Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mæla með að hefja sölumeðferð og skráningu

Merki Íslandsbanka - mynd

Meirihlutar efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis mæla með því að hafist verði handa við undirbúning útboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og skráningu hlutanna á markað.

Þá telur Seðlabanki Íslands ljóst að jafnræði bjóðenda verði tryggt, auk þess sem fyrirhuguð sala er talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.

Þetta kemur fram í umsögnum nefndanna og Seðlabanka Íslands um greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, en umsagnanna er aflað í samræmi við ákvæði laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Úr umsögn meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar

Í umsögn meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar segir að tillaga Bankasýslunnar sé varfærin og sett fram við aðstæður sem ætla megi að séu hagstæðar til að taka fyrsta skref í að draga úr áhættu ríkisins af stórum eignarhlutum í fjármálakerfinu.

Með því að bjóða aðeins út takmarkaðan hluta eignar ríkisins og skrá hlutabréfin á opinberan verðbréfamarkað sé komið á virkri og gagnsærri verðlagningu hlutabréfanna án þess að skapa offramboð, enda sé markmiðið er að stuðla að hærra heildarverðmæti til lengri tíma.
Þá segir í umsögninni að markaðsaðstæður séu í flestu hagstæðar. Sögulega lágir vextir örvi þannig að öðru jöfnu eftirspurn eftir hlutabréfum og ýti almennt undir atvinnuvegafjárfestingu. Hlutabréfaverð íslenskra og erlendra banka hafi hækkað verulega frá miðju síðasta ári, auk þess sem mikil umframeftirspurn hafi verið við útboð hlutabréfa á síðasta ári.

Við útboð og sölu er aftur á móti nauðsynlegt að gætt verði að eftirfarandi atriðum að mati meirihlutans:

  • Að stuðlað verði að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.
  • Að lagður verði grunnur að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka.
  • Að tryggt verði að tilboðsgjafar í hluti undir ákveðinni krónutölu (a.m.k. einni milljón króna að markaðsvirði) verði ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn verður í útboðinu.
  • Að sett verði hámark á hlut hvers tilboðsgjafa, t.d. 2,5–3,0% af heildarhlutafé bankans. 
  • Að sett verði lágmark og hámark á þann hlut í bankanum sem ríkið býður til kaups í útboðinu, t.d. þannig að lágmark verði 25% og hámark 35%.

Í niðurstöðu meirihluta nefndarinnar segir loks eftirfarandi:

„Að teknu tilliti til framangreinds mælir meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar eindregið með því að hafist verði handa við undirbúning útboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og skráningu hlutanna á markað.“

Úr umsögn meirihluta fjárlaganefndar

Í umsögn fjárlaganefndar er fjallað um lykilmarkmið fyrirhugaðrar sölu. Þar segir m.a. að um 430 ma.kr. séu bundnir í eign ríkisins í Landsbanka og Íslandsbanka en í svo mikilli fjárbindingu sé fólginn fórnarkostnaður og hann þurfi að meta í samhengi við vænta arðsemi, uppbyggingu samfélagslegra innviða, minni skuldsetningu og lægri vaxtabyrði.

Huga þurfi að dreifðu og fjölbreyttu eignarhaldi Íslandsbanka eftir sölu og vel komi til greina að tilboðsgjafar í hluti undir ákveðinni krónutölu verði ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn verður í útboðinu. Þá megi lita svo á að tilkoma Íslandsbanka á hlutabréfamarkað væri jákvætt skref frá samkeppnissjónarmiði með fjölgun félaga á markaði.

Til að staðið verði við markmið um fjölbreytt, heilbrigt og dreift eignarhald leggur meirihluti fjárlaganefndar til:

  • Að tryggt verði að tilboðsgjafar í hluti undir ákveðinni krónutölu (a.m.k. einni milljón króna að markaðsvirði) verði ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn verður í útboðinu.
  • Að sett verði hámark á hlut hvers tilboðsgjafa, t.d. 2,5–3,0% af heildarhlutafé bankans.
  • Að sett verði lágmark og hámark á þann hlut í bankanum sem ríkið býður til kaups í útboðinu, t.d. þannig að lágmark verði 25% og hámark 35%.

Úr umsögn Seðlabanka Íslands

Í umsögn Seðlabanka Íslands segir að áhrif sölu á hlut í Íslandsbanka muni fara eftir því hversu margir hlutir í Íslandsbanka verða boðnir út, hve mikil þátttaka erlendra fjárfesta verði og hvernig hlutafjárkaup bæði innlendra og erlendra fjárfesta í útboðinu verða fjármögnuð. 

Segir í umsögninni að ekki liggi fyrir eiginlegt verðmat á 25% hlut í Íslandsbanka og er þar vísað til greinargerðar fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fram kemur að í frumútboði sé stefnt að því að selja allt að 25% af eignarhlut ríkisins að því gefnu að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Miðað við virði Íslandsbanka samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2019 gæti salan skilað ríkissjóði um 35 ma.kr.

Seðlabankinn fjallar um jafnræði bjóðenda út frá því hvort þeir væru innlendir eða erlendir og hvort notaðar yrðu aflandskrónur sem keyptar voru með afslætti, með vísan til laga um sölu og meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Frá því þau lög voru sett hafi fjármagnshöft verið losuð og séu einu takmarkanirnar sem eftir standa gagnvart aflandskrónueigendum þær að þeir þurfi í sumum tilvikum að skipta aflandskrónum í erlendan gjaldeyri til þess að losna undan takmörkunum laga en að því sögðu standi innlendir og erlendir kaupendur eignarhluta jafnfætis hvað varðar heimildir og möguleika til fjárfestingar.

Í umsögninni er fjallað um áhrif sölunnar á gjaldeyrismarkað og gjaldeyrisforða og segir að til að meta þau þurfi að áætla hversu mikil þátttaka erlendra aðila í útboðinu gæti orðið. Tillaga Bankasýslunnar miðast við að seldir hlutir í útboðinu verði aðeins skráðir á verðbréfamarkað innanlands en líklegt sé að þetta dragi að öðru óbreyttu úr áhuga erlendra fjárfesta á að taka þátt í úboðinu þótt ekki sé hægt að útiloka áhuga þeirra, en verð á hlut geti þar t.d. haft áhrif.

Um laust fé í umferð segir í umsögn Seðlabankans að sala á eignarhlutum í Íslandsbanka fyrir 35 ma.kr. til innlendra eða erlendra fjárfesta ætti ekki að hafa áhrif á peningamagn í umferð og þar með laust fé svo lengi sem þessum fármunu sé varið til þess að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs.

Niðurstaða Seðlabanka Íslands er því sú að fyrirhuguð sala á 25% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka myndi hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð og sömuleiðis ætti jafnræði bjóðenda að vera tryggt.

Áform í samræmi við stjórnarsáttmála og eigendastefnu

Ráðherra féllst á tillögu Bankasýslu ríkisins um að hefja undirbúning að skráningu Íslandsbanka hf. á skipulegan verðbréfamarkað innanlands og sölumeðferð á eignarhlutum í kjölfar almenns útboðs þann 18. desember sl.

Í greinargerð ráðherra kemur fram að stefnt sé að því að selja allt að 25% af eignarhlut ríkisins í bankanum, háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Áformin eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Með sölunni er stefnt að eftirfarandi markmiðum:

  • að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
  • að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
  • að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
  • að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
  • að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta;
  •  að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum mun ráðherra nú taka ákvörðun um hvort gera eigi breytingar á einstökum þáttum í fyrirhugaðri sölumeðferð, m.a. að teknu tilliti til athugasemda fjárlaganefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis við greinargerðina.

Sjá einnig

Stefnt að sölu eignarhluta í Íslandsbanka á vormánuðum

Greinargerð um ráðgerða sölumeðferð á hlutum ríkisins í Íslandsbanka

Fylgigögn:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum