Hoppa yfir valmynd

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið - yfirlit

Evrópska efnahagssvæðið

EES-samningnum er skipt í þrjá hluta, eða meginmál sem er 129 greinar, 49 bókanir og 22 viðauka. Þegar vísað er til EES-samningsins er oft átt við meginmálið, en strangt til tekið teljast allir þrír hlutarnir til EES-samningsins. Ákvæði bókananna kveða á um nánari beitingu reglna í meginmáli samningsins og viðaukarnir taka til mismunandi málefnasviða og þar er einnig að finna tilvísanir til afleiddrar löggjafar ESB, eða svokallaðra gerða (þær réttarreglur sem stofnanir ESB setja með heimild í stofnsáttmálunum, eða reglugerðir, tilskipanir, o.s.frv.). Einnig er að finna í viðaukunum skýringar á því hvernig gerðir eru teknar upp í EES-samninginn. Fjöldi yfirlýsinga fylgir lokagerð samningsins sem ekki teljast formlegur hluti hans.

Með EES-samningnum var leitast við að taka upp í einn þjóðréttarsamning verulegan hluta af regluverki Evrópusambandsins samkvæmt stofnsáttmálum þess og þeim réttarreglum sem eru leiddar af stofnsáttmálunum sem skýrir það hversu umfangsmikill samningurinn er. Eins er viðkomandi regluverk í stöðugri þróun og því var gert ráð fyrir því að unnt væri að taka nýjar reglur ESB-réttar upp í samninginn.
Með einföldun má segja að þýðingarmestu ákvæði meginmáls EES-samningsins séu efnislega samhljóða þeim þáttum sem varða fjórfrelsið í Rómarsáttmálanum sem var í gildi á þeim tíma, nú Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (e. Treaty on the Functioning of the European Union).

Hér á eftir fylgir meginmál samningsins ásamt bókunum og viðaukum.

1. Meginmál samningsins

Inngangsorð

SAMNINGUR UM EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐIÐ
EFNAHAGSBANDALAG EVRÓPU,
KOLA- OG STÁLBANDALAG EVRÓPU,
KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS
OG
LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
RÍKJASAMBANDIÐ SVISS,
sem nefnast hér á eftir SAMNINGSAÐILAR;
ERU SANNFÆRÐIR UM að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda;
ÁRÉTTA að höfuðáhersla er lögð á náin samskipti Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna, sem grundvallast á nálægð, sameiginlegu gildismati frá fornu fari og evrópskri samkennd;
HAFA EINSETT SÉR að stuðla á grundvelli markaðsbúskapar að auknu frjálsræði og samvinnu í viðskiptum um gjörvallan heim, einkum í samræmi við ákvæði Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti og samninginn um Efnahags- og framfarastofnunina;
HAFA Í HUGA það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila;
HAFA EINSETT SÉR að beita sér fyrir því að frelsi til vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga verði sem víðtækast á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, svo og að styrkja og auka samvinnu í jaðarmálum og tengdum málum;
HAFA ÞAÐ AÐ MARKMIÐI að stuðla að samræmdri þróun á Evrópska efnahagssvæðinu og eru sannfærðir um nauðsyn þess að draga með samningi þessum úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða;
VILJA LEGGJA SITT AF MÖRKUM til að styrkja samvinnu milli þingmanna Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA-ríkjanna, svo og milli aðila vinnumarkaðarins í Evrópubandalaginu og EFTA-ríkjunum;
ERU SANNFÆRÐIR UM að einstaklingar muni gegna mikilvægu hlutverki á Evrópska efnahagssvæðinu vegna beitingar þeirra réttinda sem þeir öðlast með samningi þessum og þeirrar verndar dómstóla sem þessi réttindi njóta;
HAFA EINSETT SÉR að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða;
HAFA EINSETT SÉR að við mótun nýrra reglna verði lagðar til grundvallar strangar kröfur um að vernda beri heilsu, öryggi og umhverfi;
GERA SÉR LJÓST mikilvægi framþróunar í félagsmálum, þar á meðal jafnréttismálum karla og kvenna, á Evrópska efnahagssvæðinu og láta í ljós vilja sinn til að tryggja efnahagslegar og félagslegar framfarir, skapa skilyrði fyrir fullri atvinnu, bættum lífskjörum og bættum starfsskilyrðum á Evrópska efnahagssvæðinu;
HAFA EINSETT SÉR að efla hagsmuni neytenda og styrkja stöðu þeirra á markaðinum, með öfluga neytendavernd að markmiði;
SETJA SÉR ÞAU SAMEIGINLEGU MARKMIÐ að styrkja vísindalegar og tæknilegar undirstöður evrópsks iðnaðar og gera hann samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi;
ÁLÍTA að gerð samnings þessa eigi ekki á nokkurn hátt að hafa áhrif á möguleika EFTA-ríkja til að gerast aðilar að Evrópubandalögunum;
STEFNA AÐ ÞVÍ, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði;
ÞAR EÐ samningur þessi takmarkar hvorki sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku né rétt þeirra til að gera samninga, samanber þó ákvæði samnings þessa og takmarkanir sem leiðir af reglum þjóðaréttar;
HAFA ÁKVEÐIÐ að gera með sér eftirfarandi samning:

I. HLUTI - MARKMIÐ OG MEGINREGLUR

1. gr.

1. Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES.

2. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru í 1. mgr. skal samstarfið í samræmi við ákvæði samnings þessa fela í sér:

a) frjálsa vöruflutninga;
b) frjálsa fólksflutninga;
c) frjálsa þjónustustarfsemi;
d) frjálsa fjármagnsflutninga;
e) að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum; og einnig
f) nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála.
2. gr.

Í þessum samningi merkir:

a) hugtakið ,,samningur`` meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka auk þeirra gerða sem þar er vísað til; 1)
b) hugtakið ,,EFTA-ríki" samningsaðila sem eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu;
c) hugtakið ,,samningsaðilar``, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB, bæði bandalagið og aðildarríki EB eða bandalagið eða aðildarríki EB. Merkingin, sem leggja ber í þetta orð í hverju tilviki, ræðst af viðkomandi ákvæðum samnings þessa hverju sinni
og jafnframt viðkomandi valdsviði bandalagsins og aðildarríkja EB í samræmi við stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu.

Greininni var breytt með bókun hinn 17.mars 1993.
1) Sjá einnig 119. gr. samningsins.
3. gr.

Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af
samningi þessum leiðir.

Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.

Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.

Sbr. 5. gr. Rs
4. gr.

Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

Sbr. 6. gr. Rs. (áður 7. gr.)

5. gr.

Samningsaðilar geta hvenær sem er vakið máls á áhyggjuefnum í sameiginlegu EES-nefndinni eða EES-ráðinu í samræmi við þær aðferðir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 92. gr. og 2. mgr. 89. gr. eftir því sem við á.

6. gr.

Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði
dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu
efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem
samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.
Sbr. 3. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

7. gr.

Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru
þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

a) gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

b) gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

II. HLUTI - FRJÁLSIR VÖRUFLUTNINGAR

 

1. kafli Grundvallarreglur

8. gr.
1. Koma skal á frjálsum vöruflutningum milli samningsaðila í samræmi við ákvæði samnings þessa.

2. Ákvæði 10. -- 15., 19., 20. og 25. -- 27. gr. taka einungis til framleiðsluvara sem upprunnar eru í ríkjum samningsaðila nema annað sé tekið fram.1)

3. Ef annað er ekki tekið fram 2) taka ákvæði samningsins einungis til:

a) framleiðsluvara sem falla undir 25. -- 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni,3) að frátöldum þeim framleiðsluvörum sem skráðar eru í bókun 2 4);

b) framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun 3 í samræmi við það sérstaka fyrirkomulag sem þar er greint frá 5).

1) Sbr. bókun 4 við samninginn
2) Sjá sérstaklega 20. gr. um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir.
3) Hér er átt við skrá Alþjóða tollastofnunarinnar (WCO) í Brussel.
4) Um er að ræða kasein og fleiri eggjahvítuefni.
5) Um er að ræða unnar landbúnaðarafurðir.

9. gr.

1. Kveðið er á um upprunareglur í bókun 4. Þær eru settar með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sem samningsaðilar eru eða kunna að verða bundnir af samkvæmt Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti.1)

2. Samningsaðilar munu áfram leitast við að bæta og einfalda upprunareglur á allan hátt og auka samvinnu á sviði tollamála með það fyrir augum að byggja á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur með samningi þessum.

3. Fyrsta endurskoðun fer fram fyrir árslok 1993. Síðan fer endurskoðun fram á tveggja ára fresti. Á grundvelli þessarar endurskoðunar skuldbinda samningsaðilar sig til að ákveða þær viðeigandi ráðstafanir sem eiga að verða hluti samningsins. 2)

1) Í Úrugvæ-lotu GATT (WTO) varð niðurstaðan sú, að fela Alþjóða tollastofnuninni að endurskoða upprunaregur í vöruviðsiptum án vildarkjara.

2) Bókun 4 var mikið breytt með nýjum texta, sem kom algjörlega í stað hins fyrri. Sjá samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 22.11.1996, sbr. birtingu í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 3. hefti 1997, bls. 3 og áfram.

10. gr.

Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla.

Sbr. 12. gr. Rs
11. gr.

Magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.

Sbr. 30. gr. Rs.
12. gr.

Magntakmarkanir á útflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.

Sbr. 34. gr. Rs.
13. gr.

Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.

Sbr. 36. gr. Rs.
14. gr.

Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innanlands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur.

Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint
aðrar framleiðsluvörur.

Sbr. 95. gr. Rs.
15. gr.

Þegar framleiðsluvörur eru fluttar út til yfirráðasvæðis annars samningsaðila má endurgreiðsla á innlendum skatti ekki nema hærri fjárhæð en skattinum sem þegar hefur verið lagður á þær beint eða óbeint.

Sbr. 96. gr. Rs.
16. gr.

1. Samningsaðilar skulu tryggja breytingar á ríkiseinkasölum í viðskiptum þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.

2. Ákvæði þessarar greinar gilda um allar stofnanir sem þar til bær yfirvöld samningsaðilanna nota samkvæmt lögum eða í reynd, beint eða óbeint, til að hafa eftirlit með, ráða eða hafa umtalsverð áhrif á inn- eða útflutning milli samningsaðila. Þessi ákvæði gilda einnig um einkasölur sem ríki hefur fengið öðrum í hendur.

Sbr. 37. gr. Rs.

 

2. kafli Landbúnaðar- og sjávarafurðir

17. gr.

Í I. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi heilbrigði dýra og plantna.
18. gr.

Með fyrirvara um sérstakt fyrirkomulag varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir skulu samningsaðilar tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið er á um í 17. gr. og a- og b-lið 23. gr. varðandi aðrar vörur en þær er heyra undir 3. mgr. 8. gr., verði ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Ákvæði 13. gr. skulu gilda.
19. gr.

1. Samningsaðilar skulu taka til athugunar alla erfiðleika sem upp kunna að koma í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og leitast við að finna viðeigandi lausn á þeim.

2. Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.

3. Í þeim tilgangi skulu samningsaðilar framkvæma endurskoðun á skilyrðum fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir fyrir árslok 1993 og
á tveggja ára fresti þaðan í frá.

4. Samningsaðilar munu, í ljósi þeirra niðurstaðna sem fást af þessari endurskoðun, innan ramma landbúnaðarstefnu hvers um sig og með tilliti til niðurstaðna Úrúgvæ-viðræðnanna, ákveða, innan ramma samnings þessa, á grundvelli fríðinda, með tvíhliða eða marghliða hætti og með gagnkvæmu samkomulagi sem er hagstætt hverjum aðila, frekara afnám hvers kyns viðskiptahindrana í landbúnaði, að meðtöldum þeim viðskiptahindrunum sem leiðir af ríkiseinkasölum í viðskiptum á sviði landbúnaðar.
20. gr.

Ákvæði og fyrirkomulag varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir er að finna í bókun 9.

 

3. kafli Samvinna á sviði tollamála og auðveldun viðskipta

21. gr.

1. Til að greiða fyrir viðskiptum skulu samningsaðilar einfalda eftirlit og formsatriði á landamærum. Fyrirkomulag í þessu skyni er að finna í bókun 10.

2. Samningsaðilar skulu aðstoða hver annan í tollamálum til þess að tryggja rétta beitingu tollalöggjafar. Fyrirkomulag í þessu skyni er að finna í bókun 11.

3. Samningsaðilar skulu styrkja og auka samvinnu sín í milli með það að markmiði að einfalda framkvæmd vöruviðskipta, einkum að því er varðar áætlanir, verkefni og aðgerðir bandalagsins sem miða að því að greiða fyrir viðskiptum í samræmi við reglurnar í VI. hluta.

4. Þrátt fyrir 3. mgr. 8. gr. skal þessi grein taka til allra framleiðsluvara.
22. gr.

Samningsaðili er hefur hug á að lækka virkt stig tolla eða gjalda sem hafa samsvarandi áhrif gagnvart þriðju löndum með bestu kjör eða íhugar frestun þeirra skal, sé slíkt gerlegt, tilkynna það eigi síðar en þrjátíu dögum áður en lækkunin eða frestunin kemur til framkvæmda. Hlutaðeigandi samningsaðili skal gefa gaum athugasemdum frá öðrum samningsaðilum um röskun sem hlotist gæti af þessu.

 

4. kafli Aðrar reglur um frjálsa vöruflutninga

23. gr.

Sérstök ákvæði og fyrirkomulag er að finna í:

a) bókun 12 og II. viðauka varðandi tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottanir;
b) bókun 47 varðandi afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín;
c) III. viðauka varðandi skaðsemisábyrgð.

Þau skulu taka til allra framleiðsluvara nema annað sé tekið fram.
24. gr.

Sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi orkumál er að finna í IV. viðauka.
25. gr.

Leiði framkvæmd 10. og 12. gr. af sér:

a) endurútflutning til þriðja lands á framleiðsluvöru sem er af hálfu samningsaðila er flytur út háð magntakmörkunum, útflutningstollum eða ráðstöfunum eða gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif; eða

b) alvarlegan skort, eða hættu á alvarlegum skorti, á framleiðsluvöru sem er mjög mikilvæg samningsaðila er flytur út; og valdi þær aðstæður, sem að ofan getur, samningsaðila er flytur út meiri háttar erfiðleikum eða eru líklegar til þess getur hann gert viðeigandi ráðstafanir í samræmi við reglurnar í 113. gr.
26. gr.

Í samskiptum samningsaðila skal ekki gera ráðstafanir gegn undirboðum, leggja á jöfnunartolla og grípa til aðgerða gegn ólöglegum viðskiptaháttum sem rekja má til þriðju landa nema annað sé tekið fram í samningi þessum.
Sjá bókun 13 um að jöfnunartollum og aðgerðum gegn undirboðum verði ekki beitt og sjá einnig samþykkt frá samningafundi aðila vegna 26. gr. og bókunar 13 ( Birt í C-deild Stjórnartíðinda 1993 bls. 1440)

 

5. kafli Kola- og stálvörur

 

27. gr.


Ákvæði og fyrirkomulag varðandi kola- og stálvörur er að finna í bókunum 14 og 25.

 

III. HLUTI - FRJÁLSIR FÓLKSFLUTNINGAR, FRJÁLS ÞJÓNUSTUSTARFSEMI OG FRJÁLSIR FJÁRMAGNSFLUTNINGAR

1. kafli Launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar

28. gr.

1. Frelsi launþega til flutninga skal vera tryggt í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum.

2. Umrætt frelsi felur í sér afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum.

3. Með þeim takmörkunum sem réttlætast af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði felur það í sér rétt til þess að:

a) þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru lögð fram;

b) fara að vild í þeim tilgangi um yfirráðasvæði aðildarríkja EB og EFTA-ríkja;

c) dveljast á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis í atvinnuskyni í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um starfskjör ríkisborgara þess ríkis;

d) dveljast áfram á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eftir að hafa starfað þar.

4. Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um störf í opinberri þjónustu.

5. Í V. viðauka eru sérstök ákvæði um frelsi launþega til
flutninga.

Sbr. 48. gr. Rs.
29. gr.

Til að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að:

a) lögð verði saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta;

b) bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila.

Sbr. 51. gr. Rs.

30. gr.

Til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi skulu samningsaðilar í samræmi við VII. viðauka gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.

 

2. kafli Staðfesturéttur

31. gr.

1. Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars þessara ríkja. Hið sama gildir einnig þegar ríkisborgarar aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði einhvers þeirra, setja á stofn umboðsskrifstofu, útibú eða dótturfyrirtæki.

Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi annarrar málsgreinar 34. gr., með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin, þó með fyrirvara um ákvæði 4. kafla.

2. Í VIII. -- XI. viðauka eru sérstök ákvæði um staðfesturétt.
Sbr. 52. gr. Rs.

Sjá undanþágu Íslands varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu í VIII. viðauka – lið 9 og undanþágu Noregs í lið 10.
32. gr.

Ákvæði þessa kafla gilda ekki um starfsemi sem á yfirráðasvæði ákveðins samningsaðila fellur undir meðferð opinbers valds jafnvel þótt svo sé aðeins í einstökum tilvikum.

Sbr. 55. gr. Rs.
33. gr.

Ákvæði þessa kafla og ráðstafanir í samræmi við þau útiloka ekki að beitt verði ákvæðum í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérstaka meðferð á erlendum ríkisborgurum er grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.

Sbr. 56. gr. Rs.
34. gr.

Með félög eða fyrirtæki, sem stofnuð eru í samræmi við lög aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði samningsaðila, skal farið, að því er þennan kafla varðar, á sama hátt og einstaklinga sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum. Með félögum eða fyrirtækjum er átt við félög eða fyrirtæki, stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

Sbr. 58. gr. Rs.
35. gr.

Ákvæði 30. gr. gilda um málefni sem fjallað er um í þessum kafla.

 

3. kafli Þjónusta

36. gr.

1. Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð.

2. Í IX. -- XI. viðauka eru sérstök ákvæði um frelsi til að veita þjónustu.

Sbr. 59. gr. Rs.
37. gr.

Með ,,þjónustu`` er í samningi þessum átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa fólksflutninga.

Undir ,,þjónustu`` fellur einkum:

a) starfsemi á sviði iðnaðar;

b) starfsemi á sviði viðskipta;

c) starfsemi handverksmanna;

d) sérfræðistörf.

Sá sem veitir þjónustu getur, með fyrirvara um ákvæði 2. kafla, í því skyni stundað starfsemi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt, með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum.

Sbr. 60. gr. Rs.
38. gr.

Frelsi til að veita þjónustu á sviði flutninga fellur undir ákvæði 6. kafla um flutningastarfsemi.
39. gr.

Ákvæði 30. og 32. -- 34. gr. gilda um málefni sem fjallað er um í þessum kafla.

4. kafli Fjármagn

40. gr.

Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar.
Sjá undanþágu Íslands varðandi fjárfestingu í fiskveiðum og fiskvinnslu í XII.viðauka – lið g og undanþágu Noregs í lið h.
41. gr.

Gengar greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflutninga, fólksflutninga eða fjármagnsflutninga milli samningsaðila innan ramma ákvæða samnings þessa skulu lausar við öll höft.
Sbr. 2. mgr. 67. gr. Rs.(eins og hann var við undirritun EES-samningsins.)
42. gr.

1. Ef beitt er innlendum reglum um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum sem höftum hefur verið létt af samkvæmt ákvæðum samnings þessa skal það gert án mismununar.

2. Lán til beinnar eða óbeinnar fjármögnunar aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eða sveitarstjórna þess skulu ekki boðin út eða tekin í öðrum aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum nema viðkomandi ríki hafi gert með sér samkomulag um það.
Sbr. 68. gr. Rs. eins og hann var við undirritun EES-samningsins, en með Maastricht-sáttmálanum 1.nóvember 1993 komu greinar 73 B-G í stað greina 67 – 73 í þáverandi Rs.
43. gr.


1. Kunni munurinn milli gjaldeyrisreglna aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna að verða til þess að menn, búsettir í einu þessara ríkja, færi sér í nyt þær rýmri yfirfærslureglur á yfirráðasvæði samningsaðila sem kveðið er á um í 40. gr. til þess að fara fram hjá reglum einhvers þessara ríkja um fjármagnsflutninga til eða frá þriðju löndum getur viðkomandi samningsaðili gert viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því.

2. Leiði fjármagnsflutningar til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í aðildarríki EB eða EFTA-ríki getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana á sviði fjármagnsflutninga.

3. Breyti þar til bær yfirvöld samningsaðila gengisskráningu sinni þannig að alvarlegri röskun á samkeppnisskilyrðum valdi geta hinir samningsaðilarnir gert nauðsynlegar ráðstafanir um mjög takmarkaðan tíma til að vinna gegn áhrifum breytingarinnar.

4. Eigi aðildarríki EB eða EFTA-ríki í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess
fallnir að stofna framkvæmd samnings þessa í hættu.
44. gr.

Bandalagið annars vegar og EFTA-ríkin hins vegar skulu beita eigin málsmeðferð, sem mælt er fyrir um í bókun 18, vegna framkvæmdar ákvæða 43. gr.
45. gr.

1. Tilkynna skal sameiginlegu EES-nefndinni ákvarðanir, álit og tilmæli vegna þeirra ráðstafana sem lýst er í 43. gr.

2. Ekki má grípa til neinna ráðstafana nema að höfðu samráði í sameiginlegu EES-nefndinni og eftir að henni hafa verið veittar upplýsingar.

3. Í því tilviki sem um ræðir í 2. mgr. 43. gr. getur hlutaðeigandi samningsaðili þó gert ráðstafanirnar, án þess að áður fari fram samráð eða skipti á upplýsingum, þegar það reynist óhjákvæmilegt vegna þess að þær verða að fara leynt eða þola ekki bið.

4. Komi skyndilega upp vandi er varðar greiðslujöfnuð, í því tilviki sem um ræðir í 4. mgr. 43. gr., og sé ekki unnt að fylgja málsmeðferðinni í 2. mgr., getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til nauðsynlegra fyrirbyggjandi verndarráðstafana. Ráðstafanirnar skulu hafa í för með sér eins litla röskun á framkvæmd samnings þessa og kostur er á og mega ekki vera víðtækari en brýnasta nauðsyn krefur til að ráða bót á þeim skyndilega vanda sem komið hefur upp.

5. Þegar gerðar eru ráðstafanir í samræmi við 3. og 4. mgr. skal tilkynna það eigi síðar en þann dag sem þær öðlast gildi og skulu upplýsingaskiptin, samráðið og tilkynningarnar sem um getur í 1. mgr. eiga sér stað eins fljótt og auðið er í kjölfar þess.

 

5. kafli Samvinna um stefnu í efnahags- og peningamálum

46. gr.

Samningsaðilar skulu skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samnings þessa og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. Þeir geta enn fremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum. Þessi skipti á skoðunum og upplýsingum skulu fara fram án nokkurra skuldbindinga.

 

6. kafli Flutningastarfsemi

47. gr.

1. Ákvæði 48. -- 52. gr. gilda um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum.

2. Í XIII. viðauka eru sérstök ákvæði um allar tegundir flutninga.
48. gr.

1. Engu aðildarríki EB eða EFTA-ríki er heimilt að setja nokkur þau ákvæði um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum utan ramma XIII. viðauka sem beint eða óbeint eru óhagstæðari flutningsaðilum frá öðrum ríkjum en innlendum flutningsaðilum.

2. Sérhver samningsaðili er víkur frá meginreglunni í 1. mgr. skal tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni það. Aðrir samningsaðilar, sem fallast ekki á frávikið, geta gripið til viðeigandi gagnráðstafana.

Sbr. 76. gr. Rs.
49. gr.

Aðstoð er samrýmanleg samningi þessum ef hún bætir úr þörf fyrir samræmingu á sviði flutninga eða í henni felst endurgjald fyrir að rækja tilteknar skyldur sem falla undir hugtakið opinber þjónusta.

Sbr. 77. gr. Rs.

50. gr.

1. Þegar um er að ræða flutninga á yfirráðasvæði samningsaðila skal ekki vera nokkur mismunun sem kemur fram í því að flutningsaðilar leggi á mismunandi gjöld eða setji mismunandi skilmála við flutning sams konar vöru á sömu flutningaleiðum, allt eftir því hvert uppruna- eða ákvörðunarland viðkomandi vöru er.

2. Þar til bært yfirvald samkvæmt VII. hluta skal að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis rannsaka öll tilvik um mismunun sem falla undir þessa grein og taka nauðsynlegar ákvarðanir samkvæmt eigin reglum.

Sbr. 79. gr. Rs.
51. gr.

1. Bannað er að leggja á gjöld og setja skilmála er varða flutningastarfsemi innan yfirráðasvæðis samningsaðila og fela í einhverjum mæli í sér aðstoð eða vernd, einu eða fleiri fyrirtækjum eða atvinnugreinum í hag, nema þar til bært yfirvald samkvæmt 2. mgr. 50. gr. heimili það.

2. Þar til bært yfirvald skal að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis kanna gjöld þau og skilmála sem um getur í 1. mgr., annars vegar einkum með kröfur um æskilega efnahagsstefnu á einstökum landsvæðum í huga, svo og þarfir vanþróaðra svæða og erfiðleika svæða þar sem alvarlegt stjórnmálaástand ríkir, og hins vegar með tilliti til áhrifa gjaldanna og skilmálanna á samkeppni milli mismunandi greina flutningastarfsemi.

Þar til bært yfirvald skal taka nauðsynlegar ákvarðanir samkvæmt eigin reglum.

3. Bannið sem um getur í 1. mgr. tekur ekki til gjalda sem ákveðin eru til að bregðast við samkeppni.

Sbr. 80. gr. Rs.
52. gr.

Álögur eða gjöld, sem flutningsaðili innheimtir umfram flutningsgjöld vegna flutnings yfir landamæri, mega ekki vera hærri en sanngjarnt er með hliðsjón af raunverulegum kostnaði vegna þessa. Samningsaðilar skulu leitast við að draga smám saman úr slíkum kostnaði.

Sbr. 81. gr. Rs.

IV. HLUTI - SAMKEPPNISREGLUR OG AÐRAR SAMEIGINLEGAR REGLUR

1. kafli Reglur um fyrirtæki

53. gr.

1. Eftirfarandi skal bannað og talið ósamrýmanlegt framkvæmd samnings þessa: allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningur þessi tekur til, einkum samningar, ákvarðanir og aðgerðir sem:

a) ákveða kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti;

b) takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu;

c) skipta mörkuðum eða birgðalindum;

d) mismuna öðrum viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra;

e) setja það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.


2. Samningar og ákvarðanir sem grein þessi bannar eru sjálfkrafa ógildir.

3. Ákveða má að ákvæðum 1. mgr. verði ekki beitt um:

--- samninga eða tegundir samninga milli fyrirtækja;

--- ákvarðanir eða tegundir ákvarðana af hálfu samtaka
fyrirtækja;

--- samstilltar aðgerðir eða tegundir samstilltra aðgerða;

sem stuðla að bættri framleiðslu eða vörudreifingu eða efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir, enda sé neytendum veitt sanngjörn hlutdeild í þeim ávinningi sem af þeim hlýst, án þess að:

a) höft, sem óþörf eru til að hinum settu markmiðum verði náð, séu lögð á hlutaðeigandi fyrirtæki;

b) slíkt veiti fyrirtækjunum færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna sem um er að ræða.

Sbr. 85. gr. Rs.
54. gr.

Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu á svæðinu sem samningur þessi tekur til, eða verulegum hluta þess, er ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa og því bönnuð að því leyti sem hún kann að hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Slík misnotkun getur einkum falist í því að:

a) beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir;

b) settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns;

c) öðrum viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt;

d) sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt viðskiptavenju.

Sbr. 86. gr. Rs.

55. gr.


1. Með fyrirvara um ákvæði sem hrinda 53. og 54. gr. í framkvæmd og er að finna í bókun 21 og XIV. viðauka við samning þennan skulu framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA, sem kveðið er á um í 1. mgr. 108. gr., tryggja beitingu meginreglnanna sem mælt er fyrir um í 53. og 54. gr.

Hin þar til bæra eftirlitsstofnun, sem kveðið er á um í 56. gr., skal að eigin frumkvæði eða að beiðni ríkis á viðkomandi svæði eða hinnar eftirlitsstofnunarinnar rannsaka tilvik þar sem grunur leikur á að meginreglur þessar séu brotnar. Hin þar til bæra eftirlitsstofnun skal framkvæma þessar rannsóknir í samvinnu við þar til bær stjórnvöld á viðkomandi svæði og í samvinnu við hina eftirlitsstofnunina sem skal veita henni aðstoð í samræmi við eigin reglur.

Komist hún að þeirri niðurstöðu að um brot hafi verið að ræða skal hún gera tillögur um viðeigandi ráðstafanir til að binda enda á það.

2. Ef ekki er bundinn endi á umrætt brot skal þar til bær eftirlitsstofnun skrá slíkt brot á meginreglunum í rökstuddri ákvörðun.

Hin þar til bæra eftirlitsstofnun getur birt ákvörðun sína og heimilað ríkjum á viðkomandi svæði, með þeim skilyrðum og á þann hátt sem hún kveður nánar á um, að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ráða bót á ástandinu. Hún getur einnig farið fram á það við hina eftirlitsstofnunina að hún heimili ríkjum á viðkomandi svæði
að gera slíkar ráðstafanir.


56. gr.


1. Eftirlitsstofnanirnar skulu taka ákvarðanir í einstökum málum, sem falla undir 53. gr., í samræmi við eftirfarandi ákvæði:

a) eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í þeim málum sem einungis hafa áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna;

b) með fyrirvara um c-lið skal eftirlitsstofnun EFTA taka ákvarðanir, eins og kveðið er á um í ákvæðum 58. gr., bókun 21 og reglum um framkvæmd hennar, bókun 23 og XIV. viðauka, í málum þar sem velta viðkomandi fyrirtækja á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna er 33% eða meiri en velta þeirra á svæðinu sem samningur þessi tekur til;

c) framkvæmdastjórn EB skal taka ákvarðanir í öðrum málum, svo og í þeim málum sem falla undir b-lið og hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB, og skal hún þá taka tillit til ákvæðanna í 58. gr., bókun 21, bókun 23 og XIV. viðauka.

2. Eftirlitsstofnun á því svæði þar sem yfirburðastaða er talin vera fyrir hendi skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir 54. gr. Reglurnar sem settar eru í b- og c-lið 1. mgr. gilda því aðeins að um yfirburðastöðu á svæðum beggja eftirlitsstofnananna sé að ræða.

3. Eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir c-lið 1. mgr. og hafa ekki umtalsverð áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB eða samkeppni í bandalaginu.1)

4. Hugtökin ,,fyrirtæki`` og ,,velta`` eru, að því er þessa grein varðar, skilgreind í bókun 22.
1) Sjá samþykkt frá samningafundi aðila um "de minimis" samninga, sem birt er í C-deild Stjórnartíðinda 1993 bls. 1440.

57. gr.

1. Samfylkingar, sem gert er ráð fyrir eftirliti með í 2. mgr. og skapa eða efla yfirburðastöðu er hindrar virka samkeppni á samningssvæðinu eða umtalsverðum hluta þess, skal lýsa ósamrýmanlegar samningi þessum.

2. Eftirtaldir aðilar skulu hafa eftirlit með samfylkingum sem falla undir 1. mgr.:

a) framkvæmdastjórn EB í þeim málum sem falla undir reglugerð EBE nr. 4064/89, í samræmi við þá reglugerð, bókanir 21 og 24 og XIV. viðauka við samninginn. Með fyrirvara um endurskoðunarvald dómstóls EB hefur framkvæmdastjórn EB ein vald til að taka ákvarðanir í þessum málum.

b) eftirlitsstofnun EFTA í þeim málum sem falla ekki undir a-lið hafi viðmiðunarmörkum, sem sett eru í XIV. viðauka, verið fullnægt á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna í samræmi við bókanir 21 og 24 og XIV. viðauka við samninginn. Þetta er með þeim fyrirvara að aðildarríki EB séu ekki valdbær í þessu tilliti.


58. gr.

Með það fyrir augum að þróa og viðhalda samræmdu eftirliti á Evrópska efnahagssvæðinu á sviði samkeppni, svo og að stuðla að einsleitri framkvæmd, beitingu og túlkun ákvæða samningsins í þessu skyni, skulu þar til bær yfirvöld hafa með sér samvinnu í samræmi við ákvæði bókana 23 og 24.

59. gr.

1. Eigi í hlut opinber fyrirtæki, og fyrirtæki sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veita sérstök réttindi eða einkarétt, skulu samningsaðilar tryggja að hvorki séu gerðar né viðhaldið nokkrum þeim ráðstöfunum sem fara í bága við reglur samnings þessa, einkum reglur sem kveðið er á um í 4. gr. og 53. -- 63. gr.

2. Reglur samnings þessa, einkum reglurnar um samkeppni, gilda um fyrirtæki sem falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu eða eru í eðli sínu fjáröflunareinkasölur, að því marki sem beiting þeirra kemur ekki í veg fyrir að þau geti að lögum eða í raun leyst af hendi þau sérstöku verkefni sem þeim eru falin. Þróunviðskipta má ekki raska í þeim mæli að það stríði gegn hagsmunum samningsaðilanna.

3. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu hvor innan síns valdsviðs tryggja að ákvæðum þessarar greinar sé beitt og gera, eftir því sem þörf krefur, viðeigandi ráðstafanir gagnvart þeim ríkjum sem eru á svæðum hvorrar um sig.

Sbr. 90. gr. Rs.

60. gr.

Í XIV. viðauka eru sérstök ákvæði um framkvæmd þeirra meginreglna sem settar eru í 53., 54., 57. og 59. gr.

 

2. kafli Ríkisaðstoð

61. gr.


1. Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

2. Eftirtalið samrýmist framkvæmd samnings þessa:

a) aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum enda sé hún veitt án mismununar með tilliti til uppruna viðkomandi framleiðsluvara;

b) aðstoð sem veitt er til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða;

c) aðstoð sem veitt er til atvinnuvega á ákveðnum svæðum í Sambandslýðveldinu Þýskalandi, þar sem skipting Þýskalands hefur áhrif, að því marki sem þörf er á slíkri aðstoð til að bæta upp efnahagslegt óhagræði vegna skiptingarinnar.3. Eftirtalið getur talist samrýmanlegt framkvæmd samnings þessa:

a) aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi mikið;

b) aðstoð til að hrinda í framkvæmd mikilvægum sameiginlegum evrópskum hagsmunamálum eða ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis;

c) aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum;

d) aðstoð af öðru tagi sem sameiginlega EES-nefndin kann að tiltaka í samræmi við VII. hluta.

Sbr. 92. gr. Rs.


62. gr.

1. Fylgjast skal stöðugt með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr. Eftirtaldir aðilar skulu framkvæma slíkt eftirlit:

a) framkvæmdastjórn EB, að því er varðar aðildarríki EB, í samræmi við reglurnar í 93. gr. stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu;

b) eftirlitsstofnun EFTA, að því er varðar EFTA-ríkin, í samræmi við þær reglur sem settar eru í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA

1)en mælt er fyrir um valdsvið hennar og störf í bókun 26.

2. Með það fyrir augum að tryggja samræmt eftirlit á sviði ríkisaðstoðar á svæðinu sem samningur þessi tekur til skulu framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA hafa með sér samvinnu í samræmi við ákvæðin í bókun 27.

1) Sjá einnig bókun 3 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA.
63. gr.

Í XV. viðauka eru sérstök ákvæði um ríkisaðstoð.

64. gr.

1. Ef önnur eftirlitsstofnunin telur að framkvæmd hinnar eftirlitsstofnunarinnar á 61. og 62. gr. samningsins, svo og 5. gr. bókunar 14, samræmist ekki kröfum um sömu samkeppnisskilyrði á svæðinu sem samningur þessi tekur til skal skipst á skoðunum innan tveggja vikna í samræmi við málsmeðferð f-liðar í bókun 27.

Hafi ekki fundist lausn innan þessara tveggja vikna sem aðilar geta sætt sig við getur þar til bært yfirvald samningsaðila, sem málið snertir, gripið án tafar til bráðabirgðaráðstafana til þess að ráða bót á þeirri röskun sem orðið hefur á samkeppni.

Samráð skal síðan hafa í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við.

Hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að finna lausn innan þriggja mánaða og umræddar aðgerðir valda, eða hætta er á að þær valdi, röskun á samkeppni sem hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila er unnt að gera þær varanlegu ráðstafanir í stað bráðabirgðaráðstafananna sem eru bráðnauðsynlegar til að jafna áhrif röskunarinnar. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst starfsemi EES.

2. Ákvæði þessarar greinar skulu einnig gilda um ríkiseinkasölur sem settar eru á stofn eftir undirritunardag samningsins.

 

3. kafli Aðrar sameiginlegar reglur

65. gr.


1. Í XVI. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi innkaup sem gilda, nema annað sé tekið fram, um allar framleiðsluvörur og þjónustu eins og tilgreint er.

2. Í bókun 28 og XVII. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi hugverk og eignarréttindi á sviði iðnaðar og verslunar sem gilda um allar framleiðsluvörur og þjónustu nema annað sé tekið fram.

V. HLUTI - ALTÆK ÁKVÆÐI ER VARÐA FJÓRÞÆTTA FRELSIÐ

1. kafli Félagsmál

66. gr.

Samningsaðilar eru sammála um að nauðsynlegt sé að stuðla að bættum starfsskilyrðum og lífskjörum launþega.

67. gr.

1. Samningsaðilar skulu sérstaklega leggja áherslu á að hvetja til umbóta, einkum varðandi vinnuumhverfi, með tilliti til heilsu og öryggis launþega. Til að stuðla að því að þessu markmiði verði náð skulu lágmarkskröfur smám saman koma til framkvæmda og þá með hliðsjón af þeim aðstæðum og tæknilegu reglum er gilda hjá hverjum samningsaðila. Slíkar lágmarkskröfur eru því ekki til fyrirstöðu að samningsaðili láti strangari reglur um starfsskilyrði halda gildi sínu eða setji slíkar reglur enda samrýmist þær samningi þessum.

2. Í XVIII. viðauka eru tilgreind nauðsynleg ákvæði vegna framkvæmdar lágmarkskrafna samkvæmt 1. mgr.

68. gr.

Á sviði vinnulöggjafar skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd samnings þessa. Þessar ráðstafanir eru tilgreindar í XVIII. viðauka.
69. gr.

1. Hver samningsaðili skal tryggja og viðhalda beitingu þeirrar meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu.

Með ,,launum`` er í þessari grein átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa síns.

Með sömu launum án mismununar vegna kynferðis er átt við að:

a) laun fyrir sömu ákvæðisvinnu skuli miðuð við sömu mælieiningu;

b) laun fyrir tímavinnu skuli vera hin sömu fyrir sams konar starf.

2. Í XVIII. viðauka eru sérstök ákvæði um framkvæmd 1. mgr.

Sbr. 119. gr. Rs.

70. gr.

Samningsaðilar skulu stuðla að því að meginreglan um jafnrétti karla og kvenna verði virt með því að hrinda ákvæðunum sem tilgreind eru í XVIII. viðauka í framkvæmd.

71. gr.

Samningsaðilar skulu leitast við að auka skoðanaskipti milli vinnuveitenda og launþega í Evrópu.

 

2. kafli Neytendavernd

72. gr.

Í XIX. viðauka eru ákvæði um neytendavernd.

 

3. kafli Umhverfismál

73. gr.

1. Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu byggjast á eftirtöldum markmiðum:

a) að varðveita, vernda og bæta umhverfið;

b) að stuðla að því að vernda heilsu manna;

c) að tryggja að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi.

2. Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla sé lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Kröfur um umhverfisvernd skulu vera þáttur í stefnu samningsaðila á öðrum sviðum.

Sbr. 1. og 2. mgr. 130R. gr. Rs.

74. gr.

Í XX. viðauka eru sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda samkvæmt 73. gr.

75. gr.

Verndarráðstafanirnar, sem um getur í 74. gr., eru því ekki til fyrirstöðu að einstakir samningsaðilar láti strangari verndarráðstafanir halda gildi sínu eða grípi til þeirra enda samrýmist þær samningi þessum.

Sbr. 130T. gr. Rs.

4. kafli Hagskýrslugerð

76. gr.

1. Samningsaðilar skulu tryggja úrvinnslu og dreifingu samfelldra og sambærilegra hagskýrslna sem lýsi og geri kleift að fylgjast með öllum þeim þáttum sem máli skipta á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. Í þessu skyni skulu samningsaðilar þróa með sér og nota samræmdar aðferðir, skýrgreiningar og flokkanir, svo og sameiginlegar starfsáætlanir og vinnubrögð við hagskýrslugerð hvar sem það á við í stjórnsýslunni og hafa þá í huga nauðsyn þess að fyllsta trúnaðar sé gætt.

3. Í XXI. viðauka eru sérstök ákvæði um hagskýrslugerð.

4. Í bókun 30 eru sérstök ákvæði um skipulag samstarfs á sviði hagskýrslugerðar.

 

5. kafli Félagaréttur

77. gr.


Í XXII. viðauka eru sérstök ákvæði um félagarétt.

VI. HLUTI - SAMVINNA UTAN MARKA FJÓRÞÆTTA FRELSISINS

78. gr.


Samningsaðilar skulu efla og auka samvinnu innan ramma starfsemi bandalagsins á sviði:

--- rannsókna og tækniþróunar,

--- upplýsingaþjónustu,

--- umhverfismála,

--- menntunar, þjálfunar og æskulýðsmála,

--- félagsmála,

--- neytendaverndar,

--- lítilla og meðalstórra fyrirtækja,

--- ferðamála,

--- hljóð- og myndmiðlunar og

--- almannavarna,

að því leyti sem samstarf á þessum sviðum lýtur ekki ákvæðum annarra hluta samnings þessa.

79. gr.

1. Samningsaðilar skulu auka skoðanaskipti sín í milli með öllum viðeigandi aðferðum, einkum samkvæmt reglum VII. hluta, með það fyrir augum að ákveða starfssvið og starfsemi þar sem nánari samvinna getur aukið líkur á að sameiginleg markmið náist á þeim sviðum sem um getur í 78. gr.

2. Þeir skulu einkum skiptast á upplýsingum og ræða í sameiginlegu EES-nefndinni, að beiðni einstakra samningsaðila, áform og tillögur um að stofna til eða breyta rammaáætlunum, einstökum áætlunum, aðgerðum og verkefnum á þeim sviðum sem um getur í 78. gr.

3. Ákvæði VII. hluta gilda að breyttu breytanda um þennan hluta þegar sérstaklega er kveðið á um það í þessum hluta eða bókun 31.


80. gr.

Samvinna samkvæmt 78. gr. skal að öðru jöfnu fara fram með eftirfarandi hætti:

--- þátttöku EFTA-ríkja í rammaáætlunum EB, einstökum áætlunum, verkefnum eða öðrum aðgerðum;

--- komið verði á sameiginlegri starfsemi á tilteknum sviðum þar sem meðal annars gæti verið um að ræða samræmingu eða samstillingu á starfsemi,
sameiningu starfsemi sem fyrir er og komið verði á sérstakri sameiginlegri starfsemi;

--- formlegum og óformlegum upplýsingaskiptum eða -miðlun;

--- sameiginlegu átaki til að hvetja til tiltekinnar starfsemi á yfirráðasvæði samningsaðila;

--- hliðstæðri löggjöf, eftir því sem við á, með sömu eða svipuðum ákvæðum;

--- samræmingu aðgerða og starfsemi á vettvangi eða fyrir tilstilli alþjóðastofnana, svo og samræmingu samvinnu við þriðju lönd, þar sem um gagnkvæmt hagsmunamál er að ræða.

81. gr.

Þegar samvinna felur í sér þátttöku EFTA-ríkja í rammaáætlun EB, einstakri áætlun, verkefni eða annarri aðgerð skulu eftirfarandi meginreglur gilda:

a) EFTA-ríkin skulu hafa aðgang að öllum þáttum áætlunar.

b) Staða EFTA-ríkjanna í nefndum, sem aðstoða framkvæmdastjórn EB við stjórnun eða þróun starfsemi bandalagsins, skal vera í fullu samræmi við það fjárframlag sem EFTA-ríkin kunna að greiða vegna þátttöku sinnar.

c) Ákvæði 3. mgr. 79. gr. gilda um þær ákvarðanir bandalagsins er hafa bein eða óbein áhrif á rammaáætlun, einstaka áætlun, verkefni eða aðra aðgerð sem EFTA-ríki taka þátt í samkvæmt ákvörðun á grundvelli samnings þessa, þó ekki ákvarðanir sem varða fjárlög bandalagsins. Sameiginlega EES-nefndin getur endurskoðað skilmála og skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku í viðkomandi starfsemi í samræmi
við 86. gr.

d) Þegar um samstarfsverkefni er að ræða skulu stofnanir, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar EFTA-ríkja hafa sömu réttindi og skyldur í áætlun bandalagsins eða annarri aðgerð sem um ræðir og samstarfsstofnanir, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar aðildarríkja EB. Hið sama gildir að breyttu breytanda um þátttakendur sem fara milli landa vegna viðkomandi samstarfs aðildarríkja EB og EFTA-ríkja.


e) EFTA-ríki, stofnanir þeirra, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar skulu hafa sömu réttindi og skyldur að því er varðar úrvinnslu, mat og nýtingu niðurstaðna og aðildarríki EB, stofnanir þeirra, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar.

f) Samningsaðilar skuldbinda sig í samræmi við viðkomandi reglugerðir og reglur sínar til að auðvelda flutninga þátttakenda í áætluninni og annarri starfsemi að því marki sem nauðsynlegt er.

82. gr.

1. Þegar samvinna samkvæmt þessum hluta felur í sér fjárframlag frá EFTA-ríkjunum skal framlagið látið í té á einhvern eftirtalinn hátt:

a) Framlag EFTA-ríkjanna vegna þátttöku þeirra í starfsemi bandalagsins skal reiknað í hlutfalli við:

--- fjárhagsskuldbindingar; og

--- greiðsluskuldbindingar;

sem varðandi bandalagið eru settar árlega á þann lið fjárlaga þess sem á við um viðkomandi starfsemi.

Hlutfallsstuðullinn sem ákvarðar framlag EFTA-ríkjanna skal vera summa hlutfallsins milli annars vegar vergrar landsframleiðslu hvers EFTA-ríkis um sig miðað við markaðsverð og hins vegar summa vergrar landsframleiðslu allra aðildarríkja EB og umrædds EFTA-ríkis miðað við markaðsverð. Stuðullinn skal reiknaður fyrir hvert fjárhagsár á grundvelli nýjustu tölfræðilegra upplýsinga.

Bæði að því er varðar fjárhagsskuldbindingar og greiðsluskuldbindingar skal fjárframlag EFTA-ríkjanna koma til viðbótar fjárframlagi bandalagsins á þeim lið fjárlaga þess sem á við um viðkomandi starfsemi.

Þau framlög sem EFTA-ríkin skulu greiða árlega skulu ákveðin á grundvelli greiðsluskuldbindinganna.

Skuldbindingar sem bandalagið tók á sig áður en EFTA-ríkin hófu á grundvelli samnings þessa þátttöku í viðkomandi starfsemi, svo og greiðslur sem af henni leiðir, kalla ekki á framlög af hálfu EFTA-ríkjanna.

b) Fjárframlag EFTA-ríkjanna vegna þátttöku þeirra í ákveðnum verkefnum eða annarri starfsemi skal grundvallast á þeirri meginreglu að sérhver samningsaðili skuli bera eigin kostnað, svo og viðeigandi hluta af fastakostnaði bandalagsins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

c) Sameiginlega EES-nefndin skal taka nauðsynlegar ákvarðanir varðandi fjárframlag samningsaðila til þeirrar starfsemi sem um ræðir hverju sinni.

2. Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar eru í bókun 32.


83. gr.

Þegar samvinnan felst í upplýsingaskiptum milli opinberra aðila skulu EFTA-ríkin hafa sama rétt á að fá upplýsingar og aðildarríki EB og ber þeim jafnframt sama skylda til að veita upplýsingar, samanber þó kröfur um trúnað sem sameiginlega EES-nefndin ákveður.

84. gr.

Ákvæði um samvinnu á tilteknum sviðum eru í bókun 31.

85. gr.

Ef ekki er kveðið á um annað í bókun 31 skal samvinna, sem þegar fer fram milli bandalagsins og einstakra EFTA-ríkja á sviðunum sem um getur í 78. gr. við gildistöku samnings þessa, eftir það lúta viðeigandi ákvæðum þessa hluta og bókunar 31.

86. gr.

Sameiginlega EES-nefndin skal, í samræmi við VII. hluta, taka allar nauðsynlegar ákvarðanir vegna framkvæmdar 78. -- 85. gr. og ráðstafana sem af henni leiðir og geta þær meðal annars falið í sér viðbætur við og breytingar á bókun 31, ásamt því að ákveða nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir vegna framkvæmdar 85. gr.

87. gr.

Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að þróa, efla eða auka samvinnu innan ramma starfsemi bandalagsins á sviðum sem eru ekki tilgreind í 78. gr. þegar slík samvinna þykir líkleg til að greiða fyrir því að markmiðum samnings þessa verði náð eða samningsaðilar telja slíkt hagstætt báðum aðilum af öðrum ástæðum. Slíkar ráðstafanir geta haft það í för með sér að 78. gr. verði breytt þannig að nýjum sviðum verði bætt við þau sem þar eru tilgreind.

88. gr.

Með fyrirvara um ákvæði annarra hluta samnings þessa skulu ákvæði þessa hluta ekki koma í veg fyrir að einstakir samningsaðilar geti undirbúið, samþykkt og hrundið ráðstöfunum í framkvæmd einhliða.

 

VII. HLUTI - ÁKVÆÐI UM STOFNANIR

1. kafli Skipulag samstarfsins

1. ÞÁTTUR
EES-ráðið

89. gr.

1. EES-ráði er hér með komið á fót. Hlutverk þess er einkum að vera stjórnmálalegur aflvaki varðandi framkvæmd samnings þessa og setja almennar viðmiðunarreglur fyrir sameiginlegu EES-nefndina.

Í þessum tilgangi skal EES-ráðið meta hvernig samningurinn í heild hefur verið framkvæmdur og hvernig hann hefur þróast. Það skal taka stjórnmálalegar ákvarðanir sem leiða til breytinga á samningnum.

2. Samningsaðilar, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB eftir valdsviði viðkomandi, geta tekið mál er valda erfiðleikum upp í EES-ráðinu eftir að hafa rætt þau í sameiginlegu EES-nefndinni, eða geta tekið þau beint upp í EES-ráðinu er mjög brýna nauðsyn ber til.

3. EES-ráðið setur sér starfsreglur með ákvörðun þar að lútandi.

90. gr.

1. EES-ráðið skipa fulltrúar í ráði Evrópubandalaganna og úr framkvæmdastjórn EB ásamt einum fulltrúa ríkisstjórnar hvers EFTA-ríkis.

Skipa skal fulltrúa í EES-ráðið í samræmi við þau skilyrði sem mælt verður fyrir um í starfsreglum þess.

2. Ákvarðanir EES-ráðsins skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar.
Sjá samþykkt frá samningafundi aðila um að ráðherrar EFTA-ríkja skuli mæla einum rómi í ráðinu (C-deild Stjórnartíðinda 1993 bls. 1440).

91. gr.

1. Fulltrúi ráðs Evrópubandalaganna og ráðherra í ríkisstjórn EFTA-ríkis skulu gegna embætti forseta EES-ráðsins til skiptis sex mánuði í senn.

2. Forseti EES-ráðsins skal kalla það saman tvisvar á ári. EES-ráðið skal einnig koma saman, þegar aðstæður krefjast, í samræmi við starfsreglur sínar.

Sjá framangreinda samþykkt varðandi túlkun 2.mgr.
(C-deild Stjórnartíðinda 1993, bls. 1440)

2. ÞÁTTUR
Sameiginlega EES-nefndin

92. gr.

1. Sameiginlegu EES-nefndinni er hér með komið á fót. Skal hún tryggja virka framkvæmd samnings þessa. Í þeim tilgangi skal þar skipst á skoðunum og upplýsingum og taka ákvarðanir í þeim málum sem kveðið er á um í samningi þessum.

2. Samningsaðilar, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB eftir valdsviði viðkomandi, skulu hafa samráð í sameiginlegu EES-nefndinni um öll þau mál á grundvelli samningsins sem valda erfiðleikum og einhver þeirra hefur tekið upp.

3. Sameiginlega EES-nefndin setur sér starfsreglur með ákvörðun þar að lútandi.

93. gr.

1. Sameiginlegu EES-nefndina skipa fulltrúar samningsaðila.

2. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna, sem mæla einum rómi, hins vegar.

94. gr.

1. Fulltrúi bandalagsins, þ.e. framkvæmdastjórnar EB, og fulltrúi eins EFTA-ríkis skulu gegna embætti formanns sameiginlegu EES-nefndarinnar til skiptis sex mánuði í senn.

2. Sameiginlega EES-nefndin skal að öðru jöfnu koma saman að minnsta kosti einu sinni í mánuði til að gegna störfum sínum. Hana má einnig kalla saman að frumkvæði formannsins eða samkvæmt beiðni einhvers samningsaðila í samræmi við starfsreglur hennar.

3. Sameiginlega EES-nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir eða starfshópa sér til aðstoðar við framkvæmd verkefna sinna. Sameiginlega EES-nefndin skal í starfsreglum sínum mæla fyrir um skipan og starfshætti umræddra undirnefnda og starfshópa. Sameiginlega EES-nefndin skal ákveða verkefni þeirra í hverju tilviki
fyrir sig.1)

4. Sameiginlega EES-nefndin skal gefa út ársskýrslu um framkvæmd og þróun samnings þessa.
1) Sjá samþykkt frá samningafundi aðila (C-deild Stjórnartíðinda 1993, bls. 1440)


3. ÞÁTTUR
Samvinna þingmanna

95. gr.

1. Sameiginlegri EES-þingmannanefnd er hér með komið á fót. Hana skipa jafnmargir þingmenn Evrópuþingsins annars vegar og þjóðþinga EFTA-ríkjanna hins vegar. Heildarfjöldi þingmanna í nefndinni kemur fram í stofnsamþykktinni í bókun 36.

2. Fundir sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar skulu haldnir til skiptis í bandalaginu og EFTA-ríki í samræmi við ákvæði bókunar 36.

3. Sameiginlega EES-þingmannanefndin skal með umræðum og fundum stuðla að auknum skilningi milli bandalagsins og EFTA-ríkjanna á þeim sviðum sem samningur þessi tekur til.

4. Sameiginlegu EES-þingmannanefndinni er heimilt að láta álit sitt í ljós í formi skýrslna eða ályktana eftir því sem við á. Hún skal einkum taka til athugunar ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar um framkvæmd og þróun samnings þessa sem gefin er út í samræmi við 4. mgr.

5. Forseti EES-ráðsins má koma fyrir sameiginlegu EES-þingmannanefndina og taka þar til máls.

6. Sameiginlega EES-þingmannanefndin setur sér starfsreglur.

Sjá samkomulag Íslands og Noregs
frá 13. desember 1994 um fulltrúatölu
í nefndinni.

4. ÞÁTTUR
Samvinna aðila er starfa á sviði efnahags- og félagsmála

96. gr.

1. Fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndarinnar og annarra samtaka, sem eru í fyrirsvari fyrir aðila á sviði félagsmála í bandalaginu, og fulltrúar samsvarandi aðila í EFTA-ríkjunum skulu vinna að því að styrkja tengslin sín í milli og eiga samstarf á skipulagðan og reglubundinn hátt með það að markmiði að auka skilning á efnahagslegum og félagslegum þáttum í stöðugt samofnara efnahagssamstarfi samningsaðilanna og á hagsmunum þeirra innan EES.

2. Ráðgjafarnefnd EES er hér með komið á fót í þessum tilgangi. Hana skipa jafnmargir fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndar bandalagsins annars vegar og ráðgjafarnefndar EFTA hins vegar. Ráðgjafarnefnd EES er heimilt að láta í ljós álit sitt í formi skýrslna eða ályktana eftir því sem við á.

3. Ráðgjafarnefnd EES setur sér starfsreglur.

 

2. kafli Tilhögun ákvarðanatöku

97. gr.


Með fyrirvara um meginregluna um jafnræði, og eftir að öðrum samningsaðilum hafa verið veittar upplýsingar þar um, hefur samningur þessi ekki áhrif á rétt einstakra samningsaðila til að breyta innlendri löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn tekur til:

--- ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf, eins og henni hefur verið breytt, hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins; eða

--- ef skilyrðum 98. gr. hefur verið fullnægt.

98. gr.

Breyta má viðaukum samningsins, svo og bókunum 1 -- 7, 9 -- 11, 19 -- 27, 30 -- 32, 37, 39, 41 og 47, eftir því sem við á, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 93. (2. mgr.), 99., 100., 102. og 103. gr.

99. gr.

1. Þegar framkvæmdastjórn EB hefur undirbúning að nýrri löggjöf á sviði sem samningur þessi tekur til skal hún óformlega leita ráða hjá sérfræðingum EFTA-ríkjanna á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkja EB við mótun tillagnanna.

2. Þegar framkvæmdastjórnin sendir ráði Evrópubandalaganna tillögur sínar skal hún senda afrit af þeim til EFTA-ríkjanna.

Fyrstu skoðanaskipti skulu fara fram í sameiginlegu EES-nefndinni óski einhver samningsaðila þess.

3. Á þeim tíma sem líður fram að töku ákvörðunar í ráði Evrópubandalaganna skulu samningsaðilar, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan í sameiginlegu EES-nefndinni að beiðni einhvers þeirra á öllum tímamótum á leið að endanlegri töku ákvörðunar.

4. Samningsaðilar skulu starfa saman af heilum hug á upplýsinga- og samráðstímabilinu með það fyrir augum að auðvelda ákvarðanatöku í sameiginlegu EES-nefndinni í lok meðferðar málsins.

100. gr.

Framkvæmdastjórn EB skal tryggja sérfræðingum EFTA-ríkjanna eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að tillögum er síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem eru framkvæmdastjórninni til aðstoðar við beitingu framkvæmdarvalds hennar. Í þessum málum skal framkvæmdastjórn EB, þegar hún gengur frá tillögum, ráðgast við sérfræðinga EFTA-ríkjanna á sama grundvelli og hún ráðgast við sérfræðinga aðildarríkja EB.

Í þeim tilvikum þegar mál er til meðferðar hjá ráði Evrópubandalaganna í samræmi við starfsreglur sem gilda um viðkomandi nefnd skal framkvæmdastjórn EB koma áliti sérfræðinga EFTA-ríkjanna á framfæri við ráð Evrópubandalaganna.

101. gr.


1. Að því er varðar nefndir, sem falla hvorki undir 81. né 100. gr., skal haft samstarf við sérfræðinga EFTA-ríkjanna þegar góð framkvæmd samningsins krefst slíks.

Þessar nefndir eru skráðar í bókun 37. Kveðið er á um tilhögun slíks samstarfs í bókunum og viðaukum um einstök svið þar sem fjallað er um viðkomandi málefni.1)

2. Telji samningsaðilar að slíkt samstarf ætti að taka til annarra nefnda sem eru svipaðs eðlis getur sameiginlega EES-nefndin breytt bókun 37. 2) og 3)

1) Nefndirnar eru sem hér segir (júlí 1997):

1. Vísindanefnd um matvæli
2. Lyfjanefnd
3. Vísindanefnd um dýrasjúkdóma.
4. Nefnd um samgöngumannvirki
5. Stjórnarnefnd um félagslegt öryggi farandverkafólks.
6. Samstarfsnefnd um peningaþvætti
7. Ráðgjafarnefnd um samkeppnishömlur og misbeitingu markaðsráðandi stöðu
8. Ráðgjafarnefnd um samfylkingar í fyrirtækjarekstri.
9. Samræmingarhópur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum á sviði æðri menntunar.


1) Nánari ákvæði um nefndirnar:

1. II. viðauki, XII. kafli
2. II. viðauki, XIII. kafli
3. I. viðauki, I.kafli, liður 12
4. XIII. viðauki, liður 5
5. VI. viðauki i.f.
6. IX. viðauki, liður 23
7. Bókun 23, 6. liður
8. Bókun 24, 5. liður
9. VII. viðauki, liður 1, sbr. samþykkt sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 5/1994

3) Nefndakerfi ESB sem framangreind ákvæði miðast við er í viðamikilli uppstokkun í júlí 1997, sem leiða kann til breytinga á bókun 37.

102. gr.


1. Til að tryggja réttaröryggi og einsleitni EES skal sameiginlega EES-nefndin taka ákvörðun um breytingu á viðauka við samning þennan eins fljótt og unnt er, eftir að bandalagið hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf bandalagsins, með það að markmiði að unnt sé að beita samtímis þeirri löggjöf og breytingunum á viðaukunum við samninginn. Bandalagið skal í þessum tilgangi tilkynna öðrum samningsaðilum í sameiginlegu EES-nefndinni eins fljótt og unnt er þegar það samþykkir réttarheimild um málefni sem fjallað er um í samningi þessum.

2. Sameiginlega EES-nefndin skal meta á hvaða hluta viðauka við samning þennan þessi nýja löggjöf hefur bein áhrif.

3. Samningsaðilar skulu gera sitt ítrasta til að komast að samkomulagi um málefni sem samningur þessi tekur til.

Sameiginlega EES-nefndin skal einkum gera sitt ítrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við þegar upp koma alvarleg vandamál á sviðum sem falla undir valdsvið löggjafans í EFTA-ríkjunum.

4. Ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við samning þennan, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins og taka nauðsynlegar ákvarðanir þar að lútandi, meðal annars að viðurkenna að löggjöf sé sambærileg. Taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils, frá því að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eða á gildistökudegi samsvarandi löggjafar bandalagsins ef sá dagur er síðar.

5. Hafi sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvörðun um breytingu á viðauka við þennan samning við lok frests sem settur er í 4. mgr. skal litið svo á að framkvæmd viðkomandi hluta viðaukans, sem ákveðinn er samkvæmt 2. mgr., sé frestað til bráðabirgða nema sameiginlega EES-nefndin ákveði annað. Frestun af þessu tagi gengur í gildi sex mánuðum eftir lok tímabilsins sem um getur í 4. mgr., þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu. Sameiginlega EES-nefndin skal áfram leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við svo að draga megi frestunina til
baka við fyrsta tækifæri.

6. Ræða skal um raunhæfar afleiðingar þeirrar frestunar sem um getur í 5. mgr. í sameiginlegu EES-nefndinni. Réttindi og skyldur sem einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri hafa þegar áunnið sér með samningi þessum skulu haldast 1). Samningsaðilar skulu, eftir því sem við á, ákveða hvaða breytingar þurfi að gera vegna
frestunarinnar.
1) Sjá samþykkt frá samningafundi aðila um túlkun 102. gr. ( C-deild Stjórnartíðinda 1993, bls. 1440)

103. gr.

1. Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni, ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt.

Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.

2. Hafi tilkynningin ekki átt sér stað sex mánuðum eftir að sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun sína skal ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda til bráðabirgða meðan stjórnskipulegum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt, nema samningsaðili tilkynni að slík gildistaka til bráðabirgða geti ekki átt sér stað. Í síðara tilvikinu, eða tilkynni samningsaðili að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafi ekki hlotið samþykki, skal frestunin sem kveðið er á um í 5.mgr. 102. gr. ganga í gildi einum mánuði eftir að tilkynningin fer fram en þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu.

104. gr.

Ákvarðanir teknar af sameiginlegu EES-nefndinni í tilvikum sem kveðið er á um í samningi þessum skulu vera bindandi fyrir samningsaðila frá og með gildistökudegi þeirra, nema kveðið sé á um annað í þeim, og skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd þeirra og beitingu.

 

3. kafli Einsleitni, tilhögun eftirlits og lausn deilumála

1. ÞÁTTUR
Einsleitni

105. gr.


1. Til að ná því markmiði samningsaðila að ná fram og halda sig við eins samræmda túlkun og unnt er á ákvæðum samningsins og þeim ákvæðum í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samninginn skal sameiginlega EES-nefndin starfa í samræmi við þessa grein.

2. Sameiginlega EES-nefndin skal stöðugt hafa til skoðunar þróun dómsúrlausna dómstóls Evrópubandalaganna og EFTA-dómstólsins sem kveðið er á um í 2. mgr. 108. gr. Í þessum tilgangi skal senda dóma þessara dómstóla til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal gera ráðstafanir til að varðveita einsleita túlkun á samningnum.

3. Ef sameiginlegu EES-nefndinni hefur ekki tekist að varðveita einsleita túlkun á samningnum innan tveggja mánaða frá því að mismunur á úrlausnum dómstólanna tveggja var lagður fyrir hana má beita málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 111. gr.

106. gr.

Til að tryggja að samningur þessi verði túlkaður á eins samræmdan hátt og kostur er, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, skal sameiginlega EES-nefndin koma á kerfi til að skiptast á upplýsingum um dóma EFTA-dómstólsins, dómstóls Evrópubandalaganna og dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og
dómstóla EFTA-ríkjanna á síðasta dómstigi. Í kerfi þessu skal felast:

a) að þessir dómstólar sendi ritara dómstóls Evrópubandalaganna dóma sína um túlkun og beitingu annars vegar samnings þessa og hins vegar stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu, með áorðnum breytingum og viðbótum, auk þeirra gerða sem hafa verið samþykktar í samræmi við þá, að því leyti sem þeir varða ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum samnings þessa;

b) að ritari dómstóls Evrópubandalaganna sjái um að flokka þessa dóma og semja og birta, eins og þörf krefur, þýðingar og útdrætti;

c) að ritari dómstóls Evrópubandalaganna sendi þau skjöl sem máli skipta til þar til bærra yfirvalda hvers lands sem sérhver samningsaðili tilnefnir fyrir sig.


107. gr.

Í bókun 34 eru ákvæði er gefa EFTA-ríki kost á að heimila dómstóli eða rétti að biðja dómstól Evrópubandalaganna að taka ákvörðun um túlkun EES-reglu.

2. ÞÁTTUR
Tilhögun eftirlits

108. gr.

1. EFTA-ríkin skulu koma á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun (eftirlitsstofnun EFTA) svo og kerfi svipuðu og fyrir er í bandalaginu, meðal annars kerfi til að tryggja efndir á skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og til eftirlits með lögmæti aðgerða eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni.

2. EFTA-ríkin skulu koma á fót dómstóli (EFTA-dómstóli).

Undir valdsvið EFTA-dómstólsins skal með tilliti til beitingar samnings þessa og í samræmi við sérstakan samning milli EFTA-ríkjanna einkum heyra:

a) mál um tilhögun eftirlits er varðar EFTA-ríkin;

b) áfrýjanir á ákvörðunum eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni;

c) lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja.

Um liði a – c sjá nánar 31, 35 – 37 og 32. gr. samningsins
um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA.

109. gr.

1. Annars vegar skal eftirlitsstofnun EFTA fylgjast með efndum á skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og hins vegar framkvæmdastjórn EB sem starfar samkvæmt stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og samningi þessum.

2. Til að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál.

3. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu taka við umkvörtunum varðandi beitingu samnings þessa. Þær skulu skiptast á upplýsingum um kvartanir sem borist hafa.

4. Hvor þessara stofnana um sig skal rannsaka allar kvartanir sem falla undir valdsvið hennar og koma kvörtunum sem falla undir valdsvið hinnar stofnunarinnar til hennar.

5. Komi upp ósamkomulag milli þessara tveggja stofnana um það til hvaða aðgerða skuli gripið í tengslum við kvörtun eða um niðurstöðu rannsóknar getur hvor þeirra sem er vísað málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal fjalla um það í samræmi við 111. gr.

110. gr.

Ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB, samkvæmt samningi þessum, sem leggja fjárskuldbindingar á aðra aðila en ríki skulu vera fullnustuhæfar. Hið sama skal eiga við um slíka dóma dómstóls Evrópubandalaganna, dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og EFTA-dómstólsins samkvæmt samningi þessum. 1)

Fullnustan skal fara fram í samræmi við gildandi réttarfarsreglur í einkamálum í ríkinu þar sem fullnustan fer fram. Fullnustuúrskurður skal fylgja ákvörðuninni með því eina formskilyrði að það að ákvörðun hafi verið tekin af þar til bærum aðila sé staðfest af því yfirvaldi sem sérhver samningsaðili tilnefnir í þessu skyni og sendir öðrum samningsaðilum, svo og eftirlitsstofnun EFTA, framkvæmdastjórn EB, dómstóli Evrópubandalaganna, dómstóli Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og EFTA-dómstólnum, tilkynningu um.

Þegar þessum formsatriðum hefur verið fullnægt að beiðni hlutaðeigandi aðila má hinn sami láta fullnustu fara fram, í samræmi við lög þess ríkis þar sem fullnustan á að fara fram, með því að fara með málið beint fyrir þar til bært yfirvald.

Fullnustunni verður einungis frestað með úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna hvað varðar ákvarðanir framkvæmdastjórnar EB, úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi eða dómstóls Evrópubandalaganna, eða með úrskurði EFTA-dómstólsins hvað varðar ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA eða úrskurði EFTA-dómstólsins. Dómstólar hlutaðeigandi ríkja hafa þó lögsögu varðandi kvartanir um að ekki sé staðið að fullnustunni með eðlilegum hætti.

1) Sjá 11. tölulið 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989
3. ÞÁTTUR
Lausn deilumála

111. gr.

1. Bandalagið eða EFTA-ríki getur lagt deilumál er varðar túlkun eða beitingu samnings þessa fyrir sameiginlegu EES-nefndina í samræmi við eftirfarandi ákvæði.

2. Sameiginlegu EES-nefndinni er heimilt að leysa deilumálið. Henni skulu gefnar allar upplýsingar sem hún kann að þarfnast til þess að framkvæma nákvæma rannsókn á málinu, með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við. Í þessum tilgangi skal sameiginlega EES-nefndin rannsaka alla möguleika til að
viðhalda góðri framkvæmd samningsins.


3. Varði deilumál túlkun ákvæða samnings þessa, sem eru efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála, og hafi deilumálið ekki verið leyst innan þriggja mánaða frá því að það var lagt fyrir sameiginlegu EES-nefndina, geta samningsaðilar, sem eiga aðild að deilumálinu, samþykkt að fara fram á það við dómstól Evrópubandalaganna að hann kveði upp úrskurð um túlkun á viðkomandi reglum.

Hafi sameiginlega EES-nefndin ekki náð samkomulagi um lausn á slíku deilumáli innan sex mánaða frá þeim degi er þessi málsmeðferð hófst, eða hafi samningsaðilar, sem eiga aðild að deilumálinu, á þeim tíma ekki ákveðið að fara fram á úrskurð dómstóls Evrópubandalaganna, getur samningsaðili, til að draga úr hugsanlegu ójafnvægi,

--- annaðhvort gripið til öryggisráðstafana í samræmi við 2. mgr. 112. gr. og fylgt þá málsmeðferð 113. gr.;

--- eða beitt 102. gr. að breyttu breytanda.

4. Varði deilumál umfang eða gildistíma öryggisráðstafana, sem gripið er til í samræmi við 3. mgr. 111. gr. eða 112. gr., eða jafngildi jöfnunarráðstafana, sem gerðar eru í samræmi við 114. gr., og hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að leysa deiluna þremur mánuðum eftir þann dag er málið var lagt fyrir hana getur hver samningsaðila sem er vísað deilumálinu til gerðardóms samkvæmt málsmeðferð sem mælt er fyrir um í bókun 33. Óheimilt er að fjalla um túlkun á ákvæðum samnings þessa, sem um getur í 3. mgr., samkvæmt þessari málsmeðferð. Gerðin er bindandi fyrir deiluaðila.

 

4. kafli Öryggisráðstafanir

112. gr.


1. Ef upp eru að koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.

2. Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.

3. Öryggisráðstafanirnar skulu gilda gagnvart öllum samningsaðilum.

113. gr.

1. Samningsaðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 112. gr. skal tilkynna hinum samningsaðilunum það án tafar fyrir milligöngu sameiginlegu EES-nefndarinnar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar.

2. Samningsaðilar skulu tafarlaust bera saman ráð sín í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.

3. Hlutaðeigandi samningsaðili má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar samkvæmt 1. mgr. nema samráði samkvæmt 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrirfram getur hlutaðeigandi samningsaðili strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.

Framkvæmdastjórn EB skal grípa til öryggisráðstafana fyrir bandalagið.

4. Hlutaðeigandi samningsaðili skal án tafar tilkynna ráðstafanirnar, sem gerðar hafa verið, til sameiginlegu EES-nefndarinnar og veita allar nauðsynlegar upplýsingar.

5. Í sameiginlegu EES-nefndinni skal hafa samráð um öryggisráðstafanirnar á þriggja mánaða fresti frá því að gripið er til þeirra með það fyrir augum að fella þær
niður fyrir áætluð lok gildistímabilsins eða takmarka umfang þeirra.

Hver samningsaðilanna um sig getur hvenær sem er farið fram á það við sameiginlegu EES-nefndina að hún endurskoði umræddar ráðstafanir.

114. gr.

1. Ef öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafn umfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráðnauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi. Þær ráðstafanir skulu
helst gerðar sem raska minnst starfsemi Evrópska efnahagssvæðisins.

2. Málsmeðferðin sem kveðið er á um í 113. gr. gildir.

VIII. HLUTI - FJÁRMAGNSKERFI

115. gr.


Samningsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða sinna með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila eins og kveðið er á um í 1. gr. Í þessu tilliti hafa þeir í huga ákvæði sem er að finna annars staðar í samningi þessum og bókunum er tengjast honum, að meðtöldum tilteknum þeirra ráðstafana er varða landbúnað og sjávarútveg.

116. gr.

EFTA-ríkin skulu koma upp fjármagnskerfi í þeim tilgangi að leggja sitt af mörkum, í tengslum við EES og til viðbótar því sem bandalagið gerir þegar á þessu sviði, til framgangs markmiðunum sem sett eru í 115. gr.117. gr.

Í bókun 38 eru ákvæði um fjármagnskerfið.

 

IX. HLUTI - ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI

118. gr.


1. Álíti samningsaðili það öllum samningsaðilum til hagsbóta að þróa tengslin, sem stofnað er til með samningi þessum, með því að láta þau ná til fleiri sviða en þar er gert ráð fyrir skal hann leggja fram rökstudda beiðni til hinna samningsaðilanna í EES-ráðinu. Ráðið getur falið sameiginlegu EES-nefndinni að rannsaka alla þætti beiðninnar og leggja fram skýrslu.

EES-ráðið getur, eftir því sem við á, tekið stjórnmálalegar ákvarðanir með það fyrir augum að hafnar verði samningaviðræður milli samningsaðila.

2. Samningar sem samningaviðræður samkvæmt 1. mgr. leiða til skulu háðir fullgildingu eða samþykki samningsaðila í samræmi við þeirra eigin reglur.

119. gr.

Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.

Sjá a-lið 2. gr. samningsins.

120. gr.

Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum og einkum í bókunum 41 1), 43 2)og 44 3) skulu ákvæði samningsins ganga framar ákvæðum í gildandi tvíhliða eða marghliða samningum sem Efnahagsbandalag Evrópu annars vegar og eitt eða fleiri EFTA-ríki hins vegar 4) eru bundin af að því leyti sem samningur þessi tekur til sömu efnisatriða.

1) Hér er átt við 2 samninga um siglingar á Rín og Dóná og 2 samninga er varða sölu á víni í Austurríki.
2) Hér er átt við samninga um flutninga á vegum og járnbrautum um Austurríki.
3) Fellt út með bókuninni 17. mars 1993
4) Sbr. einnig sameiginlega yfirlýsingu samningsaðila um tengslin milli EES-samningsins og gildandi samninga ( Birt í C-deild Stjórnartíðinda 1993, bls. 1426).

121. gr.

Ákvæði samnings þessa útiloka ekki samstarf:

a) innan ramma norrænnar samvinnu að því leyti sem slík samvinna raskar ekki góðri framkvæmd samnings þessa;

b) innan ramma svæðissambandsins milli Sviss og Liechtensteins að því leyti sem markmið sambandsins nást ekki með beitingu ákvæða samnings
þessa og góð framkvæmd samningsins raskast ekki;

c) innan ramma samvinnu Austurríkis og Ítalíu varðandi Tíról, Vorarlberg og Trentínó --- Suður-Tíról/Altó Adíge að því leyti sem slík samvinna raskar ekki góðri framkvæmd samnings þessa.

122. gr.

Fulltrúar, sendimenn og sérfræðingar samningsaðila, svo og embættismenn og aðrir starfsmenn samkvæmt samningi þessum, skulu bundnir þagnarskyldu, sem helst enda þótt þeir láti af störfum, um vitneskju sem á að fara leynt í starfi þeirra, einkum upplýsingar um fyrirtæki, viðskiptatengsl þeirra og kostnaðarþætti.

123. gr.

Ekkert í samningi þessum skal hindra samningsaðila í að gera ráðstafanir:

a) sem hann telur nauðsynlegar til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum sínum;

b) sem snerta framleiðslu á eða viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn eða aðrar framleiðsluvörur, nauðsynlegar til varna, eða varða rannsóknir, þróun eða framleiðslu, nauðsynlega til varna, enda raski þessar ráðstafanir ekki samkeppnisskilyrðum hvað varðar framleiðsluvörur sem eru ekki sérstaklega ætlaðar til hernaðarþarfa;

c) sem hann telur nauðsynlegar vegna eigin öryggis þegar alvarlegar innanlandserjur ógna lögum og reglu, stríð geisar eða alvarleg spenna ríkir í alþjóðamálum, sem leitt getur til styrjaldar, eða til að uppfylla skyldur sem hann hefur tekið á sig til að gæta friðar og alþjóðaöryggis.

124. gr.

Með fyrirvara um beitingu annarra ákvæða samnings þessa skulu samningsaðilar sjá til þess að ríkisborgarar aðildarríkja EB og EFTA-ríkja sitji við sama borð og eigin ríkisborgarar hvað varðar hlutdeild í fjármagni félaga eða fyrirtækja í skilningi 34. gr.

125. gr.

Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.

126. gr.

1. Samningurinn gildir á þeim svæðum sem stofnsáttmáli Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmáli Kola- og stálbandalags Evrópu taka til, með þeim skilmálum sem þar eru settir, og á yfirráðasvæðum Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins
Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar og Ríkjasambandsins Sviss.1)

2. Þrátt fyrir 1. mgr. skal samningur þessi ekki gilda um Álandseyjar. Ríkisstjórn Finnlands getur þó gefið út yfirlýsingu, sem lögð skal fram hjá vörsluaðila við fullgildingu samnings þessa og hann skal senda samningsaðilum staðfest endurrit af, þess efnis að samningurinn skuli gilda um þessar eyjar með sömu skilmálum og hann gildir um aðra hluta Finnlands, samanber þó eftirfarandi ákvæði:

a) Ákvæði samnings þessa skulu ekki hindra beitingu ákvæða er gilda hverju sinni á Álandseyjum og varða:

i) höft á rétti einstaklinga, sem hafa ekki svæðisbundinn borgararétt á Álandseyjum, og lögpersóna til að eignast og eiga fasteignir á Álandseyjum án heimildar þar til bærra yfirvalda eyjanna;

ii) höft á rétti einstaklinga, sem hafa ekki svæðisbundinn borgararétt á Álandseyjum, eða lögpersóna til staðfestu og til að veita þjónustu án heimildar þar til bærra yfirvalda eyjanna.

b) Samningur þessi hefur ekki á áhrif á réttindi íbúa Álandseyja í Finnlandi.

c) Yfirvöld á Álandseyjum skulu veita öllum einstaklingum og lögpersónum samningsaðila sömu kjör.

1) Með bókun hinn 17. mars 1993 var Sviss fellt út úr greininni. Við inngöngu Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar í ESB hinn 1. Janúar 1995 færðust þau ríki milli "stoða" Evrópska efnahagssvæðisins. Samningurinn gildir ekki á Svalbarða sbr. bókun 40 við hann.

127. gr.

Sérhver samningsaðili getur sagt upp aðild sinni að samningi þessum að því tilskildu að hann veiti öðrum samningsaðilum að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara með skriflegum hætti.

Jafnskjótt og fyrirhuguð uppsögn hefur verið tilkynnt skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til þess að meta hvaða breytingar sé nauðsynlegt að gera á samningnum.

128. gr.

1. Evrópuríki sem gengur í bandalagið er skylt, en heimilt gangi það í EFTA, að sækja um að gerast aðili að samningi þessum. Það skal senda EES-ráðinu umsókn sína.

2. Samningsaðilar og ríki sem sækir um skulu gera með sér samkomulag um skilmála og skilyrði fyrir slíkri aðild. Slíkt samkomulag skal lagt fyrir alla samningsaðila til fullgildingar eða samþykktar í samræmi við eigin reglur þeirra.

129. gr.

1. Samningur þessi er gerður í einu frumriti á dönsku,ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, norsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og er hver þessara texta jafngildur.

Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á dönsku,ensku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku, eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins, og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á finnsku, íslensku, norsku og sænsku.

2. Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja samning þennan í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers um sig.

Samningnum skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal senda hverjum hinna samningsaðilanna staðfest endurrit.

Fullgildingar- og samþykktarskjölunum skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal tilkynna öllum hinum samningsaðilunum það.

3. Samningur þessi öðlast gildi 1. janúar 1993 að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent fullgildingar- eða samþykktarskjöl sín til vörslu fyrir þann dag. Eftir þann dag skal samningurinn öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynninguna. Lokafrestur varðandi þá tilkynningu skal vera 30. júní 1993. Eftir þann dag skulu samningsaðilar boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta stöðu mála.

ÞESSU TIL STAÐFESTINGAR hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Óportó annan dag maímánaðar árið nítján hundruð níutíu og tvö.

2. Bókanir við EES-samninginn

Bókun 1 um altæka aðlögun.

Bókun 2 um framleiðsluvörur sem falla ekki undir gildissvið samningsins í samræmi við a-lið 3. mgr. 8. gr.

Bókun 3 um framleiðsluvörur sem um getur í b-lið 3. mgr. 8. gr. samningsins.

Bókun 4 um upprunareglur.

Bókun 5 um fjáröflunartolla (Liechtenstein, Sviss).

Bókun 6 um söfnun lögboðins varaforða í Sviss og Liechtenstein.

Bókun 7 um magntakmarkanir sem Ísland má viðhalda.

Bókun 8 um ríkiseinkasölur.

Bókun 9 um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir.

Bókun 10 um að einfalda skoðun og formsatriði vegna vöruflutninga.

Bókun 11 um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.

Bókun 12 um samninga við þriðju lönd um samræmismat.

Bókun 13 um að jöfnunartollum og aðgerðum gegn undirboðum verði ekki beitt.

Bókun 14 um verslun með kola- og stálvörur.

 Bókun 15
um aðlögunartímabil vegna frjálsra fólksflutninga (Sviss og Liechtenstein).

Bókun 16 um ráðstafanir á sviði félagslegs öryggis varðandi aðlögunartímabil vegna frjálsra fólksflutninga (Sviss og Liechtenstein).

Bókun 17 varðandi 34. gr.

Bókun 18 um reglur aðila vegna framkvæmdar 43. gr.

Bókun 19 um flutninga á sjó.

 Bókun 20
um aðgang að skipgengum vatnaleiðum.

 Bókun 21
um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki.

Bókun 22 um skilgreiningu á ,,fyrirtæki" og ,,veltu" (56. gr.).

Bókun 23 um samvinnu milli eftirlitsstofnana (58. gr.).

Bókun 24 um samvinnu varðandi eftirlit með samfylkingum.

Bókun 25 um samkeppni varðandi kol og stál.

 Bókun 26
um valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar.

 Bókun 27
um samvinnu á sviði ríkisaðstoðar.

 Bókun 28
um hugverkaréttindi.

 Bókun 29
um starfsþjálfun.

Bókun 30 um sérstök ákvæði varðandi skipulagningu samvinnu á sviði hagskýrslugerðar.

Bókun 31 um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins.

Bókun 32 um fjárhagsfyrirkomulag vegna framkvæmdar 82. gr.

 Bókun 33
um gerðardómsmeðferð.

 Bókun 34
um að dómstólar EFTA-ríkja geti farið fram á það að dómstóll Evrópubandalaganna taki ákvörðun um túlkun á EES-reglum sem samsvara EB-reglum.

 Bókun 35
um framkvæmd EES-reglna.

 Bókun 36
um stofnsamþykkt sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar.

 Bókun 37
með skrá sem kveðið er á um í 101. gr.

Bókun 38 um fjármagnskerfið.

 Bókun 39
um evrópsku mynteininguna (ECU).

Bókun 40 um Svalbarða.

Bókun 41 um gildandi samninga.

Bókun 42 um tvíhliða fyrirkomulag varðandi tilteknar landbúnaðarvörur.

Bókun 43 um samninginn milli EBE og Lýðveldisins Austurríkis varðandi umflutning vara á vegum og járnbrautum.

Bókun 44 um samning milli EBE og Ríkjasambandsins Sviss varðandi vöruflutninga á vegum og járnbrautum.

Bókun 45 um aðlögunartímabil varðandi Spán og Portúgal.

Bókun 46 um þróun samvinnu í sjávarútvegi.

 Bókun 47
um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín.

 Bókun 48
varðandi 105. og 111. gr.

Bókun 49 um Ceuta og Melilla.

Bókun um breytingu á Samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið, 17. mars 1993.

3. Viðaukar við EES-samninginn

I. viðauki - HEILBRIGÐI DÝRA OG PLANTNA

(athugið að kaflanum um dýr er hér skipt á nokkrar síður)

INNGANGUR - I. Dýr - Inngangsorð
I. Dýr -framhald

1. MÁLEFNI ER VARÐA EFTIRLIT
2. DÝRARÆKT
3. EFTIRLITSRÁÐSTAFANIR - SJÚKDÓMSTILKYNNINGAR

I. Dýr - framhald
4. HEILBRIGÐI DÝRA: VIÐSKIPTI MEÐ LIFANDI DÝR OG MARKAÐSSETNING Á ÞEIM

I. Dýr - framhald
5. DÝRAHEILBRIGÐI: VIÐSKIPTI MEÐ OG MARKAÐSSETNING Á DÝRAAFURÐUM
6. ALMANNAHEILBRIGÐI: VIÐSKIPTI MEÐ OG MARKAÐSSETNING Á DÝRAAFURÐUM
7. RÁÐSTAFANIR Á MÖRGUM SVIÐUM

I. Dýr - framhald
8. INNFLUTNINGUR FRÁ ÞRIÐJU LÖNDUM
9. VELFERÐ DÝRA

II. Fóður
III. Plöntur.

II. viðauki - TÆKNILEGAR REGLUGERÐIR, STAÐLAR, PRÓFANIR OG VOTTUN

    I. Vélknúin ökutæki.
    II.-IV. Landbúnaðardráttarvélar; lyfti- og flutningabúnaður; heimilistæki.
    V.-XI. Gastæki, byggingarsvæði og búnaður; aðrar vélar; þrýstihylki; mælitæki; rafmagnsvörur; textílefni.
    XII. Matvæli.
    XIII.-XV. Lyf; áburður; hættuleg efni.
    XVI.-XXI. Snyrtivörur; umhverfisvernd; upplýsingatækni, fjarskipti og gagnavinnsla; almenn ákvæði á sviði tæknilegra viðskiptahindrana;     frjálsir vöruflutningar - almennt; byggingarvörur.

III. viðauki - SKAÐSEMISÁBYRGÐ

IV. viðauki - ORKA

V. viðauki - FRELSI LAUNÞEGA TIL FLUTNINGA

VI. viðauki - FÉLAGSLEGT ÖRYGGI

VII. viðauki - GAGNKVÆM VIÐURKENNING Á STARFSMENNTUN OG HÆFI

A.-C. Almennt kerfi; lögfræðistörf; lækningar og skyld starfsemi.
D.-K. Byggingarlist; verslun og milliliðir; iðnaður og handverk; greinar sem tengjast flutningum; kvikmyndaiðnaður; önnur svið; landbúnaður; annað.

VIII. viðauki - STAÐFESTURÉTTUR

IX. viðauki - FJÁRMÁLAÞJÓNUSTA

X. viðauki - HLJÓÐ- OG MYNDMIÐLUN

XI. viðauki - FJARSKIPTAÞJÓNUSTA

XII. viðauki - FRJÁLSIR FJÁRMAGNSFLUTNINGAR

 XIII. viðauki - FLUTNINGASTARFSEMI

I.-II. Flutningar á landi; flutningar á vegum.
III.-VI. Flutningar á járnbrautum; flutningar á skipgengum vatnaleiðum; flutningar á sjó; almennt flug.

XIV. viðauki - SAMKEPPNI

XV. viðauki - RÍKISAÐSTOÐ

XVI. viðauki - OPINBER INNKAUP

XVII. viðauki - HUGVERKARÉTTINDI

XVIII. viðauki - ÖRYGGI OG HOLLUSTUHÆTTIR Á VINNUSTÖÐUM, VINNURÉTTUR OG JAFNRÉTTI KYNJANNA

XIX. viðauki - NEYTENDAVERND

XX. viðauki - UMHVERFISMÁL

 XXI. viðauki - HAGSKÝRSLUGERÐ


 XXII. viðauki - FÉLAGARÉTTUR


Viðauki sem kveðið er á um í 20. gr. bókunar um breytingu á Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, 17. mars 1993.

4. Gerðir sem vísað er til í viðaukum

Gerðirnar koma fram í viðaukunum sem taldir eru hér á undan.

5. Yfirlýsingar samningsaðila

a. Sameiginlegar yfirlýsingar samningsaðila

 

1. Sameiginleg yfirlýsing um gerð sameiginlegra skýrslna samkvæmt 5. mgr. bókunar i um altæka aðlögun.

 

2. Sameiginleg yfirlýsing um gagnkvæma viðurkenningu og verndarsamninga um merkingu á víni og áfengum drykkjarvörum.

 

3. Sameiginleg yfirlýsing um aðlögunartímabil vegna útgáfu skjala varðandi sönnun á uppruna.

 

4. Sameiginleg yfirlýsing varðandi 10. gr. og 1. mgr. 14. gr. í bókun 11 við samninginn.

 

5. Sameiginleg yfirlýsing um rafmagnslækningatæki.

 

6. Sameiginleg yfirlýsing um ríkisborgara lýðveldisins Íslands með prófskírteini frá þriðja landi í sérgreinum læknisfræði, sérgreinum tannlækninga, dýralækningum, lyfjafræði, heimilislækningum eða byggingarlist.

 

7. Sameiginleg yfirlýsing um ríkisborgara lýðveldisins Íslands með prófskírteini af æðra skólastigi að lokinni minnst þriggja ára sérfræðimenntun og starfsþjálfun í þriðja landi.

 

8. Sameiginleg yfirlýsing um vöruflutninga á vegum.

 

9. Sameiginleg yfirlýsing um samkeppnisreglur.

 

10. Sameiginleg yfirlýsing um b-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins.

 

11. Sameiginleg yfirlýsing um c-lið 3. mgr. 61. gr. samningsins.

 

13. Sameiginleg yfirlýsing um c-lið bókunar 27 við samninginn.


 14. Sameiginleg yfirlýsing um skipasmíðar.

 

15. Sameiginleg yfirlýsing um meðferð mála þegar EFTA-ríki, í krafti 76. gr. og VI. hluta samningsins og samsvarandi bókana, taka fullan þátt í EB-nefndum.

 

16. Sameiginleg yfirlýsing um samstarf í menningarmálum.

 

17. Sameiginleg yfirlýsing um samvinnu gegn ólöglegum viðskiptum með menningarverðmæti.

 

18. Sameiginleg yfirlýsing um tengsl sérfræðinga bandalagsins við störf nefnda sem starfa meðal EFTA-ríkjanna eða er komið á fót af eftirlitsstofnun EFTA.

 

19. Sameiginleg yfirlýsing um 103. gr. samningsins.

 

20. Sameiginleg yfirlýsing vegna bókunar 35 við samninginn.

 

21. Sameiginleg yfirlýsing varðandi fjármagnskerfið.

 

22. Sameiginleg yfirlýsing um tengslin milli EES-samningsins og gildandi samninga.


 23. Sameiginleg yfirlýsing um samþykkta túlkun á 1. og 2. mgr. 4. gr. bókunar 9 um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir.

 

24. Sameiginleg yfirlýsing um tollaívilnanir fyrir tilteknar landbúnaðarafurðir.

 

25. Sameiginleg yfirlýsing um heilbrigði plantna.

 

26. Sameiginleg yfirlýsing um gagnkvæma aðstoð eftirlitsstofnana á sviði áfengra drykkja.


 27. Sameiginleg yfirlýsing varðandi bókun 47 um afnám tæknilegra viðskiptahindrana á víni.


 28. Sameiginleg yfirlýsing um breyttar tollaívilnanir og sérstaka meðferð vegna Spánar og Portúgals.

 

29. Sameiginleg yfirlýsing um velferð dýra.


 30. Sameiginleg yfirlýsing um samræmdu tollskrána.

 

31. Sameiginleg yfirlýsing, 17. mars 1993. (Sjá lokagerð, 17. mars 1993.)

 

b. Yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna

1. Yfirlýsing ríkisstjórna aðildarríkja EB- og EFTA-ríkjanna um auðveldun landamæraeftirlits.

2. Yfirlýsing ríkisstjórna aðildarríkja EB- og EFTA-ríkjanna um pólitísk skoðanaskipti.

 

c. Yfirlýsingar eins eða fleiri samningsaðila


 1. Yfirlýsing ríkisstjórna Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um áfengiseinkasölur.

 

2. Yfirlýsing ríkisstjórna Liechtenstein (og Sviss) um áfengiseinkasölur.

 

3. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um gagnkvæma aðstoð í tollamálum.


 4. Yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna um frjálsa för ökutækja til léttra flutninga.

 

5. Yfirlýsing ríkisstjórnar Liechtensteins um skaðsemisábyrgð.

 

6. Yfirlýsing ríkisstjórnar Liechtensteins varðandi sérstöðu landsins.

 

7. Yfirlýsing ríkisstjórnar Austurríkis um öryggisráðstafanir.

 

8. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.

 

9. Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um beitingu örygisráðstafana samkvæmt EES-samningnum.

 

10. (Yfirlýsing ríkisstjórnar Sviss um öryggisráðstafanir.)

 

11. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.


 12. (Yfirlýsing ríkisstjórnar Sviss um að koma á framhaldsnámi í byggingarlist við æðri tækniskóla.)

 

13. Yfirlýsing ríkisstjórna Austurríkis (og Sviss) um hljóð- og myndmiðlun.


 14. Yfirlýsing ríkisstjórna Liechtenstein (og Sviss) um stjórnsýsluaðstoð.

 

15. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.

 

16. (Yfirlýsing ríkisstjórnar Sviss um notkun öryggisákvæðisins í sambandi við fjármagnsflutninga.)

 

17. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.

 

18. Yfirlýsing ríkisstjórnar Noregs um beint fullnustuhæfi ákvarðana stofnana EB um fjárskuldbindingar fyrirtækja með aðsetur í Noregi.

 

19. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um beint fullnustuhæfi ákvarðana stofnana EB um fjárskuldbindingar fyrirtækja með aðsetur í Noregi.

 

20. Yfirlýsing ríkisstjórnar Austurríkis um fullnustu ákvarðana stofnana EB um fjárskuldbindingar á austurrísku yfirráðasvæði.


 21. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.

 

22. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um skipasmíðar.

 

23. Yfirlýsing ríkisstjórnar Írlands um bókun 28 um hugverk - alþjóðasamninga.

 

24. Yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna um stofnskrá um félagsleg grundvallarréttindi launafólks.

 

25. Yfirlýsing ríkisstjórnar Austurríkis um framkvæmd 5. gr. tilskipunar 76/207/EBE að því er varðar næturvinnu.

 

26. Yfirlýsing Evrópubandalagsins.

 

27. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um réttindi EFTA-ríkjanna gagnvart EB-dómstólnum.


 28. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um réttindi lögfræðinga EFTA-ríkjanna samkvæmt lögum bandalagsins.

 

29. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um þátttöku sérfræðinga EFTA-ríkjanna í nefndum EB sem tengjast EES við beitingu 100. gr.

 

30. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um 103. gr. EES-samningsins.

 

31. Yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna um 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins.


 32. Yfirlýsing Evrópubandalagsins varðandi umflutninga í sjávarútvegi.


 33. Yfirlýsing Evrópubandalagsins og ríkisstjórna Austurríkis, Finnlands, Liechtensteins, Svíþjóðar (og Sviss) um hvalafurðir.

 

34. (Yfirlýsing ríkisstjórnar Sviss um fjáröflunartolla.)

 

35. Yfirlýsing Evrópubandalagsins um tvíhliða samninga.

 

36. (Yfirlýsing ríkisstjórnar Sviss um samning milli EBE og Ríkjasambandsins Sviss um vöruflutninga á vegum og járnbrautum.)

 

37. Yfirlýsing ríkisstjórnar Austurríkis um samning milli EBE og Lýðveldisins Austurríkis um vöruflutninga á vegum og járnbrautum.

 

38. Yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna um fjármagnskerfi EFTA.

 

39. Yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna varðandi dómstól á fyrsta dómstigi.

40. Yfirlýsing ríkisstjórnar Frakklands, 17. mars 1993. (Sjá lokagerð, 17. mars 1993.)

6. Fyrirkomulag varðandi birtingar og fleira

1. Fyrirkomulag til bráðabirgða til undirbúnings gildistöku samningsins.

2. Fyrirkomulag á birtingu upplýsinga sem varða EES.

3. Fyrirkomulag varðandi birtingu á auglýsingum EFTA um opinber innkaup.7. Samþykktir

1. Samþykktir frá samningaviðræðum milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þeirra og EFTA-ríkjanna um Evrópska efnahagssvæðið.

2. Samþykktir, 17. mars 1993. (Sjá lokagerð, 17. mars 1993.)8. Lokagerðir

1.Lokagerð frá 2. maí 1992.

2. Lokagerð frá 17. mars 1993.

Síðast uppfært: 5.10.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira