Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Stefnumót við íslenska náttúru

Langisjór. - myndBergþóra Njála

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur nú í annað sinn að hvatningarátakinu Stefnumót við náttúruna. Átakið miðar að því að hvetja landsmenn til að heimsækja friðlýst svæði á Íslandi í sumar, en skoðanakannanir benda til þess að stór hluti landsmanna ætli sér að ferðast innanlands þetta sumarið líkt og síðasta sumar.

Átakið er unnið í samstarfi við Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Friðlýstum svæðum á Íslandi hefur fjölgað á undanförnum árum og eru þau nú ríflega 120 talsins. Á friðlýstu svæðunum geta gestir upplifað ólíkar hliðar íslenskrar náttúru, allt frá viðkvæmum gróðri og smádýrum til stórbrotinna fjalla, landslags og útsýnis sem á engan sinn líka. Fjölbreytt þjónusta er einnig í boði á mörgum svæðanna þar sem landverðir veita fræðslu og upplýsingar og traustir innviðir á borð við göngustíga, útsýnispalla, tjaldstæði og salerni eru innan seilingar.

„Síðastliðið sumar flykktust landsmenn í ferðalög og afþreyingu innanlands. Þá gafst mörgum einstakt tækifæri til að njóta þess besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Við erum afar stolt af friðlýstu svæðunum okkar og sjáum að erlendir gestir okkar sækja í þau og innlendir í auknum mæli. Við höfum staðið að margháttaðri uppbyggingu innviða á þessum svæðum til verndar náttúrunni á undanförnum árum sem jafnframt auðvelda aðgengi og styðja við jákvæða upplifun gesta. Á friðlýstu svæðunum og gestastofum þeim tengdum starfa landverðir við að taka á móti fólki og miðla upplýsingum og fræðslu til þeirra sem sækja svæðið heim. Ég hvet landsmenn til að nýta sér þessi svæði til ánægju og yndisauka.“

Verkefnið Stefnumót við náttúruna er hluti af yfirstandandi friðlýsingaátaki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem felur m.a. í sér aukna fræðslu um friðlýsingar og friðlýst svæði og hvatningu til fólks að kynna sér og njóta svæðanna.

 

Stefnumót við náttúruna

Friðlýsingar.is

  • Dyrnar í Dyrfjöllum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira