Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Sérhæfð heilbrigðisþjónusta við aldraða í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu efld

Öldrunarteymið SELMA sem stofnað var á liðnu ári og veitir sérhæfða þjónustu við aldraða í heimahúsum í Reykjavík verður stóreflt og þjónusta þess aukin. Þjónustusvæðið verður stækkað þannig að þjónustan nái til allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hún verður nú einnig í boði um helgar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að verja 250 milljónum króna af fjárlögum ársins til þessa verkefnis. Markmiðið er að bæta þjónustu við einstaklinga í heimahúsum sem ekki komast til mats og meðferðar á heilsugæslu eða göngudeild og draga úr þörf viðkomandi fyrir heimsókn á bráðamóttöku eða sjúkrahúsinnlögn. 

Í hnotskurn:

  • Fjármagn til þjónustunnar aukið varanlega úr 150 milljónum króna í 400 á ársgrundvelli
  • Þjónustan verður veitt á öllu höfuðborgarsvæðinu alla daga vikunnar
  • Betri þjónusta á réttu þjónustustigi fyrir viðkvæman hóp
  • Færri komur á bráðamóttöku Landspítala og færri sjúkrahússinnlagnir

Dregur úr þörf fyrir heimsóknir á bráðamóttöku samkvæmt reynslu

 SELMA er þróunarverkefni sem stofnað var til með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Reykjavíkurborgar á liðnu ári og voru þá veittar 150 milljónir króna til verkefnisins. Í teyminu starfa læknir og hjúkrunarfræðingur sem sinna vitjunum í heimahús og veita einnig ráðgjöf til starfsfólks heimahjúkrunar. Í júní síðastliðnum var lagt mat á árangur verkefnisins. Þá kom m.a. fram að á starfstíma teymisins hefði aðkoma SELMU komið 75 sinnum í veg fyrir að einstaklingur þyrfti að leggjast inn á bráðamóttöku Landspítala. Þjónusta SELMU hefur hingað til verið bundin við Reykjavík og þjónustan við virka daga. Með auknu fjármagni, úr 150 milljónum króna í 400 milljónir á ársgrundvelli verður unnt að veita þessa þjónustu í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, alla daga vikunnar. Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að semja um framkvæmd verkefnisins á grundvelli aukins fjármagns.

---------------

Minnt er á heilbrigðisþingið um heilbrigðisþjónustu við aldraða næstkomandi föstudag 20. ágúst, þar sem þróunarverkefnið SELMA verður meðal annars til umfjöllunar. Sjá nánar um þingið á www.heilbrigdisthing.is

Heilbrigðisþing 2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira