Viðskiptasamningar
Mikilvægt er fyrir íslensk fyrirtæki að hafa greiðan aðgang að erlendum mörkuðum. Utanríkisþjónustan gætir hagsmuna Íslands í utanríkisviðskiptum og gerir viðskiptasamninga við erlend ríki til að afnema viðskiptahindranir og bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Viðskiptaskrifstofa tekur þátt í samningaviðræðum og gætir hagsmuna íslenskra fyrirtækja, hagsmunasamtaka og ríkisborgara innan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), í tvíhliða samningaviðræðum og innan fjölþjóðlegra stofnanna eins Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Þátttaka Íslands í alþjóðaviðskiptum byggir m.a. á fríverslunarsamningum, fjölþjóða viðskiptasamstarfi og tvíhliða viðskiptasamningum og -samskiptum. Ísland er aðili að fjölda fríverslunarsamningum, fjölþjóða- og tvíhliða samningum.
Viðskiptaskrifstofa vinnur náið með fastanefnd Íslands í Genf að málefnum EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og við gerð fríverslunarsamninga sem Ísland gerir við þriðju ríki.
Jafnframt vinnur viðskiptaskrifstofa náið með fastanefnd Íslands í París varðandi málefni OECD
Hugtakaskýringar
EFTA (European Free Trade Association)
Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) er alþjóðastofnun sem hefur það hlutverk að stuðla að frjálsri verslun og efnahagssamþættingu til hags aðildarríkjanna fjögurra: Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss. Aðildarríki ESB og EFTA (fyrir utan Sviss) mynda saman evrópska efnahagssvæðið (EES).
Upprunareglur
Það er iðulega áskilið í fríverslunarsamningum að vara sé að öllu leyti fengin í aðildarríkjunum eða hljóti þar fullnægjandi aðvinnslu eigi hún að öðlast rétt til fríðindameðferðar samkvæmt þeim. Upprunareglurnar kveða á um skilyrði þess að vara, sem á undir fríverslunarsamning, teljist upprunavara og eru því nauðsynlegar til þess að unnt sé að greina vörur, sem falla undir fríverslunarsamningana og njóta fríðindameðferðar frá öðrum vörum sem ekki fá notið fríðindameðferðar, hinum svonefndu þriðja lands vörum.
Innflytjandi vöru, sem uppfyllir skilyrði upprunareglna viðeigandi fríverslunarsamnings, þarf að leggja fram upprunasönnun í innflutningslandinu til stuðnings kröfu um fríðindameðferð vörunnar. Sjá nánar á vef Skattsins.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna
Öll lönd gera ráðstafanir til að tryggja að matur sé öruggur til neyslu fyrir neytendur og til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma í dýrum og plöntum. Þessar ráðstafanir eru af margvíslegum toga eins og að krefjast þess að vörur komi frá sjúkdómalausu svæði, skoðun á vörum, sérstök meðferð eða meðhöndlum á vörum, setning leyfilegs magns leifa skordýraeiturs eða leyfa aðeins notkun vissra aukaefna í matvælum. Í fríverslunarsamningum sem Ísland gerir eru það ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem eiga við um réttindi og skyldur samningsaðila á þessu sviði.
Hugverkaréttindi
Hugverkaréttur er lögfræðilegt hugtak sem á við eigendarétt á hugverkum þar sem einkaréttur er viðurkenndur. Samkvæmt lögum um hugverkarétt fá eigendur verka tiltekinn einkarétt á ýmsum óefnislegum eignum eins og tónlist og sköpunum á sviði bókmennta og lista; uppgötvana og uppfinninga; og orða, orðasambanda, tákna og hönnun. Algengar tegundir hugverkaréttinda eru meðal annars höfundaréttur, vörumerki og einkaleyfi.
Alþjóðaviðskiptastofnunin - WTO (World Trade Organization)
Alþjóðaviðskiptastofnunin myndar lagalegan og stofnanalegan ramma utan um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi. Grundvallarmarkmið stofnunarinnar er að auka frjálsræði og tryggja réttaröryggi í heimsviðskiptum og stuðla þar með að hagvexti og efnahagslegri þróun.
Starfssvið WTO er ekki einskorðað við endurbættan GATT-samning um vöruviðskipti (GATT 1994). Alls eru 29 samningar í umsjá stofnunarinnar, þ.á.m. samningar um landbúnað, þjónustuviðskipti, hugverkaréttindi og lausn deilumála. WTO er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd þessara samninga, vera vettvangur fjölþjóðlegra samningaviðræðna á viðskiptasviðinu, leysa viðskiptadeilur sem upp kunna að koma milli samningsaðila og taka viðskiptastefnu þeirra til skoðunar með reglubundnum hætti.
Ísland gerðist aðili að GATT-samningnum 21. apríl 1968 og síðar stofnaðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) sem tók við af GATT. WTO var sett á laggirnar 1. janúar 1995 í kjölfar Úrúgvæviðræðnanna, sem var áttunda og umfangsmesta viðskiptalotan innan vébanda GATT-samningsins frá 1947.
Þjónustuviðskipti
Með þjónustuviðskiptum er átt við viðskipti með þjónustu á sviði iðnaðar- eða verslunar eða ýmis konar handiðnað og þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sem veitt er gegn greiðslu. Þjónustuviðskipti eru ein af fjórum undirstöðum alþjóðasáttmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
GATS General Agreement on Trade in Services)
GATS er samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um þjónustuviðskipti sem tók gildi í janúar 1995 í kjölfar Úrúgvælotu marghliða viðskiptaviðræðnanna. Samningurinn bætir þjónustuviðskiptum við marghliða viðskiptakerfið á sama hátt og GATT (General Agreement on Tariffs and Trade) veitir slíkt kerfi fyrir sölu á varning. Allir meðlimir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru aðilar að GATS-samningnum.
Opinber innkaup
Lög um opinber innkaup setja reglur er varða kaup stjórnvalda á vörum og þjónustu. Með þeim er stuðlað að því að stjórnvöld kaupi vörur og þjónustu á samkeppnishæfum kjörum og á sama tíma skapað umhverfi þar sem bjóðendur geta keppt sanngjarnt og á sama grundvelli um viðskipti við stjórnvöld.
ASEAN (The Association of Southeast Asian Nations)
Samband Suðaustur-Asíuríkja er efnahagslegt og stjórnmálalegt samband tíu ríkja í Suðaustur-Asíu. Sambandið var stofnað árið 1967 af Taílandi, Indónesíu, Malasíu, Singapúr og Filippseyjum. Sambandið var stofnað með það fyrir augum að vera mótvægi við útbreiðslu kommúnisma í Víetnam og víðar. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Jakarta. Meðlimir samtakanna í dag eru Brúnei, Filippseyjar, Indónesía, Kambódía, Laos, Malasía, Mjanmar, Singapúr, Taíland og Víetnam.
OECD (Organization for Economic Co-operation and Development)
Efnahags- og framfarastofnunin er alþjóðastofnun 38 þróaðra ríkja sem aðhyllast fulltrúalýðræði og markaðshagkerfi. Hún var stofnuð árið 1948 sem Stofnun um efnahagssamstarf Evrópuríkja (OEEC) til að aðstoða við framkvæmd Marshalláætlunarinnar í Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. Síðar var ríkjum utan Evrópu boðin aðild og árið 1961 tók stofnunin upp núverandi nafn.
Tilgangur samtakanna er að bera saman stefnumótun stjórnvalda í aðildarríkjunum, greina sameiginleg vandamál og benda á bestu aðferðir við stefnumótun í innanríkismálum og alþjóðasamstarfi. Stofnunin er hugsuð sem samræðugrundvöllur þar sem umræða og gagnrýni getur leitt til stefnubreytingar aðildarríkja með því að skapa þrýsting frá þegnum ríkjanna, fremur en sem vettvangur fyrir bindandi samninga eða lagasetningu.
EES-samningurinn
Evrópska efnahagssvæðið (EES) samanstendur af aðildarríkjum ESB og EFTA (fyrir utan Sviss) og skyldar alla aðila til að innleiða lög ESB um innri markað, nema lög um landbúnað og fiskveiðar. Í raun og veru stækkar EES samningurinn innri markað ESB sem nemur EFTA ríkjunum þremur sem eru aðilar að samningnum. EFTA ríkin hafa sett up svipað stofnanakerfi og er fyrir hendi í ESB, nema mun minna, til að hafa eftirlit með framfylgni EES samningsins. Hluta af þessu stofnanakerfi mynda ESA og EFTA-dómstóllinn.
Fjárfestingasamningur við Kína frá 1994
Samningur milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Kína um að hvetja til fjárfestinga og veita þeim gagnkvæma vernd var gerður í Peking 31. mars 1994.
Samningurinn tók gildi 1. mars 1997. Honum er ætlað að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fjárfestingar af hálfu fjárfesta annars samningsaðila á landsvæði hins. Hvatning til slíkra fjárfestinga og gagnkvæm vernd þeirra er ætlað að stuðla að auknu viðskiptalegu frumkvæði fjárfesta og auka hagsæld í báðum ríkjunum.
Tollabandalag Rússlands, Belarus og Kasakstan (RuBeKa)
Tollabandalag Rússlands, Belarús og Kasakstan tók gildi 1. janúar 2010. Er bandalaginu var komið á fót var það fyrsta skrefið í átt að víðtækara efnahagslegu samstarfi fyrrum Sovétríkja í líkingu við Evrópusambandið. Aðildarríkin hyggjast auka efnahagslegan samruna sinn enn frekar í framtíðinni.
Hoyvíkur-samningurinn
Hoyvíkursamningurinn tók gildi 1. nóvember 2006. Með honum var komið á sameiginlegu efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja. Í samningnum er kveðið á um niðurfellingu tolla af öllum vörum, að uppfylltum skilyrðum upprunareglna samningsins.
Viðskiptasamningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.