Hoppa yfir valmynd
10. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á fundi útflutnings- og markaðsráðs

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ræddi nýgerðan fríverslunarsamning við Bretland og undirstrikaði mikilvægi þess að auka útflutningstekjur á fundi útflutnings- og markaðsráðs í dag.

Fundur útflutnings- og markaðsráðs var haldinn í Reykjavík í dag og opnaði Guðlaugur Þór Þórðarson fundinn með ávarpi. Þar ræddi ráðherra meðal annars nýgerðan fríverslunarsamning sem Ísland, ásamt Noregi og Liechtenstein, hefur gert við Bretland.

„Ég dreg ekki dul á, að ég hefði viljað ganga lengra í því að fella niður viðskiptahindranir en gert er í samningnum. Lengra varð hins vegar ekki komist að sinni og því afar mikilvægt að tryggja okkar kjarnahagsmuni til lengri tíma, einkum hvað varðar heilbrigðiseftirlit og óhindraðan aðgang að breskum mörkuðum með okkar verðmætustu sjávarafurðir. Að öðrum kosti hefðum við staðið ein eftir, samningslaus og í mun verri stöðu að ná ásættanlegum samningi. Það hvarflaði ekki að mér að tefla íslenskum hagsmunum í slíka tvísýnu,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðunni.

Ráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á að leiðin úr yfirstandandi efnahagsþrengingum væri ekki aukin skuldsetning ríkisins heldur meiri verðmætasköpun. „Það er engin auðveld lausn, engin töfralausn til þegar kemur að því að bæta lífskjörin. En þótt lausnin sé ekki auðveld þá er hún heldur ekki flókin: Við þurfum að auka útflutningsverðmæti, við þurfum að framleiða meira fyrir hærra verð,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á fundinum fór Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, yfir stöðu árangursmælikvarða langtímaútflutningsstefnu íslenskra stjórnvalda sem nýtist til að mæla árangur stefnunnar og fylgjast með þróuninni. Í kjölfarið fóru fram vinnustofur um hvernig best megi standa vörð um samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á fundi útflutnings- og markaðsráðs

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira