Hoppa yfir valmynd
4. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Nýr fríverslunarsamningur við Bretland í höfn

Ísland hefur lokið við gerð nýs fríverslunarsamnings við Bretland. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir að um tímamótasamning sé að ræða sem marki þáttaskil í samskiptum ríkjanna. Utanríkis- og viðskiptaráðherrar Íslands, Bretlands, Noregs og Liechtenstein komu saman til fjarfundar í hádeginu til að staðfesta formlega að samkomulag hafi náðst um framtíðarfríverslunarsamning.

 „Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretland um ókomna tíð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Um er að ræða framsækinn og yfirgripsmikinn fríverslunarsamning sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og reglna sem hafa áhrif á þau. Í ljósi þess að Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og vegna náinna tengsla ríkjanna þótti afar brýnt að ljúka framtíðarsamningi við Bretland á þessum tímapunkti.

Samningurinn veitir gagnkvæman aðgang að mörkuðum samkvæmt nánari skilyrðum þegar kemur að vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum. Fyrir vöruviðskipti eru kjarnahagsmunir Íslands tryggðir fyrir útflutning, þ.m.t. fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur. Samningurinn auðveldar þá þjónustuviðskipti milli ríkjanna auk þess sem íslensk fyrirtæki munu hafa aðgang að opinberum útboðum í Bretlandi.

Þá inniheldur samningurinn metnaðarfullar skuldbindingar á sviði umhverfisverndar og baráttu gegn hlýnun jarðar auk skuldbindinga á sviði vinnuréttar. Þar er jafnframt að finna sérstakan kafla um jafnréttismál og valdeflingu kvenna í viðskiptum. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ákvæði er að finna í fríverslunarsamningi sem Ísland gerir.

„Ein helsta áhersla Íslands í viðræðunum um kaflann um sjálfbæra þróun og viðskipti var að kynjajafnrétti yrði gert hátt undir höfði, í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar. Það er því mikið gleðiefni að samningurinn inniheldur ákvæði um efnahagslega valdeflingu kvenna þar sem mikilvægi jafnréttismála og kynjasjónarmiða við framkvæmd hans er áréttað,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Samningurinn er afar umfangsmikill í samanburði við aðra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert en auk þess sem að framan greinir er í samningnum að finna ákvæði á sviði hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglugerða ríkisstyrkja, samkeppnismála starfsumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja, góðrar reglusetningar og samtarfs á því sviði og margt fleira.

Samningaviðræður við Bretland um fríverslunarsamning hófust formlega í september á síðasta ári en viðræðurnar komu til vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Útgangan hafði umtalsverð áhrif á samband Íslands og Bretlands og því nauðsynlegt að endurgera marga samninga á milli ríkjanna þ.m.t. á sviði utanríkisviðskipta. Bráðabirgðasamningur um vöruviðskipti tók gildi um áramótin en nú hefur fríverslunarsamningur náðst til framtíðar. Búist er við að samningurinn verði undirritaður á næstu vikum.

  • Nýr fríverslunarsamningur við Bretland í höfn - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum