Hoppa yfir valmynd

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021

 

Merki fomennsku Íslands í Norðurskautsráðinu

 

Norðurskautsráðið hefur fest sig í sessi sem mikilvægasti samráðsvettvangurinn um málefni norðurslóða og alþjóðapólitískt vægi formennskunnar hefur aukist til muna á undanförnum árum. Formennska í ráðinu er veigamikið verkefni. Ísland á ríkra hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun svæðisins og stöðugleika innan þess, enda telst landið allt og stór hluti landhelginnar innan marka norðurslóða.

Formennskan dregur athygli að Íslandi, eykur vægi landsins á alþjóðavettvangi og veitir Íslendingum þannig einstakt tækifæri til að stuðla að því að áherslur okkar á sjálfbæra þróun fái hljómgrunn meðal ríkja og samstarfsaðila ráðsins.

Yfirskrift formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu, Saman til sjálfbærni á norðurslóðum,  vísar til þess að meginviðfangsefni ráðsins krefjast samvinnu yfir landamæri. Hún minnir líka á að starf ráðsins hefur frá upphafi snúist öðru fremur um að tryggja sjálfbæra þróun á svæðinu.

Þetta hlutverk Norðurskautsráðsins hefur aldrei verið brýnna en nú. Umhverfi norðurslóða tekur örum breytingum. Vegna hlýnandi loftslags hækkar hitastig sjávar, hafís minnkar og jöklar hopa. Miðað við spár vísindamanna má búast við ómældum áhrifum á viðkvæmt vistkerfi lands og sjávar. Um leið gætu breyttar aðstæður leitt til aukinna siglinga og sóknar í náttúruauðlindir.

Sú skörun sem viðfangsefni Norðurskautsráðsins hafa við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið um aðgerðir á sviði loftslagsmála er ótvíræð og því eðlilegt að formennskuáætlun Íslands taki mið af þeim áherslum sem þar eru.

Fyrir þær fjórar milljónir manna sem búa á norðurslóðum er áríðandi að spornað sé við neikvæðum áhrifum þessara breytinga og jafnframt tryggt að þau tækifæri sem í þeim kunna að felast verði nýtt með sjálfbærum hætti. Gæta þarf jafnvægis milli umhverfisþátta, félagslegra þátta og efnahagslegra þátta – hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar – eins og lagt er upp með í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Formennska Íslands

Ísland tók formlega við formennskukeflinu af Finnum á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi 7. maí 2019. Formennska innan Norðurskautsráðsins er til tveggja ára.

Í formennskutíð Íslands verður byggt á því góða starfi sem unnið hefur verið á vettvangi Norðurskautsráðsins á liðnum árum. Margvíslegum verkefnum vinnuhópanna verður haldið áfram. Auk þess verða ný verkefni kynnt til sögunnar en í starfsáætlun ráðsins fyrir tímabilið 2019-2021 eru talin upp hátt í hundrað verkefni.

Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi beinir íslenska formennskan kastljósinu sérstaklega að þremur áherslusviðum: málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, og fólkinu á norðurslóðum. Auk þess leitast Ísland við að styrkja starfsemi Norðurskautsráðsins enn frekar, jafnt inn á við sem út á við.

Málefni norðurslóða snerta nær alla þætti íslensks samfélags. Fá ríki hafa jafn mikla hagsmuni af hagfelldri þróun á svæðinu, enda telst landið allt og stór hluti efnahagslögsögunnar innan hefðbundinna marka norðurslóða. Íslensk stjórnvöld fagna því tækifæri sem formennska í Norðurskautsráðinu felur í sér til að taka leiðandi þátt í að treysta samvinnu í þágu svæðisins og íbúa þess.

Formennskuáætlun Íslands er unnin í nánu samstarfi fjölmargra aðila, meðal annars innan Stjórnarráðsins, í fræðasamfélaginu og atvinnulífinu. Áætlunin er metnaðarfull enda hefur mikil vinna verið lögð í að inntak hennar endurspegli í senn framsýni og fagmennsku. Á fyrsta ári formennskunnar er ráðgert að fjórir meginfundir Norðurskautsráðsins verði haldnir á Íslandi, víðs vegar um land.

Síðast uppfært: 5.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum