Hoppa yfir valmynd
16. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Fólk og félagasamtök leggi lóð á vogarskálar mannréttinda

Undirbúningur er hafinn að þriðju allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála. Allsherjarúttektin felur í sér heildarúttekt á stöðu mannréttindamála innan aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, en hún fer fram á u.þ.b. fimm ára fresti.

Ferli úttektarinnar byggir á jafningjarýni ríkja þ.e. ríkin fara yfir stöðu mannréttindamála hvert hjá öðru og koma með ábendingar og áskoranir um það sem mætti betur fara. Markmiðið með þessu ferli er meðal annars að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og hvetja ríki til þess að uppfylla skuldbindingar sínar á sviði mannréttindamála. Ísland hefur tvisvar sinnum farið í gegnum slíka úttekt, fyrst árin 2011 til 2012 og nú síðast árin 2016 til 2017.

Næsta úttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi fer fram árin 2021 til 2022.
Úttektin felst meðal annars í því að Íslandi ber að skila skýrslu til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi fyrir 1. október 2021. Mun skýrslan fjalla um þróun mannréttindamála frá úttektinni árið 2016 og hvort og hvernig hefur verið brugðist við þeim athugasemdum sem fram komu í kjölfar þeirrar úttektar. Stýrihópur Stjórnarráðsins um mannréttindi fer með verkefnið og ritar skýrsluna. Áhersla er lögð á náið samráð við hagsmunaaðila á öllum stigum vinnunnar.

Stefnt er að því að halda opinn rafrænan samráðsfund í janúar og verður sá fundur auglýstur síðar. Auk þess viljum við hvetja félagasamtök og aðra hagsmunaaðila til þess að koma ábendingum og umsögnum á framfæri við stýrihópinn um mannréttindi á netfangið [email protected] . Drög að skýrslu verða síðan kynnt á samráðsgátt Stjórnarráðsins þar sem öllum mun gefast kostur á að senda inn athugasemdir.

Í úttektarferlinu er enn fremur lögð áhersla á að frjálsum félagasamtökum og öðrum hagsmunaaðilum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri beint við Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, með því að skila inn skýrslu til skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Slíkar skýrslur mega að jafnaði ekki vera lengri en 2815 orð en þó mega þær vera allt að 5630 orðum ef tvö eða fleiri samtök kjósa að skila skýrslu inn sameiginlega. Skýrslunum má einnig fylgja ítarefni. Frestur frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila til þess að skila inn skýrslu vegna stöðu mannréttindamála á Íslandi er til 1. júlí 2021. Hagsmunaaðilar eru sérstaklega hvattir til þess að skila inn sínum eigin skýrslum.

Þá hafa hagsmunaaðilar og frjáls félagsamtök tækifæri til að kynna afstöðu sína til mannréttindamála á Íslandi á forfundi sem haldinn verður af frjálsu félagasamtökunum UPR info í Genf. Er það gert til að auka aðgengi og virka þátttöku frjálsra félagasamtaka að UPR ferlinu. Nánari upplýsingar um tímasetningar o.fl. má finna á meðfylgjandi slóð: https://www.upr-info.org/en/upr-process/pre-sessions  

Á vef Stjórnarráðsins má finna upplýsingar um úttektarferlið, skýrslur Íslands um stöðu mannréttindamála hér á landi og niðurstöður Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna vegna fyrri úttekta. Þar má einnig sjá stöðu þeirra tilmæla sem beint hefur verið til Íslands.

Hér má finna síðustu skýrslu Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna dags. 1. ágúst 2016 og síðustu nðiurstöður Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi dags. 19. desember 2016. 

Nánari upplýsingar um UPR ferlið má einnig nálgast á eftirfarandi vefslóðum:

https://www.ohchr.org/EN/HRBodies/UPR/Pages/NgosNhris.aspx
http://www.upr-info.org/ 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira