Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Tillaga um útboð á ljósleiðaraþráðum Atlantshafsbandalagsins

Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður starfshópsins, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á fundinum í morgun - myndUtanríkisráðuneytið

Starfshópur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra leggur til að hafinn verði formlegur undirbúningur útboðs á tveimur af þremur ljósleiðaraþráðum Atlantshafsbandalagsins á Íslandi í þágu samkeppni á fjarskiptamarkaði, þjóðaröryggis og varnarhagsmuna. Skýrsla starfshópsins var kynnt á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í morgun. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, skipaði í fyrra fimm manna starfshóp, undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns, um ljósleiðaramálefni, útboð ljósleiðaraþráða Atlantshafsbandalagsins og tengd málefni. Starfshópurinn skyldi gera heildstæða úttekt og mat á ljósleiðaramálum á Íslandi með tilliti til þjóðaröryggis og þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands, efna til samráðs við Atlantshafsbandalagið um hugsanlega hagnýtingu á aukagetu ljósleiðarakerfisins bandalagsins og leggja grunn að útboðsgögnum.

Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu sem ber yfirskriftina Ljósleiðaramál og útboð ljósleiðaraþráða. Þar er meðal annars lagt til að hafinn verði formlegur undirbúningur útboðs á tveimur af þremur ljósleiðaraþráðum Atlantshafsbandalagsins, í þágu samkeppni á fjarskiptamarkaði, þjóðaröryggis og varnarhagsmuna. Tveir kostir eru taldir koma til greina í þeim efnum: Að leigja tvo þræði til tveggja aðila með skilyrðum um gagnkvæman aðgang eða samnýtingu þráðanna eða að tveir þræðir verði leigðir til eins heildsöluaðila. 

„Grunninnviðir á borð við stofnljósleiðarann eru lykilinnviðir þegar kemur að öryggi ríkja og vörnum. Um leið hefur strengurinn gegnt ríku hlutverki við að tryggja örugg og afkastamikil fjarskipti, ekki síst í dreifðari byggðum landsins. Tillögur starfshópsins eru mikilvægt skref í að efla samkeppni á þessum markaði um leið og þær styðja vel við öryggis- og varnarhagsmuni Íslands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Þá leggur hópurinn meðal annars til að greining á möguleikum til hagkvæmrar endurnýjunar ljósleiðaraþráða Atlantshafsbandalagsins og frekari greining á leiðum til endurnýjunar landshringsins haldi áfram. Starfshópurinn áréttar auk þess mikilvægi þess að efla þekkingu innan stjórnsýslunnar á þýðingu lykilinnviða, á borð við fjarskiptainnviði, fyrir þjóðaröryggi í víðu samhengi. „Rétt eins og önnur nútímasamfélög er Ísland orðið mjög háð tækni- og netaðgangi og því ríður á að efla enn frekar samstarf og samráð þvert á ráðuneyti og stofnanir til að takast á við nýjar öryggisáskoranir sem fylgja þessari þróun. Ég tek því heils hugar undir brýningu starfshópsins um að nauðsynlegt sé að setja netöryggis og -varnarmál í algjöran forgang innan stjórnarráðsins,“ segir Guðlaugur Þór.

Stefnt er að því að útboðið hefjist í maí nk. og að niðurstöður liggi fyrir í ágúst 2021. Síðasta útboð fór fram, eftir samráð við Atlantshafsbandalagið, árið 2008 og voru þá tveir af þremur þráðum boðnir út. Þar sem annar af tveimur dró tilboð sitt til baka var, árið 2010, gerður samningur við einn aðila um 10 ára leigu á einum þræði. Sá samningur var framlengdur um eitt ár og rennur út í lok árs 2021. Frágangur útboðsgagna tekur mið af samráði við Atlantshafsbandalagið og ákvörðun utanríkisráðuneytisins í tengslum við tillögur hópsins. 

Skýrslu starfshópsins má lesa hér á vef Stjórnarráðsins.


  • Formaður starfshópsins afhendir ráðherra skýrsluna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira