Hoppa yfir valmynd

Þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum

Ísland hefur ásamt hinum EES/EFTA-ríkjunum (Liechtenstein og Noregi) tekið þátt í samstarfsáætlunum ESB allt frá upphafi EES-samstarfsins árið 1994 og er þátttakan í þessum hluta EES-samstarfsins endurnýjuð með reglubundnum hætti. Samstarfsáætlununum er ætlað að styrkja rannsóknir og nýsköpun, veita fólki á öllum aldri færi á að stunda nám í öðru Evrópulandi og ýta undir samskipti á milli fyrirtækja, stofnana og einstaklinga í Evrópu.

Misjafnt er eftir áætlunum, eða undiráætlunum, hvert sótt er um styrk. Í sumum áætlunum er sótt um styrk hjá framkvæmdastjórn ESB en í öðrum hjá skrifstofum í heimalandi sem fara með þjónustu og framkvæmd í umboði framkvæmdastjórnarinnar.

Reynslan hefur sýnt að stuðningur sem borist hefur til Íslands hefur verið mun meiri en sem nemur kostnaði við þátttöku. Þá hafa lykiláætlanir ESB haft jákvæð áhrif til eflingar alþjóðlegu vísinda-, mennta- og menningarsamstarfi sem erfitt er að meta til fjár.

Samstarfsáætlanirnar eru starfræktar á skilgreindum tímabilum og stærstu áætlanirnar á yfirstandandi tímabili, 2021–2027, eru rannsóknaáætlunin Horizon Europe og mennta- og æskulýðsáætlunin Erasmus+.

Á þessu tímabili hefur aukin áhersla verið boðuð af hálfu ESB á samstarf á sviði rannsókna, þróunar og menntunar og tengsl þessara þátta við atvinnulífið með það fyrir augum að efla samkeppnishæfni og hagvöxt. Jafnframt eru grænar og stafrænar áherslur í mörgum áætlunum sem samræmast vel hagsmunum Íslands.

Þátttaka Íslands í neðangreindum samstarfsáætlunum fyrir tímabilið 2021–2027 var formlega samþykkt í september 2021.

Horizon Europe

Horizon Europe áætlunin styður við rannsóknir og nýsköpun á öllum fræðasviðum. Markmið hennar er að byggja upp sterkt vísinda- og nýsköpunarumhverfi í Evrópu sem leiðir af sér aukin tækifæri til atvinnu, betri samkeppnishæfni auk þess að mæta þörfum allra íbúa á svæðinu. Áætlunin styrkir einstaka framúrskarandi vísindamenn, samstarfsverkefni milli landa um rannsóknir, þróun og hagnýtingu þekkingar og nýsköpunarverkefni sem fyrirtæki leiða. Þá verður hrundið af stað fimm umfangsmiklum áætlunum sem ætlað er að styðja við aðlögun að loftslagsbreytingum, heilbrigðum höfum, vötnum, jarðvegi og fæðu, sjálfbærum og snjöllum borgum og auknum lífslíkum og lífsgæðum þeirra sem fá krabbamein.

Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið

Erasmus + 

Sameinuð áætlun fyrir mennta-, æskulýðs-, og alþjóðaáætlanir ESB. Áætlunin nær yfir öll skólastig, starfsmenntun, fullorðinsfræðslu, æskulýðsstarf og íþróttir. Hún styður skiptinám, ungmennaskipti, starfsnám, símenntun starfsfólks, tungumálanám, viðurkenningu á færni, nýsköpun í kennslu, stefnumótun, heilsueflingu með stuðningi við íþróttastarf og margt fleira. Boðið verður upp á stafræna þátttöku, stuðning við öndvegissetur og háskólanet. Mikil áhersla er lögð á að auðvelda aðgengi að þátttöku, stafrænar lausnir og grænt alþjóðastarf.

Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið

Digital Europe Programme

Áætlunin mun veita fjármagn til verkefna á fimm lykilsviðum sem eru grundvöllur stafrænnar umbreytingar þjóðfélagsins og hagkerfisins á næstu árum, þ.e. ofurtölvur, gervigreind, netöryggi, háþróuð stafræn færni og að tryggja víðtæka notkun stafrænnar tækni í efnahagslífinu og samfélaginu.

Nánari upplýsingar: Evrópusambandið

LIFE Programme

Áætlunin styður við verkefni sem vernda og bæta gæði umhverfisins, vernda heilsu manna og stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Einkum með stuðningi við lítil verkefni til að hefja, stækka eða flýta fyrir sjálfbærari framleiðslu, dreifingu og neysluvenjum, m.a. með því að auðvelda miðlun þekkingar, auka þekkingu við framkvæmd umhverfislöggjafar og styðja við tækniþróun.

Nánari upplýsingar: umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Evrópusambandið

Civil Protection

Civil Protection áætlunin styður verkefni á sviði almannavarna í tengslum við náttúruhamfarir og vá af völdum tæknibilunar og stuðlar að samstarfi, miðlun reynslu og gagnkvæmri aðstoð þátttökuríkjanna. Ísland tekur þátt í RescEU-hluta áætlunarinnar sem snýr að kostnaði við kaup á tækjum til að takast á við slíkar hamfarir og er markmiðið með áætluninni að auka varnir, viðbúnað og viðbrögð þegar aðkallandi aðstæður koma upp í aðildarríkjunum.

Nánari upplýsingar: Evrópusambandið

Single Market Programme

Áætlununum er ætlað að stuðla að víðtækara samstarfi á sviðum sem falla utan fjórfrelsisins. Þær áætlanir sem Ísland hefur tekið þátt í styðja við það markmið að efla innri markaðinn og auka vægi menntunar, rannsókna og nýsköpunar.

Ísland mun taka þátt í eftirfarandi hlutum áætlunarinnar:

  1. Efling innri markaðarins.
  2. Samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
  3. Neytendavernd og valdefling neytenda.
  4. Hagtölugerð.

Nánari upplýsingar: Evrópusambandið

EU4Health

Áætlun á sviði heilbrigðismála sem hefur það að markmiði að styðja við nýjungar á sviði heilbrigðisvísinda, umbætur og bætt öryggi í heilbrigðisþjónustu, bætta heilsu og koma í veg fyrir sjúkdóma, og vernda borgara fyrir heilsufarsógnum yfir landamæri.

Nánari upplýsingar: Evrópusambandið

Creative Europe

Creative Europe er menningar- og kvikmyndaáætlun ESB.  Áætlunin skiptist í þrjá hluta; menningarhluta, kvikmyndahluta og hluta sem snýr að þverfaglegum samstarfsverkefnum sem t.a.m. stuðla að stefnumótun á sviði menningarmála, nýsköpun, félagslegri þátttöku og listrænu frelsi. Þá mun í fyrsta sinn verða boðið upp á styrki fyrir fréttamiðla sem eiga að stuðla að fjölmiðlalæsi, menningarlegri fjölbreytni og gæðum í fréttamennsku.

Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið

European Solidarity Corps

Áætlunin styður sjálfboðaliðastarf og samfélagsverkefni ungs fólks á aldrinum 18-30 ára. Markmið áætlunarinnar er að efla samheldni, samstöðu, lýðræði og borgaralega þátttöku í Evrópu auk þess að bregðast við sérstökum samfélagslegum þörfum til að stuðla að jöfnum tækifærum.

Nánari upplýsingar: Rannís og Evrópusambandið

European Social Fund+

Undir sjóðnum er áætlun ESB um atvinnumál og félagslega nýsköpun (EaSI) sem sameinar eldri áætlanir á sviði félagsmála. Henni er ætlað að styðja vinnumarkaðinn, frjálst flæði vinnuafls og nýsköpun á sviði félagsmála.

Nánari upplýsingar: Evrópusambandið

 

Enn er unnið að formlegri samþykkt vegna Geimvísindaáætlunar ESB (en Copernicus-áætlunin fellur t.a.m. undir hana) og InvestEU-áætlunarinnar.
Síðast uppfært: 7.10.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum