Hoppa yfir valmynd
4. maí 2021 Matvælaráðuneytið

Kristján Þór heimilar slátrun beint frá býli

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum sem heimilar bændum að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Slík framleiðsla og dreifing hefur hingað til verið óheimil. Í reglugerðinni er kveðið á um að dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður þess greiðast úr ríkissjóði.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: 

„Það hefur lengi verið kallað eftir því að bændum verði gert kleift að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði. Undanfarin tvö ár hefur átt sér stað umfangsmikil vinna í samráði við bændur og Matvælastofnun við að leita leiða til að heimila þessa framleiðslu þannig að uppfyllt séu skilyrði regluverks um matvælaöryggi og gætt sé að dýravelferð og dýraheilbrigði. Þessi breyting sem við gerum í dag markar því tímamót enda felst í þessari breytingu mikilvægt tækifæri til að styrkja verðmætasköpun og afkomu bænda til framtíðar.“

Síðastliðið sumar undirrituðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda samkomulag um tilraunaverkefni um heimaslátrun.  Á heildina litið gekk verkefnið vel og voru niðurstöður úr sýnatökum bænda góðar, en fjareftirlit var erfiðleikum bundið. Í reglugerðinni er því kveðið á um að opinberir dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður vegna þess greiðast úr ríkissjóði.  

Helstu atriði reglugerðarinnar: 

  • Sérstakar undanþágur vegna slátrunar og stykkjunar í samræmi við kröfur Evrópuregluverksins, s.s. lágmarkskröfur til húsnæðis og aðstöðu.  
  • Kveðið er á um kröfur við aflífun, hollustuhætti við slátrun, innra eftirlit og förgun aukaafurða dýra.  
  • Til að auðvelda bændum að nýta sér þessa heimild þá hefur Matvælastofnun útbúið leiðbeiningabækling á grundvelli reglugerðarinnar þar sem skýrð eru út helstu skilyrði sem gerð eru til slátrunar og stykkjunar í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum. Leiðbeiningar Matvælastofnunar má finna hér 

Reglugerðin er einnig liður í aðgerðaráætlun til eflingar íslensks landbúnaðar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Með því að gera bændum kleift að framleiða og selja afurðir beint frá býli má styrkja verðmætasköpun og afkomu þeirra fyrir næstu sláturtíð. Með þessu er einnig stuðlað að frekari fullvinnslu, vöruþróun, varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matæla. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum