Hoppa yfir valmynd
15. mars 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Traust til heilbrigðiskerfisins ekki mælst meira í 20 ár

könnun Gallup sýnir að 77% landsmanna bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins og hefur það ekki mælst meira í þau 20 ár sem mælingarnar taka til. Í samanburði við aðrar stofnanir og embætti er heilbrigðiskerfið í þriðja sæti þeirra sem njóta mest trausts, á eftir Landhelgisgæslunni og embætti forseta Íslands. Traust fólks til heilbrigðiskerfisins er nánast jafnmikið, hvort sem það býr á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Um 92% landamanna eru ánægðir með sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda samkvæmt sömu könnun.

Búseta

Traust til heilbrigðiskerfisins mældist minnst árið 2016 (46%) og hefur síðan þá aukist ár frá ári og mælist nú 77%. Spurt var um traust fólks til heilbrigðiskerfisins eftir búsetu. Niðurstaðan sýnir að 78% íbúa Reykjavíkur bera traust til heilbrigðiskerfisins, hlutfallið er 75% hjá íbúum nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur en 78% hjá íbúum annarra sveitarfélaga.

Kyn og aldur

Heldur fleiri karlar (80%) en konur (75%) bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins. Ef litið er til aldurshópa ber fólk á aldrinum 35 – 44 ára mest traust til heilbrigðiskerfisins (83%) og næstmest er traustið í aldurshópnum 65 ára og eldri (80%). 

Landspítali og embætti landlæknis – vaxandi traust

Í könnuninni var spurt um traust fólks til Landspítala og embættis landlæknis. Gögn um þetta fyrir Landspítala eru til frá árinu 2017. Þá mældist traust til spítalans 64% en mælist nú 79%. Gögn um embætti landlæknis ná til þriggja ára. Traust til embættisins mældist 75% árið 2019 en mælist nú 87%.

92% landsmanna ánægðir með sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda 

Spurt var um afstöðu fólks til sóttvarnaaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19. Alls eru 92% landsmanna ánægð með aðgerðirnar, 3% segjast hvorki né en 4% óánægð. Konur (96%) eru ánægðari með sóttvarnaaðgerðir en karlar (87%). Lítill munur er á afstöðu til sóttvarnaráðstafana eftir búsetu. Þeir sem mælast fullkomlega ánægðir, mjög ánægðir eða frekar ánægðir eru samanlagt 92%, og er það sama niðurstaðan hvort sem litið er til Reykjavíkur, nágrannasveitarfélaganna eða annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni. 

Um könnunina

Könnun Gallup var netkönnun og fór fram á tímabilinu 14. janúar til 15 febrúar. Úrtakið var um 6.350 manns af landinu öllu 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 52,6%.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum