Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2021 Forsætisráðuneytið

Heilsa og velferð til umræðu á fundi Vísinda- og tækniráðs

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stýrði í gær 42. fundi Vísinda- og tækniráðs en þar voru til umfjöllunar málefni tengd heilsu og velferð.

Á fundinum hélt Eiríkur Steingrímsson, rannsóknarprófessor við læknadeild Háskóla Íslands, erindi um líftækni á Íslandi og Gísli Herjólfsson, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins Controlant sem hefur aðkomu að dreifingu bóluefnis Pfizer, deildi reynslu sinni frá sjónarhóli frumkvöðuls.

Þá fór Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, yfir stöðu rannsóknarsjóða í umsýslu Rannís. Umfang rannsókna- og þróunarstarfs á Íslandi nam rétt rúmum 70 milljörðum króna árið 2019 sem er 2,35% af landsframleiðslu. Sambærilegt hlutfall innan ESB var að meðaltali 2,14%.

Fjárframlög til samkeppnissjóða rannsókna og nýsköpunar á yfirstandandi ári nema rúmum 8,4 milljörðum króna en voru til samanburðar tæpur 7,1 milljarður á síðasta ári og rúmir 5,5 milljarðar 2019.

Þak á skattafrádrætti vegna rannsókna- og þróunarverkefna hefur hækkað á undanförnum árum og á síðasta ári hækkaði endurgreiðsluhlutfallið jafnframt. Heildarstuðningur við rannsóknir og nýsköpun er áætlaður rúmir 18 milljarðar króna á yfirstandandi ári samanborið við rúma 12 milljarða á síðasta ári og rúma 9 milljarðar 2019.

Nánar um Vísinda- og tækniráð

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira