Þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum
Ísland hefur ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum (Liechtenstein og Noregi) tekið þátt í samstarfsáætlunum ESB allt frá upphafi EES-samstarfsins árið 1994 og er þátttakan í þessum hluta EES-samstarfsins endurnýjuð með reglubundnum hætti. Samstarfsáætlununum er ætlað að styrkja rannsóknir og þróun, veita fólki á öllum aldri færi á að stunda nám í öðru Evrópulandi og ýta undir samskipti á milli fyrirtækja, stofnana og einstaklinga í Evrópu.
Skilyrði fyrir þátttöku í flestum áætlananna er að um samstarfsverkefni a.m.k. þriggja landa sé að ræða, og að eitt þeirra að minnsta kosti sé aðildarríki ESB. Í sumum áætlunum geta einstaklingar sótt um styrki án þess að um sérstakt samvinnuverkefni sé að ræða, t.d. innan Erasmus-áætlunarinnar. Þar geta háskólanemar sótt um styrk til að taka hluta af háskólanámi sínu erlendis.
Misjafnt er eftir áætlunum, eða undiráætlunum, hvert sótt er um styrk. Í sumum áætlunum er sótt um styrk hjá framkvæmdastjórn ESB en í öðrum hjá skrifstofum í heimalandi sem fara með þjónustu og framkvæmd í umboði framkvæmdastjórnarinnar.
Reynslan hefur sýnt að stuðningur sem borist hefur til Íslands hefur verið mun meiri en sem nemur kostnaði við þátttöku. Þá hafa lykiláætlanir ESB haft jákvæð áhrif til eflingar alþjóðlegu vísinda-, mennta- og menningarsamstarfi sem erfitt er að meta til fjár.
Samstarfsáætlanirnar eru starfræktar á skilgreindum tímabilum og stærstu áætlanirnar á yfirstandandi tímabili, 2014–2020, eru rannsóknaáætlunin Horizon 2020 og mennta- og æskulýðsáætlunin Erasmus+ sem munu t.d. veita rúmlega fjórum milljónum ungmenna tækifæri til að stunda nám, fara í starfsþjálfun eða sjálfboðastarf í öðru landi og gefa háskólum kost á samstarfi við evrópska háskóla.
Á þessu tímabili hefur aukin áhersla verið boðuð af hálfu ESB á samstarf á sviði rannsókna, þróunar og menntunar og tengsl þessara þátta við atvinnulífið með það fyrir augum að efla samkeppnishæfni og hagvöxt.
Í september 2013 samþykkti ríkisstjórnin þátttöku Íslands í neðangreindum samstarfsáætlunum fyrir tímabilið 2014–2020.
Horizon 2020
Rammaáætlun um rannsóknir, þróun og nýsköpun sem hefur það að markmiði að auka samkeppnishæfni Evrópu, skapa störf og stuðla að því að fleiri góðar hugmyndir komist á markað.
Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið
Erasmus +
Sameinuð áætlun fyrir mennta-, æskulýðs-, og alþjóðaáætlanir ESB. Áhersla er lögð á að fjárfesta í mannauði með það að markmiði að leiða til aukins ávinnings bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Markmið áætlunarinnar eru m.a. að auka færni og ráðningarhæfi fólks og virkja einstaklinga til þátttöku í samfélaginu og nútímavæða menntakerfi með aukinni áherslu á starfsmenntun, háskólamenntun og hreyfanleika nemanda og kennara.
Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið
Competitiveness of Enterprises and Small and Medium-sized Enterprises (COSME)
Áætlun um samkeppnishæfni fyrirtækja, sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi að fjármagni fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, skapa umhverfi sem stuðlar að stofnun og vexti fyrirtækja, ýta undir frumkvöðlastarfsemi í Evrópu, auka samkeppnishæfi evrópskra fyrirtækja og styðja lítil fyrirtæki í starfsemi utan heimalandsins og auðvelda þeim aðgang að mörkuðum.
Nánari upplýsingar: Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Evrópusambandið
Employment and Social Innovation
Áætlun með það að markmiði að vinna gegn atvinnuleysi, fátækt og félagslegri útilokun og styðja við málefni aldraðra.
Nánari upplýsingar: landstengiliður áætlunarinnar hjá félagsmálaráðuneytinu – netfang: [email protected] og Evrópusambandið
Civil Protection
Áætlun sem styður verkefni á sviði almannavarna í tengslum við náttúruhamfarir og vá af völdum tæknibilunar og stuðlar að samstarfi, miðlun reynslu og gagnkvæmri aðstoð þátttökuríkjanna.
Nánari upplýsingar: almannavarnadeild ríkislögreglustjóra – netfang: almannavarnir [hjá] rls.is og Evrópusambandið
Rights, Equality and Citizenship
Áætlun sem hefur það að markmiði að styðja við borgaraleg réttindi, bann við mismunun, jafnrétti kynjanna, vernd persónuupplýsinga, réttindi barna, neytendarétt og viðskiptafrelsi á innri markaðinum.
Nánari upplýsingar veitir landstengiður áætlunarinnar hjá félagsmálaráðuneytinu – netfang: [email protected] og Evrópusambandið
Health for Growth
Áætlun á sviði heilbrigðismála sem hefur það að markmiði að styðja við nýjungar á sviði heilbrigðisvísinda, umbætur og bætt öryggi í heilbrigðisþjónustu, bætta heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma, og vernda borgarana fyrir heilsufarsógnum yfir landamæri.
Nánari upplýsingar: landstengiliður áætlunarinnar hjá Embætti landlæknis – netfang: [email protected] og Evrópusambandið
Consumer Programme
Áætlun á sviði neytendamála sem stuðlar að valdeflingu neytenda á sviði öryggis, upplýsinga, menntunar, réttinda og úrbóta og fullnustuaðgerða.
Nánari upplýsingar: landstengiliður áætlunarinnar hjá Neytendastofu – netfang: tryggvi [hjá] neytendastofa.is og Evrópusambandið
Creative Europe
Áætlun fyrir menningarmál og hljóð-/myndræna iðnaðinn. Áætluninni er ætlað að auka fjárfestingar í menningu og skapandi greinum, sem muni leiða til fjölgunar starfa, aukins hagvaxtar og félagslegs jafnaðar. Hlutur menningar og skapandi greina nemur um 4,5% af vergri landsframleiðslu í Evrópu og um 3,8% af vinnuafli Evrópu. Meginmarkmið nýju ætlunarinnar er að stuðla að verndun menningarverðmæta og dreifingu og miðlun efnis bæði innan sem og utan Evrópu.
Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið
Copernicus
Áætlun sem tryggir aðgang að upplýsingum um vöktun andrúmslofts, loftslagsbreytinga, lands og sjávarumhverfis, stjórnun í neyðartilvikum og öryggismál, og sér um athuganir úr lofti, á sjó og á jörðu niðri á þeim sviðum.
Nánari upplýsingar: umhverfisráðuneytið og Evrópusambandið
Connecting Europe Facility (CEF)
Áætlun sem ætlað er að styðja hagvöxt, atvinnu og samkeppnishæfi með markvissum fjárfestingum í innviðum. Ísland tekur þátt verkefni á sviði upplýsinga og samskiptatækni (ICT) innan þessarar áætlunar.
Nánari upplýsingar: samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið – netfang: sigurbergur.bjornsson [hjá] srn.is og Evrópusambandið
Statistics
Áætlun sem felur í sér samstarf á sviði hagskýrslugerðar.
Nánari upplýsingar: Hagstofa Íslands og Evrópusambandið
Evrópusamvinna.is er samstarfsvettvangur mismunandi landsskrifstofa og upplýsinga-og þjónustuskrifstofa á Íslandi við samstarfsáætlanir ESB. Samstarfsvettvangurinn heldur úti vefsíðu sem ætlað er að auðvelda yfirsýn yfir helstu áætlanir sem Ísland er þátttakandi í, auk þess að efna til sérstakra kynninga á tækifærum sem íslenskum aðilum standa til boða.
EES - upplýsingaveitan
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.