Hoppa yfir valmynd

Fríverslunarsamningur EES-EFTA ríkjanna og Bretlands

Lokið var við gerð nýs fríverslunarsamnings við Bretland í sumarbyrjun 2021 og samningurinn var svo undirritaður 8. júlí 2021. Er þar á ferðinni framsækinn og yfirgripsmikill fríverslunarsamningur sem nær til flestra sviða viðskipta á milli ríkjanna og þeirra reglna sem um þau gilda.

Samningurinn var samþykktur á Alþingi í mars 2022 og var beitt til bráðabirgða frá 1. september 2022 til 1. febrúar 2023 þegar hann tók endanlega gildi. Beiting til bráðabirgða hefur sömu réttaráhrif og gildistaka og geta íslensk fyrirtæki því nýtt sér ákvæði samningsins með sama hætti og um fulla gildistöku væri um að ræða.  

Samninginn í heild á íslensku og ensku sem og þingsályktun um fullgildingu hans má finna inn á vef Alþingis. 

Jafnframt má finna samninginn á vef Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) 

Hér að neðan má lesa um helstu þætti samningsins.

Almennt

Þann 4. júní 2021 luku Ísland, Liechtenstein og Noregur (þau þrjú aðildarríki EFTA sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið) og Bretland efnislegum samningaviðræðum um heildstæðan fríverslunarsamning. Bretland er mikilvægur viðskiptaaðili fyrir öll þrjú EFTA-ríkin innan EES og þessi fríverslunarsamningur miðar að því að tryggja eins náin viðskiptatengsl og unnt er í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Fríverslunarsamningurinn milli EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands er metnaðarfullur, framsækinn og heildstæður fríverslunarsamningur sem nær yfir öll vöruviðskipti, þjónustu og fjárfestingar, stafræn viðskipti, fjármagnsflutninga, opinber innkaup, hugverkaréttindi, samkeppni, styrki, lítil og meðalstór fyrirtæki, góðar reglusetningarvenjur og samstarf um reglusetningu, viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, viðskipti og sjálfbæra þróun, auk lagalegra og þverlægra málefna, þ.m.t. lausn deilumála.

Samningaviðræður um heildstæðan fríverslunarsamning milli aðilanna hófust í september 2020 og vegna þess hve tímaramminn var þröngur og hversu brýnar viðræðurnar voru fóru þær fram samtímis á öllum málefnasviðum, með reglulegum fundum aðalsamningsmanna. Í ljósi sóttvarnarráðstafanna og ferðatakmarkana vegnaCOVID-19 heimsfaraldurs hittust samningahópar Bretlands, Íslands, Liechtenstein og Noregs eingöngu á fjarfundum í gegnum allt samningsferlið.

Hér má kynna sér einstaka kafla samningsins nánar:

Formálsorð samningsins ramma inn viðskiptatengslin milli EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands með því að endurspegla sameiginlegar meginreglur, s.s. stuðning þeirra við lýðræði, réttarríkið, mannréttindi og grundvallarfrelsi, umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, baráttu við spillingu og góða stjórnarhætti fyrirtækja.
Kaflinn um almenn ákvæði tekur m.a. til ákvæða um markmið, viðskipti og efnahagstengsl og gagnsæi. Í kaflanum er jafnframt sett fram svæðisbundið gildissvið samningsins þ.e. til hvaða landsvæðis ákvæði hans ná. Vissir kaflar samningsins sem tengjast vöruviðskiptum munu einnig gilda um lönd sem heyra undir bresku krúnuna og er það skilgreint í kaflanum.

Í öllum meginatriðum haldast þau viðskiptakjör sem Ísland hafði við Bretland þegar það var innan ESB, m.a. fullt tollfrelsi fyrir iðnaðarvörur. Þá skipta kjör varðandi sjávarafurðir miklu máli þar sem fluttur er út fiskur til Bretlands fyrir um 55 milljarða á ári hverju.

Hvað landbúnaðarafurðir varðar eru tryggð viðbótartækifæri til útflutnings fyrir lambakjöt og skyr með tollfrjálsum innflutningskvótum, sem nema 692 tonnum fyrir lambakjöt og 329 tonn fyrir skyr. Þannig má segja að samningurinn stækki Evrópumarkað varanlega fyrir íslenskar útflutningsvörur. Ísland mun á móti veita Bretlandi tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir 19 tonnum af hverskonar osti, 11 tonnum og ostum sem verndað afurðaheiti vísar til uppruna og 18,3 tonn af unnum kjötvörum.

Samningsaðilarnir skuldbinda sig til að endurskoða markaðsaðgang fyrir viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir á fimm ára fresti, með það að markmiði að auka frelsi frekar.

Hlutar samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir eru teknir upp í samninginn. Kaflinn tekur til meginreglna er varða útfærslu tæknilegra reglna, staðla og samræmismats, merkinga og merkimiða og samstarfs um markaðseftirlit. Þar er einnig kveðið á um samvinnu og gagnsæi milli samningsaðilanna, þ.m.t. er sett á fót nefnd um tæknilegar viðskiptahindranir.

Í kaflanum er að finna fimm sviðsbundna viðauka með viðbótarákvæðum um vélknúin ökutæki, lyf, íðefni, lífræn efni og viðskipti með vín.

Þessi kafli samningsins gildir um allar ráðstafanir á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis sem kunna að hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna. Kaflinn staðfestir réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt samningnum um beitingu ráðstafana vegna plöntu- og dýraheilbrigðis og setur enn fremur fram nákvæmar skyldur varðandi gagnsæi og upplýsingaskipti, tilkynningar og samráð.

Kaflinn tekur til ákvæða um eigi lakari meðferð varðandi ráðstafanir á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis, en sem Bretland og ESB komu sér saman um, sem og ákvæða um framtíðarsamstarf milli samningsaðilanna um hollustuhætti. Samningurinn tryggir okkur því ávallt bestu mögulegu meðferð fyrir íslenskar sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir inn til Bretlands, þegar kemur að innflutningsskilyrðum vegna matvælaheilbrigðis.

Samningurinn tryggir að útflytjendur íslenskra sjávarafurða og landbúnaðarafurða sitja að minnsta kosti við saman borð og vörur frá helstu samkeppnisríkjum innan EES. Í ljósi mögulegra samninga á milli ESB og Bretlands á þessu sviði skiptir það sköpum fyrir íslenska útflutningshagsmuni, ekki síst þar sem viðskiptahindranir á grundvelli heilbrigðisregla geta verið mun meira íþyngjandi en tollar.

Kaflinn tekur einnig til ákvæða sem varða samstarf samningsaðilanna um velferð dýra, ónæmi gegn sýkingalyfjum og sjálfbær matvælakerfi.

Kaflinn kemur á fót sameiginlegri undirnefnd um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna sem skal gefa sameiginlegu nefndinni skýrslu og leggja fyrir hana tillögur. Nefndinni er heimilt að koma á fót vinnuhópum til að fjalla um tiltekin málefni sem varða ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.

Í kaflanum sem varðar ráðstafanir á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis eru tveir viðaukar. Í I. viðauka eru ítarleg ákvæði varðandi sérstakt fyrirkomulag að því er varðar hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Viðaukinn inniheldur inngang sem útskýrir gildissvið ákvæðanna að því er varðar Ísland og Noreg í ljósi skuldbindinga þeirra samkvæmt EES-samningnum. II. viðauki varðar framtíðarsamstarf um hollustuhætti og er því auður eins og er.

Samningurinn inniheldur ítarleg ákvæði um viðskiptaliprun, þ.m.t. nokkur „WTO+“ ákvæði. Í þessu felst einföldun tollafgreiðslu, skjót afhending á vörum og að standa vörð um fyrirsjáanleika og lagaleg réttindi viðskiptaaðila. Samningsaðilarnir staðfesta enn frekar réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um viðskiptaliprun. Samningurinn inniheldur enn fremur bókun um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í tollamálum með það fyrir augum að þróa viðskiptaliprun enn frekar, ásamt því að tryggja að farið sé að lögum og reglum á sviði tollamála og bæta öryggi birgðakeðja fyrir matvæli sem viðkvæmar eru fyrir skemmdum.

Ákvæði samningsins um viðskiptaleg úrræði setja fram reglur varðandi undirboð, jöfnunar- og verndartolla. Þessi ákvæði eru undanskilin í þeim kafla samningsins sem fjallar um lausn deilumála.

Að því er varðar ráðstafanir gegn undirboði og jöfnunartolla skuldbinda samningsaðilarnir sig til að leitast við að komast hjá því að hefja ráðstafanir gegn undirboðum hver gegn öðrum jafnframt því sem þeir árétta réttindi sín samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Samningurinn kveður einnig á um tilteknar reglur er varða rannsóknir samningsaðilanna á undirboðum eða jöfnunartollum.

Að því er verndarráðstafanir varðar skuldbinda samningsaðilarnir sig til að beita þeim með þeim hætti að það hafi sem minnst áhrif á tvíhliða viðskipti, jafnframt því sem þeir árétta réttindi sín samkvæmt samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Samningsaðili sem hyggst grípa til verndarráðstafana skuldbindur sig einnig til að framvísa tilkynningu, sem inniheldur allar viðeigandi upplýsingar, þegar rannsókn er hafin á verndarráðstöfunum, og ákvæði og/eða lokaniðurstöður verndarrannsóknarinnar.

Samningurinn kveður á um nútímalegar upprunareglur sem byggjast á upprunareglum samnings Evrópu og Miðjarðarhafslanda (PEM).
Ákvæðin heimila uppsöfnun uppruna með vörum frá ESB sem og frekari uppsöfnun með ESB og öðrum evrópskum samstarfsaðilum. Jafnframt er gert ráð fyrir möguleika á að rýmka slík ákvæði svo þau nái með ákveðnum skilyrðum til þriðju aðila.

Samningurinn gerir ráð fyrir að eigin upprunayfirlýsing framleiðanda sé eina upprunasönnunin og heimilar notkun rafrænna undirskrifta og sérstakra leyfisnúmera til þess að votta upprunasönnunina.

Upprunareglurnar eru nútímalegar og sveigjanlegar og tryggja t.d. vinnslu á Íslandi á hráefni frá ESB og tollfrelsi þeirra vara inn til Bretlands. Þetta er til dæmis mikilvægt fyrir rækjuvinnslu á Íslandi.

Upprunasöfnun með ESB virkar þannig að framleiðanda á Íslandi eða Bretlandi er heimilt að nýta hráefni frá ESB ríki í sína framleiðsluvöru en varan heldur samt uppruna á Íslandi eða í Bretlandi. Ef uppruni er ekki til staðar er ekki hægt að nýta ákvæði samningsins um tollfrelsi.

Með kaflanum um þjónustu og fjárfestingar leitast samningsaðilar við að veita þjónustuveitendum og fjárfestum beggja aðila aðgang að mörkuðum sem er eins nálægt því sem gildir innan innri markað ESB og EES og hægt er. Þjónustu- og fjárfestingakaflinn nær yfir allar tegundir þjónustu og notast við neikvæða lista til að lista upp markaðsaðgang.

Samningurinn inniheldur ákvæði um þjónustuviðskipti yfir landamæri, fjárfestingar og réttindi til stofnsetningar, innlendar reglur og tímabundinn aðgang fyrir þjónustuveitendur í Bretlandi.

Meginkaflanum um þjónustu og fjárfestingar fylgja undirkaflar sem innihalda sértækar reglur um innlenda regluramma. Kaflarnir varða þjónustu og fjárfestingar, fjármálaþjónustu, fjarskipti, alþjóðlega flutninga á sjó og lögfræðiþjónustu.

Þá er þetta í fyrsta skipti sem Ísland hefur samið um sérstaka kafla um viðurkenningu á starfsréttindum og frelsi til rafræns gagnaflutnings milli landa í samræmi við evrópulöggjöf um vernd persónuupplýsinga.

Samningurinn tryggir fyrst og fremst aðgang og fyrirsjáanleika að Bretlandsmarkaði, þar sem þjónustuveitendur og fjárfestar fá í flestum tilvikum sömu meðferð og innlendir aðilar.

Íslensk fyrirtæki og þjónustuveitendur munu njóta a.m.k. sömu kjara og réttinda og helstu samkeppnisaðilar frá ESB og í sumum tilfellum betri.

Þar má t.d. nefna:

  • Víðtækari heimildir til að veita tímabundna þjónustu, m.a. fyrir tónlistar- og listafólk
  • Betri markaðsaðgang fyrir veitendur fjármálaþjónustu (e. portfolio management)
  • Sérstakt ákvæði um reikigjöld sem tryggir Íslendingum áframhaldandi lág verð fyrir farsímanotkun í Bretlandi
  • Skilvirkari reglur fyrir viðurkenningu starfsréttinda
  • Bindandi ákvæði um að ekki megi mismuna kynjunum þegar kemur að leyfisveitingum til handa þjónustuveitendum og fjárfestum.

Það ber þó að nefna að hann veitir takmarkaðri aðgang á sumum sviðum (t.d. fjármálaþjónustu og för fólks) en var í gildi þegar Bretar voru hluti af EES og innri markaðnum.

Samningurinn inniheldur sérstakan kafla um fjármálaþjónustu sem byggir á hefðbundinni nálgun Íslands í fríverslunarsamningum og gengur lengra en samkomulag Bretlands og ESB á einstökum sviðum.

Tryggður er markaðsaðgangur fyrir fjármálafyrirtæki sem leitast við að veita fjármálaþjónustu í gegnum stofnsetningu eða útibú.

Sérstaklega er kveðið á um reglur og réttindi vegna tímabundnar dvalar þjónustuveitenda sem auðveldar íslenskum einstaklingum að veita þjónustu sína í Bretlandi, sérstaklega varðandi sérfræðiþjónustu.

Íslenskir sérfræðingar, t.d. verkfræðingar, arkitektar, lögfræðingar, endurskoðendur og ýmsir tæknifræðingar geta veitt þjónustu á breskum markaði á grundvelli þjónustusamnings í 12 mánuði. Einstaklingar sem koma í viðskiptaerindum á tilgreindum sviðum geta veitt þjónustu í allt að 90 daga á 180 daga fresti án skilyrða. Þá geta einstaklingar sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis dvalið í Bretland í þrjú ár og makar/börn fá rétt til að dvelja og vinna í Bretlandi á sama tíma.

Í metnaðarfullum kafla um stafræn viðskipti er settur fram sameiginlegur lagarammi sem gildir um stafræn viðskipti milli beggja aðila. Kaflinn fjallar um reglur samningsaðilana sem hafa áhrif á viðskipti sem fara fram með stafrænum hætti. Kaflinn inniheldur t.d. bann við tollum á stafrænar vörur og bann við því að ríki geri kröfu um að gögn séu geymd í viðkomandi ríki. Ákvæðin sem þar eru sett fram undirstrika mikilvægi tækniþróunar auk þess sem settur er á fót samstarfsvettvangur um stafræn viðskipti.
Samningurinn fellir inn samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup og kveður á um viðbótarréttaröryggi og markaðsaðgang umfram skuldbindingarnar í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þeir þættir sem eru umfram kveða á um gagnkvæman viðbótarmarkaðsaðgang fyrir: veitur og innkaupastofnanir í einkaeigu sem heyra undir opinbera þjónustu, fyrir ákveðna viðbótarþjónustu sem nánar er útlistuð í samningnum og útboð sérleyfissamninga. Í samningnum eru settar reglur um útreikninga á viðmiðunarfjárhæðum um það hvenær aðgangur er veittur að útboði, kveðið á um gagnsæi, tengiliðir tilnefndir auk þess sem að aðilar skuldbinda sig til að setja á fót vefsíðu með upplýsingum um dómaframkvæmd og tilkynningum um opinber útboð. Jafnframt er að finna í samningnum ákvæði, sem eru ítarlegri og nákvæmari en í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, varðandi framkvæmd opinberra útboða, t.d. hvað varðar rafræna framkvæmd útboða.

Í samningnum er að finna ítarlegan kafla um hugverkarétt sem kveður á um öfluga vernd og framfylgd hugverkaréttar, þ.m.t. höfundarréttar og skyld réttindi, vörumerki, hönnun, landfræðilegar merkingar og landaheiti, einkaleyfi og vernd trúnaðarupplýsinga. Samningurinn vísar til, og gengur á sumum sviðum lengra en staðlar sem settir eru fram í lykilalþjóðasamningum á sviði hugverkaréttar, s.s. samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS) og sáttmálum Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

Að því er varðar höfundarrétt og skyld réttindi, vörumerki og hönnun setur samningurinn fram ítarlega staðla varðandi öfluga vernd milli samningsaðila og tekur á lykilatriðum verndar.

Að því er varðar landfræðilegar merkingar matvæla nær samningurinn til landbúnaðarafurða og matvæla sem eru upprunnin á yfirráðasvæðum Bretlands og Íslands, þ.m.t. fyrir vín og aðra áfenga drykki. Hugverkakaflanum fylgja þrír viðaukar sem varða ákvæði um vörur sem njóta verndar fyrir landfræðilegar merkingar. Þessi þáttur tekur einnig á mikilvægi verndar fyrir tilvísanir til landaheita í samræmi við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum.

Hvað einkaleyfi varðar skuldbinda samningsaðilar sig til að fara eftir evrópska einkaleyfasamningnum.

Í samingnum er jafnframt fjallað um framfylgd hugverkaréttinda. Sá þáttur miðar að því að tryggja öfluga vernd og tekur á fjölda ráðstafana, s.s. aðgerðum á landamærum, framfylgd dóma í einkamálum og stjórnvaldsákvörðunum.

Í samkeppniskaflanum er lagður grunnur að samstarfi samkeppnisyfirvalda landanna. Kveðið er á um að samkeppnisyfirvöld skuli eiga í samstarfi við eftirfylgni samkeppnislaga. Jafnframt er tekið fram að samkeppnisyfirvöld geti gert sín á milli aðskilda samstarfssamninga sem gætu þá innihaldið frekari skilyrði um skipti á trúnaðarupplýsingum.

Samningsaðilarnir undirstrika jafnframt mikilvægi þess að samkeppni sé frjáls og raskist ekki í viðskiptatengslum þeirra á milli. Sömuleiðis að samkeppnishamlandi viðskiptahættir geta leitt til röskunar á eðlilegri starfsemi markaða og grafið undan ávinningi af viðskiptafrelsi.

Samningsaðilarnir sammælast um að samningsaðila er heimilt að veita styrki þegar þeir eru nauðsynlegir til að ná opinberum stefnumarkmiðum sínum. Þó geta tilteknir styrkir leitt til röskunar á eðlilegri starfsemi markaða og grafið undan ávinningi af viðskiptafrelsi. Að meginreglu til ætti samningsaðili ekki að veita styrki ef hann telur að þeir hafi eða gætu haft veruleg, neikvæð áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna.
Í þessum kafla sammælast samningsaðilarnir um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og leitast við að efla getu þeirra, þ.m.t. örfyrirtækja, til að nýta sér ávinning af samningnum. Sérhver samningsaðili skal gera upplýsingar varðandi samninginn og viðkomandi ríkisstofnanir sem hafa með reglusetningu að gera auðveldlega aðgengilegar öllum á netinu. Sérhver samningsaðili skal við gildistöku þessa samnings tilnefna þegar í stað tengilið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og tilkynna hinum samningsaðilunum. Tengiliðirnir skulu, hver og einn eða í sameiningu, meðal annars leitast við að skiptast á upplýsingum varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki, þ.m.t. mögulegum vandamálum sem hafa komið upp í starfsemi þeirra hjá öðrum samningsaðilum. Ákvæði þessa kafla falla ekki undir almenn ákvæði um lausn deilumála.
Í þessum kafla er kveðið á um upplýsingaskipti og samstarf á milli samningsaðila þegar kemur að því að setja fram reglur með gagnsæjum hætti, þ.m.t. samráð við almenning þegar slíkt er unnt. Samstarf um reglusetningu er valfrjálst en hvatt er til þess.

Kaflinn um viðurkenningu starfsréttinda gerir sérfræðingum kleift að fá menntun og starfsreynslu viðurkennda ef það uppfyllir sambærilegar kröfur/hæfni fyrir sama starf í Bretlandi.

Í kaflanum um viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi er komið á fót lagaramma til að greiða fyrir samræmdu fyrirkomulagi samningsaðilanna á viðurkenningu starfsréttinda. Þessi kafli á við þegar starfsgrein er lögvernduð bæði í lögsögu heima- og gistiríkis og jafnframt þegar starfsgreinin er einungis lögvernduð í lögsögu gistiríkisins. Ef aðgengi að lögverndaðri starfsgrein eða iðkun hennar í lögsögu gistiríkis er háð skilyrðum um sérstaka starfsmenntun og hæfi skal viðeigandi yfirvald viðurkenna menntun og hæfi fagmanns sem sækir um viðurkenningu í lögsögu gistiríkisins og býr yfir sambærilegri menntun og hæfi hvað varðar sömu starfsgrein í lögsögu heimaríkisins.

Viðeigandi yfirvald má einungis neita að viðurkenna menntun og hæfi hvað varðar sömu starfsgrein eða gera kröfu um að fagmaður taki hæfnispróf að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Auk þess er í kaflanum mælt fyrir um verklag við meðferð umsókna um viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi.

Kaflanum um viðskipti og sjálfbæra þróun er skipt niður í fimm þætti: almenn ákvæði, viðskipti og atvinnumál, efnahagsleg valdefling kvenna og viðskipti, viðskipti og umhverfismál og stofnanafyrirkomulag.

Í kaflanum sammælast samningsaðilarnir um að efnahagsþróun, félagsleg þróun og umhverfisvernd eru hvert öðru háð og styðja hvert við annað. Almenn ákvæði kaflans taka til skilgreininga á vinnu- og umhverfislöggjöf og staðfesta rétt samningsaðilanna til að ákveða eigið regluverk þegar kemur að viðskiptum og sjálfbærri þróun. Samningsaðilar skuldbinda sig einnig til að hvetja til öflugrar verndar og að hvetja ekki til viðskipta eða fjárfestinga milli samningsaðilanna með því að slaka á eða draga úr umhverfis- eða vinnuvernd. Kaflinn tekur einnig til skuldbindinga að því er varðar gagnsæi, upplýsingar til almennings og almenningsvitund, samvinnu, eflingu viðskipta og fjárfestinga sem stuðla að sjálfbærri þróun, ábyrgum viðskiptaháttum og baráttu gegn spillingu.

Undirkaflinn um viðskipti og atvinnumál inniheldur skuldbindingar um að styrkja áætlanir um mannsæmandi störf og að þróa og efla ráðstafanir vegna mannsæmandi starfsskilyrða. Þeir muni stuðla að skoðanaskiptum milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórna og innleiða með skilvirkum hætti samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem hver samningsaðili hefur fullgilt. Kaflinn tekur einnig til skuldbindinga að því er varðar bann við mismunun og jafnrétti á vinnustað sem og ákvæða um aðgang að réttlátri málsmeðferð.

Í kaflanum um efnahagslega valdeflingu kvenna viðurkenna samningsaðilarnir mikilvægi kynjasjónarmiða í alþjóðaviðskiptum til að ná fram sjálfbærum hagvexti og sammælast um að kynjasjónarmið séu hluti af viðskipta- og fjárfestingasambandi samningsaðilanna. Þá eru alþjóðlegar skuldbindingar á sviði jafnréttismála ítrekaðar og opnað á samstarf við Breta um ýmis mál á sviði jafnréttis, viðskipta og fjárfestinga. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem Ísland gerir þar sem er að finna slík ákvæði. Jafnréttismál voru ein helsta áhersla Íslands í viðræðunum um þennan kafla og náðu þau sjónarmið fram að ganga.

Fjórði undirkaflinn tekur til skuldbindinga varðandi skilvirka framkvæmd samninga um umhverfismál sem löndin eru aðilar að, sjálfbæra stjórnun skóga, þ.m.t. baráttuna gegn ólöglegu skógarhöggi. Í ákvæði um viðskipti og loftslagsbreytingar skuldbinda samningsaðilarnir sig til að koma rammasamningi SÞ um loftslagsbreytingar og Parísarsamningnum til framkvæmda með skilvirkum hætti og gera sér grein fyrir mikilvægi viðskipta til að styðja við baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Auk þess inniheldur samningurinn ákvæði sem varða loftgæði, ósoneyðandi efni, viðskipti og líffræðilega fjölbreytni, varðveislu vistkerfis sjávar, viðskipti og sjálfbæra stjórnun fiskveiða, viðskipti með úrgang, forvarnir gegn mengun og sjálfbæran landbúnað.

Komið er á fót undirnefnd um viðskipti og sjálfbæra þróun auk þess sem fjallað er um framkvæmd og lausn deilumála, samráð og málsmeðferð gerðardóms. Niðurstaða hvers kyns samráðs og/eða skýrsla gerðardóms verður birt almenningi. Samningsaðilarnir skulu taka ákvörðun um aðgerðaáætlun sem gagnkvæm sátt ríkir um vegna framkvæmdar lokaskýrslu gerðardómsins.

Samkvæmt kaflanum um stofnanauppbyggingu samningsins er komið á fót sameiginlegri nefnd, sem er skipuð fulltrúum frá hverjum samningsaðila, til þess að stýra, hafa eftirlit með og hafa umsjón með frekari þróun hans. Sameiginlega nefndin kemur alla jafna saman einusinni á ári og getur ákveðið og samþykkt breytingar á samningnum. Nefndin getur einnig fjallað um breytingar á samningnum ef tengsl EFTA-ríkjanna innan EES og Bretlands breytast með einhverjum hætti. Fimm undirnefndum er komið á fót á vegum sameiginlegu nefndarinnar: a) nefnd um vöruviðskipti, b) nefnd um tæknilegar viðskiptahindranir, c) sameiginlegri stjórnarnefnd um ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna, d) nefnd um þjónustu og fjárfestingar og e) undirnefnd um viðskipti og sjálfbæra þróun. Allar undirnefndir taka ákvarðanir með samhljóða samþykki.

Í kaflanum um lausn deilumála eru settar fram reglur og verklagsreglur sem gilda í tengslum við það að komast hjá eða leysa deilumál sem geta komið upp milli samningsaðila varðandi túlkun eða beitingu samningsins.

Ef ekki er unnt að leysa deilu með samráði getur kæruaðili farið fram á stofnun gerðardóms sem skipaður er þremur gerðardómsmönnum. Aðili að samningnum, sem ekki er deiluaðili, getur tekið þátt í samráðinu og/eða málsmeðferð gerðardóms.

Lokaákvæðin útlista ferla við gerð breytinga á samningnum sem og um gildistöku hans. Samningurinn tekur gildi á tvíhliða grundvelli. Þ.e. þegar eitt EFTA-ríki innan ESB og Bretland hafa fullgilt samninginn mun samningurinn taka gildi á milli þeirra tveggja.
Síðast uppfært: 5.4.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum