Hoppa yfir valmynd

Uppbyggingarsjóður EES

Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af Íslandi, Liechtenstein og Noregi með því markmiði að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu.

Hvernig starfar Uppbyggingarsjóður EES?

Sjóðurinn stuðlar að  umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa lakar í efnahagslegu tilliti. Viðtökuríki sjóðsins eru öll í Suður- og Austur-Evrópu:
Búlgaría, Eistland, Grikkland, Kýpur, Lettland, Litháen, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Króatía, Tékkland og Ungverjaland.

Sjóðurinn starfar samkvæmt sjö ára tímabilum en samningur við ESB um Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2014-2021 (framkvæmdatími til 2024) var undirritaður þann 3. maí 2016. Samningurinn kveður á um að heildarframlag EFTA ríkjanna innan EES fyrir tímabilið skuli nema 1.584,1 milljónum evra. Ísland stendur að jafnaði straum af um 3-5% af heildarframlagi ríkjanna.

Viðtökuríkin gera sjálf tillögur um hvaða málaflokkum þau vilja starfa að í samstarfi við EES-EFTA ríkin. Samningaviðræðum við viðtökuríkin um skiptingu sjóðsins eftir málaflokkum er að ljúka og hafa samningar verið undirritaðir við 14 ríki af 15.

Hvað fjármagnar Uppbyggingarsjóður EES?

Sjóðurinn starfar samkvæmt fimm áherslusviðum:

  • Nýsköpun, rannsóknir, menntun og samkeppnishæfni
  • Samfélagsleg þátttaka, atvinnuþátttaka ungmenna og bættar aðstæður fátækra
  • Umhverfis- og orkumál, samdráttur skaðlegra lofttegunda og minnkun loftlagsbreytinga
  • Menning og listir, frjáls félagasamtök, bættir stjórnunarhættir og grundvallarréttindi
  • Innanríkis- og dómsmál

Dæmi um verkefni

Ein af sérstöðum Uppbyggingarsjóðs EES er að lágmarki 10% styrkfjár sjóðsins er nýtt til að byggja upp frjáls og óháð félagasamtök í styrkþegaríkjunum eða um 150 milljón evra.

Ísland leggur áherslu á verkefni á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og málefna flóttamanna. Samvinna á sviði jarðvarma hefur fram til þessa verið mikið áherslumál Íslendinga og mun halda áfram í þeim viðtökuríkjum þar sem kostur er.  Áhersla er lögð á aðhald í rekstri sjóðsins, ásamt því að verkefni sem unnin eru innan ramma sjóðsins taki mið af íslenskum gildum.

Allar upplýsingar um áherslusviðin og málaflokkanna undir hverju sviði má finna í Blábók Upbyggingarsjóðs EES 2014-2021. Blábókin markar rammann um áherslur sjóðins og gefur nánari mynd af hvers konar verkefni geta hlotið styrkveitingu innan hvers málaflokks.

Starfshópur undir forystu utanríkisráðuneytisins tók þátt í gerð Blábókarinnar sem lokið var við árið 2016. Haft var víðtækt samráð við önnur ráðuneyti, stofnanir og helstu hagsmunaaðila um áherslur Íslands í samningaviðræðunum. Við mótun þeirra var tekið mið af almennum áherslum í utanríkisstefnu Íslands og haft að leiðarljósi að styrkja tvíhliða tengsl Íslands við viðtökuríkin ásamt því að efla mögulega aðkomu íslenskra aðila að áætlunum og verkefnum sem styrkt verða.

Tækifæri fyrir íslenska aðila

Sérstakur gagnagrunnur um íslenska samstarfsaðila hefur verið settur á laggirnir. Þar koma fram helstu upplýsingar um þau félagasamtök, stofnanir eða fyrirtæki sem hafa áhuga á samstarfsverkefnum á vegum sjóðsins og mögulegar verkefnalýsingar. 

GAGNAGRUNNUR UM ÍSLENSKA SAMSTARFSAÐILA

 

Með þátttöku í Uppbyggingarsjóðnum er lögð áhersla á að skapa tækifæri fyrir íslenskar stofnanir, fyrirtæki og frjáls félagasamtök til samstarfs í viðtökuríkjunum og auka samskipti milli einstaklinga á Íslandi og í þessum ríkjum. Auk styrkja sem renna til verkefnanna sjálfra eru veittir styrkir til tengslamyndunar og verkefnaþróunar. Einnig er unnið markvisst að tvíhliða samskiptum stjórnvalda við lykilsamstarfsríki. 

Á núverandi tímabili er aukin áhersla lögð á tvíhliða verkefni milli viðkomandi ríkja og hvers og eins EES-EFTA ríkis og verður um 2% af framlagi til sérhvers ríkis varið til slíkra verkefna. Með þessari nýbreytni í starfinu munu skapast einstök tækifæri til þess að efla samskipti Íslands og einstakra ríkja.

Til þess að tryggja sem best aðstoð við fyrirtæki, samtök og stofnanir á Íslandi, sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefnum á vegum sjóðsins, munu Rannís og Orkustofnun halda áfram hlutverki sínu sem samstarfsaðilar stjórnvalda á Íslandi og í viðtökuríkjunum. Mannréttindaskrifstofa Íslands mun einnig aðstoða vegna samstarfs við frjáls félagasamtök.

Gagnagrunnurinn er opinn hverjum þeim sem hafa áhuga á að vinna samstarfsverkefni á vegum Uppbyggingarsjóðsins. Til að skrá sín félagasamtök/stofnun/fyrirtæki hafið endilega samband við [email protected].

Nánari upplýsingar um Uppbyggingarsjóð EES má nálgast á vef skrifstofu sjóðsins í Brussel (Financial Mechanism Office) þar sem einnig er hægt að fylgjast með auglýsingum eftir umsóknum um þátttöku í verkefnum.

Þá er hægt að skrá sig á póstlista hjá Uppbyggingarsjóðnum til að fá sendar upplýsingar um ný köll.

Gagnlegar krækjur:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum