Hoppa yfir valmynd
15. desember 2020 Innviðaráðuneytið

Minni samdráttur í tekjum sveitarfélaga en í fyrri spám

Starfshópur á vegum ríkis og sveitarfélaga áætlar að afkoma A hluta sveitarsjóða verði neikvæð sem nemur 17,7 milljörðum króna í ár. Það er um 2,2 milljörðum betri afkoma en starfshópurinn áætlaði í skýrslu í ágúst sl. en þá stefndi í 19,9 milljarða halla samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Nýjustu tölur bendi til þess að samdráttur í tekjum verði minni en ráð var fyrir gert í sumar, en heildargjöldin verði þau sömu. Þegar litið er til áætlana um skuldastöðu sveitarfélaganna þá er hún ögn skárri en nú en gert var ráð fyrir í fyrri áætlun og sama gildir um veltufé frá rekstri.

Samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjármálaupplýsingar

Starfshópurinn var settur á fót í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar 28. apríl sl. Verkefni hans var annars vegar að safna upplýsingum um fjárhagsáætlanir og fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga fyrir yfirstandandi ár og þróun þeirra og horfur og hins vegar að safna upplýsingum um einstaka þætti sem ljóst þykir að muni hafa mikil áhrif á afkomu sveitarfélaganna á komandi mánuðum og misserum. 

Starfshópurinn skilaði fyrri skýrslu til ráðherra 24. ágúst og komst hann að þeirri niðurstöðu að frávik frá fjárhagsætlunum ársins hvað A hluta sveitarsjóða varðar næmi um 26,6 milljörðum króna. Væri einnig tekið mið af áformum sveitarfélaga um fjárfestingar umfram gildandi áætlun væru frávikin 33,2 milljarðar, eða sem næmi 1,1% af vergri landsframleiðslu.

Í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál óskaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið eftir því að starfshópurinn kæmi saman að nýju og myndi endurmeta fyrri áætlun sína með hliðsjón af þróun fjármála. Endurmat starfshópsins liggur nú fyrir og eins og áður sagði er áætlað að afkoman verði um 2,2, milljörðum betri en fyrri spá starfshópsins gerði ráð fyrir, sbr. tafla 1 hér að neðan. „Eftir sem áður er ljóst að neikvæð áhrif Covid-19 faraldursins á efnahagslífið og fjármál sveitarfélaga eru mikil,“ segir í skýrslunni.

Tafla 1: Öll sveitarfélög (þús. kr.)

Upphaflegar
fjárhagsáætlanir
sveitarfélaga
Spálíkan
ágúst 2020
Spálíkan
3.des. 2020
Heildartekjur 372.421.773 352.410.300 354.581.353
Heildargjöld 365.686.960 372.287.601 372.287.601
Rekstrarniðurstaða 6.734.813 -19.877.301 -17.706.248
Hreinar skuldir 285.544.238 318.748.633 316.577.580
Skuldahlutfall 76,70% 90,40% 89,30%
Veltufé frá rekstri 30.406.725 7.790.611 9.961.664
Veltufé frá rekstri í hlf. við tekjur 8,16% 2,21% 2,80%
Fjárfestingar 32.478.885 43.067.166 43.067.166

Útkomuspár 2020 benda til minni fjárfestinga

Í samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið aflaði starfshópurinn útkomuspám sveitarfélaganna, sem unnar voru eftir þriðja ársfjórðung og bárust spár frá 52 sveitarfélögum. Það gaf starfshópnum tækifæri til að bera saman upphaflegar fjárhagsáætlanir, niðurstöður spálíkansins í ágúst og núverandi niðurstöður spálíkansins við útkomuspár sveitarfélaganna, sbr. tafla 2 hér að neðan. 

Sá samanburður leiðir í ljós óveruleg frá vik hvað varðar spár um tekjur og gjöld, skuldir og veltufé. Hins vegar bendir samanburðurinn til þess að fjárfestingar sveitarfélaganna verði nokkru minni en spálíkanið gerði ráð fyrir og munar þar rúmum 6 milljörðum kr.. „Þannig er ljóst að fjárfestingar ársins verða minni en sveitarfélögin höfðu áformað á árinu en hluti þeirra mun flytjast fram á næsta ár,“ segir í niðurstöðum starfshópsins. 

Tafla 2: Útkomuspá sveitarfélaga árið 2020

  Upphaflegar
fjárhagsáætlanir
sveitarfélaga
Spálíkan
ágúst 2020
Spálíkan
3. des. 2020
Útkomuspá
sveitarfélaga 
Heildartekjur 338.332.769 319.376.537 321.342.252 321.655.039
Heildargjöld 333.005.280 338.700.487 338.700.487 338.266.400
Rekstrarniðurstaða 5.327.489 -19.323.950 -17.358.235 -16.611.361
Hreinar skuldir 271.749.220 302.633.639 300.667.923 288.769.387
Skuldahlutfall 80,30% 94,80% 93,60% 89,80%
Veltufé frá rekstri 26.507.126 5.851.687 7.817.403 7.505.414
Veltufé frá rekstri í hlf. við tekjur 7,80% 1,80% 2,40% 2,30%
Fjárfestingar 28.280.794 38.509.774 38.509.774 32.267.100

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum