Hoppa yfir valmynd

Fólkið á Norðurslóðum

Á því svæði sem telst til norðurslóða búa alls um fjórar milljónir manna í átta ríkjum. Um tíundi hluti þeirra eru frumbyggjar. Flestir lifa í tiltölulega miklu návígi við náttúruna, eins og raunin er hér á Íslandi, og víða er bæði strjálbýlt og harðbýlt.

Efnahagslíf á norðurslóðum hefur að verulegu leyti byggst á nýtingu náttúruauðlinda, allt frá sjávarfangi, spendýrum og fuglum til olíu, gass og málma. Umhverfisbreytingar orka með margvíslegum hætti á samfélög og lífsafkomu þeirra. Styrkja verður viðnámsþol viðkvæmra byggða í norðri en samfélög frumbyggja eru að ýmsu leyti berskjaldaðri en önnur fyrir þessum breytingum.

Varðveita ber hefðbundna þekkingu á staðháttum og verklagi sem erfst hefur kynslóð frá kynslóð. Á sama tíma þarf að grípa tækifæri sem felast meðal annars í tækniþróun og bættum samgöngum til að renna stoðum undir nýsköpun og fjölbreytta atvinnuvegi, með sjálfbærni samfélaga að leiðarljósi.

Íbúar í fjarlægum og fámennum byggðum á norðurslóðum hafa mikinn hag af því að geta sótt þjónustu í gegnum netið, til að mynda fjarkennslu og heilbrigðisþjónustu. Áreiðanlegar fjarskiptatengingar eru einnig nauðsynlegar fyrir ýmsa atvinnustarfsemi, leit og björgun, og söfnun vísindalegra gagna. Bæði Norðurskautsráðið og Efnahagsráð norðurslóða hafa unnið greiningar á stöðu fjarskiptamála á norðurslóðum og mögulegum lausnum til að bæta tengingar í afskekktum samfélögum og óbyggðum. Vel fer á því að Efnahagsráðið taki leiðandi hlutverk á þessu sviði, í nánu samstarfi við Norðurskautsráðið. Á síðustu árum hefur ferðamennska aukist umtalsvert á norðurslóðum. Í því geta falist miklir möguleikar en gæta verður að því að vöxtur greinarinnar ógni ekki umhverfinu.

Jafnréttismál eru í öndvegi í íslenskri utanríkisstefnu. Í samfélögum þar sem kraftar allra fá að njóta sín skapast best skilyrði fyrir blómstrandi mannlíf og sjálfbæran vöxt. Frá 2014 hefur Ísland leitt verkefni um jafnrétti kynjanna á norðurslóðum. Það felst meðal annars í því að byggja upp tengslanet og vettvang til þekkingarmiðlunar og skoðanaskipta. Sjónum verður einnig beint að líðan ungmenna á norðurslóðum.

Faðir með barn

Síðast uppfært: 5.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum