Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ​undirritar þrjá samninga í tengslum við átaksverkefnið Kynslóð jafnréttis

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, Þorbjörg Inga Jónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elín G. Einarsdóttir - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir talskona Stígamóta, Þorbjörg Inga Jónsdóttir, f.h. stjórnar Bjarmahlíðar, og Elín G. Einarsdóttir, f.h. stjórnar Bjarkarhlíðar, undirrituðu þrjá samninga í Stjórnarráðinu í gær. Samningarnir eru hluti af skuldbindingum Íslands í tengslum við átaksverkefnið Kynslóð  jafnréttis (Generation Equality Forum). Ísland er eitt forysturíkja verkefnisins og veitir aðgerðabandalagi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi forystu ásamt Bretlandi, Kenía og Úrúgvæ.

Markmið samninganna er annars vegar að draga úr biðlistum brotaþola kynbundins og kynferðislegs ofbeldis með því að efla stafræna tækni og notkun samskiptaforrita sem eiga að taka mið af dreifðri búsetu, aldri, uppruna og fötlun og hins vegar að efla þjónustu við ungmenni og draga úr biðlistum brotaþola kynbundins og kynferðislegs ofbeldis.

Forsætisráðherra kynnti á fimmtudag skuldbindingar Íslands í tengslum við Kynslóð jafnréttis þar sem áhersla er lögð á stefnumótun og lagasetningu sem hefur m.a. að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum, forvarnir, bætt aðgengi þolenda að þjónustu og aukinn stuðning við samtök kvennahreyfingarinnar.

Framlag forsætisráðuneytisins vegna samninganna er samtals 15 milljónir króna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira