Hoppa yfir valmynd

Fríverslunarsamningur EES-EFTA ríkjanna og Bretlands

Lokið hefur verið við gerð fríverslunarsamnings milli Bretlands og EES-EFTA ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtenstein. Almenn ákvæði hans eru sameiginleg en hvert og eitt ríki samdi tvíhliða við Bretland um markaðsaðgang fyrir vörur og þjónustu.

Hér að neðan má lesa um helstu þætti samningsins.

Í öllum meginatriðum haldast þau viðskiptakjör sem við höfðum við Bretland þegar þeir voru innan ESB, m.a. fullt tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur. Þá skipta kjör varðandi sjávarafurðir miklu máli þar sem fluttur er út fiskur til Bretlands fyrir 55 milljarða á ári hverju.

Hvað landbúnaðarafurðir varðar eru tryggð viðbótartækifæri til útflutnings fyrir lambakjöt og skyr með tollfrjálsum innflutningskvótum, sem nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonn fyrir skyr. Þannig má segja að samningurinn stækki Evrópumarkað varanlega fyrir íslenskar útflutningsvörur. Þessi niðurstaða náðist án þess að stækka til muna innflutningsmöguleika til Íslands. Ísland mun veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af hverskonar osti, 11 tonnum og ostum sem verndað afurðaheiti vísar til uppruna og 18,3 tonn af unnum kjötvörum.

Einnig er mikilvægt að benda á að í samningnum eru endurskoðunarákvæði sem gefa okkur tækifæri til að sækja á um bætt kjör síðar.

Á sviði matvælaheilbrigðis tryggir samningurinn okkur ávallt bestu mögulegu meðferð fyrir íslenskar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir inn til Bretlands, þegar kemur að innflutningsskilyrðum vegna matvælaheilbrigðis.

Samningurinn tryggir að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða sitja að minnsta kosti við saman borð og vörur frá helstu samkeppnisríkjum innan EES. Í ljósi mögulegra samninga á milli ESB og Bretlands á þessu sviði skiptir það sköpum fyrir íslenska útflutningshagsmuni, ekki síst þar sem viðskiptahindranir á grundvelli heilbrigðisregla geta verið mun meira íþyngjandi en tollar.

Upprunareglurnar eru nútímalegar og sveigjanlegar og tryggja t.d. vinnslu á Íslandi á hráefni frá ESB og tollfrelsi þeirra vara inn til Bretlands. Þetta er til dæmis mikilvægt fyrir rækjuvinnslu á Íslandi.

Einnig verður áfram hægt að flytja inn tollfrjálst breskan varning sem hlotið hafa nægilega aðvinnslu í Bretlandi með íhlutum og hráefni frá EES-ríkjunum.

Í samningnum er að finna viðauka um gagnkvæma viðurkenningu á framleiðsluaðferðum fyrir lyf og lækningatæki (svokallaður GMP viðauki). Þetta tryggir að áfram verður hægt að flytja út íslensk lyf og lækningatæki til Bretlands þrátt fyrir að reglur um framleiðslu þeirra séu ekki samræmdar eins og á EES-svæðinu.

Samningurinn inniheldur ákvæði um þjónustuviðskipti yfir landamæri, fjárfestingar og réttindi til stofnsetningar, innlendar reglur og tímabundinn aðgang fyrir þjónustuveitendur í Bretlandi.

Auk þess eru sér ákvæði um fjarskiptaþjónustu, fjármálaþjónustu, lögfræðiþjónustu, sjóflutninga og markaðsaðgang.

Þá er þetta í fyrsta skipti sem Ísland samdi um sérstaka kafla um viðurkenningu á starfsréttindum og frelsi til rafræns gagnaflutning milli landa í samræmi við evrópulöggjöf um vernd persónuupplýsinga.

Samningurinn tryggir fyrst og fremst aðgang og fyrirsjáanleika að Bretlandsmarkaði, þar sem þjónustuveitendur og fjárfestar fá í flestum tilvikum sömu meðferð og innlendir aðilar.

Íslensk fyrirtæki og þjónustuveitendur munu njóta a.m.k. sömu kjara og réttinda og helstu samkeppnisaðilar frá ESB og í sumum tilfellum betri.

Þar má t.d. nefna:

  • Víðtækari heimildir til að veita tímabundna þjónustu, m.a. fyrir tónlistar- og listarfólk;
  • Betri markaðsaðgang fyrir veitendur fjármálaþjónustu (e. portfolio management)
  • Sérstakt ákvæði um reikigjöld sem tryggir íslendingum áframhaldandi lág verð fyrir farsímanotkun í Bretlandi
  • Skilvirkari reglur fyrir viðurkenningu starfsréttinda
  • Bindandi ákvæði um að ekki megi mismuna kynjunum þegar kemur að leyfisveitingum til handa þjónustuveitendum og fjárfestum.

Það ber þó að nefna að hann veitir takmarkaðri aðgang á sumum sviðum (t.d. fjármálaþjónustu og för fólks) en í gildi þegar Bretar voru hluti af EES og innri markaðnum.

Sérstaklega er kveðið á um reglur og réttindi vegna tímabundna dvöl þjónustuveitenda sem auðveldar íslenskum einstaklingum að veita þjónustu sína í Bretlandi, sérstaklega varðandi sérfræðiþjónustu.

Íslenskir sérfræðingar, t.d. verkfræðingar, arkitektar, lögfræðingar, endurskoðendur og ýmsir tæknifræðingar geta veitt þjónustu á breskum markaði á grundvelli þjónustusamnings í 12 mánuði. Einstaklingar sem koma í viðskiptaerindum á tilgreindum sviðum geta veitt þjónustu í allt að 90 daga á 180 daga fresti án skilyrða. Þá geta einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis dvalið í Bretland í þrjú ár og makar/börn fá rétt til að dvelja og vinna í Bretlandi á sama tíma.

Samningurinn inniheldur sérstakan kafla um fjármálaþjónustu sem byggir á hefðbundinni nálgun Íslands í fríverslunarsamningum og gengur lengra en samkomulag Bretlands og ESB á einstökum sviðum.

Tryggður er markaðsaðgangur fyrir fjármálafyrirtæki sem leitast við að veita fjármálaþjónustu í gegnum stofnsetningu eða útibú.

Kaflinn um viðurkenningu starfsréttinda gerir sérfræðingum kleyft að fá menntun og starfsreynslu viðurkennda ef það uppfyllir sambærilegar kröfur/hæfni fyrir sama starf í Bretlandi.

Í samningnum eru metnaðarfull ákvæði um sjálfbæra þróun og umhverfisvernd auk kafla um efnahagslega valdeflingu kvenna og viðskipti. Í þessum kafla er mikilvægi jafnréttismála og kynjasjónarmiða undirstrikað og ríkin skuldbinda sig til að framkvæma samninginn með kynjajafnrétti að leiðarljósi. Þá eru alþjóðlegar skuldbindingar á sviði jafnréttismála ítrekaðar og opnað á samstarf við Breta um ýmis mál á sviði jafnréttis- og viðskipta og fjárfestinga.

Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur þar sem Ísland gerir þar sem er að finna slík ákvæði. Jafnfréttismál voru ein helsta áhersla Íslands í viðræðunum um þennan kafla og náðu þau sjónarmið fram að ganga.

Samningurinn felur í sér metnaðarfull ákvæði um sjálfbæra þróun og umhverfisvernd og vinnuréttarmál. Þannig ítreka samningsaðilar að alþjóðlegar skuldbindingar á sviði umhverfiverndar og vinnuréttar og undirstrika að viðskipti og athafnir þeirra á milli megi ekki bitna á umhverfi og vinnurétti.
Samningurinn tryggir aðgang íslenskra aðila að opinberum útboðum hvors annars. Sá aðgangur er umfram aðgang ESB að sömu útboðum. Aðgangur umfram ESB felur m.a. í sér aðgang að útboðum veitufyrirtækja í Bretlandi t.d. fyrir boranir fyrir heitu og köldu vatni.

Í viðræðum um önnur mál sem falla utan fríverslunarviðræðna liggur þegar fyrir loftferðasamningur á milli Íslands og Bretlands sem kom til framkvæmdar í lok árs 2020 og hafa áframhaldandi lendingarréttindi því verið tryggð. Þá liggur fyrir samstarfsyfirlýsing á sviði sjávarútvegsmála.

Íslensk stjórnvöld eru einnig að ræða við Bretland um framtíðarsamstarf ríkjanna á öðrum mikilvægum sviðum. Til að auðvelda ungu fólki að halda áfram að flytjast á milli ríkjanna hafa Ísland og Bretland lokið viðræðum um samning um gagnkvæm tímabundin dvalar- og atvinnuleyfi fyrir ungt fólk (e. youth mobility scheme) og gert er ráð fyrir að samningurinn verði undirritaður á næstunni. Samningurinn felur í sér að íslensk ungmenni á aldrinum 18-30 ára munu með auðveldum hætti geta fengið tveggja ára dvalar- og atvinnuleyfi í Bretlandi og eins munu bresk ungmenni geta komið hingað til landsins í allt að tvö ár. Gert er ráð fyrir að samkomulagið taki gildi við upphaf árs 2022 að undangengnum nauðsynlegum lagabreytingum. Ísland yrði þá fyrsta EFTA/ESB ríkið til að gera slíkan samning við Bretland.

Viðræður milli Íslands og Bretlands standa nú yfir á sviði almannatrygginga og heilbrigðisþjónustu og almennt verður tekið mið af viðskipta- og samstarfssamningi ESB og Bretlands. Samningurinn fylgir að miklu leyti uppbyggingu almannatryggingareglugerðar ESB sem hefur verið tekin upp í EES-samninginn og m.a. er  kveðið á um áframhaldandi gagnkvæman rétt til heilbrigðisþjónustu á ferðalögum og notkun evrópska sjúkratryggingakortsins.  Einnig standa yfir viðræður á ýmsum öðrum sviðum t.d. varðandi rannsóknir og menntun, flugöryggismál, gagnkvæma viðurkenningu á ökuskírteinum og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum. Unnið er að því að ljúka viðræðum eins fljótt og auðið er.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira