Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði ársfund Seðlabanka Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í gær ávarp á 60. ársfundi Seðlabanka Íslands. Í ávarpi sínu fór forsætisráðherra m.a. yfir þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Markmið aðgerðanna væru skýr; annars vegar að verja líf og heilsu fólks og hins vegar að tryggja afkomuöryggi fólks og styðja við atvinnulífið.

„Við sjáum árangurinn af markvissum sóttvarnaraðgerðum og öflugum aðgerðum ríkissjóðs nú birtast í minni niðursveiflu en óttast var í fyrstu og betri horfum til framtíðar og ég er sannfærð um að þegar birtir til verðum við fljótari á fætur að nýju.“

Katrín ræddi einnig um þær breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum til að treysta stöðugleika í athafnalífi og stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Mikilvægur liður í því hafi verið breytingar á ramma peningastefnunnar.

„Við blasir að við höfum nú mun traustari umgjörð um stjórn og ákvarðanir á sviði efnahags- og peningamála auk þess sem allt regluverk á fjármálamarkaði hefur tekið gagngerum breytingum. Allt stuðlar þetta að bættu verklagi, auknu trausti og gerir þetta okkur betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna aukinnar óvissu og áhættu í breyttum heimi.“

Þá velti forsætisráðherra upp spurningum um samspil peningastefnu og loftslagsbreytinga. Gaumgæfa þurfi efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar aðgerða til að draga úr losun og áhrif loftslagsbreytinga á þætti eins og framleiðslu og framleiðni í hagkerfinu, fjárfestingu, verðbólgu og atvinnustig. Fjármálakerfið þurfi að styðja við aukna áherslu á græna og sjálfbæra fjármögnun. Þar geti Seðlabankinn gegnt mikilvægu hlutverki. 

 

Ávarp forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira