. fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna á þessu ári vakti athygli, en þar fór forsætisráðherra í fyrsta sinn fyrir íslensku sendinefndinni og tók þátt í fjölmörgum viðburðum og fundum fyrir hönd Íslands.

Utanríkisráðuneytið hefur haft frumkvæði að því að jafnréttisákvæði verði hluti af samningslíkani EFTA í fríverslunarsamningum og fagna ber því að náðst hefur samstaða um það meðal EFTA-ríkjanna. Ísland hefur mörgu að miðla þegar kemur að árangri í jafnréttismálum og utanríkisþjónustan leitast við að finna nýjar leiðir til þess að gera veg Íslands sem mestan í þeim efnum.

 

Landsáætlun Íslands um 1325

Ísland er eitt af öruggustu löndum heims og hefur lengi verið í efstu sætum á lista yfir lönd þar sem hvað mest kynjajafnrétti ríkir. Það er því rökrétt að Ísland hafi verið eitt af fyrstu ríkjum Sameinuðu þjóðanna sem setti sér árið 2008 landsáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Í fyrra var þriðja landsáætlun Íslands um konur, friður og öryggi samþykkt. Hún gildir fyrir tímabilið 2018– 2022.

Við gerð landsáætlunarinnar var meðal annars tekið mið af úttekt Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST) á annarri landsáætlun Íslands um konur, frið og öryggi. Einnig var haft til hliðsjónar hvernig landsáætlanir ríkja sem Ísland ber sig saman við hafa þróast. Meðal nýmæla í áætluninni er að sjónum er beint í ríkari mæli inn á við enda er Ísland ekki undanskilið ábyrgð sem felst í innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 og tengdum ályktunum og því nauðsynlegt að líta í eigin barm. Það er meðal annars gert með því að efla fræðslu og vitundarvakningu um efni ályktunarinnar nr. 1325 og með samræmingu á aðgerðum sem snúa að öryggi kvenna á Íslandi og í alþjóðasamfélaginu.

Nýja landsáætlunin er byggð upp líkt og forveri hennar en tekið var mið af ábendingum umsagnaraðila um hvað mætti betur fara, meðal annars að bæta við frammistöðuvísi, markmiðum og tímaramma fyrir hverja aðgerð. Einnig er tiltekinn ábyrgðaraðili fyrir hverja aðgerð. Þá er kveðið á um að Alþingi verði árlega gerð grein fyrir stöðu mála við framkvæmd áætlunarinnar.

Mannréttindi hinseigin fólks

Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á réttindi hinsegin fólks og vinna ötullega að úrbótum í málaflokknum hér heima fyrir eins og nýlegar breytingar á  löggjöf um kynrænt sjálfræði og löggjöf um jafna meðferð á vinnumarkaði er til marks um. Jafnframt vilja stjórnvöld beita sér með afgerandi hætti á erlendum vettvangi og hafa réttindi hinsegin fólks verið sérstakt áherslumál um nokkra hríð. Þessi stefna byggist á þeirri afstöðu að allir skuli njóta mannréttinda og frelsis óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenna og kyntjáningu.

Utanríkisráðuneytið leggur sitt af mörkum í baráttunni fyrir mannréttindum hinsegin fólks (LGBTI) á alþjóðavettvangi, hvort heldur sem er á vettvangi alþjóðastofnana eða í tvíhliða samskiptum ríkja. Er lögð áhersla á að hinsegin fólk njóti fullra mannréttinda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar en í dag er litið á samkynja sambönd fullorðinna einstaklinga sem glæp í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur utanríkisþjónustan tekið þátt í að stuðla að auknum sýnileka hinsegin fólks m.a. með reglulegri þátttöku í gleðigöngum víða um heim, t.d. í Washington, London, Kaupmannahöfn og Tókýó.

Rík áhersla er lögð á að hvers kyns ofbeldi gegn samkynhneigðum líðist ekki. Mikið verk er hins vegar að vinna í þeim efnum enda sætir hinsegin fólk ofsóknum víða um heim, allt frá Tétsníu í Rússlandi til landa Afríku og Mið-Austurlanda. Í þróunarsamvinnustefnu fyrir árin 2019-2023 er mörkuð sú stefna að allt starf byggist á mannréttindamiðaðri þróunarsamvinnu. Ísland fylgist því sérstaklega grannt með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu.

Ísland átti sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna 2018-2019. Málefni hinsegin fólks voru sett á oddinn þegar Ísland gaf kost á sér til setu og hefur í framhaldinu verið unnið ötullega í málaflokknum á sama vettvangi. Í reglubundinni jafningjarýni mannréttindaráðsins (UPR, Universal Periodic Review) er Ísland gjarnan það ríki sem veitir flest tilmæli til ríkja um umbætur í mannréttindum hinsegin fólks.

Fjármunir hafa verið lagðir til Free & Equal, átaksverkefnis skrifstofu mannréttindafulltrúa SÞ (OHCHR), og Ísland styrkir Global Equality Fund en á vettvangi hans taka líkt þenkjandi ríki höndum saman og styðja við málsvara mannréttinda og grundvallarréttinda hinsegin fólks í þróunarlöndum. Þá var Ísland í hópi ríkja sem árið 2016 studdu tilurð sérstaks embættis sérfræðings mannréttindaráðsins um málefni hinsegin fólks og honum var boðið sérstaklega í heimsókn til Íslands í september 2019 til að eiga samráð við stofnanir og sérfræðinga.

 

Í maí 2020 gerðist Ísland formlega aðili að kjarnahópi ríkja um málefni hinsegin fólks á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York. Markmið hópsins er að vinna að réttindum hinsegin fólks í málefnastarfi SÞ, tryggja virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi, með áherslu á vernd gegn mismunun og ofbeldi, samræma starf ríkja í því augnamiði að vekja athygli á málefnum hinsegin fólks, stuðla að opnu samtali við önnur aðildarríki SÞ og eiga í virku samstarfi við frjáls félagasamtök.

Ísland er einnig aðili að Equal Rights Coalition, bandalagi ríkja sem vilja efla mannréttindi hinsegin fólks hvarvetna. Bandalagið var sett á laggirnar á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var í Úrúgvæ árið 2016 en nú tilheyra því meira en fjörutíu ríki. Á vettvangi Alþjóðabankans er Ísland aðili að mannréttindasjóði bankans en hann styður veglega við málefni hinsegin fólks í verkefnum bankans. Þá er einnig lögð áhersla á málefni hinsegin fólks innan okkar kjördæmis (NB8) í Alþjóðabankanum.

Þá eru ónefndar stofnanir þar sem Ísland flytur og tekur undir ræður þar sem talað er fyrir réttindum hinsegin fólks, s.s. ÖSE, UN Women, Evrópuráðið, UNESCO og OECD. 

Evrópuráðið

Í september 2018 var fyrirsvar gagnvart Evrópuráðinu (Council of Europe) í Strassborg flutt frá sendiráði Íslands í París til utanríkisráðuneytisins. Þessar breytingar tengjast undirbúningi vegna formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins frá nóvember 2022 til maí 2023. Fastafulltrúi gagnvart ráðinu starfar í utanríkisráðuneytinu og einn staðarráðinn starfsmaður starfar hjá fastanefnd Íslands gagnvart Evrópuráðinu og sinnir þar daglegum verkefnum.

47 ríki eiga aðild að Evrópuráðinu, sem fagnar 70 ára afmæli á árinu, en meginviðfangsefni þess eru að stuðla að og berjast fyrir mannréttindum, lýðræði og réttarríki. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur ráðið verið mikilvægur vettvangur Evrópuríkja til að stuðla að friði og stöðugleika í álfunni.

Helstu mál á vettvangi Evrópuráðsins hafa meðal annarra verið áframhaldandi togstreita milli Rússlands og Evrópuráðsþingsins. Rússnesku fulltrúarnir voru sviptir atkvæðarétti á þeim vettvangi árið 2014 í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga. Frá þeim tíma hefur Rússland ekki tekið þátt í störfum þingsins og hætti á árinu 2017 að greiða fjárframlög til ráðsins. Vinnu að lausn málsins verður framhaldið árið 2019, en finnist ekki lausn þarf ráðherranefndin að taka ákvörðun um það, í síðasta lagi í júní 2019, hvort Rússar eigi áfram sæti í Evrópuráðinu eða hvort þeim verði gert að víkja úr ráðinu fyrir brot á samningsskyldum með því að halda eftir greiðslum til ráðsins. Ljóst er að það skaðar stöðu mannréttinda í Evrópu ef Rússland hættir þátttöku í ráðinu, en þó sérstaklega í Rússlandi. Aukin heldur myndi Evrópuráðið horfa fram á breyttar forsendur í starfsmannamálum, fjárhagslega endurskipulagningu og niðurskurð á ýmsum sviðum.

Á árinu 2019 verður nýr aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins kosinn í stað Thorbjørns Jaglands sem gegnt hefur stöðunni í rúm níu ár. Kosningin fer fram í Evrópuráðsþinginu í júní á þessu ári.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira