Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Dregið hraðar úr losun frá F-gösum í þágu loftslagsins

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gert breytingu á reglugerð sem miðar að því að draga mun hraðar úr innflutningi flúoraðra gróðurhúsalofttegunda og þar með að ná hraðari samdrætti í losun þeirra en áður var gert ráð fyrir. Breytingin tók gildi í upphafi þessa árs.

Með setningu reglugerðarinnar er dregið úr hámarksmagni vetnisflúorkolefna sem heimilt er að flytja inn til landsins ár hvert. Flúraðar gróðurhúsalofttegundir, svo nefnd F-gös, eru öflugar gróðurhúsalofttegundir sem eru einkum notaðar sem kælimiðlar í fiskiskipum, frystiiðnaði, stórverslunum og víðar. Breytingin hefur þá þýðingu að það hámarksmagn vetnisflúorkolefna sem heimilt er að flytja inn á árinu 2021 er ekki nema tæp 40% af því magni sem flytja mátti inn á árinu 2020. Magnið fer frá að vera sem nemur tæplega 250 kílótonnum koldíoxíðjafngilda í tæp 95 kílótonn.

Meginmarkmið þeirrar breytingar sem felst í þessum nýja viðauka við reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir er að minnka losun þeirra með því að setja notkun umræddra miðla þrengri skorður en áður hafði verið ákveðið. Þannig er gert ráð fyrir að árið 2036 verði einungis heimilt að flytja inn rúmlega 30 kílótonn koldíoxíðjafngilda af vetnisflúorkolefnum, sem er um 12% af heimiluðum innflutningi nýliðins árs. Þetta er enn hraðari samdráttur en gert var ráð fyrir í aðgerð D.1 um útfösun F-gasa í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem kom út í júní í fyrra.

Reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir var sett til innleiðingar á tíu reglugerðum Evrópusambandsins um sama efni og gildir hún um takmörkun á losun, notkun og meðhöndlun flúoraðra gróðurhúsalofttegunda ásamt lekaleit, skráningu, setningu þeirra á markað og merkingar. Reglugerðin gildir einnig um menntun og hæfni starfsmanna sem meðhöndla flúoraðar gróðurhúsalofttegundir ásamt kröfum um þjálfun og vottun starfsmanna og fyrirtækja. Kvótamörk sem voru í reglugerðinni byggðu á ákvæðum Kigali-breytingarinnar við Montréal-bókunina og voru víðari en þau sem sett voru sameiginlega fyrir aðildarríki Evrópusambandsins.

Umhverfisstofnun úthlutar umræddum innflutningsheimildum í samræmi við ný ákvæði.

Reglugerð nr. 1425/2020 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 1066/2019 um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir

Reglugerð um flúoraðar gróðurhúsalofttegundir 1066/2016

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira