Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Stefnt að opnun dagdvalarrýma í Suðurnesjabæ

Garður í Suðurnesjabæ - myndStjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að ósk bæjaryfirvalda í Suðurnesjabæ, að taka upp viðræður um að koma á fót allt að átta almennum dagdvalarrýmum fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Gert er ráð fyrir að reksturinn verði fjármagnaður með daggjöldum sem ríkið greiðir en að sveitarfélagið leggi til húsnæðið og beri ábyrgð á rekstrinum. Ljóst er að þörf er fyrir fjölgun dagdvalarrýma í heilbrigðisumdæmi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sé horft til nýtingar þeirra rýma sem eru fyrir hendi og mannfjölda í umdæminu.

Engin dagdvalarrými eru í Suðurnesjabæ en 33 slík eru í Reykjanesbæ, þar af 15 sérhæfð dagdvalarrými fyrir fólk með heilabilun og fimm almenn rými í Grindavík. Ekki eru taldar faglegar forsendur fyrir því að koma á fót sérhæfðum dagdvalarrýmum í Suðurnesjabæ en að mati embættis landlæknis er æskilegast að slík þjónusta sé veitt í sjálfstæðri einingu með sérhæfðu starfsfólki. Ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins byggist því á að komið verði á fót almennum dagdvalarrýmum í Suðurnesjabæ en að þeir sem þurfi á sérhæfðum rýmum að halda fái þá þjónustu í Reykjanesbæ.

Í nýrri aðgerðaáætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu til næstu fimm ára er sett markmið um að fjölga dagdvalarrýmum um rúmlega 90 á tímabilinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira