Hoppa yfir valmynd

Mannréttindi í utanríkisstefnu

Mannréttindi eru einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu. Í samræmi við 55. og 56. gr stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa aðildarríkin skuldbundið sig til aðgerða sem stuðla að og efla viðurkenningu á mannréttindum og grundvallarfrelsi án nokkurrar mismununar.

Rúm 70 ár eru nú liðin frá því mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt í desember 1948. Þrátt fyrir að mannréttindayfirlýsingin sé ekki bindandi þá hefur hún í áranna rás áunnið sér þann sess að vera gildandi þjóðaréttur og sá grunnur sem grundvallar mannréttindasamningar og yfirlýsingar alþjóðasamfélagsins byggir á. Í mannréttindayfirlýsingunni er að finna ákvæði um borgaraleg, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg réttindi og hún er vegvísir alþjóðlegs mannréttindastarfs.

Ísland vinnur að vernd og eflingu mannréttinda í heiminum fyrst og fremst á vettvangi viðkomandi alþjóðastofnana. Þær eru helstar: Sameinuðu þjóðirnar (mannréttindaráð SÞ í Genf, þriðja nefnd allsherjarþingsins í New  York og nefnd SÞ um stöðu kvenna), ÖSE í Vínarborg og Evrópuráðið í Strassborg. Þannig er unnið að framgangi alþjóðlegra mannréttinda á ýmsum starfsstöðvum utanríkisþjónustunnar, aðallega þó við fastanefndir Íslands í Genf, New York og Strassborg, auk aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Það er til að mynda gert með þátttöku í að tryggja framkvæmd gildandi alþjóðasamninga á sviði mannréttinda; með þátttöku í gerð nýrra alþjóðasamninga og með þátttöku í ályktanagerð; skoðanaskiptum og grasrótarstarfi þar sem aðgerðir og stefnur alþjóðasamfélagsins eru mótaðar. Ísland tekur þátt í að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á því ef virðingu fyrir mannréttindum er ábótavant, og mannréttindabrot eru jafnvel kerfisbundin, og leitar leiða til að sporna gegn slíku. Ísland ræðir ástand mannréttindamála, á tvíhliða fundum jafnt sem fjölþjóðlegum, og tekur virkan þátt í leit að leiðum til úrbóta þar sem þess gerist þörf.

Helstu áherslur Íslands:

  • réttindi kvenna og barna og að vinna gegn öllu ofbeldi og mismunun gagnvart konum og börnum
  • jafnrétti kynjanna
  • aðgerðir gegn mansali
  • að beita sér fyrir umræðum á vettvangi SÞ um kynhneigð og bættum réttindum samkynhneigðra
  • að aðgerðir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum megi ekki vera á kostnað mannréttinda
  • að beita sér fyrir algeru banni við pyntingum, afnámi dauðarefsinga og aftökum án dóms og laga
  • að berjast gegn þvinguðum mannshvörfum og refsileysi
  • tengsl mannréttinda, friðar og öryggis og ábyrgð alþjóðasamfélagsins

Mannréttindi snerta alla, alls staðar og eru óháð tíma og rúmi. Þau eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála en ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindareglur Sameinuðu þjóðanna eru bæði alþjóðlegar og algildar og full virðing mannréttinda er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls. Mannréttindi snúast um að verja virðingu mannneskjunnar samtímis því sem virðing skal borin fyrir fjölbreytileika mannsins og þeirrar menningar sem hann býr við. Skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála eru horfin. Langur vegur er hins vegar oft á milli orða og athafna og alvarleg mannréttindabrot eiga sér enn stað í mörgum ríkjum heims.

Í dag er víðtækari skilningur en áður á samspili mannréttinda, sjálfbærrar þróunar, friðar og öryggis og nú er lögð aukin áhersla á tengingu og samspil mannréttinda, lýðræðisþróunar og réttarríkisins. Þessi svið skarast að sjálfsögðu oft og skapa þá áleitnar spurningar. Grundvallarstefna Íslands í mannréttindamálum samþættist öllum sviðum utanríkisstefnunnar. Mannréttindi eru óaðskiljanlegur þáttur í utanríkisstefnu Íslands og samofin öllu alþjóðastarfi landsins. Ísland hefur fullgilt alla helstu alþjóðasamninga um mannréttindi og beitir sér fyrir aðild annarra ríkja að þessum samningum og fyrir framkvæmd þeirra.

Efst á baugi

Sérstakur stýrihópur stjórnarráðsins um mannréttindi hóf störf á árinu og á utanríkisráðuneytið þar fulltrúa. Tildrög þess að stýrihópurinn var settur á laggirnar eru þau, að í kjölfar þess að Ísland undirgekkst í annað skipti svokallaða jafningjarýni (e. Universal Periodic Review) á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna haustið 2016 var talið æskilegt og gagnlegt að viðhalda því samstarfi ráðuneyta, sem þar hafði átt sér stað við undirbúning fyrirtöku Íslands. Er hópnum bæði falið að fylgja eftir þeim tilmælum sem fram komu í jafningjarýninni og Ísland samþykkti að verða við, sem og brúa bilið uns Ísland undirgengst jafningjarýnina 2021, þá í þriðja sinn. Þá eru bundnar vonir við að hópurinn geti tryggt betri samræmingu mála sem oft tengjast verksviðum fleiri en eins ráðuneytis.

Mannréttindi verða sífellt veigameiri hluti af utanríkisstefnu Íslands en byggt hefur verið á stefnu sem var mörkuð fyrir rúmum tíu árum síðan með útkomu sérstakrar skýrslu, Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu (2007). Senn hefst vinna við að uppfæra stefnuna og má segja að gott tilefni sé fyrir hendi á þessu ári þegar þess er minnst að sjötíu ár verða í desember liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar.

Mannréttindamálum er einkum sinnt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, s.s. með þátttöku í starfi kvennanefndar allsherjarþingsins í New York, sem og þriðju nefndar allsherjarþingsins, auk mannréttindaráðsins í Genf. Þá er ógetið þátttöku í starfi Evrópuráðsins í Strassborg og enn fremur eru mannréttindamál meðal viðfangsefna Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín og undirstofnunar ÖSE, Mannréttinda- og lýðræðisstofnunar ÖSE (ODIHR) í Varsjá í Póllandi. Mannréttindamál koma einnig iðulega upp í tvíhliða viðræðum Íslands við önnur ríki, s.s. í pólitísku samráði við Kína og Rússland á árinu.

Jafnréttismál

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á að Ísland geti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi með því að vera fyrirmynd í jafnréttismálum. Slá má föstu að þar sé byggt á sterkum grunni en níunda árið í röð er Ísland efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir árangur ríkja á sviði kynjajafnréttis. Í krafti þess hefur Ísland verið leiðandi á sviði jafnréttismála á alþjóðavísu, m.a. í tengslum við konur frið og öryggi, sjálfbæra þróun, mannréttindi kvenna, þ.m.t. kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindi, viðskipti og efnahagslega valdeflingu kvenna.

Á undanförnum misserum hefur Ísland lagt aukna áherslu á þátttöku karla í jafnréttismálum. Frá árinu 2015 hefur Ísland skipulagt svokallaðar rakarastofuráðstefnur (e. Barbershop) til að stuðla að aukinni þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi, breyttum viðhorfum til kynjajafnréttis og staðalímynda kynjanna. Hafa nú hátt í 2000 manns sótt ráðstefnurnar, þar af um helmingur karlar. Árið 2017 voru m.a. skipulagðar rakarastofuráðstefnur á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Sameinuðu þjóðanna í Genf og New York og Norrænu ráðherranefndarinnar með þátttöku norræna fræðasamfélagsins og atvinnulífsins. Í janúar 2018 tók forseti Íslands við sem sérstakur málsvari HeForShe-átaks UN Women en Ísland vinnur áfram að því að uppfylla HeForShe-skuldbindingar sem lúta að launajafnrétti, aukinni jafnréttisvitund karla og jöfnum hlut kynjanna í fjölmiðlum.

Aðalþema 62. fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna 2018 var áskoranir og tækifæri til vinnu að auknu jafnrétti og valdeflingu kvenna í dreifbýli. Utanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið hafa staðið fyrir samráði um málefni nefndarinnar með félagasamtökum og stofnunum sem starfa að jafnréttismálum. Að þessu sinni stóðu íslensk stjórnvöld fyrir tveimur hliðarviðburðum, annars vegar um kynjað stafrænt ofbeldi og hlutverk löggjafans í að stemma stigu við slíku ofbeldi og hins vegar um baráttuna gegn barnahjónaböndum í Malaví. Jafnréttisráðherra fór fyrir sendinefndinni og tók þátt í fjölmörgum viðburðum og fundum fyrir hönd Íslands.

Þriðja nefnd allsherjarþingsins

Ísland leiddi 2017-2018 félags-, mannúðar- og menningarnefnd (þriðju nefnd) allsherjarþings SÞ þar sem fastafulltrúi Íslands í New York var formaður nefndarinnar. Var það í fyrsta skipti í yfir 50 ár sem Ísland tók að sér formennsku í einni undirnefnda allsherjarþingsins. Nefndin tók m.a. á móti mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem og forseta mannréttindaráðsins, ásamt 60 öðrum mannréttindasérfræðingum og síðast en ekki síst stýrði Ísland fundinum þegar þriðja nefndin tók í fyrsta sinn á móti nýjum sjálfstæðum sérfræðingi mannréttindaráðsins um vernd gegn ofbeldi og mismunun byggðri á kynhneigð eða kynvitund. Hafði Ísland verið meðal ríkja sem studdi eindregið að til slíks embættis yrði stofnað. Tæplega 60 ályktanir voru samþykktar á vettvangi þriðju nefndarinnar undir formennsku Íslands en þar bar hæst nýja ályktun um ástand mannréttinda í Myanmar.

Ísland var einnig í formennsku nefndar efnahags- og félagsmálaráðsins um félagslega þróun 2017-2018. Lagði Ísland sérstaka áherslu á að gera nefndina betur búna undir að fylgja eftir nýjum heimsmarkmiðum, þá sérstaklega að ná til þeirra sem lifa í sárafátækt, og að nefndin tæki því sérstaklega að sér að ræða ójöfnuð í heiminum. Var vel látið að formennsku Íslands í báðum nefndum.

Mannréttindaráðið í Genf

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fundar þrisvar sinnum á ári, í þriggja vikna löngum lotum í hvert sinn. Svonefnd ráðherravika er haldin í mars-lotunni ár hvert og tók utanríkisráðherra þátt í henni áriðs, eins og í fyrra. Hann fundaði m.a. með mannréttindafulltrúa SÞ, Zeid Ra‘ad al Hussein, og flóttamannafulltrúa SÞ, Filippo Grandi, í heimsókninni til Genf en í ávarpi sínu til mannréttindaráðsins ítrekaði ráðherra mikilvægi mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem er sjötíu ára á þessu ári. Hann tilkynnti einnig að Ísland hygðist ganga í ríkjahópinn Equal Rights Coalition sem beitir sér fyrir bættum réttindum hinsegin fólks (LGBT+). Hápunktur ræðunnar var þó umfjöllun um aðstæður á Filippseyjum en þar þykir forseti landsins, Rodrigo Duterte, hafa farið mjög á svig við mannréttindi í nafni svonefndrar „baráttu gegn eiturlyfjum“ en það hefur haft í för með sér að þúsundir meintra eiturlyfjasala og eiturlyfjaneytenda hafa verið drepnir án dóms og laga. 

Ísland tók á liðnu ári að sér forystuhlutverk á vettvangi mannréttindaráðsins í Genf um þróunina á Filippseyjum þegar það talaði í tvígang fyrir hönd fjölmargra ríkja – í seinna skiptið fyrir hönd alls 39 aðildarríkja SÞ – og gagnrýndi ástand mannréttindamála í landinu. Málafylgja þessi vakti nokkra athygli, bæði heima og ytra, og í nýrri ársskýrslu Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch), einna af þekktustu alþjóðlegu borgarasamtökum heimsins á sviði mannréttinda, er þannig fjallað sérstaklega um hlutverk smáríkja sem málsvara mannréttinda í breyttum heimi, þar sem æ algengara gerist að ráðist sé að þeirri hugmyndafræði sem byggt hefur verið á í sjötíu ár, eða frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Jórdaninn Zeid Ra‘ad al Hussein, tilkynnti í lok árs 2017 að hann sæktist ekki eftir öðru kjörtímabili í starfi sínu og kenndi hann um „hrikalegu“ umhverfi í mannréttindageiranum, þar sem málsvarar mannréttinda ættu sífellt meira undir högg að sækja, á meðan hinir efldust dag frá degi sem lítt vildu fylgja þeim alþjóðalögum og reglum sem samið hefur verið um. Átak í þágu mannréttinda þurfi að koma til og standa vörð um þau gildi sem hafi mótað heim okkar allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar.

Að því er varðar Filippseyjar var það mat Mannréttindavaktarinnar að með því að tala tæpitungulaust um stöðu mála þar hefði Íslandi – með kraft 38 annarra aðildarríkja SÞ að baki sér – tekist að hafa áhrif á hegðun stjórnvalda sem, eftir september-lotu mannréttindaráðsins 2017, lýstu sig tilbúin til að taka á móti rannsóknarnefnd á vegum SÞ. Málafylgja skiptir því máli og getur haft áhrif en jafn mikilvægt er líka að missa ekki dampinn og halda ríkjum við efnið, sem gera sig sek um mannréttindabrot, með því m.a. að gera þeim ljóst að áfram verði fylgst með þróun mála. Gerði utanríkisráðherra stjórnvöldum á Filippseyjum þetta ljóst í ræðu sinni í mannréttindaráðinu í febrúar 2018, jafnframt því sem hann hvatti þau til dáða. Ljóst er að stjórnvöld á Filippseyjum tóku eftir gagnrýninni en á meðan heimsókn ráðherra til Genf stóð í febrúar átti hann fund með Peter Cayetano, utanríkisráðherra Filippseyja, að beiðni þess síðarnefnda.

Evrópuráðið

Sendiherra Íslands í París hefur um nokkurt skeið gegnt störfum fastafulltrúa hjá Evrópuráðinu í Strasborg (e. Council of Europe), en staðarráðinn sérfræðingur þar í borg sinnt ýmsum verkefnum af hálfu fastanefndar Íslands gagnvart ráðinu síðan 2016. Senn líður að því að það komi að Íslandi að takast á hendur formennsku í ráðinu til sex mánaða. Með það í huga er fyrirhugað síðar á árinu að starf fastafulltrúa flytjist til utanríkisráðuneytisins í Reykjavík í því augnamiði að hefja undirbúning fyrir formennskutímabilið og greiða jafnframt fyrir betri tengingu Alþingis, stofnana og sérfræðinga við starf Evrópuráðsins.

Evrópuráðið er einn mikilvægasti vettvangur ríkja álfunnar til að stuðla að stöðuleika og friði, auk þess að vera vettvangur fyrir mannréttindaumræðu og réttindi borgaranna. Starfsemi ráðsins hefur aftur á móti ekki farið varhluta af þeirri tortryggni og óvissu sem nú ríkir samskiptum Vesturlanda og Rússlands. Helstu mál á vettvangi Evrópuráðsins á árinu tengjast m.a. Rússlandi en þingmenn þaðan hafa ekki tekið þátt í störfum þingmannaráðs Evrópuráðsins síðan þar var tekin ákvörðun um að svipta Rússa atkvæðisrétti í kjölfar innlimunar þeirra á Krímskaga árið 2014. Ákvörðunin átti þá einungis við um yfirstandandi þing en Rússar hafa æ síðan neitað að senda þingnefnd nema þeir fái tryggingu fyrir því að þeir fái fullan þátttökurétt. Síðan í maí 2017 hefur Rússland, á grundvelli ákvörðunar þingsins frá 2014, haldið eftir 2/3 hluta greiðslu sinnar til Evrópuráðsins og veldur það umtalsverðum vanda. Bíður nú forsvarsmanna þingmannaráðsins, í samstarfi við framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, að finna lausn á þessu máli.

Af vettvangi Evrópuráðsins er einnig rétt að nefna málefni Tyrklands en gagnrýni sem Tyrkir hafa sætt þar varð til þess að þeir tilkynntu í desember 2017 að þeir myndu hætta sem einn af stærri styrkveitendum Evrópuráðsins, þ.e. draga mjög úr framlagi sínu til Evrópuráðsins. Þurfti í kjölfarið að bregðast við, endurskipuleggja fjárlög Evrópuráðsins og skera niður á ýmsum stöðum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira