Hoppa yfir valmynd
24. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór á ráðherrafundi um sjálfbæra orku

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, flutti í dag ávarp á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um eflingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í tengslum við orkuskipti með jafnræði að leiðarljós. Fundurinn er hluti undirbúnings fyrir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um orkumál sem haldinn verður í september. 

„Sjálfbær orka er lykilþáttur í því að gera matvælaframleiðslu sjálfbæra og Ísland hefur nýtt sjálfbæra orku í matvælaframleiðslu í áratugi með góðum árangri,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpinu. 

Ísland hefur tekið að sér hlutverk heimserindreka í tengslum við leiðtogafundinn. Heimserindrekahlutverkið felur í sér málsvarastarf þar sem Ísland vekur athygli á og þrýstir á aðgerðir sem miða að því að ná heimsmarkmiði sjö um sjálfbæra orku. Ísland gaf kost á sér sem heimserindreki undir áherslu sem snýr að eflingu heimsmarkmiðanna í tengslum við orkuskipti með réttlæti og jafnræði að leiðarljósi. 

Sem heimserindreki hefur Ísland lagt áherslu á mikilvægi endurnýjanlegrar orku í blárri og grænni matvælaframleiðslu og -vinnslu, á samspil sjálfbærrar orku og hringrásarhagkerfisins og samspil jafnréttis og endurnýjanlegrar orku. Allt eru þetta svið þar sem íslensk fyrirtæki og stofnanir búa yfir þekkingu, reynslu og grænum lausnum.

 Sjálfbær orka og matvælaframleiðsla

Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi sjálfbærrar orku í matvælaframleiðslu og sagði að aukin græn fjárfesting og fjármögnun á fjölnýtingu jarðvarma í landbúnaði, fiskveiðum og fiskeldi styrkti grunninn að aukinni sjálfbærni og fjölgun starfa í þessum greinum. 

Ísland vinnur með alþjóðastofnunum á borð við Alþjóðabankann, IRENA og SEforALL, að orkuskiptum í þróunarríkjum. Að óbreyttu er þetta og verður áhersla Íslands í alþjóðasamskiptum, þar með talið varðandi samstarf við tvíhliða samstarfsríki í þróunarsamvinnu og smá eyþróunarríki þar sem fjölgun verðmætra starfa í bláa hagkerfinu er afar mikilvæg. Á matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (UN Food Systems Summit), sem einnig verður haldin í september á þessu ári, gefst tækifæri til að vekja athygli á mikilvægi endurnýjanlegrar orku fyrir sjálfbæra matvælaframleiðsla og þar með fyrir framtíð okkar allra.

Hringrásarhagkerfið og sjálfbær orka

Ráðherra sagði jafnframt nauðsynlegt að horfa til sjálfbærni hráefna þegar þau koma inn í hringrásina, samhliða aukinni nýsköpun og hönnun á vörum, betri framleiðsluferla og grænna efna. Þetta eigi ekki síst við um orku. 

Einn þáttur í því að hámarka verðmæti orku er að fullnýta aukaafurðir orkuframleiðslu og ásamt orkuendurvinnslu. Markmið fjölnýtingar orkuauðlinda er meðal annars að öll orka sé nýtt til hins ýtrasta.

Margþætt nýting efna og orku úr jarðvarmavirkjunum geta spilað lykilhlutverk í framtíðaruppbyggingu fjölmarga greina atvinnulífsins, allt frá hátæknifyrirtækjum, til matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Ábatinn af fjárfestingu í hringrásarhagkerfinu er umtalsverður fyrir alla orkuvirðiskeðjuna.

Jafnrétti og orkuskipti

Ráðherra benti á að Ísland hefði lengi talað fyrir mikilvægi þess að hafa jafnrétti í forgrunni við orkuskipti í sjálfbæra orku. Fjárfesting í sjálfbærri orku veiti færi á að búa til græn störf fyrir konur og færi valdið í hendur kvenna og ungmenna. Skortur á aðgengi að orku komi verst niður á þessum hópi. Með kynjasjónarmið að leiðarljósi í orkuskiptunum náum við bættu kynjajafnrétti og sjálfbærri orku fyrir öll. 

„Orkugeirinn er karllægur hvort sem er á Íslandi eða annarsstaðar. Við eigum langt í land þó að hlutirnir séu vissulega að færast í rétta átt. Einn þáttur þess að auka veg kvenna innan orkugeirans er að eyða kynbundnum staðalímyndum og breyta samfélagslegum hugmyndum um stöðu kynjanna í orkugeiranum. Fyrirtæki hafa jafnframt sýnt að með stefnumótun og innleiðingu stefnu með kynjasjónarmið að leiðarljósi er hægt að ná miklum árangri í átt að bættu jafnrétti kynjanna,“ sagði Guðlaugur Þór á fundinum.

Niðurstöður kynntar á loftslagsfundi í Glasgow

Meginafurð leiðtogafundarins í september eru frjálsar skuldbindingar ríkja, alþjóðastofnana, frjálsra félagasamtaka og atvinnulífsins varðandi heimsmarkmið um orku. Utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinna saman, í breiðu samráði við innlenda haghafa, að mótun tillögu að frjálsri skuldbindingu Íslands sem ætlunin er að kynnt verði á leiðtogafundinum um orkumál í lok september.

Niðurstaða leiðtogafundarins verður kynnt síðar á árinu á COP26 í Glasgow og væntingar standa til að frjálsar skuldbindingar ríkja í orkumálum hjálpi við að ná heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir 2030.

 

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum