Hoppa yfir valmynd

Sögulegt yfirlit

Þegar heimastjórn var komið á fót hér á landi árið 1904 var stofnað embætti ráðherra Íslands, og var hann æðsti yfirmaður Stjórnarráðs Íslands. Stjórnarráðinu var skipt í þrjár skrifstofur sem gengu undir nöfnunum fyrsta, önnur og þriðja skrifstofa. Fyrstu skrifstofu var ætlað að sjá um dóms-, skóla- og kirkjumál, önnur skyldi sjá um atvinnumál, samgöngumál og póstmál en hin þriðja fjármál. Skrifstofustjóri var yfir hverri skrifstofu en landritari var yfirmaður þeirra. Allir lutu þeir svo ráðherra Íslands.

Þessi skipan hélst til 1917 að ráðherrar urðu þrír. Með þeirri breytingu varð embætti forsætisráðherra fyrst til, án þess þó að stofnsett væri sérstakt forsætisráðuneyti. Þess má geta að árið 1921 var farið að kalla skrifstofurnar þrjár sem áður getur (nefndar deildir frá 1917) dóms- og kirkjumálaráðuneyti, atvinnu- og samgöngumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

Samkvæmt konungsúrskurði frá 1924 var ákveðið að ráðherrar skyldu vera fjórir, forsætisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, atvinnu- og samgöngumálaráðherra og fjármálaráðherra. Undir forsætisráðherra skyldu m.a. heyra stjórnarskráin, Alþingi, skipun ráðherra og lausn og forsæti Stjórnarráðsins, og að auki utanríkismál og forsæti í bankaráði Íslandsbanka.

Árið 1921 var ráðinn starfsmaður til þess að sinna ákveðnum málaflokkum sem féllu undir forsætisráðherra. Sú ráðning var þó aðeins til skamms tíma en frá 1927 hefur sérstakt starfsfólk haft málefni þau sem heyra undir forsætisráðherra á sínu verksviði. Þar með var skrifstofu forsætisráðherra komið á fót og í raun forsætisráðuneyti, án þess þó að það væri nefnt því nafni. Frá sama ári eru einnig til bréfadagbækur með nafni forsætisráðuneytisins. Starfsfólk á skrifstofu forsætisráðherra hafði í fyrstu eitt lítið herbergi til afnota inn af aðsetri forsætisráðherra og þurfti að ganga í gegnum skrifstofu hans, en árið 1933 fékkst meira rými á annarri hæð Stjórnarráðshússins.

Við myndun ríkisstjórnar árið 1934 var ákveðið að atvinnumálaráðherra færi einnig með utanríkismál en áður hafði forsætisráðherra farið með þau málefni. Umrædd skrifstofa hafði því tvo yfirmenn til ársins 1938 en þá tók forsætisráðherra á ný við utanríkismálunum. Um það leyti var ákveðið að aðskilja skrifstofuhald er varðaði málefni þau er heyrðu undir forsætisráðherra annars vegar og utanríkismál hins vegar. Urðu því til tvær skrifstofur, forsætisráðuneyti og utanríkismáladeild Stjórnarráðs Íslands (utanríkisráðuneyti frá 1940). Fyrsti starfsmaður forsætisráðuneytisins var ráðinn til starfa síðla árs 1938.

Árið 1947 var ákveðið að flytja menntamál úr dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og setja þau undir forsætisráðuneyti. Voru þessi ráðuneyti síðan starfrækt með sameiginlega yfirstjórn allt til 1970 að starfsemin var aðskilin. Gerðist það í kjölfar lagasetningar um Stjórnarráð Íslands árið 1969 en þau lög voru jafnframt fyrstu lög um forsætisráðuneytið.

Forsætisráðuneytið hefur frá upphafi verið til húsa í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, þar sem ríkisstjórnin fundar, en í dag er einnig rekin starfsemi á vegum ráðuneytisins í nærliggjandi húsi að Hverfisgötu 4-6. Er starfsemi ráðuneytisins, sem ráðuneytisstjóri stýrir, skrifstofu- og deildaskipt, en alls eru starfsmenn ráðuneytisins um þrjátíu talsins.

 

Einkum byggt á Stjórnarráð Íslands 1904-1964 eftir Agnar Kl. Jónsson. Samantekt gerð 2001 af Sumarliða R. Ísleifssyni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum