Hoppa yfir valmynd
08. apríl 2021 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands 7. apríl 2021

Ágætu ársfundargestir

Síðasti ársfundur Seðlabankans var haldinn í lok mars í fyrra hér í þessum sal, með örfáum þátttakendum á staðnum á meðan aðrir sátu við tölvuskjái út um bæinn og fylgdust með. Ekki óraði okkur fyrir að sú yrði einnig raunin nú rúmu ári síðar. Þá vorum við í miðri fyrstu bylgju faraldursins og gerðum okkur enn vonir um að glíman við þennan vágest yrði skammvinn og lífið komið í eðlilegar skorður innan tíðar.

En undanfarin misseri hafa reynst viðburðaríkari en okkur grunaði. Til viðbótar við faraldurinn, sem reyndist lífseigari en við vonuðum í byrjun, höfum við tekist á við jarðhræringar, snjóflóð, skriðuföll og nú síðast eldgos. Allt hefur þetta reynt á okkur bæði sem einstaklinga og samfélag og sýnt okkur svo um munar hvað sameiginlegir samfélagslegir innviðir okkar eru mikilsverðir þegar á reynir. Heilbrigðiskerfið, menntastofnanirnar, velferðarkerfin, almannavarnir og björgunarsveitirnar hafa heldur betur sýnt okkur hvað í þeim og starfsfólki þeirra býr á undanförnum mánuðum. 

Stjórnvöld hafa frá upphafi faraldursins haft tvö skýr markmið. Í fyrsta lagi að leggja allt kapp á að verja líf og heilsu fólks. Gera allt það sem til þarf til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Í öðru lagi að tryggja afkomuöryggi fólks og styðja við atvinnulífið til að lágmarka samfélagsleg- og efnahagsleg áhrif faraldursins eins og kostur er. Þessi markmið, annars vegar heilbrigði fólks og hins vegar að verja efnahaginn fara reyndar saman og vinna hvort með öðru. Eftir því sem sem okkur tekst betur að halda faraldrinum í skefjum því minni verða neikvæðu áhrifin á þjóðarbúskapinn í heild. Með þetta að leiðarljósi höfum við tekist á við þær áskoranir sem við hafa blasað og höfum sem betur fer náð góðum árangri á báðum sviðum.

Við höfum náð góðum árangri  með því að fara að ráðum vísindamanna, beita markvissum sóttvarnaraðgerðum, góðri upplýsingagjöf og ekki síst með nánast einrofa samstöðu þjóðarinnar. Slíkt er ekki sjálfsagt en hefur skipt sköpum við þessar aðstæður og tryggt að við höfum náð þessum góða árangri með mun minna íþyngjandi aðgerðum en beita hefur þurft í mörgum öðrum ríkjum.

Áhrif faraldursins og aðgerða gegn honum á efnahags- og atvinnulífið eru mikil en ljóst er að þeim er verulega misskipt. Mestar byrðar hvíla á þeim mikla fjölda fólks sem hefur undanfarið ár misst atvinnu sína og þeim fyrirtækjum og einyrkjum sem reiða sig hvað mest á komur erlendra ferðamanna eða hafa þurft að sæta takmörkunum á starfsemi sinni vegna sóttvarnaraðgerða.

Góð staða ríkissjóðs og styrk hagstjórn síðustu ára hafa gert okkur kleift að nýta ríkisfjármálin með mun markvissari hætti en áður hefur þekkst til að styðja við heimili- og fyrirtæki og undirbúa okkur undir viðspyrnuna. Góð staða Seðlabankans og farsælt samspil stjórnar efnahags- og peningamála hefur sömuleiðis hjálpað til. Seðlabankinn hefur lækkað vexti sem nú eru þeir lægstu í lýðveldissögunni og beitt öðrum stjórntækjum sínum á borð við sveiflujöfnunarauka og bindiskyldu til að tryggja aðgengi að lausu fé sem hefur stutt við fyrirtæki og dregið úr greiðslubyrði margra heimila sem er mikið lífskjaramál.

Aðgerðir stjórnvalda hafa beinst að því að tryggja afkomu heimilanna með víðtækum aðgerðum á borð við hlutabætur atvinnuleysistrygginga, viðbótarhækkun atvinnuleysisbóta og lengra tímabili tekjutengingar til að draga úr tekjufalli,  auknum stuðningi við barnafólk og greiðslu launa í sóttkví. Auk þess hefur markvisst frá upphafi faraldursins verið horft til þess að efla félags- og vinnumarkaðslegar mótvægisaðgerðir til að styðja við atvinnuleitendur og aðra félagslega viðkvæma hópa og koma í veg fyrir langtímaafleiðingar atvinnuleysis með tilheyrandi kostnaði bæði fyrir einstakling og samfélag. 

Stutt hefur verið við atvinnulífið með úrræðum á borð við lokunarstyrkjum, tekjufallsstyrkjum, viðspyrnustyrkjum, stuðningslánum, ráðningastyrkjum og frestun á greiðslu opinberra gjalda til að stuðla að því að fyrirtæki hafi getað haft fólk í vinnu og verið tilbúin til að hefja starfsemi aftur af fullum krafti þegar aðstæður leyfa.

Aðgerðir til styrktar heimilum og fyrirtækjum miða að sama marki, að lágmarka eins og unnt er áhrif faraldurins á almenning. Við reynum að verja störfin með styrkjum til fyrirtækja og styðjum við þá sem missa vinnuna með þeim aðgerðum sem ég lýsti hér að framan.

Samhliða þessu öllu var okkur fljótt ljóst að horfa þyrfti til framtíðar og leggja grunninn að endurreisn efnahagslífsins. Leiða má líkum að því að það hagkerfi sem við horfum fram á eftir þessa kreppu verður annað og breytt hagkerfi en við höfum þekkt hingað til. Ferðaþjónustan sem tekið hefur á sig þungt högg mun án efa áfram verða ríkur þáttur í efnahags- og atvinnulífinu hér á landi. Í greininni hefur á undanförnum árum orðið til dýrmæt reynsla,  þekking og viðskiptasambönd - og áhugi á ferðalögum hingað til lands verður áfram mikill enda landið einstakur áfangastaður.  En áhrif faraldursins munu ekki hverfa eins og dögg fyrir sólu og við þurfum að vera undir það búin.

Við þurfum þar með að huga að því að auka fjölbreytni og efla viðnámsþrótt efnahagslífsins gegn áföllum sem þessum og þess vegna lögðum við ríka áherslu á að ráðast í umfangsmikið fjárfestingarátak á vettvangi ríkisins með áherslu á innviðauppbyggingu, menntun, rannsóknir, nýsköpun, skapandi greinar og loftslagsmál. Með því verða til ný og verðmæt störf og við undirbúum okkur undir þau stóru verkefni sem framundan eru við græna umbyltingu og tæknivæðingu stundum kennda við fjórðu iðnbyltinguna.  

Það er um margt áhugavert að bera saman viðbrögð stjórnvalda og Seðlabanka um heim allan í þessari kreppu og í fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug. Ljóst er að margt hefur breyst og sú stefna að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga, láta skattkerfið og afkomutryggingakerfin virka eins og vera ber, verja velferðarkerfin og grunnstoðirnar, reka ríkissjóð með umtalsverðum halla og auka skuldsetningu var langt frá því að vera sjálfgefin. Ég hef hins vegar mikla trú á því að þetta sé sú leið sem rétt er að fara við þessar aðstæður sérstaklega í ljósi þess að við Íslendingar höfðum borð fyrir báru þegar litið er til skuldastöðu ríkissjóðs.

Við sjáum árangurinn af markvissum sóttvarnaraðgerðum og öflugum aðgerðum ríkissjóðs nú birtast í minni niðursveiflu en óttast var í fyrstu og betri horfum til framtíðar og ég er sannfærð um að þegar birtir til verðum við fljótari á fætur að nýju. 

Þegar óvissan var sem mest í fyrra vor frestuðum við framlagningu fjármálaáætlunar og vikum tímabundið til hliðar fjármála- og skuldareglum laga um opinber fjármál. Endurskoðuð fjármálastefna og fjármálaáætlun voru svo lagðar fram síðastliðið haust og ný fjármálaáætlun að nýju nú um miðjan mars. Þótt áföll á borð við það sem við nú göngum í gegnum séu ekki daglegt brauð og verði vonandi ekki viðfangsefni okkar aftur í bráð, hefur það verið prófsteinn á virkni og viðnámsþrótt laga um opinber fjármál. Lögin hafa stuðlað að mörgum góðum breytingum í fjárlagavinnunni og bætt stefnumótun og langtímaáætlanir í ríkisfjármálum til muna. Nú höfum við hins vegar tilefni og efnivið til að meta reynsluna og ræða hvort umgjörðin sem sett er um opinber fjármál í lögunum þjóni tilgangi sínum og tryggi nægjanlegan sveigjanleika en þau sjónarmið, komu fram meðal annars hjá þeirri sem hér stendur, við afgreiðslu laganna á sínum tíma.   

Í upphafi kjörtímabils settum við okkur það markmið að treysta stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Þetta er umfangsmikið verkefni sem snertir marga anga samfélagsins. Einn mikilvægur liður í því var að gera nauðsynlegar breytingar á ramma peningastefnunnar sem framkvæmd er í þessu húsi. Stór áfangi á þeirri vegferð voru ný heildarlög um Seðlabanka Íslands sem tóku gildi í byrjun árs 2020. Markmið þeirra var fyrst og fremst að styðja betur við það hlutverk Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins að tryggja fjármálastöðugleika og hafa eftirlit með þjóðhagsvarúð. Með breytingunni voru kraftar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sameinaðir undir einni stofnun sem liður í að auka yfirsýn og stuðla að auknum fjármálastöðugleika. Um leið voru skapaðar mun betri forsendur fyrir samþættingu eindar og þjóðhagsvarúðar annars vegar og, eftir því sem við á, peningastefnu og fjármálastöðugleikastefnu hins vegar. Ný nefnd innan Seðlabankans, fjármálastöðugleikanefnd, hefur yfirsýn varðandi fjármálastöðugleika og tekur endanlegar ákvarðanir um beitingu allra þjóðhagsvarúðartækja.

Segja má að vaxandi umræða og skilningur hafi verið alþjóðlega á undanförnum árum á gagnsemi þjóðhagsvarúðartækja til að draga úr alvarlegri kerfisáhættu og verja efnahagslegan stöðugleika eða fjármálastöðugleika gerist þess þörf. Til að styrkja enn frekar slík fyrirbyggjandi úrræði hefur fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um gjaldeyrismál sem nú eru til meðferðar á Alþingi. Í því er m.a. að finna ákvæði um ráðstafanir sem Seðlabankinn getur gripið til í því skyni að koma í veg fyrir óstöðugleika annars vegar með fyrirbyggjandi stjórntækjum á sviði þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunarráðstafanir við sérstakar aðstæður. 

Fyrsta heila starfsári sameinaðrar starfsemi Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands er nú lokið. Það hefur án efa verið áskorun fyrir stjórnendur og starfsfólk að vinna að svo umfangsmiklu verkefni á þessu krefjandi ári sem að baki er með öllum þeim takmörkunum sem því hafa fylgt. Það er þess vegna einkar ánægjulegt að horfa til þess hvernig traust almennings til bankans hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og tók stökk í nýjustu mælingu Gallup úr 45% ár árinu 2020 upp í 62% í upphafi þessa árs. Þetta gefur okkur skýrar vísbendingar um að sameingin hafi gengið vel og verið heillaspor á þeirri vegferð sem staðið hefur yfir á undanförnum árum við umbætur í stjórn efnahags- og peningamála í kjölfar þess lærdóms sem við drógum af fjármálahruninu. Ekki síður hef ég þá trú að sameiningin geti orðið til að styrkja fjármálaeftirlitið en öflugt fjármálaeftirlit er lyilatriði til að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika. Á sínum tíma var bankaeftirlit hluti af starfsemi Seðlabanka en það var aðskilið frá bankanum árið 1998 – skömmu fyrir einkavæðingu bankanna. Sameiningin byggðist meðal annars á ítrekuðum ráðleggingum erlendra sérfræðinga  á borð við Kristin Forbes prófessor við MIT-háskóla, Lars Jonung prófessor við Háskólann í Lundi og Patrick Honohan fyrrum Seðlabankastjóra Írlands og þeirri sýn að öflugt fjármálaeftirlit, sjálfstæð peningastefna og fjármálastöðugleiki séu óaðskiljanlegir þættir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Fyrir áramót lagði ég fram á Alþingi skýrslu um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í þremur rannsóknarskýrslum Alþingis sem unnar voru í kjölfar hrunsins. Í henni eru dregnar fram ríflega 300 ábendingar sem flestar heyra undir fjármálaeftirlit, Seðlabanka og verkefni fjármála- og forsætisráðuneytis. Það er athyglisvert og lærdómsríkt að fara í gegnum þessa sögu og sjá hversu mikið hefur áunnist og hversu víðtækar umbætur hafa verið gerðar á þessum sviðum undanfarin áratug, en í skýrslunni er ítarlega rakið hvernig hlutaðeigandi stjórnvöld hafa brugðist við yfirgnæfandi meirihluta þeirra ábendinga settar voru fram í rannsóknarskýrslunum þremur. Við blasir að við höfum nú mun traustari umgjörð um stjórn og ákvarðanir á sviði efnahags- og peningamála auk þess sem allt regluverk á fjármálamarkaði hefur tekið gagngerum breytingum. Allt stuðlar þetta að bættu verklagi, auknu trausti og gerir þetta okkur betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna aukinnar óvissu og áhættu í breyttum heimi. En þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir megum við ekki falla í þá gildru að nú hafi verið girt fyrir allar mögulegar hættur, að síðasta fjármálakreppa hafi í raun verið sú síðasta. Sagan kennir okkur að svo er ekki og að næsta bóla og næsta kreppa munu koma út einhverri þeirri átt sem okkur grunar kannski síst.

En sumar hættur og áskoranir eru þó augljósari en aðrar, þó að misvel gangi að sannfæra þá sem neita að horfa á þær staðreyndir sem við blasa. Baráttan við loftslagsvána er og verður stærsta og mikilvægasta verkefni okkar næstu ár og áratugi. Fyrir okkur liggur að gera gagngerar breytingar á lifnaðarháttum okkar, framleiðsluferlum og neyslu sem hafa víðtækar afleiðingar á samfélagið, vinnumarkaðinn og efnahagslífið allt.  Megin áherslan þarf að vera á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess halda hnattrænni hlýnun innan marka Parísarsáttmálans og ná kolefnishlutleysi en á sama tíma er óhjákvæmilegt að við búum okkur undir þær náttúrufarslegu og samfélagslegu breytingar sem munu verða vegna loftslagsbreytinga á næstu árum og áratugum með aðlögunaraðgerðum. Eitt stærsta verkefnið verður að tryggja áframhaldandi jöfnuð í samfélaginu í gegnum þessar umfangsmiklar breytingar. Við höfum sett loftlagsmálin í forgang, lagt fram fjármagnaða metnaðarfulla aðgerðaráætlun, hafið vinnu við gerð aðlögunarstefnu og markað leiðina að kolefnishlutleysi og aukið ívilnanir og fjárfestingar til að stuðla að orkuskiptum. Almenningur hefur brýnt okkur stjórnmálamenn til dáða og á vettvangi atvinnulífsins hefur einnig orðið vitundarvakning og fjárfestar eru ekki undanskildir - þeir horfa í sí-auknum mæli til lofslagsmála við fjárfestingarákvarðanir sínar. Þessi umbreyting sem nú á sér stað á öllum sviðum samfélagsins mun  hafa áhrif á samfélagið allt – líka á þjóðhagslegar stærðir á borð við fjárfestingu, verðbólgu og atvinnustig og þar með á ákvarðanir við stjórn efnahags- og peningamála.

Frá sjónarhóli peningastefnu er áhugavert að velta upp spurningum á borð við hver verða áhrif loftslagsbreytinga, til dæmis þarf að gaumgæfa hverjar verða efnahagslegar afleiðingar  aðgerða til að draga úr losun og hvaða áhrif hafa áföll vegna veðuröfga verða á framleiðslu og framleiðni í hagkerfinu. Sömuleiðis þurfum við að dýpka skilning okkar á því hvernig óvissa og áhætta vegna lofslagsbreytinga og atburða þeim tengdum mun hafa áhrif á þætti á borð við fjárfestingu, eignaverð og vexti. Þekking, meðvitund og áhugi stjórnvalda, seðlabanka og fræðasamfélags um allan heim á þessum viðfangsefnum fer sífellt vaxandi og mun á næstu árum gefa okkur skýrari sýn á það hvernig loftslagsbreytingar og umskiptin yfir í lágkolefnishagkerfi mun breyta heimshagkerfinu. Æ meiri áhersla er á græna og sjálfbæra fjármögnun enda munu hlutirnir ekki breytast nema fjármálakerfið styðji við þær breytingar – þar getur Seðlabankinn lagt sitt af mörkum og gegnt mikilvægu forystuhlutverki við þá nauðsynlegu grænu umbreytingu sem þarf að verða.

Kæru gestir.

Við stöndum á ákveðnum tímamótum. Samkvæmt bóluefnaáætlun stjórnvalda mun okkur berast bóluefni fyrir samtals rúmlega 193 þúsund einstaklinga á næstu þremur mánuðum. Gangi það eftir hefur Ísland, fyrir lok júní, fengið bóluefni fyrir samtals um 240.000 einstaklinga frá því að bólusetningar hófust í lok desember, en alls telur hópurinn sem ráðgert er að bólusetja um 280.000 manns. Auðvitað eru allar þessar áætlanir settar fram með öllum hefðbundnum fyrirvörum enda getur margt komið upp á í þessu viðkvæma ferli – en þetta er mikilvæg staðreynd og mun breyta miklu í baráttu okkar við veiruna. Þar með er björninn þó ekki unninn – veiran verður ekki lögð að velli fyrr en heimsbyggðin öll hefur verið bólusett. Þess vegna er svo mikilvægt að tryggja aðgengi allra að bóluefni. Ísland hefur tekið virkan þátt í að tryggja fátækari þjóðum bóluefni, í gegnum COVAX-samstarfið.

Ég vil að lokum senda Seðlabanka Íslands heilla- og árnaðaróskir á 60 ára afmælisdegi bankans og þakka starfsfólki Seðlabanka Íslands fyrir það góða starf sem hér er unnið á hverjum degi fyrir land og þjóð og einnig fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum