Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfshópur endurmetur útgjöld vegna hjúkrunarþjónustu við aldraða

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp til að endurmeta útgjöld ríkissjóðs vegna hjúkrunarþjónustu við aldraða. Hópnum er m.a. falið að kortleggja mögulegar leiðir til að lækka kostnað við starfsemina án þess að það skerði þjónustu eða komi niður á árangi og styrkleikum hennar til framtíðar.

Hópurinn er skipaður með hliðsjón af vinnu sem fram fer á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um reglubundið endurmat útgjalda ríkissjóðs, en markmiðið er aðgera stjórnvöldum kleift að hagræða og forgangsraða takmörkuðum fjármunum.
Starfshópurinn er skipaður í samráði við heilbrigðisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga, sem eiga fulltrúa í hópnum. Mun hópurinn horfa til málaflokka er snúa að hjúkrunar- og dvalarrýmum, heilsugæslu og sérfræðiþjónustu við aldraða. Vinnan grundvallast m.a. á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá því í september 2020. 

Meðal þess sem starfshópnum er falið að vinna er að útskýra inntak og samband árangurs og mælikvarða í þeim málaflokkum sem vinna snýr að og greina umfang og gæði starfseminnar. Í því felst meðal annars að meta mögulegar aðgerðir til að tryggja árangurinn sem stefnt er að sem og skoða leiðir til að lækka kostnað við starfsemina án þjónustuskerðingar og án þess að það komi niður á árangri og styrkleika starfseminnar til framtíðar.

Starfshópinn skipa:

  • Gunnar Birgisson, án tilnefningar, formaður,
  • Valgerður Freyja Ágústsdóttir, fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga,
  • Tryggvi Þórhallsson, fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga,
  • Hlynur Hreinsson, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins,
  • Elsa B. Friðfinnsdóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins,
  • Linda Garðarsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins.

Starfshópurinn skal skila ráðuneytis¬stjórum heilbrigðisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis og framkvæmdastjóra og bakhópi Sambands íslenskra sveitarfélaga áfangaskýrslum fyrir 10. mars 2021 og 10. ágúst 2021 og ráðherra lokaskýrslu fyrir 10. desember 2021.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum