Hoppa yfir valmynd
22. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Skýrsla um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Helstu gildi geðheilbrigðismála að mati gesta geðheilbrigðisþings 2020 - mynd

Heilbrigðisráðuneytið birtir til umsagnar skýrslu um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 með áherslu á árangur, skilvirkni og gæði þjónustunnar. Skýrslan er afrakstur vinnu sem fram fór í tengslum við fjölmennt geðheilbrigðisþing sem heilbrigðisráðherra efndi til 9. desember síðastliðinn. Umsagnarfrestur er til 6. júlí næstkomandi.

Árið 2016 samþykkti Alþingi stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Þetta var fyrsta heildstæða stefnan í málaflokknum og tók hún til samþættingar þjónustu á þessu sviði, eflingu þekkingar og færni þeirra sem að málum koma. Sérstök áhersla var á geðrækt og forvarnir, snemmtækar íhlutanir og sjálfsvígsforvarnir. Einnig var lögð áhersla á að fólki væri ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Árið 2019 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og felur hún í sér leiðarvísi að uppbyggingu á heildstæðu, öflugu heilbrigðiskerfi til framtíðar. Sú skýrsla sem hér er birt til umsagnar um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, tekur mið af meginstoðum heilbrigðisstefnunnar. Leiðarljósið er að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að öruggri, árangursríkri og hagkvæmri heilbrigðisþjónustu. Lýðheilsustefna til ársins 2030 sem heilbrigðisráðherra lagði fram sem þingsályktun og Alþingi samþykkti 12. júní síðastliðinn byggir einnig á stoðum heilbrigðisstefnunnar. Þar er sérstaklega horft til þess að heilsuefling og forvarnir verði hluti af allri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og viðhaldi þannig og bæti heilbrigði fólks og komi í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er.

Við mótun framtíðarsýnar í geðheilbrigðismálum var áhersla lögð á sem víðtækast samráð fagfólks og haghafa. Geðheilbrigðisþingið í desember síðastliðnum var haldið í skugga heimsfaraldurs og samkomutakmarkana. Því var þingið haldið í tveimur hlutum með annars vegar ráðstefnu og hins vegar vinnustofum þar sem fjarfundatækni og samskiptaforrit voru nýtt til að skapa sem breiðastan samráðsvettvang þrátt fyrir aðstæður. Á fjórða þúsund manns tóku virkan þátt í þinginu og vinnustofunum þar sem þátttakendur fjölluðu um framtíðarsýn og forgangsröðun aðgerða til árangurs.

Meðfylgjandi skýrsla er afrakstur vinnu sem fram fór á þinginu og í öflugu starfi sem fram fór í vinnustofum og er það efniviður skýrslunnar sem ráðuneytið tók saman. 

Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum

Skýrslan um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum endurspeglar uppbyggingu heilbrigðisstefnu þar sem áhersla er lögð á forystu til árangurs, rétta þjónustu á réttum stað, fólkið í forgrunni, virka notendur, skilvirk þjónustukaup, gæði í fyrirrúmi og framtíðarsýn. Skýr samhljómur hefur komið fram hjá þeim sem unnið hafa að mótun framtíðarsýnar í málaflokknum þar sem horft er til árangurs árið 2030 en þar eru megináherslur eftirfarandi:

  • Geðheilbrigðiskerfið verði vel skilgreint með skýrum ferlum sem tryggja skilvirkni og flæði í samvinnu heilbrigðis-, félags-, mennta- og dómsmála og notenda.

  • Geðheilbrigðiskerfið hafi farið í gegnum úttekt, þarfagreiningu, kostnaðarmat og verði rétt fjármagnað.

  • Notandinn sé ávallt í forgrunni.

  • Stofnað verði formlegt Geðráð sem er breiður samráðsvettvangur um geðheilbrigðismál.

  • Heilsugæslan um allt land verði efld þverfaglega.

  • Geðheilsuteymi barna á öðru stigi heilbrigðisþjónustu hafi tekið til starfa í öllum heilbrigðisumdæmum.

  • Tæknin verði áfram nýtt til framfara og jöfnuðar.

  • Mönnun verði tryggð í heilbrigðisþjónustu.

  • Aukin áhersla verði á geðrækt, forvarnir og lágþröskuldaþjónustu.

  • Valdefling og batahvetjandi hugmyndafræði sé höfð að leiðarljósi.

  • Húsnæði geðheilbrigðisþjónustu Landspítala verði bætt.

Skýrslan til umsagnar í samráðsgátt

Upptaka frá geðheilbrigðisþinginu í desember 2020

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum