Hoppa yfir valmynd

Ákvarðanataka innan EES

Regluverk EES

EES-samningurinn er virkur og síbreytilegur þar sem samstarfið felur í sér samræmingu reglna sem gilda á milli ESB og EFTA-ríkjanna og tryggja frjálsa för vöru, þjónustu, fólks og fjármagns (fjórfrelsið). Af þessum sökum er nauðsynlegt að EES-samningurinn taki breytingum í samræmi við þróun reglna ESB sem á endanum taka gildi á öllu EES–svæðinu. Þetta er stundum nefnt einsleitni innan EES–svæðisins og felur í sér að reglur sem ESB setur og falla undir efnissvið EES-samningsins eru teknar upp í samninginn og síðan íslenska löggjöf.

Málsmeðferð við upptöku ESB-gerða í EES-samninginn

Þegar framkvæmdastjórnin leggur fram tillögu er tekið fram hvort hún hafi þýðingu fyrir EES eða ekki (e. EEA relevant). Er það þá í höndum sameiginlegu EES-nefndarinnar að meta hvort ný gerð varði efnissvið EES-samningsins, í hvaða viðauka gerðin skuli tekin upp og hvernig aðlögun að EES-samningnum skuli háttað.

Hver gerð gengur í gegnum ákveðið vinnsluferli áður en hún er tekin upp í EES-samninginn. Þegar ESB hefur gengið frá lagatextanum sendir EFTA-skrifstofan í Brussel EFTA/EES-ríkjunum þær gerðir sem falla undir samninginn. Það ráðuneyti sem hefur umsjón með málaflokknum sem gerð fjallar um tekur við henni og greinir með tilliti til íslenskra hagsmuna. Lagt er mat á hvort gerð kallar á aðlögun vegna sérstakra aðstæðna og er þá samið sérstaklega við ESB um það. Einnig er metið hvort upptaka gerðar í EES-samninginn kalli á lagabreytingar og er hún þá send utanríkismálanefnd Alþingis til umfjöllunar, sbr. 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Þegar greiningu á gerð innan íslenskrar stjórnsýslu er lokið gerir EFTA-skrifstofan drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka gerðina upp í EES-samninginn. Hafi verið samið um aðlögun við gerðina birtist texti þess efnis í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ákvarðanir um að taka gerðir upp í EES-samninginn eru síðan teknar af sameiginlegu EES-nefndinni. Nefndin fundar um það bil átta sinnum á ári og er aðalviðfangsefni hennar að taka ákvarðanir um að taka ESB-gerðir upp í EES-samninginn, eins og fjallað er um í hlutanum um stofnanakerfi EES. Algengt er að um 50 gerðir séu teknar inn í EES-samninginn á hverjum fundi.

Á vefsíðunni EEA-Lex er að finna ítarlegar upplýsingar um stöðu gerða sem eru til athugunar hjá EFTA/EES ríkjunum og gerða sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Fyrir gerðir sem teknar hafa verið upp í samninginn má t.d. finna upplýsingar um gildistöku, slóð á viðeigandi gerð í íslenskri þýðingu og slóð á viðeigandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Verklag við undirbúning ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Þegar löggjöf sem varðar EES-samninginn hefur verið samþykkt hjá ESB hefst hið formlega ferli við upptöku gerða í EES-samninginn. Myndast hefur ákveðið verklag um samvinnu stjórnkerfisins og EFTA-skrifstofunnar. Hér á eftir verður verklaginu lýst í stuttu máli eins og það gengur fyrir sig. Verklagsreglurnar hafa verið samþykktar af öllum ráðuneytum.

Fyrir hendi er þrenns konar málsmeðferð EFTA/EES ríkjanna: flýtimeðferð, stöðluð málsmeðferð og einfölduð málsmeðferð. Þegar málsmeðferð er hafin tilgreinir EFTA skrifstofan hvaða málsmeðferð er beitt.

Flýtimeðferð

Flýtimeðferð á við tiltekna flokka gerða ESB sem fela ekki í sér nein altæk viðfangsefni, kalla ekki á aðlögun eða stjórnskipuleg skilyrði. Undirnefndir, í samráði við vinnuhópa, setja saman lista yfir flokka gerða sem falla undir þessa meðferð.

Innan viku frá birtingu gerðarinnar á skrá ESB eða í Stjórnartíðindum ESB sendir EFTA-skrifstofan viðkomandi sérfræðingum á Íslandi tengil á gerðina og flýtimeðferðarskjal með nauðsynlegum upplýsingum svo unnt sé að greina hana. Sérfræðingar hefja síðan mat sitt á gerðinni og hafa til þess sex vikur. Ekki er gert ráð fyrir að sérfræðingar svari flýtimeðferðarskjalinu nema þeir leggist gegn flýtimeðferð enda feli gerðin í sér altæk viðfangsefni sem varða EES eða krefjist aðlögunar eða stjórnskipulegra skilyrða. Sérfræðingar setja fram skýringu á því af hverju nota ætti stöðluðu málsmeðferðina og geta lagst gegn flýtimeðferðinni hvenær sem er áður en drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar eru send viðkomandi undirnefnd EFTA. Ef fram koma andmæli við flýtimeðferðinni skal fresturinn sem fyrirhugaður er í stöðluðu málsmeðferðinni hefjast þegar flýtimeðferðarskjalið er sent til viðkomandi vinnuhóps EFTA.

Stöðluð málsmeðferð

Þessi málsmeðferð á við um allar gerðir sem falla undir EES og uppfylla ekki skilyrði fyrir flýtimeðferð.

Innan viku frá birtingu gerðar á skrá ESB eða í Stjórnartíðindum ESB greinir EFTA-skrifstofan möguleg altæk viðfangsefni sem varða EES og sendir viðkomandi sérfræðingum á Íslandi gerðina auk staðalskjals með viðeigandi upplýsingum.

Upplýsingar sem krafa er gerð um í staðalskjalinu:

 • Tilgreina möguleg altæk viðfangsefni sem varða EES, s.s.: aðlaganir/skýringar/yfirlýsingar/ í tengslum við gerðir sem breytt er eða eru felldar úr gildi með gerðinni sem taka á upp,
 • ákvæði sem fela í sér tilvísanir í gerðir sem ekki hafa verið teknar upp í EES-samninginn,
 • ákvæði sem varða hugsanlega tveggja stoða málefni sem ekki falla undir bókun 1 við EES-samninginn,
 • ákvæði sem varða þriðju lönd,
 • ákvæði sem gera ráð fyrir að unnt sé að leggja á sektir,
 • ákvæði sem gera ráð fyrir viðurlögum á sviði refsiréttar, þörf á tvíhliða samningum eða öðru fyrirkomulagi,
 • önnur altæk málefni.
  - Tilgreina hvort gerðin varðar EES.
  - Leggja fram beiðni um aðlögun að gerðinni.
  - Tilgreina þörf á stjórnskipulegum skilyrðum eins og um getur í 103. gr. EES-samningsins.

Sérfræðingar hefja mat á gerðinni og svara spurningum á staðalskjalinu og hafa til þess 16 vikur. Staðalskjalið skal aftur sent EFTA skrifstofunni með afriti á sérfræðinga hinna EFTA/EES ríkjanna.

Ef gerð í EES-samningnum krefst lagabreytingar til að hún verði innleidd í íslenskan rétt þarf að upplýsa um það strax á frumstigi með upplýsingum í staðalskjali og með yfirlitsblaði til utanríkisráðuneytis (2. gr. eyðublað).

Utanríkisráðuneytið skal senda utanríkismálanefnd Alþingis gerðir sem fjallað er um í vinnuhópum EFTA sem kalla á lagabreytingar hér á landi til samráðs um sjónarmið er varða hagsmunagæslu og hugsanlega aðlögun. Þegar lagabreytingar eru nauðsynlegar er ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni tekin með stjórnskipulegum fyrirvara sem í raun er fyrirvari um samþykki Alþingis. Kveðið er á um efni og málsmeðferð þingsályktunartillagna og lagafrumvarpa til innleiðingar á EES-gerðum í 4. og 5. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, sbr. nánar síðar.

Einfölduð málsmeðferð

Gerðir sem falla undir einfaldaða málsmeðferð gilda í EFTA/EES ríkjunum án þess að þær séu felldar undir EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Samkvæmt einfölduðu málsmeðferðinni gera EFTA/EES ríkin samtímis ráðstafanir sem samsvara þeim ráðstöfunum sem ESB gerir. Einfaldaða málsmeðferðin á einungis við um hluta gerða á sviði matvæla (heilbrigði dýra, dýraafurðir). Einfaldaða málsmeðferðin er einnig notuð við vinnslu tiltekinna neyðargerða á sviði matvæla.

Innan viku frá birtingu gerðarinnar í Stjórnartíðindum ESB sendir EFTA-skrifstofan sérfræðingum á sviði matvæla gerðina ásamt upplýsingum um að gerðin falli undir einfaldaða málsmeðferð. Fjórum sinnum á ári lætur EFTA-skrifstofan sérfræðingum á sviði matvæla í té lista yfir gerðir sem falla undir einfölduðu málsmeðferðina sem eru birtar í Stjórnartíðindum ESB á næstliðnum þremur mánuðum. Að fengnu samþykki sérfræðinga á matvælasviði, leggur EFTA-skrifstofan lista yfir gerðir sem falla undir einfölduðu málsmeðferðina fyrir viðkomandi undirnefnd, fastanefndina og sameiginlegu EES nefndina sem taka skal mið af þeim fjórum sinnum á ári.

Sérfræðingar á sviði matvæla fylgjast með samþykkt nýrra gerða ESB og ákveða hvort þær skuli falla undir einfölduðu málsmeðferðina. Skulu þeir upplýsa EFTA-skrifstofuna um það ef þeir líta svo á að gerð ætti ekki að falla undir einfölduðu málsmeðferðina og hefur EFTA-skrifstofan þá viðeigandi málsmeðferð. Sérfræðingar samþykkja lista yfir allar gerðir sem falla undir einfölduðu málsmeðferðina eigi síðar en tveimur vikum eftir að hann er sendur af EFTA skrifstofunni.

Undirbúningur að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar

Þegar öll EFTA/EES ríkin hafa skilað flýtimeðferðarskjali/staðalskjali útbýr EFTA-skrifstofan drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ef engin aðlögun fylgir drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar hefur EFTA-skrifstofan eina viku til að senda drögin til viðkomandi undirnefndar til samþykkis.

Ef gerð er krafa um aðlögun í drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar hefur EFTA skrifstofan fjórar vikur til að senda drögin til viðkomandi vinnuhóps.

Fyrsta bókun við EES-samninginn fjallar um altæka aðlögun. Við gerð EES-samningsins var ljóst að aðlaga þurfti þær gerðir sem teknar voru upp í samninginn, t.d. varðandi aðfararorð gerðanna, málsmeðferð við breytingu á þeim, hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og fastanefndar EFTA (í stað framkvæmdastjórnar ESB) og gildistöku gerðanna. Til að komast hjá umfangsmikilli vinnu við að umrita gerðirnar í hvert sinn að því er þessi atriði varðar mælir bókunin fyrir um altæka aðlögun á vissum sviðum, t.a.m. að inngangur gerðanna eigi við eins og nauðsynlegt sé vegna túlkunar gerðanna og svo framvegis.

Það sem fellur utan sviðs bókunar 1 er þá nefnt sértæk aðlögun en með því er átt við að aðlaga þurfi einstakar gerðir að ákveðnum aðstæðum eða hagsmunum. Í þeim tilvikum verður að gera greinarmun á tæknilegri aðlögun annars vegar og efnislegri aðlögun hins vegar. Sem dæmi um tæknilega aðlögun má nefna íslenskun á sérfræðiheitum og upptalningu á lögbærum yfirvöldum í EFTA-ríkjunum til samræmis við upptalningu lögbærra yfirvalda innan ESB. Dæmigerð efnisleg aðlögun væri undanþága frá ákvæðum gerðar, breytt viðmið eða mörk og frestun gildistöku.

Ósk um efnislega aðlögun kallar í öllum tilvikum á samningaviðræður við ESB um slíkt. Ýmist hafa þá EFTA/EES-ríkin sameiginlega afstöðu eða það ríki sem óskar eftir sérstökum aðlögunum fyrir sína hagsmuni setur fram beiðni um aðlögun sjálfstætt. Þegar um efnislega aðlögun er að ræða er ávallt mikilvægt að undirbúa rökin fyrir henni mjög vel. Slíkt krefst oftast töluverðrar vinnu bæði hjá viðkomandi ráðuneyti í samvinnu við utanríkisráðuneyti auk óformlegs samráðs við framkvæmdastjórnina og hin EFTA-ríkin.

Séu drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með aðlögun eru þau send sérfræðingum sem gefa álit sitt eigi síðar en tveimur vikum eftir að drög að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar eru send frá EFTA-skrifstofunni. Hafa ber í huga að sérfræðingarnir hafa þegar hér er komið sögu tekið þátt í samningaviðræðum við ESB sé um sértæka aðlögun að ræða og þekkja því aðlögunina vel sem skýrir hinn stutta frest. Sérfræðingar senda afrit af svari sínu til sérfræðinga hinna EFTA/EES-ríkjanna. Er drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafa verið samþykkt af vinnuhópi eru þau send viðkomandi undirnefnd til samþykktar.

Umsjónarmaður undirnefndar, sem jafnan er í utanríkisráðuneytinu, sendir EES-tengilið þess ráðuneytis sem umsjón hefur með ákvörðuninni beiðni um eftirfarandi skjöl:

 • Undirritunarblað til samþykkis því að gerð verði hluti EES samningsins.
 • Efnisútdrátt gerðar.

Ráðuneytið staðfestir samþykki sitt fyrir því að gerð(ir) sem ákvörðun sameiginlegu EES nefndarinnar vísar til verði hluti EES-samningsins með undirritunarblaðinu og tilgreinir hvort gerðin kalli á lagabreytingar eða hver lagastoð gerðar er. Staðfesting og undirritun fyrir hönd ráðuneytis er jafnframt staðfesting þess að viðkomandi ráðuneyti hafi afgreitt málið og ekki komi til athugasemda af þess hálfu á síðari stigum.

Undirritunarblað ber að senda til utanríkisráðuneytis innan tveggja vikna frá því að eftir því er óskað. Jafnframt skal senda efnisútdrátt vegna gerðarinnar, á rafrænu formi, sem lýsir innihaldi hennar og tilgangi, svo og áhrifum hennar á íslenskan rétt í stuttu máli.

Þegar undirritunarblað liggur fyrir samþykkir talsmaður í undirnefnd að drög að ákvörðun verði afhent ESB til samþykktar. Þegar framkvæmdastjórnin hefur fengið drögin í hendur er nokkuð misjafnt hve langan tíma hún tekur til að ljúka athugun sinni. Þegar um er að ræða ákvarðanir sem ekki fela í sér neinn aðlögunartexta taki það ekki skemmri tíma en tvo mánuði. Séu drög að ákvörðunum hins vegar með aðlögunartexta tekur það að jafnaði lengri tíma þar sem þá er nauðsynlegt að leggja þau fyrir ráðherraráðið og í sumum tilvikum einnig fyrir Evrópuþingið.

Skýringarmynd sem sýnir ferli við upptöku gerða í EES-samninginn

Stjórnskipulegur fyrirvari

Við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er stundum gerður svokallaður stjórnskipulegur fyrirvari skv. 103. gr. EES-samningsins, eða fyrirvari um samþykki þjóðþinga EFTA-ríkjanna, ef þannig ber undir að samþykki þeirra er nauðsynlegt samkvæmt stjórnskipunarlögum.

Þegar lagabreytingar eru nauðsynlegar er ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni tekin með stjórnskipulegum fyrirvara sem þýðir að ákvörðunin tekur ekki gildi fyrr en Ísland hefur aflétt þessum fyrirvara. Samkvæmt EES-samningnum hefur hvert ríki sex mánuði til þess. Stjórnskipulegum fyrirvara verður einungis aflétt af hálfu Íslands þegar Alþingi hefur veitt samþykki sitt með þingsályktun um að staðfesta megi ákvörðunina og/eða breytt lögum í því skyni. Sé ákvörðun staðfest á grundvelli heimildar í þingsályktun þarf alltaf að fylgja henni eftir með viðeigandi lagabreytingum til þess að gerð teljist innleidd á fullnægjandi hátt.

Gerðir væntanlegar inn í EES-samninginn

Fundir sameiginlegu EES-nefndarinnar eru haldnir reglulega eða u.þ.b. átta sinnum á ári. Um tveimur til þremur vikum fyrir fund nefndarinnar sendir EFTA-skrifstofan utanríkisráðuneytinu lista yfir mögulegar ákvarðanir sem gætu verið á dagskrá næsta fundar. Eftir að öll EFTA-ríkin og framkvæmdastjórnin hafa gert athugasemdir við listann, ýmist bætt við eða fækkað gerðum, er endanleg dagskrá sameiginlegu EES-nefndarinnar sett fram og drög að ákvörðunum send til utanríkisráðuneytis.

EFTA-skrifstofan birtiruppfærðan lista yfir gerðir sem eru væntanlegar inn í EES-samninginn.

Draft JDC's sent to the EEAs as of 9 May 2016

Gerðir nýlega teknar upp í EES-samninginn

Ákvarðanir sem sameiginlega EES-nefndin tekur taka að jafnaði gildi næsta dag eftir fund nefndarinnar. Gerðirnar, sem teknar eru upp í samninginn með viðkomandi ákvörðun, fá því gildi í EES-samningnum strax næsta dag, nema annað sé ákveðið eða gildistökudagur þeirra ekki runninn upp. Gildistaka gerðar er þannig með fernum hætti:

 1. Daginn eftir að ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni ef gerð hefur þegar öðlast gildi í ESB.
 2. Á gildistökudegi gerðarinnar, ef hann er síðar.
 3. Ef gerð er með stjórnskipulegum fyrirvara öðlast hún gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að öll ríki hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara     sínum (nema gildistökudagur sé síðar í ESB).
 4. Sérstök gildistaka.

Áður en fundur sameiginlegu EES-nefndarinnar er haldinn leggur utanríkisráðherra drög að ákvörðunum á dagskrá sameiginlegu nefndarinnar fyrir ríkisstjórn með minnisblaði og óskar eftir samþykki hennar á því að ákvarðanirnar verði teknar í nefndinni. Í minnisblaðinu er sérstaklega tilgreint ef innleiðing gerðar krefst lagabreytingar þannig að ákvörðun þurfi að taka með stjórnskipulegum fyrirvara. Gerðir sem kalla á lagabreytingar hafa áður fengið umfjöllun hjá Alþingi, sbr. 2. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála. Jafnframt er tilgreint, varðandi þær gerðir sem ekki eru taldar kalla á lagabreytingar, í hvaða lögum er að finna lagastoð fyrir innleiðingu þeirra.

Meginmál minnisblaða utanríkisráðherra til ríkisstjórnar 2016

Nýlegar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar

Innleiðing í íslenskan rétt

Þegar sameiginlega EES-nefndin hefur tekið ákvörðun um að taka gerð upp í EES-samninginn er gerðin orðin hluti samningsins. EFTA-ríkjunum ber þá að taka hana upp í landsrétt sinn eftir efni og aðlögun að EES-samningnum. Innleiðing gerða í íslenskan rétt getur verið með ýmsum hætti, svo sem með lagasetningu, reglugerðarsetningu, breytingum á eldri reglugerðum eða með öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.

Innleiðingin er á ábyrgð þess ráðuneytis sem hefur umsjón með viðkomandi málaflokki. Eftirlit með innleiðingu í íslenskan rétt er í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Ætlast er til að upplýsingar um innleiðingu séu sendar til ESA strax og gerð hefur öðlast gildi með innleiðingu hér á landi, en einnig er hægt að senda þær fyrr hafi reglur verið settar eða gerð innleidd áður en hún tekur gildi hér á landi.

Eftirlitsstofnun EFTA

Íslenskum stjórnvöldum ber að upplýsa ESA um með hvaða hætti EES-gerðir hafa verið innleiddar. Eftirlit Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) með innleiðingu er í grófum dráttum sem hér segir. Strax eftir gildistöku ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar minnir ESA hlutaðeigandi ráðuneyti á að gerð hafi öðlast gildi og að hana beri að innleiða. Sé gerð óinnleidd þremur mánuðum eftir gildistöku sendir stofnunin hlutaðeigandi ráðuneyti formlegt áminningarbréf (e. letter of formal notice) og er það fyrsta stig samningsbrotaferlis.

Hafi gerðin ekki enn verið innleidd sjö mánuðum eftir gildistöku sendir stofnunin hlutaðeigandi ráðuneyti rökstutt álit (e. reasoned opinion) sem er undanfari þess að máli er vísað til EFTA dómstólsins. Hafi gerð ekki verið innleidd ári eftir gildistöku má reikna með að ESA vísi málinu til EFTA-dómstólsins þar sem úrbætur hafi ekki verið gerðar. Ef um efnislegan ágreining er að ræða má reikna með að ferlið taki lengri tíma og að samskipti íslenskra stjórnvalda og ESA séu með margvíslegum hætti.

Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

 ESA birtir tvisvar á ári upplýsingar um frammistöðu EES-EFTA-ríkjanna við innleiðingu EES-gerða. Frammistöðumat var síðast birt í október 2015 og miðaði það við stöðuna 30. apríl 2015. Þá var svonefndur innleiðingarhalli Íslands 2,1% sem svaraði til þess að 22 tilskipanir höfðu ekki verið innleiddar að fullu á réttum tíma.

Hinn 19. mars 2016 voru tilskipanir sem ekki höfðu verið innleiddar 21 talsins, sem svarar til um það bil 2,1% innleiðingarhalla. Á yfirliti yfir stöðu innleiðingar hér að neðan sést hvernig óinnleiddar tilskipanir annars vegar og óinnleiddar reglugerðir hins vegar skiptast eftir ráðuneytum.

Staða innleiðingar eftir ráðuneytum:

    - Tilskipanir
    - Reglugerðir

Innleiðingarstaða tilskipana sem teknar hafa verið upp í EES (úr gagnagrunni ESA)

Leita að gerð

Síðast uppfært: 10.7.2019
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira