Hoppa yfir valmynd
22. júní 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Starfshópur um leiðsögumenn skilar skýrslu til ráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipaði sl. haust starfshóp um menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna. Starfshópnum var ætlað að skoða hvort og þá hvernig hægt væri að efla menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna með áherslu á neytendavernd, náttúruvernd og öryggi. Hópnum var ætlað að líta til erlendra fyrirmynda, s.s. frá Nýja-Sjálandi, við mótun mögulegra tillagna um mismunandi kröfur til mismunandi gerðar leiðsagnar og leggja til grundvallar evrópska staðla um leiðsögunám og hæfi í tungumálum, sem og reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa. Í starfshópnum sátu fulltrúar Ferðamálastofu, sem jafnframt var formaður hópsins, Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Samtaka ferðaþjónustunnar og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

 

Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra. Í henni er lagt til að grunnviðmið til menntunar í leiðsögn á Íslandi verði staðallinn IST EN 15565:2008. Þá er þar að finna ýmsar tillögur um nánari útfærslu ýmissa atriða tengdum menntun, s.s. staðfestingu á námsbrautum og námslokum auk tungumálakunnáttu og sérhæfðrar leiðsagnar. Ráðherra hefur vísað flestum þeim tillögum sem snúa með einum eða öðrum hætti að menntun leiðsögumanna til frekari skoðunar í menntamálaráðuneyti.

 

Þá er í skýrslunni að finna tillögur um endur- og símenntun leiðsögumanna á vegum Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna og Samtaka ferðaþjónustunnar sem og samræmingu á hugtakanotkun, sem ráðherra tekur undir að mikilvægt sé að nái fram að ganga. Ráðherra tekur jafnframt undir tillögu um að á vegum sömu aðila verði komið á fót opinni skrá yfir leiðsögumenn, menntun þeirra og reynslu, en leggur áherslu á að gætt verði fyllstu persónuverndarsjónarmiða þegar slík skrá verður tekin saman.

Skýrslan: Menntun og þjálfun leiðsögumanna

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum