Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland stígur frekari skref varðandi F-gös

Aðild Íslands að svonefndri Kigali-breytingu við Montréal-bókunina tók gildi í gær, 25. apríl. Breytingin snýst um að fasa út flúoröðuðum gróðurhúsalofttegundum (F-gösum).

F-gös eru öflugar gróðurhúsalofttegundir sem stuðla að loftslagsbreytingum og sem einkum eru notaðar sem kælimiðlar í fiskiskipum, frystiiðnaði, stórverslunum og víðar.F-gös voru á sínum tíma staðgenglar ósoneyðandi efna sem bönnum voru með Montréal-bókuninni árið 1987, til verndar ósonlaginu.

Kigali-breytingin við Montréal-bókunina var samþykkt árið 2016. Um er að ræða lagalega bindandi alþjóðlegan samning með það að markmiði að innleiða í skrefum minni notkun og framleiðslu á F-gösum,eða flúoröðuðum gróðurhúsalofttegundum. Þær áherslur sem settar eru fram með Kigali-breytingunni eru í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Samdrætti flýtt með reglugerðarbreytingu um áramót

Í upphafi þessa árs tók gildi reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1066/2019 um flúoraðar gróðurhúsaloftegundir, sem líkt og Kigali-breytingin telst mikilvægt skref í loftlagsmálum.  Með setningu hennar verður dregið mun hraðar úr innflutningi flúoraðra gróðurhúsalofttegunda en áður var gert ráð fyrir og þá um leið dregið hraðar úr losun þeirra út í andrúmsloftið. Sú breyting sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið gerði á reglugerð sinni í upphafi árs hefur í för með sér að það hámarksmagn vetnisflúorkolefna sem heimilt er að flytja inn á árinu 2021 er ekki nema tæp 40% af því magni sem flytja mátti inn á árinu 2020. 

Fyrirmynd annarra samninga

Á næsta ári verða liðin 35 ár frá gildistöku Montréal-bókunarinnar um viðskipti með ósoneyðandi efni. Ísland er einn af stofnaðilum samkomulagsins og hefur alltaf verið meðal þeirra þjóða sem hvað harðast hafa gengið fram í að hætta notkun ósoneyðandi efna.

Montréal-bókunin, sem var sett til að varðveita og endurheimta ósonlagið, hefur leitt til þess að notkun ósoneyðandi efna lagðist nánast af og notkun efnanna með mesta ósoneyðingarmáttinn heyrir sögunni til. Samstaða meðal þjóða heims við að draga úr notkun ósoneyðandi efna hefur gert það að verkum að litið er á Montréal-bókunina sem einn best heppnaða alþjóðasamninginn og fyrirmynd þegar kemur að öðrum alþjóðlegum samningum á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Talið er að bókunin hafi stuðlað að því að milljónum mannslífa hefur verið bjargað sem annars hefðu látið lífið af völdum sjúkdóma á borð við húðkrabbamein. Jafnframt er ljóst að bein áhrif á umhverfið eru ekki síður afgerandi til að mynda á gróðurfar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum