Hoppa yfir valmynd
Táknmál

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og ráðuneyti þeirra mynda Stjórnarráð Íslands. Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði.

Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og stjórnarskrá er fjöldi ráðuneyta og heiti þeirra ákveðinn með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra og að undangenginni umræðu og afgreiðslu þingsályktunartillögu á Alþingi.

Verkaskipting milli ráðherra og ráðuneyta er í höndum forsætisráðherra og er verkaskipting ákveðin í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og í forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta felur í kortlagningu allra lögbundinna verkefna framkvæmdavaldsins og skiptingu þeirra milli ráðuneyta. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en einn ráðherra situr í ráðuneyti sker forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra úr um það hvernig málefni viðkomandi ráðuneytis skiptast á milli ráðherranna.

Kjarnaverkefni ráðuneyta er að annast framkvæmd stjórnarmálefna sem undir þau heyra og sinna stefnumótun á þeim sviðum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar á hverjum tíma og stefnumörkun og áherslur viðkomandi ráðherra.

Fræðslumyndband um Stjórnarráð Íslands

Kynning þessi á Stjórnarráði Íslands er einkum hugsuð fyrir ungmenni í grunn- og framhaldsskólum og getur nýst sem námsefni í samfélagsfræði.

Hér á vef Stjórnarráðsins er að finna ýmsar upplýsingar um ríkisstjórn og ráðuneyti sem hægt er að kynna sér nánar. 

Ríkisstjórn

Ráðuneyti

Sögulegt efni

Tengt efni

Myndbandið er einnig hægt að nálgast á YouTube

Texti myndbandsins

Ráðherrar í ríkisstjórn og öll ráðuneyti þeirra mynda Stjórnarráð Íslands.

Stjórnarráðið var stofnað árið 1904. Ísland fékk það sem var kallað heimastjórn þegar Danir gáfu Íslendingum eftir framkvæmdavaldið og Hannes Hafstein var skipaður fyrsti íslenski ráðherrann.

Árið 1917 urðu ráðherrarnir þrír og fékk hver sína deild með aðsetur í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu. Ráðuneytum fjölgaði síðan jafnt og þétt og hafa flest verið 14 talsins.

Ríkisvaldið greinist í þrjá þætti, framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald. Stjórnarráð Íslands er æðsta stjórnstöð framkvæmdavalds ríkisins. Meginverkefni framkvæmdavaldsins er að framkvæma lögin sem Alþingi setur.

Þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum er birt stefnuyfirlýsing þar sem talin eru upp þau mál sem ríkisstjórnin ætlar að vinna að á kjörtímabilinu. Hún setur sér einnig reglur um starfshætti og siðareglur.

Ríkisstjórnin birtir síðan þingmálaskrá við upphaf hvers þings þar sem eru talin upp frumvörp, þingsályktunartillögur og skýrslur sem ráðherrar ætla að leggja fram á því þingi.

Ráðherrar eru með skrifstofur í ráðuneytunum. Þar vinna um 600 manns sem eru ráðherrum til ráðgjafar. Starfsfólkið er með fjölbreytta menntun og er stærsti hlutinn með háskólamenntun. Í ráðuneytunum eru meðal annars markaðar stefnur í þeim málum sem að ráðuneytinu snúa, reglugerðir settar og lagafrumvörp samin.

Drög að frumvörpum og ýmsum áformum stjórnvalda eru birt í Samráðsgátt á netinu þar sem öllum gefst tækifæri til að gera athugasemdir. Þær eru teknar til athugunar áður en frumvörpin eru lögð fram á Alþingi.

Áform og áætlanir stjórnvalda tengjast gjarnan alþjóðlegum sáttmálum. Þannig eru margar stefnur stjórnvalda tengdar heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem er áætlun fyrir allan heiminn til ársins 2030.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum