Hoppa yfir valmynd
18. desember 2020 Félagsmálaráðuneytið

Auglýst eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála

Félagsmálaráðuneytið og innflytjendaráð auglýsa eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála 2020-2021. Hlutverk sjóðsins er að efla rannsóknir og styðja þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Við ákvörðun um styrkveitingar verður lögð áhersla á eftirfarandi:

  • Börn og ungmenni: Áhersla er lögð á verkefni sem snúa að börnum og ungmennum af erlendum uppruna. Sérstöku fjármagni verður veitt til verkefna sem tengjast ungmennum af erlendum uppruna sem eru hvorki í vinnu né námi.
  • Atvinna og virkni: Sérstök áhersla er lögð á rannsóknar- og þróunarverkefni sem tengjast innflytjendum á vinnumarkaði og virkniúrræðum fyrir þá sem eru í atvinnuleit.
  • Covid-19: Rannsóknir og þróunarverkefni sem tengjast áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins á innflytjendur á Íslandi.
  • Önnur verkefni er varða málefni innflytjenda koma einnig til álita.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum. Félags- og hagsmunasamtök innflytjenda eru sérstaklega hvött til þess að sækja um. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Styrkir geta að hámarki numið 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um jafnt á íslensku og ensku.

 

Umsóknarfrestur er til kl. 16.00 mánudaginn 1. febrúar 2021.

Umsókn sem berst eftir að umsóknarfresti er lokið verður ekki tekin til umfjöllunar.

Sækja skal um á rafrænu formi á umsóknarvef Stjórnarráðsins.

Undir flipanum Eyðublöð eru eyðublöð flokkuð eftir ráðuneytum og stofnunum. Undir félagsmálaráðuneytinu er umsóknareyðublaðið Þróunarsjóður innflytjendamála 2020-2021.

Vísað er á nánari upplýsingar um þróunarsjóðinn á vef Stjórnarráðsins, meðal annars reglur þróunarsjóðs innflytjendamála með nánari upplýsingum um skilyrði fyrir styrkveitingum.

 

Í janúar mun innflytjendaráð standa fyrir opnum kynningarfundi fyrir væntanlega umsækjendur um umsóknarferlið, áherslur ársins og reglur sjóðsins. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.

 

Frekari upplýsingar fást í félagsmálaráðuneytinu í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira