Hoppa yfir valmynd
26. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aldrei fleiri fyrirtæki frá því að heimsfaraldur hófst sem hyggjast fjölga starfsfólki á næstunni

Um 60% íslenskra fyrirtækja eru ánægð með efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, yfir helmingur þeirra telur sig standa vel að vígi til að takast á við næstu mánuði í kjölfar faraldursins og aldrei hafa fleiri haft í hyggju að fjölga starfsfólki á næstu 3 mánuðum, eða um þriðjungur svarenda í nýrri könnun Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Þetta er í fimmta sinn frá því að heimsfaraldurinn brast á sem Gallup kannar afstöðu fyrirtækja til efnahagsaðgerða og voru fyrirtæki með fjóra starfsmenn eða fleiri spurð hvernig þau meta fjárhagslega stöðu sína, en nýjasta könnunin nær yfir tímabilið apríl og maí.

Um 16,4% svarenda segjast nú mjög ánægðir með efnahagsaðgerðir stjórnvalda og er það hæsta hlutfallið sem mælst hefur í könnununum. Þeim fækkar einnig verulega frá síðustu könnun sem eru frekar eða mjög óánægðir og er það hlutfall í um 10%.

 

Yfir helmingur vel í stakk búinn fyrir næstu mánuði

Þá segist meirihluti fyrirtækja mjög eða frekar vel í stakk búinn fjárhagslega til að takast á við tímabundin áföll á næstu mánuðum í kjölfar heimsfaraldursins. Það er álíka hátt hlutfall og í upphafi hans fyrir rúmu ári síðan en heldur fleiri fyrirtæki svara því til nú að þau séu í mjög góðri stöðu fjárhagslega til þess að takast á við afleiðingar Covid-19, eða 17,2% en rúm 35% telja sig standa frekar vel að vígi.

Heldur færri fyrirtæki telja sig nú standa frekar eða mjög illa fjárhagslega til að glíma við næstu mánuði. 12,6% fyrirtækja segja standa frekar illa og 5,8% mjög illa en 29% svara því til að þau standi hvorki vel né illa.

 

Bjartsýni ríkjandi og fjölgun starfsfólks á döfinni

Fjórðungur svarenda könnunarinnar hafði þurft að fækka starfsfólki sökum Covid-19. Nú er bjartsýnin þó að aukast því frá upphafi faraldursins hafa aldrei fleiri svarendur haft í hyggju að fjölga starfsfólki á næstu 3 mánuðum, en nær þriðjungur telur að starfsfólki í fyrirtækinu muni fjölga.

Helmingur fyrirtækja sem fækkað hafa starfsfólki sjá fram á að fjölga því að nýju á næstu mánuðum en fjórðungur þeirra sem ekki hefur þurft að segja upp starfsfólki sökum Covid-19 hyggst fjölga starfsfólki á næstu mánuðum. Allir forsvarsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu höfðu þurft að fækka starfsfólki sökum heimsfaraldursins og í engri annarri starfsgrein var hlutfallið nærri jafn hátt. Nú telja nær 70% svarenda í ferðaþjónustu að starfsfólki muni fjölga á næstu þremur mánuðum.

 

Ríflega 90 milljarðar í fjölbreyttan stuðning

Fyrr í mánuðinum voru samþykkt á Alþingi frumvörp fjármála- og efnahagsráðherra sem hafa að markmiði að styðja við einstaklinga og rekstraraðila á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn. Varða þau framhald og rýmkun viðspyrnu- og lokunarstyrkja, útgreiðslu séreignarsparnaðar, sérstakan barnabótaauka og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna faraldursins.

Síðustu mánuði hafa ríflega 90 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar og aukinnar endurgreiðslu virðisaukaskatts (VSK).

Um 14,8 milljarðar króna hafa verið greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki, sem ætlað er að aðstoða rekstraraðila, þ.m.t. einyrkja, sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Um 2,5 milljarðar króna hafa verið greiddir í lokunarstyrki. Alls hafa um 7,5 milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti, mest vegna nýbyggingar og viðhalds húsnæðis, eða um 5,4 milljarðar króna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum